18.03.1964
Sameinað þing: 54. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í D-deild Alþingistíðinda. (2459)

121. mál, fiskiðnskóli

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég vil, með leyfi forseta, lesa hér stutta forustugrein, sem birtist í dagblaðinu Vísi nú ekki alls fyrir löngu. Hún hljóðar svo, þessi stutta grein, og fyrirsögnin er: Skólalaus fiskiþjóð:

„Það er ekki fjarri lagi, að auka megi verðmæti þess afla, sem íslenzkir sjómenn bera á land, um helming, ef meðferð fisksins batnar og tækni við vinnslu hans eykst. Í landinu eru tveir bændaskólar og fjölmargir iðnskólar. Hins vegar er enginn fiskiðnaðarskóli hér til, og lifir þó þjóðin á verðmæti hafsins. Auðvitað er það fráleitt, að slíkur skóli skuli ekki vera risinn fyrir löngu, þar sem allt varðandi fiskverkun, frystingu, reykingu, niðursuðu og aðra vinnslu væri kennt af sérfræðingum. Slík menntastofnun þarf að rísa af grunni, áður en ár liða. Hún mun fljótt skila kostnaði sínum aftur í þjóðarbúið, og jafnframt mun hún lyfta íslenzkum fiskiðnaði upp á það svið, sem Norðmenn og Svíar hafa lengi staðið á.“

Þessi stutta grein ritstjóra Vísis er mjög jákvæð undirtekt undir till. þá til þál. um fiskiðnskóla, sem hér er til umr. nú. Ég vil geta þess, að till. sama efnis hefur verið flutt nú mörg undanfarin þing af sömu flm., en ekki hefur hún náð fram að ganga. Till. er því flutt enn einu sinni, að vísu með dálítið breyttu orðalagi frá því, sem verið hefur, í þeirri vissu von, að hún fái nú fullnaðarafgreiðslu. Ég vil leyfa mér að lesa þessa till., eins og hún nú hljóðar:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að skipa 7 manna nefnd, í samráði við fiskmatsstjóra, ferskfiskeftirlitið og helztu samtök fiskiðnaðarins, til þess að gera fyrir næsta reglulegt Alþingi till. um stofnun og starfstilhögun almenns fiskiðnskóla í landinu. Skal nefndin m.a. kynna sér eftir föngum skipan fræðslumála fiskiðnaðarins í öðrum löndum.“

Till. felur það þannig í sér, að ríkisstj. skipi 7 manna nefnd, í samráði við fiskmatsstjóra og ferskfiskeftirlitið og helztu samtök fiskiðnaðarins, til þess að undirbúa stofnun fiskiðnskóla. Með þessum hætti næst samstarf um þetta mál milli ríkisvaldsins og samtaka fiskiðnaðarins, en telja verður æskilegt, að slíku samstarfi verði komið á á undirbúningsstigi. Mun það áreiðanlega auðvelda framgang málsins og stuðla að því, að vel verði að því unnið og vandað til undirbúnings.

Við flm. höfum rökstutt þetta mál í grg. með till. og framsöguræðum fyrir málinu undanfarin þing, og má segja, að uppistaðan í þeirri röksemdafærslu hafi verið með líkum hætti og fram kemur í forustugrein Vísis, sem ég vitnaði til áðan. Við höfum bent á þá staðreynd, að Íslendingar byggja afkomu sína að mjög verulegu leyti á fiskiðnaði, og jafnframt höfum við lagt á það áherzlu, hvílík nauðsyn það sé að efla enn að mun fiskiðnað okkar og gera hann fjölbreyttari. Nú hefur það hins vegar komið i ljós, að verulegur skortur er á sérhæfðu starfsfólki, sem tekið getur að sér verkstjórn og leiðbeiningastörf innan fiskiðnaðarins, og það er álit kunnugra, að ómæld verðmæti fari í súginn hjá okkur árlega vegna mistaka í fiskiðnaðinum, sem að verulegu leyti stafa af kunnáttuleysi og slæmri verkstjórn í fiskiðjuverunum. Við rannsókn á nýtingu hráefnis í hinum ýmsu fiskiðjuverum hefur m.a. komið í ljós, að nýtingin er mjög mismunandi og getur í mörgum tilfellum leikið á háum tölum, sem aftur varðar mjög afkomu viðkomandi fiskiðjuvera. Flestir eða allir þeir aðilar, sem þekkingu hafa á þessum málum, telja það eitt af höfuðskilyrðum framfara og endurbóta í fiskiðnaðinum, að stofnaður verði sérstakur fiskiðnaðarskóli, sem hafi með höndum kennslu fyrir verkstjóra og leiðbeinendur í fiskiðnaði, svo og fiskmatsmenn. Fiskiðnaðarstörfin eru orðin það margbrotin og fjölþætt, að það er óverjandi að gefa mönnum ekki betra færi á sérmenntun í þessari grein en nú er. Þetta er forustumönnum fiskiðnaðarins vel ljóst, og ég held, að augu manna séu almennt að opnast fyrir nauðsyninni á aukinni fiskiðnfræðslu. Í því sambandi hefur verið rætt um að auka kennslu í gagnfræðaskólum og öðrum slíkum almennum skólum í ýmiss konar verknámi, sem varðar fiskframleiðslu og vinnu í þágu sjávarútvegsins. Það mál er vissulega hið mikilsverðasta og mun með tímanum verða mikilvæg námsgrein í verknámsdeildum gagnfræðaskólanna. En ég vil benda á Það í þessu sambandi, hvílík nauðsyn það er fyrir slíka þróun í kennslumálum, að til séu kennarar, sem færir séu um að veita unglingunum þá fræðslu, sem til er ætlazt. Undirstaðan undir auknu verknámi á þessu sviði er því sú, að hæfir menn hljóti sérmenntun í fiskiðnskóla. t.d. þess háttar skóla, sem við tillögumenn höfum í huga og líklegt er að hér verði stofnsettur, ef þessi till. verður samþykkt. Þannig mundi fiskiðnskóli gegna margþættu hlutverki: í fyrsta lagi í þágu fiskiðnaðarins beinlínis með því að þjálfa verkstjóra og leiðbeinendur í fiskiðjuverunum, í öðru lagi í þágu fiskmatsins með því að þjálfa fiskmatsmenn, og í þriðja lagi í þágu alþýðufræðslunnar með því að leggja til kennara í verknámi.

Ég hef hér í höndunum mikilsverð gögn, sem styðja algerlega þá till., sem hér er fram borin. Þar á ég við umsagnir og álit, sem Alþingi bárust í fyrra, þegar till. sama efnis var til meðferðar hér í þinginu. Ég vil sérstaklega nefna umsagnir frá eftirtöldum aðilum, sem allar eru jákvæðar: í fyrsta lagi fiskmatsstjóra, í öðru lagi ferskfiskeftirlitinu, í þriðja lagi Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, í fjórða lagi sjávarafurðadeild SÍS, í fimmta lagi Samlagi skreiðarframleiðenda, í sjötta lagi Fiskifélagi Íslands. Ég vil leyfa mér að lesa nokkuð af þessum umsögnum hér og benda á aðrar. Hér er t.d. umsögn fiskmatsstjóra, rituð í Reykjavík 19. febr. 1963, til allshn. hæstv. Alþingis:

„Með bréfi, dags. 1. febr. 1963, sendi hv. allshn. Alþingis mér til umsagnar till, til Þál. um fiskiðnskóla. Umsögn mín um málið í aðalatriðum fer hér á eftir:

Sem stjórnandi fiskiðnaðarnámskeiða sjútvmrn., frá því að þau hófust árið 1947, hef ég litið og lít á þau sem nauðsynlega ráðstöfun til bráðabirgða, en ekki sem fullnaðarlausn mikilsverðs málefnis. Jafnframt því sem álitið er, að námskeiðin hafi gegnt sínu hlutverki vel miðað við aðstæður, hefur einmitt gegnum námskeiðin orðið ljóst, að stærra átaks er þörf. Hraði undanfarinna ára í framþróun og fjölbreytni á gæðum og framleiðslu sjávarafurða krefst meiri og samræmdari þekkingar við mat hinnar margþættu framleiðslu, og ekki sízt þegar hér er um að ræða aðalútflutningsframleiðslu þjóðarinnar. Nauðsynleg framþróun þessara mála hlýtur því að verða fastur skóli fyrir fiskmatsmenn og fiskverkunarmenn til undirbúnings slíkum lífsstörfum, enda væru störf kennara að mestu aðalstörf, en ekki aukastörf embættismanna og annarra, svo sem á námskeiðunum hefur verið.

Um tilhögun fiskiðnskóla leyfi ég mér einkum að benda á eftirfarandi:

1) Fiskiðnskóli verði rekinn sem sjálfstæð fiskvinnslustöð, þar sem framleiðsla færi fram allt árið, frysting, söltun, herzla og fleiri framleiðslugreinar, eftir því sem heppilegt þætti. Uppistaða starfsliðs við framleiðslu afurðanna væri nemendur skólans. Á einu ári yrði unnt að ná til allra fisktegunda, svo sem bolfisks, síldar og flatfisks, eftir árstíðum og samkvæmt því framleiða með ýmsum verkunaraðferðum. Þegar fiskframleiðsla skólans yrði metin til útflutnings, væru nemendur skólans jafnan látnir meta með löggiltum fiskmatsmönnum undir stjórn yfirfiskmatsmanna, hver í sinni grein. Tækju þá nemendur próf, eftir því sem ákveðið yrði um æfingu þeirra og hæfni.

2) Skólann mætti miða við tvennt: a) Þá, sem ætluðu sérstaklega að leggja stund á fiskmat, b) Þá, sem ætluðu sérstaklega að leggja stund á umsjón með framleiðslu fyrir sjálfa sig eða aðra.

3) Kennsla væri bókleg og verkleg eftir skiptingu, sem rétt þætti eða hagkvæmust.

4) Með þannig skipulagðan fiskiðnskóla væri öll þjálfun og kennsla í fullkomnu samræmi við þau störf, sem nemendur væru að undirbúa sig undir. Auk þess gæti skólinn leyst af hendi ómetanlega upplýsingaþjónustu almennt, auk þess sem framleiðsla skólans gæti að miklu leyti staðið undir kostnaði við reksturinn.

5) Ekki væri ástæða til, að framleiðslustöð skólans yrði stórt fyrirtæki, en með möguleika til sem flestra framleiðslugreina.

Samkv. framanrituðu leyfi ég mér að telja fiskiðnskóla á Íslandi einu jákvæðu lausnina á umræddum málefnum, en ekki neina lausn, Þó að námskeiðin yrðu flutt frá einni stofnun yfir á aðra. Ef nauðsynlegt reynist að halda áfram námskeiðum eftir tilkomu skólans, féllu þau að sjálfsögðu undir starfsemi hans sem hliðarráðstafanir.“

Þetta var álit Bergsteins A. Bergsteinssonar, fiskmatsstjóra ríkisins.

Hér ætla ég einnig að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa umsögn frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sem hefur sýnt þessu máli mikinn áhuga, allt frá því að við fyrst hreyfðum því hér á Alþingi, og lagt því mjög gott lið.

Allshn. Sþ. hefur með bréfi, dags. 1. febr. s.1., beiðzt umsagnar vorrar um till. til þál. um fiskiðnskóla. Eins og fram kemur í grg. með till., ályktaði aðalfundur Sölumiðstöðvarinnar 1960 að skora á Alþingi að samþykkja till. sama efnis. Afstaða Sölumiðstöðvarinnar hefur ekki breytzt síðan.

Fiskmat ríkisins hefur um nokkurt árabil haldið námskeið fyrir verðandi fiskmatsmenn. Námskeið þessi hafa staðið um hálfan mánuð og einkum verið við það miðuð, að fólk með nokkra verklega reynslu úr fiskiðnaði gæti haft þar af gagn. Vér teljum oss ekki gera að ómaklegu lítið úr þessari leiðbeiningarstarfsemi, þótt vér teljum, að gagnsemi námskeiðanna hafi einkum verið í því fólgin, að tækifæri hafi gefizt til nokkurrar viðkynningar við það fólk, sem námskeiðin hefur sótt. Á þann hátt hefur tekizt að ná sambandi við marga, sem hæfileika hafa haft til verkstjórnar. Tíminn, sem námskeiðunum hefur verið ætlaður, hefur hins vegar verið allt of stuttur og námsárangur þar af leiðandi mjög yfirborðskenndur.

Fiskvinnsla er mjög sérhæft starf, og vér teljum, að skortur á hæfu fólki til verkstjórnar og ýmiss konar leiðbeiningastarfa hái frystihúsarekstri nú mjög mikið. Vér teljum, að stofnun fiskiðnskóla mundi, ef vel tækist til, geta haft mikla þýðingu fyrir fiskiðnað landsmanna. Vér leyfum oss því enn á ný að skora á hæstv. Alþingi að samþykkja nú till. til þál., sem fyrir Alþingi liggur um stofnun fiskiðnskóla.

Virðingarfyllst,

Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna,

Einar G. Kvaran.“

Þannig gæti ég lesið fleiri slík bréf og umsagnir frá þeim aðilum, sem hafa með fiskiðnað að gera í landinu, en það er langt mál og óþarfi að rekja það nánar. En eins og við sjáum, ber hér allt að sama brunni, og þessar álitsgerðir og umsagnir kunnáttuaðila tala sínu máli og miklu skýrara máli en við flm. raunar getum gert. Ég sé því ekki ástæðu til þess að lengja þetta mál mitt, en ég vil enn einu sinni undirstrika þá ósk mína, að hv. Alþ. afgreiði þessa till. nú jákvætt, þar sem hér er um mikilsvert mál að ræða, sem allir hljóta að geta orðið sammála um, án tillits til stjórnmálaskoðana.

Í framsöguræðum mínum á fyrri þingum fyrir þessu máli hef ég stundum minnzt á fiskiðnskóla Norðmanna í Vardö, og enn vil ég leyfa mér að minna á þennan skóla sem mjög líklega fyrirmynd fiskiðnaðarskóla hér á landi. Við flm. höfum enn fremur birt sem fskj. nr. VIII með till. reglugerð eða starfsskrá fyrir Vardöskólann frá 28. jan. 1938. Þessari reglugerð verður nú breytt, þar sem skólinn hefur verið endurskipulagður, þ.e.a.s. námstími hefur verið lengdur, þannig að honum er héðan í frá ætlað að verða eins árs skóli, en var áður lengst hálfs árs skóli í reynd hin síðari ár. Markmið og eðli skólans er þó enn hið sama, og munu brottskráðir nemendur hans halda áfram að njóta forréttinda sem yfirmenn í fiskiðnaði og fiskmati Norðmanna. Þessi norski fiskiðnskóli átti nýlega 25 ára starfsafmæli, og er það sammæli þeirra, sem til þekkja, að hann hafi unnið mikið starf í þágu fiskiðnaðar Norðmanna. Væri það vissulega mikill sómi fyrir okkur Íslendinga að taka Norðmenn til fyrirmyndar í þessu efni.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði vísað til síðari umr., og einnig, að málinu verði vísað til hv. allshn., sem áður hefur fjallað um þetta mál.