15.04.1964
Sameinað þing: 64. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í D-deild Alþingistíðinda. (2508)

211. mál, vegáætlun 1964

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það hefur komið hér fram ósk um það frá hv. 1. þm. Norðurl. v., að fyrri umr. verði ekki lokið, áður en málið fer til n., og hv. 1. Þm. Austf. hefur tekið undir þessa ósk. Ég sé ekki ástæðu til annars en verða við því til samkomulags, ef menn leggja mikið upp úr því, og get alveg fyrir mitt leyti fallizt á, að sá háttur verði við hafður.

Hv. 1. Þm. Norðurl. v. gerði hinn svokallaða Strákaveg hér að umtalsefni, vitnaði í framkvæmdaáætlun ríkisstj., sem lögð var fram á s.l. ári, þar sem gert er ráð fyrir að ljúka þessum vegi seint á árinu 1965, og hann spyr: Verður ekki staðið við þetta fyrirheit?

Strákavegurinn, jarðgöngin og vegurinn að göngunum um Fljótin, það er gert ráð fyrir, að þetta kosti um 1 millj. kr. Það er gert ráð fyrir að ólagður vegur að fjallinu um Fljótin með brúm muni kosta hátt á fimmtu millj. kr. Það er gert ráð fyrir að ljúka þessari framkvæmd í sumar eða á þessu ári og gert ráð fyrir að útvega lánsfé að miklum hluta til þess verks. Hins vegar hefur komið í ljós, að það hefur ekki verið fullnægjandi athugun á berglögunum í fjallinu, til þess að mögulegt sé að bjóða þetta verk út, og það þykir ekki forsvaranlegt að byrja á þessu verki, fyrr en frekari athugun hefur farið fram. Þekktur jarðfræðingur hér hafði athugað þetta nokkuð gaumgæfilega og gefið upp álit sitt á því, hvernig hér væri til hagað, og var talið, að sú rannsókn, sem fram hefði farið, væri fullnægjandi. En við nánari athugun kemur fram, að það liggur ekki ljóst fyrir, hvernig berglögin liggja. Ætla má, að mikið hrun verði í göngunum, og það liggur ekki ljóst fyrir, hvernig vinnunni skuli hagað þarna þannig að ef bjóða ætti út verkið eins og það er nú, þá yrðu að vera svo margir fyrirvarar á því, að það væri ekkert vit frá stjórnarvaldanna hendi að leggja í það. Hins vegar er fyrirhugað að láta þessa fullnaðarrannsókn fara fram sem allra fyrst og vinna verkið eins og áætlað hefur verið, en hvort Því verður þá lokið á árinu 1965, það get ég ekkert fullyrt um. En víst er um það, að tafir á þessum framkvæmdum eru ekki stjórnarvöldunum að kenna, vegna þess að þegar til átti að taka að fara að bjóða út þetta verk, þá kom í ljós, að sú jarðfræðilega athugun, sem átti að vera lokið, var ekki fullnægjandi að dómi kunnáttumanna á þessu sviði.

Hv. 1. þm. Austf. gerði áætlunina að umtalsefni og tekur fram, að hann telji eðlilegt, að allar vegaframkvæmdir, þótt þær séu unnar fyrir lánsfé, verði hafðar með í áætluninni. Hv. þm. vitnaði í 10. gr. vegalaganna, þar sem tekið er fram, með leyfi hæstv. forseta: „Skal áætlunin annars vegar gera grein fyrir þeim framkvæmdum, sem fyrirhugaðar eru á tímabilinu, en hins vegar þeirri fjáröflun, sem gert er ráð fyrir vegna þeirra.“

Ég skal viðurkenna, að það er vel hægt að skilja þessa grein á þann veg, sem hv. þm. vildi skilja hana, en hins vegar vil ég taka það fram, að sú vegáætlun, sem við nú ræðum um, er aðeins til eins árs, bráðabirgðavegáætlun, og í bráðabirgðaákvæðunum segir, með leyfi hæstv. forseta: „Fyrir reglulegt Alþingi haustið 1964 skal leggja tillögu til vegáætlunar skv. III. kafla laga Þessara og nái hún yfir árin 1965-1968.“ I III. kafla vegalaganna er 10. gr., og það er sýnt, að þótt við vildum skilja 10. gr. eins og hv. 1. þm. Austf. leggur til, þá nær 10. gr. ekki til þeirrar áætlunar, sem við nú erum að ræða um, sem er bráðabirgðaáætlun, því að það er eins og tekið er fram í bráðabirgðaákvæðinu, að þegar fjögurra ára áætlunin er samin, þá skal hún semjast skv. III. kafla vegalaganna.

Ég tel alveg sjálfsagt, að það verði athugað fyrir næstu fjögurra ára áætlun, hvort heppilegt er að hafa allar framkvæmdir, líka þær, sem unnar eru fyrir lán, með í vegáætluninni, og ég sé út af fyrir sig ekki, að það ætti að vera nokkur ástæða fyrir vegamálastjórnina að mæla gegn því, að þessar framkvæmdir væru hafðar þar með og gerð grein fyrir því þar, hvernig fjáröflun til þeirra verður. En hér er með þetta eins og svo margt annað, að það er ekki fullmótað, þetta nýja kerfi, það er í byrjun hjá okkur, og það má vel vera, að reynslan sýni, að það sé heppilegt að haga þessu eins og hv. 1. þm. Austf. ræddi hér um áðan, hv. 5. þm. Austf. og hv. 5. þm. Vesturt. Mér finnst alveg sjálfsagt að taka það til rækilegrar athugunar, hvort þetta getur ekki verið með þeim hætti, sem hér hefur verið óskað eftir, þegar næsta vegáætlun verður lögð fyrir.

Hv. 5. þm. Austf, talaði hér áðan og var nú á ýmsan hátt mildari en hann var í dag og er það út af fyrir sig ekki nema ánægjulegt, að hann vildi ekki hafa sagt það, að vegamálastjórnin hafi brugðizt þeim fyrirheitum, sem gefin voru í vetur, og ég vil þakka hv. þm. fyrir það, að hann vill ekki halda þeirri kenningu fram. En hins vegar verð ég að segja það, að ýmislegt, sem fram kom í ræðu hans, varð mér undrunarefni, vegna þess að hv. þm. ætlast til, að það verði varið allmiklu meira fé til framkvæmdanna, það verði sem sagt loforð gefið um það, að það verði varið allmiklu meira fé til framkvæmdanna en vegáætlunin gerir ráð fyrir, og hv. þm. telur, að það þurfi að vera í vegáætluninni tekið fram, að það megi taka lán til framkvæmda á þessu ári eins og gert hefur verið. Ég held, að það sé alveg ónauðsynlegt að hafa nokkuð um það í vegáætluninni. Ég hygg, að ef menn vilja yfirleitt halda þeim hætti áfram að taka lán til vegaframkvæmda, þá megi það gerast með sama hætti og áður, ef samgmrh. getur að athuguðu máli leyft þessar lántökur, því að öll þessi vegalán hafa verið tekin með samþykki samgmrh. Og þegar hv. þm. er í öðru orðinu að gefa i skyn, að það sé eiginlega hér önnur mynd upp dregin í þessari vegáætlun en búizt hefði verið við í vetur, þá verð ég að segja það, að slíkt er vitanlega alls ekki, því að samkvæmt tekjuöflunaráætlun, sem hér liggur fyrir, er nákvæmlega sú upphæð, sem gert var ráð fyrir í vetur, þegar rætt var um vegalögin, og Það eru rúmlega 100 millj. kr., sem er hærri upphæð nú en var á fjárl. 1963.

Það er ekkert leyndarmál, að lántökurnar 1963 voru nokkru hærri en 1962. Ég man ekki þessar tölur, efast um, að það muni mörgum milljónum, en eitthvað var það meira, og lánin 1962 voru greidd ýmist með nýjum lánum, sem voru tekin á s.l. ári, eða með því fé, sem veitt var til hinna einstöku framkvæmda á fjárlögum.

Ég get vel hugsað mér það, að framkvæmdin í þessum málum verði með svipuðum hætti og áður, og það er vitanlega alveg rétt, sem hér var tekið fram áðan, að skuldirnar, sem stofnað var til á s.l. ári, verða að greiðast með þeim fjárveitingum, sem hver vegur eða framkvæmd fær samkvæmt vegáætluninni, þegar farið verður að skipta milli hinna ýmsu kjördæma og jafna því á hin mörgu verk í kjördæmunum.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Það er einhver smávegis misskilningur, sem er á þessum málum frá hendi hv. 5. þm. Austf., en misskilningur, sem ekki er djúpur og ég veit að hv. þm. á eftir að átta sig á og sannfærast að fullu um, að vegáætlunin er algerlega í samræmi við það, sem um var talað í vetur.

Hitt kemur mér ekkert á óvart, þó að hv. þm. finnist þrátt fyrir þessa miklu hækkun, sem um er að ræða frá síðustu fjárl., að þetta þyki í rauninni of lítið, þegar á að fara að skipta því á hin mörgu verk og leitast við að uppfylla þarfirnar og kröfurnar, sem vitanlega koma úr öllum áttum.