15.04.1964
Sameinað þing: 64. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í D-deild Alþingistíðinda. (2500)

211. mál, vegáætlun 1964

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Till. sú til þál., sem hér um ræðir, er lögð fram samkv. ákvæði vegalaganna um það, að lögð skuli fram þáltill. um vegáætlun um sama leyti og fjárlög, en þessi till. er lögð fram samkv. bráðabirgðaákvæði vegalaga, sem samþ. voru í des. s.1., þ.e. aðeins fyrir árið 1964, en eins og kunnugt er, skal vegáætlun gerð til 4 ára í senn, og verður þá á næsta hausti lögð fram vegáætlun til 4 ára. Bak við þessa þáltill, og þau fskj., sem með henni eru prentuð, liggur allmikil vinna, og þess vegna er það, að ekki hefur þótt fært að leggja till. fyrr fram en raun ber vitni. Mér er kunnugt. um það, að starfsmenn vegamálaskrifstofunnar hafa unnið að samningu þeirra fskj., sem með till. eru prentuð, frá því um áramót, og má segja, að eðlilegt sé, að í fyrsta sinn, eftir að ný vegalög hafa verið sett og breytingar gerðar á öllu kerfinu, sé mikið verk að semja slíka áætlun sem hér um ræðir.

Samkv. vegal. er gert ráð fyrir í III. kafla þeirra, að allir almennir vegir séu upp taldir og flokkaðir. Það hefur og verið gert, eins og hv. þm. sjá á fskj. með þessari tillögu.

Samkv. þessari áætlun eru tekjur á árinu 1964 áætlaðar vera 242.1 millj. kr. Tekjurnar sundurliðast, eins og sjá má, Þannig, að tekjur brúasjóðs á s.l. ári hafa orðið 10.4 millj. kr., og af þeim tekjum munu 0.6 millj. kr. ganga til greiðslu umframkostnaðar vegna framkvæmda 1963. Reikningsskilum er þó ekki enn lokið, eftir því sem vegamálastjóri upplýsir, en hann telur, að handbært fé af tekjum brúasjóðs frá árinu 1963 muni nema 9.8 millj. kr. Af tekjum vegasjóðs árið 1963, sem urðu 7.66 millj. kr., var ráðstafað á árinu 3 millj. 950 þús., og eru pá til ráðstöfunar af fé vegasjóðs frá árinu 1963 3.7 millj. kr. Tekjur af gamla benzíngjaldinu eru áætlaðar 1964, þ.e. gjaldinu 1.47 kr. á hvern lítra, að verða 84.5 millj. kr., en tekjur af nýja gjaldinu eru áætlaðar að verða á árinu 56 millj. kr., þ.e. 3/4 tekna af þessu gjaldi, þar sem talið er, að gjaldið innheimtist ekki fyrr en 3 mánuðum eftir á. Tekjur samkv. framansögðu, þ.e. benzíntekjurnar og tekjur brúasjóðs og vegasjóðs, verða því 154 millj. kr. Til viðbótar þessu er áætlað, að gúmmígjald verði á árinu 10 millj. kr. Það var hækkað, eins og hv. þm. muna, um 50%, úr 6 kr. á kg i 9 kr. á kg. Þá er gert ráð fyrir, að þungaskatturinn verði á árinu 31 millj. kr., hækki um 10 millj. kr. Ríkisframlag samkv. 89. gr. vegalaga er 47.1 millj. kr. Þessar tekjur munu vera um 105 millj. kr. hærri en var á fjárl. 1963. Er það óneitanlega veruleg viðbót við það fé, sem er til ráðstöfunar í vegaframkvæmdir, á árinu 1964, miðað við s.l. ár. Þó hygg ég, að hv. þm. finnist þessi upphæð ekki vera of há, þegar til þess kemur að skipta henni á hina ýmsu vegi og brýr í hinum ýmsu kjördæmum.

Vegáætlun gerir ráð fyrir skiptingu útgjalda aðeins í stórum dráttum. En í hinum smærri dráttum er gert ráð fyrir, að hv. Alþingi ráðstafi fénu. Samkv. þeirri þáltill., sem hér er um að ræða, er gert ráð fyrir að verja tekjum vegasjóðs á þann veg, sem hér skal rakið: Það er stjórn og undirbúningur vegamála. 4 millj. 167 þús. eru launagreiðslur samkv. launaskrám.

Eftirlaunagreiðslur til fyrrv. verkstjóra og ekkna þeirra 600 þús. kr., skrifstofukostnaður 1.6 millj. og verkfræðilegur undirbúningur framkvæmda 2.5 millj. Þetta eru 8 millj. 867 þús. kr. Verkfræðilegur undirbúningur framkvæmda var á fjárlfrv. því, sem lagt var fyrir á s.l. hausti, 1.7 millj. kr., og var þá gert ráð fyrir, að kostnaðurinn væri færður á ýmis verk. En þessi til högun á greiðslu kostnaðar þykir ekki heppileg, þar sem oft er um smærri verk að ræða, og þykir því eðlilegt að taka verkfræðilegan undirbúning framkvæmda í einu lagi sem útgjaldalið samkv. tillögunni.

Þá er viðhald þjóðvega. Það er gert ráð fyrir, að viðhald þjóðvega á árinu 1964 verði 85 millj. kr. Það var í fjárl. 1963 63 millj. kr., en á árinu voru notaðar 67 millj., 4 millj, umfram fjárlög, vegna brýnnar nauðsynjar. Þótt nú sé reiknað með 85 millj. kr., er það ekki hærri upphæð en rétt til þess að halda vel í horfinu, og verður þá að hafa í huga, að þjóðvegirnir hafa lengzt samkv. nýju vegalögunum um 1046 km. Það er því að áliti þeirra, sem um þessi mál hafa fjallað, ekki frambærilegt að ætla minna í vegaviðhaldið en 85 millj. kr., þótt það sýnist í fljótu bragði vera allmikil hækkun frá s.l. ári. Þá er gert ráð fyrir að nota til vegmerkinga 1 millj. kr. á árinu 1964, en á s.l. ári var varið í þessu skyni 600 þús. kr. Það er enginn vafi á því, að það getur forðað frá slysum, ef vegmerkingar eru nákvæmar og glöggar, og það er mikið ógert enn í því efni að setja vegmerki á Ýmsa hættustaði víðs vegar um landið. Það má því ekki vera lægri upphæð, sem til þessa verður varið á yfirstandandi ári, heldur en hér er um að ræða, þyrfti að vera meira en hér er lagt til.

Til nýrra þjóðvega er gert ráð fyrir að verja samkv. þessari áætlun 57 millj. 595 þús. kr., þar af til hraðbrauta 10 millj. kr., þjóðbrauta 23 millj. kr. og landsbrauta 24 millj. 595 þús. kr.

Til hraðbrauta hefur ekki þótt fært að leggja til, að meiri upphæð væri varið en hér ræðir um, og er Þá aðallega um að ræða vaxtagreiðslur vegna Reykjanesbrautarinnar. Þá þykir og rétt að leggja til, að nokkur upphæð verði lögð til Austurvegar af þessu fé, enda var á s.l. ári varið til þessa vegar 1.5 millj. kr. umfram fjárlög.

Þá er gert ráð fyrir að verja til þjóðbrauta, eins og áður er sagt, 23 millj. kr., og er, eins og hv. þm. geta séð fyrir sér á bls. 36, tilgreint, hvernig þetta skiptist. Hér er um allverulega hækkun að ræða frá fyrra ári, ef reiknað væri með lántökum, eins og tíðkazt hefur mörg undanfarin ár. Ef hins vegar væri gert ráð fyrir að greiða lánin, sem tekin voru á s.l. ári, með fjárveitingu þessa árs, yrði ekki um neina aukningu að ræða í framkvæmdum til þjóðbrauta. Það er svo vitanlega álitamál, hvort það þykir eðlilegt að greiða lánin að fullu á einu ári eða tveimur eða jafnvel þremur. Það er vitanlega samkomulagsatriði milli þeirra, sem lánin hafa tekið, og hinna, sem lánin hafa veitt. En framkvæmdirnar á næsta sumri í vegamálum verða vitanlega auknar eftir því, hvort lánin þurfa að greiðast upp á þessu ári eða hvort greiðslufrestur fæst á þeim.

Þá er gert ráð fyrir að verja til landsbrauta, eins og áður er sagt, allmiklu hærri upphæð en í fyrra, eða 24 millj. 595 þús., en það gegnir sama máli um landsbrautirnar og þjóðbrautirnar, að til framkvæmda í þeim vegum hefur verið tekið allmikið að láni á s.l. ári, og er það vitanlega mats- og samkomulagsatriði, hvort þessi lán verða greidd að fullu upp á þessu ári eða ekki, og hefur það vitanlega mikil áhrif á vegaframkvæmdir í þessum þjóðvegaflokki.

Þá er gert ráð fyrir að verja til fjallvega, reiðvega og ferjuhalds nokkrum upphæðum. eins og hér er tilgreint, og hefur þar verið farið að verulegu leyti eftir óskum hv. þm., sem fram hafa komið á undanförnum þingum. Til aðalfjallvega eru talin Sprengisandsleið og Kaldidalur, en gert ráð fyrir að verja allmiklu fé til kláfferjunnar á Tungnaá, sem lengi hefur verið í undirbúningi, og einnig til Sprengisandsleiðar. Þessi liður er samtals 2 millj. 315 þús. kr. Þá hefur verið komið til móts við óskir Landssambands hestamanna, sem hefur eindregið óskað eftir því, að til reiðvega verði varið 200 þús. kr. Þá er til annarra fjallvega 800 þús. og til ferjuhalds 15 þús.

Þá er til brúargerða. Það er gert ráð fyrir að verja til brúargerða samtals 31 millj. kr., og er það veruleg aukning frá fyrra ári, eins og hv. þm. munu hafa gert sér ljóst. Það er gert ráð fyrir að verja til stórbrúa 13 millj. kr., og er því fé varið á sama hátt og fé brúasjóðs áður. Vegamálastjóri mun senda þeirri nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, rökstuddar till. um skiptingu þessa fjár, eins og vegafjárins yfirleitt, og mun n. þá fá ýmsar upplýsingar, sem er nauðsynlegt að hafa viðvíkjandi þessum framkvæmdum. Eins og áður er sagt, voru tekjur brúasjóðs á s.1. ári 110.4 millj., en af þeirri upphæð fara um 600 þús. til fyrirframgreiðslu frá fyrra ári, og eru þá til ráðstöfunar af fé brúasjóðs 9.8 millj., og þegar þetta er allt tekið með í reikninginn, verður um 25% hækkun að ræða á því fjármagni, sem verður varið til stórbrúa, miðað við s.l. ár. Þá eru brýr lengri en 10 m, hinar svokölluðu fjárlagabrýr. Það er gert ráð fyrir að verja til þeirra 12 millj. kr., en fjárveiting til þessara brúa var á árinu 1963 10 millj. 705 þús. kr., og er endurbyggingarfé gamalla brúa meðtalið. Till. um 12 millj. kr. fjárveitingu er því ekki nema samsvarandi þeirri upphæð, sem varið var í þessu skyni á s.l. ári, þegar tekið er tillit til kaup- og verðhækkana, sem orðið hafa síðan. Og þá eru það smábrýrnar, en til þeirra er gert ráð fyrir að verja 6 millj. kr., og er till. um 6 millj. 50% hærri upphæð en var á fjárl. s.l. ár, en ég býst við, að hv. þm. finnist, að hér sé ekki of langt gengið, því að í öllum kjördæmum mun það vera svo, að margar smábrýr er eftir að gera yfir ár og læki.

Þá eru það sýsluvegirnir. Það er gert ráð fyrir að verja til þeirra 10 millj. kr., en á fjárl. s.l. ár voru aðeins 3.3 millj. kr., og það fé, sem sýsluvegirnir höfðu þá til umráða, var nálægt 6 millj., en sýsluvegirnir munu samkv. þessu hafa til umráða á þessu ári um 15 millj. kr., nærri þrefalt hærri upphæð. Það má því segja, að það sé tiltölulega vel gert við sýsluvegina, en inn í sýsluvegina eru komnir allir hreppavegir og einnig ýmsir einkavegir, sem áður voru taldir. En þótt hér sé um verulega lagfæringu að ræða, er enginn vafi á því, að mikil þörf er fyrir þetta fé, og ég hef reyndar þegar heyrt það frá sýslumönnum, sem hafa kynnt sér tekjuhækkun sýsluvegasjóðanna, að þeir eru mjög ánægðir með þá breytingu, sem hefur orðið á þessu.

Þá er gert ráð fyrir að verja til vega í kaupstöðum og kauptúnum samkv. lögum þar um 31 millj. 473 þús. kr. Ekki er að efa það, að mikil þörf er fyrir þetta fé, enda hefur það komið í ljós, að götur í kauptúnum og kaupstöðum eru oft verri fyrir umferðina heldur en vegirnir úti á landsbyggðinni, en það er nýmæli i vegal., sem samþ. voru á þessum vetri, að leggja nokkurn hluta af benzínskattinum til þessara mála. Það sýnist vera sanngjarnt, um leið og það er nauðsynlegt til þess að bæta úr því ófremdarástandi, sem er í mörgum kauptúnum.

Til véla- og verkfærakaupa verður varið á þessu ári samkv. þessum till. 17.4 millj. kr. Eins og hv. þm. er ljóst, hefur mörg undanfarin ár verið allt of lítið fé til véla- og áhaldakaupa fyrir vegagerðina og vegagerðin hefur verið með gömul verkfæri, 20 ára gamla veghefla, ónýtar ýtur, ónýtar ámokstursskóflur, og mest af þessu hefur verið keypt af Keflavíkurflugvelli, sölunefndinni, þá gamalt og uppgert og hefur verið dýrt í viðhaldi. Á s.1. ári var gert allmyndarlegt átak í því að bæta vélakost vegagerðarinnar og varið til þess 18 millj. kr. Það hefði vitanlega þurft að vera meira, en það þótti ekki fært að því sinni, og á þessu ári verður varið til vélakaupa 17.4 millj., en þess ber að geta, að nokkur hluti af þessari upphæð er þó greiðslur, afborganir vegna lána, sem tekin voru á s.l. ári, þannig að heildarfjárhæð til vélakaupa á þessu ári verður ekki nema tæplega 14 millj. kr., og mér er alveg ljóst, að það er allt of litið. Það þyrfti að vera meira. Það mundi borga sig, ef fé væri fyrir hendi, að hætta að nota elztu vegheflana, elztu ýturnar og mörg þessi gömlu tæki og kaupa nýtt, því að viðhaldið á gömlu tækjunum er allt of dýrt, til þess að það borgi sig að nota þau. En það er ljóst, að það tekur nokkurn tíma að endurnýja allan vélakostinn, en með því að verja verulegri upphæð árlega í þessu skyni, þá vitanlega lagast þetta smám saman, og má segja, að ef við gætum varið 15–20 millj. kr. á ári til tækja- og vélakaupa fyrir vegagerðina, mundi vélakosturinn verða sæmilegur innan fárra ára, og að því ber vitanlega að keppa.

Svo eru hér smáfjárveitingar samkv. till., þ. e. til bókasafns verkamanna, það er í samræmi við það, sem áður hefur verið, til tilrauna við vega- og gatnagerð, það er nýtt ákvæði, gert ráð fyrir að verja 1/2% af heildartekjum vegamála, og ég geri ráð fyrir því, að það hafi á undanförnum árum verið of lítið að því gert og þetta hálfa prósent, sem hér er lagt til að verja i þessu skyni, geti borgað sig, þegar frá liður, því að tilraunastarfsemi í vegagerð, brúabyggingum og öðru því tilheyrandi á auðvitað alveg eins rétt á sér þar eins og annars staðar. Þá er iðgjald til slysatrygginga, gjöld samkv. l. um orlof verkamanna og atvinnuleysistryggingagjöld. Þetta er allt samkv. lögum og venjum, sem gilt hafa um þessi efni.

Þá eru um flokkun vega upplýsingar á fskj. með þessari till. og greint frá því, hvernig flokkun vega hefur verið framkvæmd. Það er kveðið glögglega á um það í vegalögunum, hvernig vegirnir skuli flokkaðir. Og þeir skulu flokkaðir í þrjá flokka, það eru hraðbrautir, þjóðbrautir og landsbrautir. Það er að vísu gert ráð fyrir hraðbrautum A og B, og mætti því segja, að vegaflokkarnir væru fjórir, en aðalþjóðvegaflokkarnir verða þó að teljast aðeins þrír. Ég sé ekki ástæðu til að fara að gera grein fyrir því, hver þessi ákvæði eru í vegalögunum, hvernig vegaflokkunin er gerð, því að hv. þm. hafa bæði lög og till. ásamt öllum fskj., sem greina glögglega frá um þetta. Hér eru allir almennir þjóðvegir upp taldir, hvert kjördæmi fyrir sig, og skýringar fylgja með hverjum vegi, hvort það er óbreytt frá fyrri l. eða hver breyting hefur á orðið. Og mér sýnist, að hér sé þetta sett mjög glögglega fram, þannig að fljótlega sé unnt að átta sig á þeim breytingum, sem orðið hafa frá fyrri vegalögum.

Þá er einnig hér prentað með og gerð grein fyrir hliðarvegum vegna undanþágu 12. gr. vegalaganna um kirkjustaði, félagsheimili, opinbera skóla eða heilsuhæli, fullgerð raforkuver, kauptún með færri en 300 íbúa eða tengivegi á millí aðalleiða. Þessir vegir, sem koma undir þessi undanþáguákvæði, eru taldir upp í hverju kjördæmi fyrir sig og prentað hér á fskj. með till. Þetta er, að ég tel, mjög upplýsandi fyrir hv. þm. og greiðir fyrir því, að unnt sé í fljótu bragði að átta sig á öllum þeim breytingum, sem orðið hafa. Tel ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um það, því að það liggur allt saman ljóst fyrir.

Það kemur einnig fram á þeim fskj., sem fylgja með, hvaða breyting hefur orðið, hvað þjóðvegirnir hafa lengzt mikið við þær breytingar, sem orðið hafa. Það er, eins og áðan var sagt, 1046 km, sem þjóðvegirnir hafa lengzt. Það kemur og fram, hvað sýsluvegirnir hafa lengzt, og er það tekið fram í grg., sem prentuð er með frv. Sýsluvegir voru taldir fyrir breytinguna 2387.8 km, en eru taldir eftir breytinguna 2200 km og hafa þá stytzt um 8 km. En hreppavegirnir hafa allir verið lagðir niður, eins og áður er fram tekið.

Þá eru aftast á þessu þskj. töflur, sem eru merktar fskj. I—X, sem gefa ýmsar upplýsingar, eins og hv. þm. sjá, og sé ég ekki ástæðu til að vera að rekja þær ýtarlega.

Fskj. I, viðhaldskostnaður þjóðvega, sýnir það, hver aukning hefur orðið á bifreiðaeign landsmanna frá 1949, þegar bifreiðaeignin var 10520, en áætluð að vera í árslok 1964 29244. Það er aukning um nærri 200%. Svo er reiknað út, hve mikið viðhaldsfé hefur verið látið á hvern ekinn km og hvern lengdarkm. o.s.frv., og ef miðað væri við hvern ekinn km, þá er viðhaldsféð ekki aukið frá því, sem verið hefur, enda þótt það hafi verið hækkað upp í 85 millj. úr t.d. 33 millj. 1958. En ég hygg þó, að þessi mikla bílafjölgun, sem orðið hefur og þá ekki sízt í hinum stærri kaupstöðum, íþyngi ekki þjóðvegunum eins mikið hlutfallslega og var áður, á meðan bílarnir voru færri. Ég hygg, að mikill hluti af þessari aukningu sé meginhluta

ársins á götum bæjanna og það væri t.d. ekki nema einn mánuð af hverjum 12 árlega, sem þeir íþyngdu þjóðvegunum, og þeir, sem gerðu þessa töflu, hafa vitanlega gert sér grein fyrir því, þótt það sé öðrum þræði fróðlegt og gaman að stilla þessu upp eins og hér hefur verið gert.

Þá eru hér fskj. II, um hraðbrautir A og B, sem eru taldar upp, fskj. III, þjóðbrautir; og fskj. IV, um landsbrautir, og fskj. V, bæir, sem hafa ekkert eða ófullkomið vegasamband í. jan. 1964. Þar sést, hversu margir bæir eru í hverju kjördæmi, sem þannig stendur á um, og er það nokkuð misjafnt, en ég býst við, að það verði að segja, að ástandið sé öllu betra í þessum málum en menn höfðu áður reiknað með. Við sjáum t.d. í Reykjaneskjördæmi, þar er bílfært heim á hvern bæ, en í Vesturlandskjördæmi er ekki nema einn bær, sem alls ekki er akfært heim á, en það eru að vísu slæmir vegir heim á 31 bæ í þessu kjördæmi. Þá er það Vestfjarðakjördæmi. Þar er 21 bær, sem ekki hefur akveg, og það eru 3 bæir, sem hafa erfiðan og vondan veg, og svo er akfært að bryggju eða flugvelli, það eru 25 bæir. Ef við tökum Norðurl. v., þá eru það 13 bæir, sem hafa alls ekki akfært, og 23 bæir, sem hafa vonda vegi. Norðurl. e., 5 bæir alls ekki akfært og 5 bæir með slæma vegi. Austurlandskjördæmi, 5 bæir, sem alls ekki hafa akveg, 20 bæir, sem hafa erfiða vegi, og 26 bæir, sem hafa veg að bryggju eða flugvelli. Suðurlandskjördæmi, þar eru 3 bæir, sem hafa ekki akfært heim, og 7 bæir, sem hafa vonda vegi. Þannig eru þetta hátt á annað hundrað bæir í landinu, sem ýmist hafa alls ekki akveg eða slæma vegi. En ég verð að segja það, að áður en þessi skýrsla var tekin saman, hafði ég búizt við, að ástandið væri þó nokkru verra en hér er um að ræða, og ég vil segja, að það er vonandi, að þessir bæir, sem enn hafa ekki fengið akveg eða hafa mjög slæma vegi, úr því verði nú bætt mjög fljótlega.

Þá eru á fskj. VI taldar upp óbrúaðar ár á þjóðvegum 1. jan. 1964, og er það tekið eftir kjördæmum. Þessi skýrsla er vitanlega mjög fróðleg og gefur upplýsingar um það; sem hv. þm. vitanlega vissu ekki áður nákvæmlega. Í Reykjaneskjördæmi eru 3 ár óbrúaðar. 2 Vesturlandskjördæmi eru 20, sem eru 4—10 m, og 4 brýr, sem eru 10 m eða lengri. i Vestfjarðakjördæmi eru 56 ár óbrúaðar frá 4—10 m og 13 ár, þar sem brúin þyrfti að vera 10 m eða lengri. Í Norðurlandskjördæmi vestra eru 16 ár óbrúaðar, þar sem brúin væri 4—10 m, og 5 ár, þar sem brúin þyrfti að vera 10 m eða lengri. Í Norðurlandskjördæmi eystra eru 22 ár óbrúaðar, þar sem brúin væri 4—10 m, en 6, þar sem brúin væri 10 m eða lengri. Og í Austurlandskjördæmi eru 62 ár óbrúaðar, þar sem brúin væri 4—10 m, og 29, þar sem brúin væri 10 m eða lengri. Í Suðurlandskjördæmi eru 9 ár óbrúaðar, þar sem brúin væri 4—10 m, og 12, þar sem brúin þyrfti að vera 10 m eða lengri. Af þessu má sjá; að þetta er ærið misjafnt í hinum ýmsu kjördæmum.

Svo er hér fskj. VII, þar sem taldir eru upp þjóðvegir í þéttbýli, fskj. VIII, lenging þjóðvega með nýju vegal. Þjóðvegirnir lengjast í hverju kjördæmi fyrir sig. Ég sé ekki ástæðu til þess að vera að lesa það upp og ekki heldur töflur á fskj. IX og fskj. X, yfirlit yfir þjóðvegi, eins og þeir eru i hverju kjördæmi 1. janúar 1964. Þetta skýrir sig allt saman sjálft, þegar hv. þm. athuga það.

Þar sem þjóðvegur er talinn byrja eða enda í kaupstað eða kauptúni með eða yfir 300 íbúa, er aðeins nefnt nafn staðarins, þar sem enn hefur ekki unnizt tími til þess að semja reglugerð samkv. 30. gr. vegal. um það, hvaða vegir í kaupstöðum og kauptúnum skuli teljast þjóðvegir. Og þess vegna hefur ekki verið talið fært að Þessu sinni að skilgreina eða ákveða mörkin nákvæmlega til frambúðar í þessu skyni. En það verður að gerast með þeirri vegáætlun, sem lögð verður fram á næsta hausti til 4 ára. Þá verður væntanlega búið að semja þá reglugerð, sem hér um ræðir, og ákveða takmörkin, eins og þau skulu verða til frambúðar.

Eins og ég sagði áðan, er vegáætlun sú, sem hér er um að ræða, aðeins fyrir þetta ár, og hún er nokkuð seint fram komin. Ég hef oft heyrt hv. þm. spyrja: Hvenær kemur vegáætlunin? En það liggur í augum uppi, að mesta vinnan hjá vegamálastjórninni var að semja fyrstu vegáætlunina, þ.e. að draga línurnar samkv. vegalögunum um flokkun veganna og telja upp alla þá staði, sem til greina koma, og það verk, sem hér hefur verið unnið, notast vitanlega til frambúðar, þótt þessar áætlanir geti tekið breytingum, og vegáætlun til 4 ára verður vitanlega með allt öðrum hætti en sú, sem hér er um að ræða og er til eins árs.

Ég hygg, að hv. þm. séu sammála um það, að till. sú, sem hér hefur verið borin fram, ásamt öllum þeim fskj., sem með eru, gefi glöggt og gott yfirlit yfir vegamálin og brúamálin í landinu og hv. þm. hafi nú betri aðstöðu til þess að setja sig inn í öll þessi mál en oft áður.

Eins og ég sagði, er hér gerð till. um grófa skiptingu á því fé, sem er til umráða. Það er aðeins lagt til, hversu mikið fé skuli fara í stórbrýr, í brýr lengri en 10 m og i smábrýr. Það er lagt til, hversu mikið fé skuli fara i vegaviðhald og vegmerkingar. Það er lagt til, hversu mikið fé skuli fara til nýbyggingar vega, í hraðbrautir, þjóðbrautir og landsbrautir. Og það er lagt til, hversu mikið fé skuti fara til fjallvega o.s.frv. En svo er það hv. Alþingi, sem deilir þessu niður nánar á hinar ýmsu framkvæmdir í kjördæmunum og víðs vegar um landið. Og að því leyti verður unnið að skiptingu vegafjárins með svipuðum hætti og áður var.

Till. þessari verður væntanlega vísað að lokinni þessari umr. til hv. fjvn., sem tekur málið til meðferðar á svipaðan hátt og áður. Og vegamálastjóri mun senda fjvn., eins og á undanförnum þingum, sundurliðaða grg. og till. um það, hvernig fénu skuli skipt á hinar ýmsu framkvæmdir á þessu ári. Við höfum að þessu sinni rúmlega 100 millj. kr. meira fé til umráða en var, þegar fjárlög fyrir árið 1963 voru samin, og það, sem var á fjárl. 1963. Ég er hins vegar alveg viss um það, að hv. þm. finnst hér ekki um of ríflega upphæð að ræða, þegar farið verður að skipta fénu, því að þarfirnar eru alls staðar miklar og kröfurnar stöðugt vaxandi um að bæta samgöngurnar. Og það út af fyrir sig er ekkert undrunarefni, þótt þeir bæir, þær sveitir, þau héruð, sem hafa erfiðar og lélegar vegasamgöngur, leggi áherzlu á það, að úr því verði bætt sem allra fyrst. En það er enginn vafi á því, að nýju vegalögin marka tímamót, þau marka þáttaskil í þessum málum og með þeim er gengið inn á nýjar brautir, sem munu reynast vel og farsællega. Og það er von mín, að vegaféð muni eftirleiðis nýtast betur en áður með breyttri vinnuaðferð og með því að fá bættan vélakost fyrir vegagerðina og taka til meðferðar hverju sinni stærri verk en oft hefur áður verið gert.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til, að þessari till. verði að lokinni umr. vísað til síðari umr. og hv. fjvn.