08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í D-deild Alþingistíðinda. (2515)

211. mál, vegáætlun 1964

Fram. (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Hinn 21. des. s.l. voru afgreidd frá Alþingi fjárlög fyrir árið 1964. Þar var m.a. ákveðið, að verja skyldi til nýrra akvega um 20.4 millj. kr., til greiðslu af vegalönum 10.4 millj. kr., til vegaviðhalds 70 millj., til millibyggðavega 7.1 millj., til samgöngubóta á landi 5.4 millj., til brúargerða 13.2 millj., til endurbygginga gamalla brúa 1.4 millj. og til sýsluvega 3.3 millj. kr. útgjöld til vegamála á 13. gr. Á voru talin samtals um 139.4 millj., en voru á fjárl. 1963 121.6 millj. kr. Ástæðan fyrir því, að fénu var ekki deilt niður, eins og áður hafði verið, er sú, að ákveðin hafði þá verið ný skipan vegamálanna og stórfelld ný fjáröflun til þess að standa undir framkvæmdum.

Daginn áður en Alþingi afgreiddi fjárlög samþykkti það ný vegalög. Með l. voru teknir upp nýir starfshættir, sem ég tel ekki ástæðu til að fjötyrða um, en vil þó minna á, að í 10. gr. nefndra l. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegamálastjóri semur till. að vegáætlun fyrir þjóðvegi, aðalfjallvegi og aðra fjallvegi til 4 ára í senn til leiðbeiningar um skiptingu þess fjár, sem til ráðstöfunar er hverju sinni. Skal áætlunin annars vegar gera grein fyrir þeim framkvæmdum, sem fyrirhugaðar eru á tímabilinu, en hins vegar þeirri fjáröflun, sem gert er ráð fyrir vegna þeirra.

Í 11. gr. segir:

„Í vegáætlun skulu taldir allir þjóðvegir svo og nýbyggingar þjóðvega á þeim tíma, sem áætluninni er ætlað að gilda. Enn fremur áætlaður kostnaður við vegaviðhald og annar kostnaður Vegagerðar ríkisins á sama tímabili. Í vegáætlun um nýbyggingar skal vera sundurliðuð áætlun um heildarkostnað hvers mannvirkis, kostnað þess á öllu áætlunartímabilinu og á hverju ári þess.“

Síðan segir í 12. gr., að í vegáætlun skuli þjóðvegum skipt í flokka eftir þeim reglum, sem taldar eru. Um málsmeðferðina fjallar 14. gr., en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Leggja skal fyrir sameinað Alþingi till. til þál. um vegáætlun samkv. 10. gr. samtímis frv. til fjárl. Sama gildir um till, til þál. um endurskoðun vegáætlunar, sbr. 15. gr. Vegáætlun öðlast gildi, þegar Alþingi hefur samþykkt hana.“

Þar sem enginn tími var til þeirrar meðferðar, sem i. gerðu ráð fyrir, voru sett í þau ákvæði til bráðabirgða, en þar segir:

„Svo fljótt sem auðið er eftir gildistöku laga þessara skal leggja fyrir Alþingi till. til bráðabirgðavegáætlunar, er gildi fyrir árið 1964. Framkvæmdaáætlanir fyrir sýsluvegi samkv. 17. gr. l. þessara skulu einnig gerðar til bráðabirgða fyrir árið 1964. Fyrir reglulegt Alþingi haustið 1964 skal leggja till. til vegáætlunar samkv. III. kafla l. þessara og nái hún yfir árin 1965-1968. Framkvæmdaáætlanir fyrir sýsluvegi 1965—1969 skulu gerðar fyrir 1. júní 1965. Enginn vegur skal falla úr þjóðvegatölu næstu 5 ár eftir gildistöku l. þessara, nema nýr vegur hafi komið í stað gamals.“

Með nýju vegal. er tekið upp það fyrirkomulag bæði við þjóðvegi og sýsluvegi, að unnið verði eftir áætlun, sem gerð er til 4 ára í senn, og ekki verði lengur bundið í vegal., hvaða vegir teljist þjóðvegir, heldur verði það ákveðið í vegáætlun hverju sinni innan þeirra marka, sem sett eru í l. Varla verður um það deilt, að öll vinnubrögð verða hagkvæmari, ef unnið er eftir áætlun og vinnustöðum fækkað. Á undanförnum árum hefur framkvæmdaliðum vegna vegagerðar fækkað á fjári., stærri verkefni verið tekin fyrir. Munu nú allir telja það rétta stefnu, sem dregið hafi verulega úr kostnaði við einstakar framkvæmdir.

Hinn 14. apríl s.l. var lögð fram hér á hv. Alþingi till. til þál. um vegáætlun fyrir árið 1964, og var till. vísað til fjvn. tveimur dögum síðar. N. hefur rætt till. á mörgum fundum, og hefur vegamálastjóri setið suma þeirra, en hann skilaði strax ýtarlegum till. til n. varðandi gjaldahlið áætlunarinnar. N. stendur sameiginlega að áliti á þskj. 580, en einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til að flytja og fylgja brtt., sem fram kunna að koma.

Ég vil upplýsa, að fulltrúar Framsfl. og Alþb. í n. héldu því fram, að samkv. 10. og 11. gr. vegal. ætti nú að taka á vegáætlun framkvæmdir þær í vegamálum, sem gera ætti fyrir lánsfé, og lögðu áherzlu á, að það yrði gert við næstu vegáætlun. Yrði horfið að því fyrirkomulagi, munu væntanlegar lántökur að sjálfsögðu koma inn á tekjuhlið till. á móti gjöldum.

I. kafli vegáætlunar fjallar um tekjurnar, þ.e.a.s. þar er gerð grein fyrir fjáröfluninni, sem standa á undir kostnaði við vega- og brúargerðir. Tekjuliðirnir eru fjórir: 1) Benzíntekjur eru samtals áætlaðar 154 millj. kr., en þar af eru óráðstafaðar tekjur brúasjóðs frá 1963 9.8 millj. og óráðstafaðar tekjur vegasjóðs frá sama ári 3.7 millj. kr. 2) Gúmmígjald er áætlað 10 millj. 3) Þungaskattur 31 millj. 4) Ríkisframlag samkv. 89. gr. vegal. 47.1 millj. í 89. gr. vegal. er gert ráð fyrir, að auk þeirrar fjáröflunar til vegamála, sem vegal. tryggja, skuli árlega veita sérstakt framlag úr ríkissjóði til vegamála. Í þáltill. um vegáætlun fyrir 1964 er gert ráð fyrir, að framlag þetta nemi, eins og ég gat um áðan, 47.1 millj. kr. árið 1964. og er það í samræmi við það, sem gert var ráð fyrir í frv. því til vegalaga, sem samþykkt var á yfirstandandi Alþingi, sbr. bls. 40 í frv. og skýringar við 96. gr. þess. Svo sem þar er rakið, er upphæð þessi talin vera jöfn hagnaði ríkissjóðs við kerfisbreytingu þá, sem nýju vegal. fylgir, miðað við það, sem áður var. Samkv. útreikningum vegalaganefndar, sem hún kveður byggða á áætlunum Efnahagsstofnunarinnar um benzínsölu og aðra tekjustofna, nema þær tekjur, sem ríkissjóður áður hafði, en missir við nýju vegal., samtals 92.2 millj. kr. árið 1964. Er þar um að ræða 114 aura gjald pr. lítra af benzínskatti, sem áætlaður er af Efnahagsstofnun og vegalaganefnd 64.5 millj. árið 1964, gúmmígjald 6.7 millj. og þungaskattur 10 millj. kr. Gjöld þau, sem ríkissjóður hefur áður greitt samkv. fjári., en verða nú greidd með því fé, sem vegamálin fá samkv. hinum nýju vegal., nemur í fjárlagafrv. fyrir árið 1964 139.3 millj. kr. Mismunur er því 47.1 millj. kr., og skyldi gengið út frá þeirri tölu sem framlagi úr ríkissjóði. Samtals nema tekjurnar 242.1 millj. kr. Í aths. við þáltill., á bls. 33 og 34, eru tekjuliðir þessir rökstuddir. Efnahagsmálastofnunin mun ásamt vegamálastjóra hafa unnið að þessum áætlunum. Fjvn. flytur engar brtt. við nefnda tekjuáætlun.

II. kafli vegáætlunar fjallar um skiptingu útgjalda. Við 1. útgjaldalið, stjórn og undirbúning vegamála, flytur n. engar brtt. Við 2. útgjaldalið, viðhald þjóðvega, flytur n. þá brtt., að viðhaldskostnaður þjóðvega lækki um 5 millj. kr., verði þannig 80 millj. N. leggur til, að þessu fé verði varið til nýbyggingar vega og brúa. 3. útgjaldaliður fjallar um framlög til nýrra þjóðvega. Skiptist hann í þrennt: til hraðbrauta, til þjóðbrauta og til landsbrauta. Við skiptingu vegafjárins hafði n. samráð við þm. hinna einstöku kjördæma. Ræddu þeir skiptinguna á fundum sínum, og má segja, að n. hafi tekið till. þeirra um skiptingu upp sem sinar till. að langsamlega mestu leyti. þm. hafa haft till. vegamálastjóra til hliðsjónar.

Framlag til hraðbrauta er áætlað í till. 10 millj. kr. og leggur n. til samkv. till. vegamálastjóra, að upphæðin deilist þannig: Reykjanesbraut 6 millj. 778 Þús., Þrengslavegur 3 millj. 227 þús. kr. Sá hluti Reykjanesbrautar, sem byrjað var á að endurbyggja haustið 1960, liggur norðan frá Hafnarfirði að bæjarmörkum Keflavíkur og mun verða alls nálægt 38 km langur. Um s.l. áramót var búið að fullgera um 14.8 km af veginum með varanlegu slitlagi og undirbyggja að mestu 7.4 km til viðbótar. Kostnaður við þessar framkvæmdir frá byrjun mun vera nálægt 100 millj. kr. Fjár til framkvæmda hefur verið aflað með lánum, og einnig hefur fengizt um 5.6 millj. framlag frá varnarliðinu. Afborganir og vextir af föstum lánum verða í ár 6 millj. 778 þús. kr. eða sama upphæð og tekin er upp í vegáætlun. Miðað við fjárveitingu 3.2 millj. kr. til Þrengslavegar, verður handbært fé til framkvæmda á árinu 1.7 millj. kr., sem varið verður til þess að fullgera undirbyggingu vegarins.

Samkv. vegáætlun verða þjóðbrautir alls 2857 km eða um 31% af þjóðvegakerfinu öllu. Lagt var til í vegáætlun, að framlag til þjóðbrauta næmi samtals 23 millj. kr. N. leggur til hækkun um 1 millj. 730 þús. og verði þannig varið samtals til þjóðbrautanna 24 millj. 730 þús. kr., sem skiptist á þá vegi, sem taldir eru upp á þskj. 586. Við þessa skiptingu er stuðzt við till, vegamálastjóra. Eins og fram kemur í grg. vegamálastjóra, eru þessir vegir meginkjarninn í vegakerfi okkar, þ.e. Vesturlandsvegur, Vestfjarðavegur, Norðurlandsvegur, Austurlandsvegur og Suðurlandsvegur. Til þessara vega námu fjárveitingar á s.l. ári nálægt 5 millj. kr., en eru nú um það bil tvöfaldaðar samkv. vegáætluninni. Ég vil taka það fram, að till. vegamálastjóra fylgdu tölulegar upplýsingar um einstaka vegi og m.a. um skuldir, sem á þeim hvíldu. En ég tel ekki ástæðu til að rekja þessar upplýsingar, þar sem þm. geta að sjálfsögðu kynnt sér þær hjá n., ef þeir óska eftir.

Samkv. vegáætlun verða landsbrautir alls 6275 km eða 68% af þjóðvegakerfinu öllu. Lagt er til í vegáætlun, að framlag til landsbrauta nemi samtals 24 millj. 595 þús. kr. N. leggur til hækkun um 2 millj. 565 þús. kr. og liðurinn verði þannig 27 millj. 160 þús. kr., sem deilist niður á vegi eins og tilgreint er á þskj. 586. Við þessa skiptingu er einnig að miklu leyti farið eftir till. vegamálastjóra. Í grg., sem hann lagði fyrir n., segir m. a.:

„Samkvæmt framangreindri skiptingu fær hvert kjördæmi sama hundraðshluta af heildarupphæðinni til landsbrauta og það hefur haft undanfarin ár af heildarupphæðinni til nýrra þjóðvega á 13. gr. Á í fjárl. Þessi hlutföll þarf þó að endurskoða fyrir vegáætlun 1965—1968.“

Við skiptingu n. hafa tilgreind hlutföll nokkuð raskazt, enda mjög óeðlilegt að halda þeim óbreyttum frá ári til árs, sbr. orð vegamálastjóra um nauðsyn endurskoðunar, sem ég vil fyrir mitt leyti taka undir.

4. útgjaldaliður fjallar um fjárveitingar til fjallvega, reiðvega og til ferjuhalds. Samkv. áætlun eru aðalfjallvegir 444 km að lengd og lagt til að veita til þeirra samtals 1.3 millj. kr., sem fjvn. gerir till. um að skiptist þannig: Kaldadalsvegur 80 þús., Kjalvegur 130 þús., Sprengisandsleið 1 millj., Fjallabaksvegur nyrðri 90 þús. Um Kaldadalsveg upplýsir vegamálastjóri, að vegur þessi sé 37 km langur ruðningsvegur, æði fjölfarinn að sumarlagi. Upphæðin er eingöngu ætluð til lágmarksviðhalds. Kjalvegur er alls 164 km langur og fjölfarinn að sumarlagi, einkum inn á Hveravelli. Fjárframlagið er eingöngu til viðhalds. Leiðin um Sprengisand er 291 km á lengd. M.a. vegna kláfferju á Tungnaá hjá Haldi er nauðsynlegt að verja til þessa vegar 1 millj. kr., og færu þá 100 þús. til merkinga á leiðinni. Fjallabaksleið nyrðri er 116 km að lengd, og fer greind fjárveiting til viðhalds leiðarinnar. Til annarra fjallvega, þ.e.a.s. þeirra, sem ekki verða þjóðvegir eða aðalfjallvegir samkv. vegáætlun, er lagt til að veita 800 þús., og skiptir ráðh. þeirri upphæð. Til reiðvega fara 200 þús. og til ferjuhalds 15 þús. kr. Samtals nemur þá fjárveiting samkv. 4. útgjaldalið vegáætlunar 2 millj. 315 þús. kr.

5. útgjaldaliður vegáætlunar fjallar um brúargerðir, og skiptist hann í þrennt: Í fyrsta lagi: til stórbrúa er lagt til að veita 13 millj. og því verði varið á sama hátt og fé brúasjóðs áður, eins og fram er tekið í grg. Fjvn. leggur til, að fé þessu verði skipt á brýr, sem taldar eru upp á þskj. 586. Í þessari skiptingu er alveg farið eftir till. vegamálastjóra. Í öðru lagi: til brúa, sem eru 10 m og lengri, er lagt til að verja 12 millj. kr. Fjvn. leggur til 705 þús. kr. hækkun. Á þskj. 586 eru þær brýr taldar upp, sem fjárveitingu fá samkv. till. n. Í þriðja lagi er lagt til að verja til smábrúa, þ.e.a.s. brúa, sem eru 4-9 m að lengd, 6 millj. kr. Af þessari upphæð ganga 2 millj. til greiðslu kostnaðar við smábrýr, sem byggðar voru á s.l. ári gegn væntanlegri fjárveitingu í ár. Gert er ráð fyrir, að smábrúafé verði skipt af ráðh., svo sem verið hefur, enda ekki fært að skipta þessu fé, fyrr en sýslufundir hafa verið haldnir og till. þeirra um smábrýr hafa verið athugaðar.

6. útgjaldaliður er framlag til sýsluvegasjóða, og er það áætlað 10 millj. kr. Byggist gjaldið á ákvæðum IV. kafla vegal., um sýsluvegi, en þar er í 21. gr. kveðið á um gjaldskyldu hreppsfélaga til sýsluvegasjóða og í 28. gr. í. um mótframlag af tekjum vegamála, en þar segir, að veita skuli til sýsluvega upphæð, sem sé eigi lægri en tvöföld heildarupphæð innheimtra sýsluvegasjóðsgjalda um allt land næsta ár á undan því ári, er fjárlög eru samin.

7. útgjaldaliðurinn fjallar um framlag til vega í kaupstöðum og kauptúnum. Er það áætlað 32 262 500 kr., en í 32. gr. vegal. er tekið fram, að veita skuli árlega ákveðna fjárhæð til lagningar þjóðvega i kaupstöðum og kauptúnum, sem hafa 300 íbúa eða fleiri, og skal skipting fjárins fara eftir íbúafjölda. Skal árlegt framlag vera 12 1/2% af heildartekjum vegamála það ár samkv. XIV. kafla l. Varðandi þennan lið má visa til útreikninga í grg. á bls. 38 og 39.

8. útgjaldaliðurinn er um fjárveitingu til véla- og áhaldakaupa, 11 millj. 200 þús. í grg. með till. á bls. 39 eru ýtarlegar upplýsingar um þennan útgjaldalið, sem m.a. sýna, að nú er ætlunin að stórauka fjárveitingar í þessar þarfir.

Eins og fram kemur í nál., flytur fjvn. engar till. varðandi útgjaldaliði 6-12, og sé ég því ekki ástæðu til að ræða þá nánar.

Með vegáætluninni fyrir yfirstandandi ár hefur mikið verk verið unnið. Grundvöllur áætlunarinnar er nýju vegal., sem samþykkt voru hér á hv. Alþingi 20. des. s.l. Síðan hefur vegamálastjóri og starfslið hans unnið að áætlunargerðinni. Eins og bent hefur verið á, munu vegamálin í heild koma til endurskoðunar, áður en vegáætlun fyrir 1965-1968 verður lögð fram. Þá verður unnt að byggja á fenginni reynslu og leiðrétta annmarka, sem fram kunna að koma, m.a. varðandi flokkun vega og margt annað. Mestu máli skiptir, að með nýju vegal. hafa stórauknar tekjur verið tryggðar, og munu allir landsmenn fagna því átaki. Þá má einnig ganga út frá því, að eftirleiðis verði unnið að vega- og brúargerðum með hagkvæmara móti en áður var, þar sem hægt verði að taka fyrir stærri verkefni og ljúka þeim á tiltölulega skömmum tíma. Reynslan mun eiga eftir að sýna, að verulegur sparnaður fæst með slíkum vinnubrögðum.

Æskilegt hefði verið, að fjvn. hefði haft lengri tíma til þess að athuga vegáætlunina, þar sem um allflókið mál er að ræða, a.m.k. þegar það er í fyrsta skipti lagt fram hér á hv. Alþingi, en við það verður að sitja.

Ég vil svo að lokum þakka vegamálastjóra og ráðuneytisstjóranum í samgmrn. fyrir ágætt samstarf og meðnm. mínum öllum. Góð samvinna við þá hefur mjög orðið til þess að auðvelda afgreiðslu málsins í nefndinni.