08.04.1964
Sameinað þing: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í D-deild Alþingistíðinda. (2473)

177. mál, unglingafræðsla utan kaupstaða

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt 2. þm. Norðurl. v. að flytja till. til þál. um endurskoðun á reglum um unglingafræðslu utan kaupstaða. Ég skal ekki verða langorður, vegna þess að það er orðið áliðið og ég lofaði forseta því að tala stutt. Ég vil vísa til grg., þeim sem vildu lesa hana, og sé ekki ástæðu til að endurtaka það, sem í grg. er, en till. hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gefa út nýja reglugerð um unglingafræðslu utan kaupstaða, þar sem m.a. séu ákvæði um eftirtalin atriði: a) Aðstoð vegna ólögboðinnar unglingafræðslu utan kaupstaða verði aukin. þannig að kennarar við hana njóti svipaðra launakjara og við hliðstæða skóla í kaupstöðum, enda sé lágmarkstala nemenda ákveðin. b) Ákveðið verði um skiptingu á kostnaði við milliferðir, húsnæði o.fl. milli nemenda, sveitarfélaga og ríkissjóðs. c) Reglur verði settar um námsgreinar og próf, sem tryggi það, að unglingafræðsla í heimangönguskólum sé hliðstæð og í tveimur fyrri bekkjum gagnfræðaskóla og miðskóla.“

Þetta er orðalag till. Till. er endurflutt. Við fluttum hana í fyrra, en hún var þá ekki afgreidd í nefnd, en þáltill. er samin í samráði við fræðslumálastjóra, og var enginn ágreiningur við hann um orðalagið, því að þær breytingar, sem hann lagði til að við gerðum á orðalagi till., þær gerðum við, og umsögn hans lá hér fyrir í fyrra, en eins og ég tók fram áðan, þá var málið ekki afgreitt frá nefndinni. Við fluttum þessa till. í fyrra og endurflytjum hana nú samkv. óskum heiman úr okkar héruðum.

Það er eins og þm. vita, að unglingaskólarnir eru ekki það stórir, að þeir geti tekið við öllum unglingum, sem sækja að stunda nám þar. Það má vera, að í stærri kauptúnum og kaupstöðum þurfi ekki að vísa unglingum frá, en við vitum það, að í sveitunum a.m.k. er það algengt, og það verður þá til þess, að nám þeirra dregst, og þó að þeir komist í skólann eftir að hafa beðið eitt eða tvö ár, þá eru það bara aðrir, sem sitja á hakanum. Nú voru fræðslulög samþ. 1946, þar sem var ákveðið, að unglingar væru skyldaðir til að stunda tveggja ára nám að loknu barnaprófi. Svo hafa verið veittar undanþágur frá þessu víða í dreifbýli, í minni kauptúnum og í sveitum, — allverulegar undanþágur. Sem sagt, þessu hefur ekki verið framfylgt fyllilega. Nú er það ekki sæmandi að semja slíka löggjöf, en svo standi á þjóðfélaginu að hafa þá skóla og það kennaralið, sem þarf, til að hægt sé að fullnægja þessu lagaákvæði. Og það er ekki heldur sæmandi, að þeir, sem í dreifbýlinu búa, geti ekki notið nokkurn veginn sömu skilyrða til menntunar og uppfræðslu og þeir, sem búa í þéttbýlinu. Nú vitum við, að það er dýrara fyrir fólk í sveitinni að senda börn sín í skóla heldur en fyrir þá, sem í kaupstöðum eða kauptúnum búa, þar sem skólar eru þannig settir, að unglingarnir geta gengið i þá daglega. Þetta er allmikill útgjaldaliður fyrir bændur, því að meðan unglingarnir eru 14—16 ára, þá eru þeir í flestum tilfellum ekki færir um að vinna fyrir skólakostnaði sínum. Ég hygg, að það sé ekki ofmælt, að unglingar muni eyða, ef þarf að senda þá frá heimilum sínum, um 20 þús. í námskostnað. Það hefur verið talsvert um þessa heimangönguskóla, en engin reglugerð í raun og veru um þá. Árið 1961—62 var meðalstyrkur, sem ríkið veitti til námskostnaðar þessum nemendum, 1740 kr., en eitthvað hærri í fyrra, eða nálægt 2000 kr. En kostnaður við nám í unglingaskólunum eða þessum landsprófsskólum var af ríkisins hálfu um 10 þús. kr. árið 1962, en er sennilega orðinn um 13-14 þús. nú. Ég hygg, að ef væri hægt að koma fyrir heimangönguskólum í sveitum, eins og áreiðanlega er hægt, þar sem þéttbýli er, t.d. eins og í Skagafirði og ég get einnig nefnt Austur-Húnavatnssýslu, þá muni vera hægt að spara allt að helmingi námskostnaðar unglinganna fyrir foreldrana, og þar að auki mætti mikið bæta aðstöðu heimangönguskólanna, til þess að það yrði ekki tvöfalt ódýrara fyrir ríkissjóð. En vitanlega þarf í öllum tilfellum að hafa einhverjar reglur fyrir þessu.

Ef við hefðum t.d. 30 nemendur í heimangönguskóla, þá þarf fleiri en einn kennara. Nú er það svo, að prestarnir hafa jafnan átt mikinn þátt í því að stuðla að uppfræðslu unglinga í sveitum landsins fyrr og síðar. Og það er þannig með þá presta, sem enn þá eru búsettir í sveitum, að þeir vilja gjarnan hafa eitthvað meira starf en prestsstörfin. En það er hvorki sanngjarnt, að þeir leggi til húsnæði og kennslu fyrir mjög lítið endurgjald, né heldur eðlilegt, að þeir geti annað því að kenna allt að því 30 nemendum. Þess vegna þarf að setja einhverjar reglur um það. Það er ekki nema eðlilegt og sanngjarnt, að prestarnir, þó að þeir hafi prestslaun, hafi þá einhverja þóknun fyrir að kenna líka, og í öðru lagi þarf að vera eitthvert ákvæði um ræstingu á húsum og jafnvel leigu fyrir húsnæði, sömuleiðis um milliferðir unglinga, og fyndist mér í því tilfelli ekkert óeðlilegt, að sveitarfélögin tækju einhvern þátt i því. Eðlilegast og ódýrast væri, að unglingarnir væru fluttir á bilum til og frá að einhverju leyti, eða a.m.k. styrktir eitthvað til þess, annaðhvort af viðkomandi byggðarlögum eða þá af ríkissjóði. En það er áreiðanlegt, að ef ekki verður gert stórt átak, sem ekki lítur út fyrir að gert verði, að stækka héraðsskólana eða byggja nýja, þá munu verða erfiðleikar fyrir þá, sem í dreifbýlinu búa, að, geta útvegað börnum sínum nægilega kennslu. Og það er þannig með bændur, jafnvel þá bændur, sem hafa fengið þá menntun, að þeir gætu kennt unglingum tvo vetur eftir barnapróf, að heimilin eru þannig sett, að foreldrarnir hafa tæpast tíma til þess, þannig að heimakennsla barna er orðin minni og erfiðara að inna hana af höndum en meðan fleira fólk var á heimilunum. Ég held því, að það sé mjög aðkallandi að semja einhverjar ákveðnar reglur um þetta og styrkja heimangönguskóla meira en verið hefur, og jafnvel þó að skólarnir stækkuðu og fjölgaði, þá yrði það miklu ódýrara fyrir bændur að geta haft aðstöðu til að láta börn sín læra t.d. frá 13—15 ára aldri í heimangönguskólum heldur en þurfa að senda þau í skóla, sem bæði eru dýrari og fjær heimilunum.

Ég vil leyfa mér að óska þess, að þessari till. verði vísað til allshn. Ég hef rætt þetta við formann allshn., og ég veit, að hann hefur fullan skilning á þessu máli. Ég veit, að fyrirgreiðslu í þessum efnum er þörf víðar en í okkar kjördæmi. Stærstu heimangönguskólarnir hafa verið í Barðastrandarsýslu og á Staðastað á Snæfellsnesi. Og þannig mun það víðar vera. Það gæti víðar komið að miklum notum, ef samdar væru um þetta ákveðnar reglur og meira gert fyrir heimangönguskólana en gert hefur verið. Ég veit, að fyrir þinginu liggur þáltill. um svipað efni, en henni hefur ekki verið sinnt. Við tökum bara þessa einu grein, heimangönguskólana, og ég vona, að þingið taki með skilningi á þessu máli, því að það er fullkomlega tímabært og hefur verið um of vanrækt.