15.04.1964
Sameinað þing: 64. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í D-deild Alþingistíðinda. (2509)

211. mál, vegáætlun 1964

Sigurvín Einarsson:

Herra forseti. Mér bókstaflega brá, þegar ég sá þessa vegáætlun og leit þar, að til nýbyggingar þjóðvega ættu að koma 57 1/2 milljón yfir allt landið utan kaupstaða. En Þetta var ekki nóg. Það kemur sem sé í ljós, að það er búið að eyða talsverðu af þessari upphæð. Mér sýnist, að það verði ekki nema 24 millj. til umráða á yfirstandandi sumri, ef af fjárveitingunum verða greidd upp lán og vextir og afborganir af lánum, eins og greint er frá í áætluninni.

Það er skýrt svo frá í grg., að vextir og afborganir af lánum, sem tekin hafa verið og þurfi nú að greiða, — það var rétt tekið fram af hv. 5. þm. Austf., að svo er skýrt frá í grg., að það, sem nú mun eiga að greiða í vexti og afborganir, sé 11463 000 kr. í öðru lagi eru bráðabirgðalán, er veitt hafa verið úr ríkissjóði, 3 300 000 kr. Og loks lán úr héruðum 18 500 000 kr. Þarna eru þá 3 upphæðir upp á 33 263 000 kr., sem í grg. segir að muni dragast frá fjárveitingum til nýbyggingar þjóðvega.

Nú þætti mér fróðlegt að vita hjá hæstv. ráðh., hvernig er með þessar 3.3 millj. úr ríkissjóði. Ætlar hann að fara að innheimta þetta núna á Þessu ári? Í öðru lagi: Hvað er mikið af þessum 181/2 millj. kr., sem lánað var úr héruðum, sem greiða á á þessu ári eða réttara sagt á þessu sumri? Ég spyr að þessu til þess að fá að vita, hvað verður nú til ráðstöfunar. Hins vegar hefur mér skilizt á hæstv. ráðh., að vextir og afborganir af lánum verði ekki tekin af fjárveitingum þessa árs. Sé það svo, að vextir og afborganir af lánum, þ.e.a.s. lánum, sem ríkissjóður hefur tekið til vega, verði ekki tekin af þessu fé, en bráðabirgðalánin verði greidd, þá verða um 35 millj. til ráðstöfunar á árinu, 35 795 000. Verði hins vegar allt saman borgað, líka vextir og afborganir af lánum, þá yrðu ekki til ráðstöfunar nema 24 332 000. Ég er að vona, að það sé einhver misskilningur hjá mér í þessu, það geti ekki átt sér stað, að svo skerðist þessar 57 millj., sem eiga að fara til nýbyggingar vega.

Annars er það mjög áberandi, hvað árið í fyrra hefur verið frekt á fé til vega, þar sem bráðabirgðalán eru nú tæpar 22 millj. kr., það er kannske eitthvað af þessu frá 1962, en varla í stórum stíl, — 22 millj., þar sem engin stóráföll urðu á vegum, enda var veturinn þar áður mjög góður.

Hér hefur nokkuð borið á góma 10. gr. vegal., og greinir þá nokkuð á um skilning á þeirri gr., hæstv. ráðh, og hv. 1. Þm. Austf. og jafnframt hv. 5. þm. Austf. Ég skildi hæstv. ráðh. svo, og það munu hinir hv. þm. hafa gert líka, að það sé ætlunin að blanda ekki lántökum til vega inn í vegáætlun. Hann sagði þetta ótvírætt áðan. Hins vegar undirstrikaði hv. 1. þm. Austf. það, að hann hefði skilið 10. gr. vegal. á þá leið, að það bæri að taka upp í vegáætlun öll fjárframlög til vega, allar framkvæmdir og öll fjárframlög til vega. Á þetta benda orðin í 10. gr.: „Skal áætlunin annars vegar gera grein fyrir þeim framkvæmdum, sem fyrirhugaðar eru á tímabilinu, en hins vegar þeirri fjáröflun, sem gert er ráð fyrir vegna þeirra.“

Ég átti sæti í þeirri nefnd, sem fjallaði um vegalagafrv., og man það mjög glöggt, að þetta bar á góma og oftar en einu sinni, og ég man það áreiðanlega rétt, að það var oft tekið skýrt fram, að inn á vegáætlun ættu að koma allar vegaframkvæmdir og fjárframlög til þeirra. En það er líka til nokkur sönnun í þessu efni, og hún kemur fram í næstu grein á eftir, i 11. gr. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Í vegáætlun skulu taldir allir þjóðvegir svo og nýbyggingar þjóðvega á þeim tíma, sem áætluninni er ætlað að gilda.“ En þessari grein frv. var nefnilega breytt í meðferð n. til samkomulags við okkur stjórnarandstæðinga, sem þar áttum um að fjalla. Hún var nefnilega öðruvísi í frv. Í frv. hófst 11. gr. þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Vegagerð ríkisins semur vegáætlun fyrir þjóðvegi, aðalfjallvegi og fjallvegi til 5 ára í senn, til leiðbeiningar um skiptingu þess fjár, sem til ráðstöfunar er hverju sinni til vegagerðar. Skal áætlunin annars vegar gera grein fyrir þeim framkvæmdum, sem fyrirhugaðar eru á tímabilinu, en hins vegar þeim fjáröflunum, sem gert er ráð fyrir vegna þeirra: En nú hljóðar hún svona í l. eftir þá samninga, sem fóru fram í n.: „Í vegáætlun skulu taldir allir þjóðvegir svo og nýbyggingar þjóðvega á þeim tíma, sem áætluninni er ætlað að gilda.“ Hér er ekki um neitt að villast. Það eru bein fyrirmæli vegal., að allir vegir skuli koma inn í vegáætlunina ásamt þeim nýbyggingum, sem á að framkvæma á tímabilinu. Annars hefði greininni ekki verið breytt. Þetta var nefnilega eitt samkomulagsatriðið. Á því grundvallaðist samkomulagið m.a., að allar framkvæmdir til vega kæmu inn í vegáætlunina annars vegar og að allt vald á þessum framkvæmdum væri í höndum Alþ. Til þess var frv. breytt, og um þetta var fullt samkomulag milli allra aðila.

Hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni hér áðan, að í bráðabirgðaákvæðum vegal. væri sagt, að leggja skyldi fyrir Alþ. till. til bráðabirgðavegáætlunar, sem gildi fyrir árið 1964, og vildi líta svo á, að 10. gr. og 11. gr. tækju ekki til þessa ákvæðis. Vegáætlun er alveg eins vegáætlun, þó að hún sé ekki nema til eins árs. Það eru engin sérlagaákvæði um vegáætlun til eins árs önnur en til fjögurra ára. Hún er ekki til nema ein, skiptir engu máli, hvað lengi hún á að gilda á hverjum tíma. Ég held, að hér sé ekki um neitt að villast. Þetta var skilningur nefndarmanna, á þessu byggðist samkomulagið, og ég verð að lita svo á, að það sé ekki í samræmi við vegal., ef á að fara að tvískipta fjármagni til vegaframkvæmda í landinu, annars vegar það, sem vinna á fyrir lán og yrði þá væntanlega fyrst og fremst á valdi ríkisstj., hvernig hún ráðstafaði því, þvert ofan í það, sem segir í þessum greinum l., hins vegar þær fjárveitingar og þær framkvæmdir, sem eiga að koma inn í vegáætlun. Vegáætlun á ekki að vera nema ein, hún á að vera tæmandi, og um það var samkomulagið, sem gert var.