06.02.1964
Sameinað þing: 39. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í D-deild Alþingistíðinda. (2490)

100. mál, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna

Utanrrh. (Guðmundur f. Guðmundsson):

Herra forseti. Árið 1945 stofnuðu Sameinuðu þjóðirnar til Menningarmálastofnunar, sem hlotið hefur nafnið UNESCO. Í stofnskrá þessarar stofnunar segir, að tilgangur hennar sé að stuðla að friði og öryggi með því að efla samstarf þjóða í milli með fræðslu-, vísinda- og menningarstarfsemi. Í þau ár, sem þessi stofnun hefur starfað, hefur hún orðið mjög kunn af störfum sínum um allan heim. Ég þykist ekki þurfa að rekja þessi störf hér, enda er stofnskrá Menningarstofnunarinnar birt með þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir. Ég vil aðeins geta þess, að á liðnum árum hefur Menningarmálastofnunin veitt mjög stórar fjárhæðir í styrki til fræðslu-, vísinda- og menningarstarfsemi í þeim löndum, sem hafa verið aðilar að Menningarmálastofnuninni.

Það er álit manna, að ef Ísland væri aðili að þessari stofnun, mundum við á margan hátt geta notið þarna styrks og stuðnings og að styrkir þeir, sem líklegt er að hingað fengjust til að efla fræðslu-, vísinda- og menningarstarfsemi, mundu nema nokkru hærri fjárhæð en árlegur kostnaður okkar af þátttöku í þessari stofnun. Samkv. fjárhagsáætlun Menningarmálastofnunarinnar fyrir árin 1964, 1965 og 1966 er talið, að árgjald okkar mundi nema eitthvað um 400 þús. kr. Á þeim tíma, sem liðinn er, síðan Menningarmálastofnunin komst á fót, hafa allar þjóðir, sem aðild eiga að Sameinuðu þjóðunum, gerzt þarna meðlimir nema Suður-Afríka, Portúgal og Ísland. Á tímabili var Þó Suður-Afríka meðlimur, en sagði sig úr UNESCO. Portúgal hefur nú áheyrnarfulltrúa hjá UNESCO. Við erum þannig orðnir næstum eina þjóðin, sem ekki er meðlimur í Menningarmálastofnuninni.

Ríkisstj. er þeirrar skoðunar, að það sé skynsamleg og hagkvæm ráðstöfun fyrir Ísland að gerast þarna aðili, og þess vegna var það lagt til í sambandi við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1964, að fé yrði veitt í því skyni, að Ísland gerðist aðili að Menningarmálastofnuninni á árinu 1964. Við afgreiðslu fjárlaga var á þessa till. fallizt og féð veitt. Með þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir, fylgir ríkisstj. þessari hugmynd sinni eftir og leggur til, að formleg heimild sé veitt fyrir ríkisstj. til þess að sækja um upptöku fyrir Ísland í Menningarmálastofnunina.

Þetta er fyrri umr. um till. Það hefur verið ákveðið að hafa umr. í tvennu lagi vegna þeirra útgjalda, sem till. fylgja, og legg ég til, að málinu verði vísað til siðari umr. og utanrmn.