08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í D-deild Alþingistíðinda. (2525)

211. mál, vegáætlun 1964

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi segja í sambandi við vegáætlunina, sem nú er verið að ljúka umr. um. Strákaveginn þarf ég ekki að gera að umtalsefni, þar sem hv. 4. þm. Norðurl. v. hefur skýrt það mál rækilega, og ég ætla ekki heldur að fara í orðakast við hv. 5. landsk. þm. (RA). Ég minnist þess, að ég gerði það dálitið á fundi á Siglufirði í vor, og man nú, hvernig hv. þm. bar sig þá, þegar deilt var, og málflutningur hans hér áðan var með líkum hætti og á þeim fyrrnefnda fundi.

Hv. þm. segir t.d., að ég hafi komið norður á Siglufjörð og slegið um mig með loforðum um Strákaveginn. En ég var nú að fletta upp í Þjóðviljanum, hvað hann sagði um þennan fund. Þjóðviljinn segir 18. maí 1963 sem frétt af þessum fundi, að samgmrh. hafi talað í 70 mínútur, en ekki minnzt á Strákaveginn. Það var ekki vegna þess, að ég vildi ekki kannast við þjóðhagsáætlunina, sem gerð var, og það loforð, sem í henni fólst, það var ekki vegna þess, heldur vegna þess, að það var ástæðulaust að ræða um það, sem stóð þar svart á hvítu, enda gerði 4. þm. Norðurl. v. greinileg skil fyrir þessu máli. En þetta er bara dæmi upp á málflutning þessa hv. þm. og hvernig hann fer með heimildir. Annaðhvort veit þessi hv. þm. ekki, hvort hann er að segja satt eða rangt, eða honum er algerlega sama, og það er vissulega leiðinlegt, að ungur hv. þm. skuli ekki reyna að temja sér síðsamari og betri málflutning en þetta. Ég vildi óska þess, að hann gæti lært eitthvað á því sviði og að það væri ekki rétt, sem hv. þm. Björn Pálsson hefur fullyrt, þegar hann hefur haft stærstu lýsingarorðin um þennan mann, því að ég óska honum alls ekki ills.

Ég hef hlustað á umr. um vegáætlunina, og mér finnst eðlilegt, að hv. þm. geri sér grein fyrir því, að það, sem vegáætlunin gerir ráð fyrir, er vitanlega undir engum kringumstæðum fullnægjandi til þess að mæta óskum þm. í kjördæmunum, því að þarfirnar eru vitanlega alls staðar miklar. Hitt er svo augljóst, að með þeirri vegáætlun, sem nú er verið að ræða um og á að staðfesta, er miklu meira fé til ráðstöfunar en áður, og það er vitanlega alveg dæmalaus málflutningur hjá hv. 10. landsk. þm. (GeirG), Þegar hann fullyrðir, að það sé ekki um neitt meira fé að ræða á þessu ári til framkvæmda en áður, af því að nú eigi að greiða skuldir, sem til var stofnað á s.l. ári, rétt eins og það hefði ekki þurft að greiða þessar skuldir, ef ekki hefðu verið ný vegalög og ef ekki hefði verið bætt við nýju fé. Ég veit ekki, fyrir hvern þessi hv. þm. var að tala, þegar hann segir, að það sé ekki aukið vegafé, vegna Þess að Það Þurfi að greiða skuldir. Skuldirnar hefði vitanlega Þurft að greiða, hvort sem við hefðum fengið ný vegalög eða ekki, Það er alveg augljóst mál. Og skuldir hefur þurft að greiða fyrr en nú, því að það var ekki í fyrsta skipti á árinu 1963, sem lán voru tekin til vegaframkvæmda, og það vildi ég segja við þessa umr., að það er ekki nauðsynlegt að greiða þessar skuldir að fullu á þessu ári. Það er örugglega hægt að komast að samkomulagi um það að greiða þær á tveimur og jafnvel þremur árum, ef héruðin óska eftir því að fá endurlánað. Ég vil, að þetta komi fram, og er þá lengra gengið nú heldur en áður, því að undanfarið hefur þurft að greiða þessar skuldir að fullu, en að vísu verið þá veitt lán að nýju, til þess að framkvæmdir yrðu ekki stöðvaðar. Þetta yrði vitanlega gert eftirleiðis einnig.

Hv. Þm. Geir Gunnarsson var að tala hér um Hafnarfjarðarveginn. Það er vitanlega alveg rétt, að Það er mikil nauðsyn á því að bæta úr því ófremdarástandi, sem er að skapast á þessari leið. Umferðarþunginn er svo mikill þarna, að einfaldur vegur annar því ekki. Það eru um 14 þús. bílar á dag. En nú er það svo, að í Kópavogi hefur ekki verið gerður skipulagsuppdráttur eða gengið frá skipulaginu, þannig að það er ekki unnt, hve mikið sem væri til af fjármunum, að vinna í Hafnarfjarðarveginum, vegna þess að það stendur á skipulaginu, og mér er tjáð, að það muni ekki vera mögulegt að vinna neitt þarna í sumar af þessum ástæðum. En ég held, að vegamálastjórnin hafi alveg fullan skilning á því, að það er brýn þörf á því að bæta úr þessu, og það hefur verið rætt um það, hvernig væri hægt að létta á umferðinni á Hafnarfjarðarveginum, hvort það væri hægt t.d. með því að fara fram hjá Kópavogi, fara leiðina úr Sogamýrinni og þvert yfir hæðina ofan við Kópavog og létta þannig á umferðinni að einhverju leyti og svo í framtíðinni að leggja veg úr Blesugrófinni að Setbergi. Það er vitanlega kostnaðarsamt að gera slíkt, en þannig mætti vitanlega létta mikið á umferðinni, og vitanlega verður Hafnarfjarðarvegur að vera endurbyggður og fá tvöfalda akbraut við fyrsta tækifæri. En ég vil aðeins út af þessum ummælum hv. þm. Geirs Gunnarssonar upplýsa, að það stendur á skipulaginu í Kópavogskaupstað, til þess að það sé hægt að nota það fé, sem hægt væri að láta í þessar framkvæmdir að þessu sinni.

Þá talaði þessi hv. þm. um, að það væri ekki rétt að vera að dreifa þessari 31 millj., sem er til gatnagerðar í kaupstöðum og kauptúnum, um allt land, heldur ætti að vinna á einum eða tveimur stöðum, til þess að það kæmi að sem fyllstum notum. Vegalögin eru nú svona eins og þingið hefur gengið frá þeim, og þar er gert ráð fyrir því, að þessu verði jafnað niður eftir vissum reglum, eins og l. ákveða, og víst erum það, að í öllum kaupstöðum og kauptúnum er mikil þörf á endurbótum gatna.

Hv. þm. gerði litið úr því, að það var hækkað um 5 millj. kr. til nýbyggingar vega, vegna þess að það væri tekið af því, sem ætlað var til viðhaldsins. En það var gert núna að þessu sinni, vegna þess að vegirnir eru óvenjulega góðir, þegar þeir koma undan vetrinum. Það er enginn klaki í vegunum núna, og það hefur sparazt mikið viðhaldsfé í vetur og vor, og aðeins þess vegna þótti fært að lækka viðhaldsfé frá því, sem vegamálastjóri gerði upphaflega ráð fyrir, og með tilliti til þess, að þá er vitanlega mjög sæmilega séð fyrir viðhaldsfé að þessu sinni.

Ég sé hér, að þrír hv. þm. úr Vestfjarðakjördæmi hafa flutt brtt., þar sem þeir leggja til, að hækkun til Vestfjarðakjördæmis verði 3.8 millj. kr. Ég get vel skilið það, að þessir hv. þm. óska eftir að fá meiri fjárveitingu í kjördæmið. En eins og þetta ber að, þá verður ekki hægt að segja, að það sé með eðlilegum hætti. Fjvn. hefur skilað sameiginlegu áliti og úthlutað öllu því fé, sem er til ráðstöfunar, og þess vegna er ekki um neitt fjármagn að ræða í þessu sambandi. Ég ætla ekki að ræða um það hér, hvort réttlátlega er úthlutað eða ekki. Ég geri ráð fyrir, að menn líti sitt hverjum augum á það. Ég hygg þó, að það hafi verið farið í það, eftir því sem menn bezt sáu, og að fyrir fram hafi hvorki vegamálastjóri né fjárveitinganefndarmenn viljað níðast á einu kjördæmi frekar en öðru. Ég vil alls ekki ætla það. Og 5 millj. kr., sem voru teknar af viðhaldsfénu til nýbygginga, voru vitanlega ætlaðar til þess að leiðrétta, ef mönnum þætti þörf á því. Ég vil undirstrika það, að fjvn. hefur skilað sameiginlegu áliti og úthlutað öllu fénu, og ég held, að það yrði ákaflega skrýtin afgreiðsla á þessu máli, ef nú væri farið að samþ. brtt. til stórfelldrar hækkunar fyrir eitt kjördæmi. Ég held, að það gæti orðið til þess að skapa mjög vafasamt fordæmi og gæti orðið til þess, að ýmsir héldu sem svo, að það væri til lítils að gera samkomulag í n., en það er það, sem við alþm. verðum að kappkosta, að standa við það samkomulag, sem við höfum gert hverju sinni, hvort sem við erum ánægðir með það eða ekki. Ef við temjum okkur þá reglu, þá a.m.k. greiðir það áreiðanlega fyrir því að leysa ýmsa erfiða hnúta, sem oft koma upp í þinginu. Og mig undrar vitanlega ekkert, þótt einstakir þm. séu óánægðir eða misjafnlega ánægðir með það, sem þeir hafa fengið. En ég lít svo á, að hv. fjvn. hafi komið sér saman um eina till. í þessu og hún hafi jafnað metin a.m.k. að nokkru með þeim 5 millj., sem teknar voru af viðhaldsfénu, og ég hafði vonað, að hv. þm. gætu eftir atvikum sætt sig við þessa till., sérstaklega með tilliti til þess, að það er nú ekki nema fyrir eitt ár og aðstaða er þá í haust til þess að leitast við að rétta hlut sinn fyrir þá, sem telja sig hafa orðið að fara halloka að þessu sinni.

Það hefur verið tekið fram við þessa umr., að það hafi verið mikið verk að undirbúa þessa fyrstu vegáætlun, og það er sannleikur. Það væri þess vegna ekkert undarlegt, þótt þessi vegáætlun bæri með sér að einhverju leyti, að hún er frumsmíð. Ég ætla þó, að vankantarnir á henni séu minni en ætla hefði mátt, með því að þetta er fyrsta áætlun, sem gerð er eftir nýju vegalögunum, og það er enginn vafi á því, að vegamálastjóri og starfslið hans hefur lært mikið á því að gera þessa fyrstu áætlun og er miklu færara um að gera næstu áætlun, vegna þess að það hefur smíðað þessa.

Það hefur verið talað um, að lánsfé ætti að koma fram í vegáætluninni. Það má vel vera, að það sé eðlilegt. Það er þó vafasamt, að það sé skylt skv. lögunum. En ég segi: jafnvel þótt það sé ekki, þá gæti ég fallizt á, að það væri eðlilegt, að það kæmi fram í vegáætluninni, hvað ætti að vinna fyrir lánsfé og hvernig þetta lánsfé ætti að greiðast. Ég tel, að það sé eðlilegt, þegar gerð er áætlun til fjögurra ára, hvað sem lögin kunna um það að segja, því að það er þó alltaf heimilt að gera svo.

Ég vil svo að lokum þakka fjvn. fyrir það, að hún hefur komið sér saman um þessa áætlun, og mér er kunnugt um það, að einstakir nm. hafa teygt sig til samkomulags, slegið af, eins og þar stendur, til þess að ná samkomulagi, og formaður fjvn., hv. alþm. Jónas G. Rafnar, hefur lagt sig fram til þess að ná samkomulagi og notað til þess þá lipurð, sem honum er lagin.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Ég tel, að flest af því, sem hér hefur komið fram í umr., sé eðlilegt og það sé skiljanlegt, að hv. þm. vilji fá meira en kostur er á skv. þessu. En allir erum við nú sammáta um að athuguðu máli, að við höfum meira fé til ráðstöfunar og það er stefnt í rétta átt með því, sem hefur verið gert, með því að fá ný vegalög og með þeirri vegáætlun, sem hér liggur fyrir.