06.05.1964
Sameinað þing: 73. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í D-deild Alþingistíðinda. (2486)

79. mál, efling byggðar á Reykhólum

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til athugunar þáltill., sem prentuð er á þskj. 86, um eflingu byggðar á Reykhólum, og hefur n. orðið sammála um að mæla með samþykkt till. með þeirri breytingu, að einn nm. skal tilnefndur af hreppsnefnd Reykhólahrepps, annar af sýslunefnd AusturBarðastrandarsýslu og þriðji af fjórðungsþingi Vestfirðinga, en hinir tveir skipaðir án tilnefningar. Breytingin frá upprunalegu till. er sú, að í staðinn fyrir að skipa þrjá menn í n. án tilnefningar, verði einn af þeim skipaður af fjórðungsþingi Vestfirðinga, en tveir án tilnefningar.

Nokkru eftir að þessi till. var flutt hér, var haldinn almennur bændafundur í Reykhólasveit í Austur-Barðastrandarsýslu, eða 2. febr. 1964, og var samþykkt á þessum fundi, sem var mjög fjölmennur, að lýsa ánægju sinni yfir fram kominni þáltill. og skora á alla þm. kjördæmisins að fylgja henni einhuga eftir og vinna að því, að hún verði afgreidd og samþykkt á Þessu þingi. Þessi till. felur í sér að athuga möguleika í fyrsta lagi á auknum stuðningi við hagnýtingu jarðhita á Reykhólum. Í öðru lagi uppbyggingu iðnaðar, t.d. mjólkuriðnaðar og þangvinnslu, í þriðja lagi umbótum í skólamálum, t.d. með bættri aðstöðu til unglingafræðslu og stofnun héraðsskóla, og í fjórða lagi með lendingarbótum á Stað á Reykjanesi eða á öðrum þeim stað, sem hentugur yrði talinn.

Austur-Barðastrandarsýsla er eitt minnsta sýslufélag landsins. Þar hefur fólki fækkað nokkuð á síðustu árum. Á árinu 1951 voru 725 íbúar í Austur-Barðastrandarsýslu, en á árinu 1960 var íbúatalan 527. Mest fækkunin varð í Flateyjarhreppi eða í Flatey og þeim eyjum, sem tilheyra Flateyjarhreppi, eða um 110. Aftur hefur byggð haldizt mun betur í Reykhólasveit og í Geiradalshreppi. Í Reykhólasveit er tæpur helmingur íbúa sýslunnar, eða 226, og á Reykhólum einum eru nálægt því 60 íbúar.

Á síðustu áratugum hefur sú þróun orðið alls staðar og í öllum byggðarlögum, að þó að strjálbýli hafi áður verið, er nauðsynlegt fyrir strjálbýlið að eiga í hverju sýslufélagi einhvern samastað fyrir alla sína félagsstarfsemi og miðstöð, bæði í atvinnulegu og menningarlegu tilliti. Og það er mikill áhugi fyrir því í þessu sýslufélagi, Austur-Barðastrandarsýslu, að Reykhólar verði miðstöð fyrir sýsluna í heild, og að því var unnið. Á árinu 1943 var að frumkvæði þáv. þm. Barðstrendinga, Gísla Jónssonar, sett á stofn sérstök nefnd til þess að gera nákvæmar athuganir og till. um framtíðarnot jarðarinnar Reykhóla, og þegar álit þetta lá fyrir, flutti Gísli Jónsson frv. til l. um skólasetur og tilraunastöð í jarðrækt á Reykhólum, og á grundvelli þeirra laga var tilraunastöðin stofnuð, og hún hefur starfað æ síðan.

Jafnframt tilraunastöðinni hefur Landnám ríkisins unnið miklar ræktunarframkvæmdir á jörðinni Reykhólum, og ýmsar aðrar umbætur hafa verið unnar þar á seinni árum. Það hafa verið reistir embættisbústaðir bæði fyrir lækni og prest byggðarlagsins, byggð ný og glæsileg kirkja, heimavist fyrir barnaskóla og sundlaug. Má því segja, að á staðnum hafi orðið veruleg uppbygging og framfarir. En það, sem má segja að lítið hafi verið gert í, er að hagnýta jarðhitann, því að hann hefur ekki verið hagnýttur til annars en upphitunar á þeim húsum, sem eru á staðnum. En á Reykhólum er mikill jarðhiti, og þar ætti að geta verið mikil gróðurhúsarækt, og möguleikar á þessum stað eru miklir og enginn staður kemur frekar til greina til þess að verða menningarmiðstöð þessa héraðs en Reykhólar. Og ég hygg, að mér sé óhætt að fullyrða, að það sé samhljóða álit allra íbúa í sýslunni eða allra þeirra, sem um þessi mál hafa fjallað á opinberum vettvangi, að vinna að því að gera Reykhóla að miðstöð fyrir sýslufélagið Austur-Barðastrandarsýslu.

Allshn. leitaði umsagnar hjá tveimur aðilum í sambandi við þessa till., landnámsstjóra og fræðslumálastjóra, hvað snertir skólamál í héraðinu. Landnámsstjóri mælir með samþykkt till. og vísar í sinni umsögn til þess starfs, sem hefur verið unnið þar á grundvelli l. frá 1944, og er umsögn hans prentuð hér með nál. Fræðslumálastjóri er mjög hlynntur því, að till. verði samþ. og að áframhaldandi framkvæmdir verði gerðar í sambandi við unglinga- og barnafræðsluna, en hvað snertir að setja á stofn héraðsskóla, Þá telur hann það vera hlutverk væntanlegrar n., ef till. þessi verði samþ., að gera till. um héraðsskóla á Reykhólum.

Ég held, að ég hafi svo ekki fleiru við þetta að bæta, en endurtek það, að innan allshn. voru allir nm. á einu máli um að mæla með samþykkt þessarar till.