08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í D-deild Alþingistíðinda. (2531)

211. mál, vegáætlun 1964

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég skal ekki halda langa ræðu. Ég var ofur lítið hissa á þessari miklu ræðu, sem hv. 5. þm. Vestf. hélt áðan. Hann er reyndari þm. en ég, hefur meiri reynslu í þessum efnum, en mín reynsla er sú, að eftir að mál eru komin úr n., þýði lítið að vera með mjög mikinn hávaða hér í pontunni. Ég álít, að yfirsjón þessa hv. þm. hafi legið í því, að hann hafi ekki fylgzt nógu vel með úthlutuninni, þegar vegamálastjóri var að gera áætlunina. Það þýðir ekki annað en vakna á morgnana og fylgjast með því, sem gerist fyrri part dagsins. í öðru lagi átti hv. þm. að fylgjast með þessu í n. og reyna að fá það lagað þar. Í þriðja lagi var ekki til neins að koma hér upp í pontu og óskapast þar yfir þessu. Sannleikurinn er sá, að ég býst við, að það mætti skamma þessa hæstv. ríkisstj. fyrir margt fleira. jafnvel flest eða allt, meira en þessa vegafjárskiptingu. Við höfum þetta fé. Er ástæða til að ætla, að bað verði meira en þetta? Ef það er, eiga þær raddir að heyrast. Ef það er ekki, er að deila um skiptinguna. Í raun og veru er lítil von til þess og í sjálfu sér ekki eðlilegt, að farið sé að taka meira fé úr ríkissjóði en áætlað var á fjárl. Það er ekki við því að bítast. Þá erum það að deila: Á að taka þetta frá einhverjum öðrum og láta hinn hafa það ? Ég efast ekkert um þörfina fyrir Vestfirði að fá meira vegafé, og það eru víða þarfir, en það verður ekki gert allt á einu ári, og ég álít, að menn verði að sakast við sjálfa sig að fylgjast ekki í tíma með úthlutuninni.

Ég hef ekki verið með hávaða eða rifrildi hér út af vegafé eða brúafé í Austur-Húnavatnssýslu. Ég átti enga brú að fá þar og hef ekki haldið neina ræðu hér í pontunni, en nú hef ég von um tvær brýr. Þetta gerðist allt þegjandi og hljóðalaust. Það er ekki von, að vel gangi, þegar menn standa hér uppi í pontunni og skamma starfsfélaga sína og þm. úr sama kjördæmi í von um einhver atkv., í staðinn fyrir að hjálpa hver öðrum að leysa hlutina. Þetta er eins og hver önnur vitleysa. Við höfum þetta ekki svona í Norðurl. v., nema bara drengurinn, hann er dálítið hortugur. Við vinnum saman og erum ekki með neinn hávaða og erum ekki að rægja hver annan að drengnum undanskildum.

Og af því tekst okkur að leysa hlutina og erum ekkert að þessu. Svo skiptum við atkv. í bróðerni á milli okkar. Jón Þorsteinsson lýsti því yfir, og ég veit, að hann stendur við það, á Sauðárkróksfundinum síðast og því var útvarpað um Skagafjörðinn, að hann gæti ekki hugsað til að vera á Alþingi, ef ég væri þar ekki. Svona eiga menn að haga sér, en ekki vera að rífast og skammast og rægja hver annan, vinna heiðarlega og skynsamlega að nauðsynjamálum hvers kjördæmis. Það er ekki von, að vel gangi, þegar menn láta svona.

Þá kem ég nú að drengnum. Mér var sendur þessi piltur af Einari Olgeirssyni, og það kemur fyrir beztu menn, að þeim eru sendir draugar. Þetta kemur af öfund, illgirni og ýmsum eiginleikum, sem menn bera í brjósti. Ég verð nú að segja það, að mér líkaði ekki ræða hans, ekki það, að hann var nógu hávaðasamur að tala með Strákaveg, þessi hv. uppbótarþm., hvaða númer er hann nú aftur? 5. landsk., en það var nefnilega vitleysa. Ég efast nú um, að drengurinn hafi mikinn áhuga fyrir atvinnumálum í Norðurl. v. Hann hefur ekki lengi dvalizt þar, en mikið amlað. Hann var á Siglufirði í sumar, pilturinn, og ég spurði einhvern félagann, hvort hann hefði ekki verið duglegur. Ekki fór nú óskaplega mikið fyrir því, enda var lítið að gera á Siglufirði. En hann datt í sjóinn, það var það eina sögulega, og var dreginn upp. Ég er nú lítill sundgarpur, en mér hefði þótt skömm að láta draga mig úr vatninu, ég hefði buslað upp úr fjörunni heldur en láta draga mig upp á bryggju. Þetta kom í Mjölni og Þjóðviljanum, þetta afrek. Hann drukknaði ekki þarna við bryggjuna. Jæja, en hann fær þennan eldlega áhuga fyrir Norðurl. v., er sendur þangað norður, búsettur á Sigló, er nú raunar hér með heimili, en fær fæðispeninga eins og fleiri góðir menn samt, sem eru nýfluttir út á landið, — en ekkert með það . Hann er búinn að fá þennan eldlega áhuga fyrir öllum atvinnumálum hjá okkur. Lítið hefur hann samt fengizt við þau, blessaður, baslað fyrir því að afla brauðs fyrir fátæka verkamenn þarna í þessu kjördæmi. En hann hefur vit á öllu, þessi ungi maður. Ég held, að hann hafi komið með þáltill. um það að búa til þaramjölsverksmiðju á Skagaströnd. Mér datt nú í hug, hvar hann ætlaði að taka þara, hvort hann ætlaði sjálfur að sækja hann út á sjóinn, því að það er eiginlega enginn þari þarna, og væri þá miklu eðlilegra að hafa þaramjölsverksmiðju þar, sem væri mikil fjara og hægt að ná í mikinn þara, heldur en þar sem enginn þari er. (RA: Ég hef enga slíka till. flutt.) Er það ekki? (RA: Nei.) Nú, það var skrifað um þetta í blað, þú skrifaðir a.m.k. um þetta í Mjölni, það var ábyggilegt. Annað var að stofna bankaútibú á Sauðárkróki, og þar narraði hann vin minn hv., Jón Þorsteinsson, ég man nú ekki, hann er uppbótarþm. líka, — þ.e. 9. landsk., — til að vera með sér. Ekki átti nú Landsbankinn samt að gleypa sparisjóðinn, heldur bara koma með svona 20–30 millj., það þarf, til þess að útibúið beri sig, og stofna þarna bankaútibú. Svo var nú það. Við, sem þekkjum þennan ágæta banka dálítið, vitum, að hann flytur ekki klyfjaðar kistur af seðlum út á landsbyggðina, þó að hann sé ávarpaður einu sinni í þinginu af ungum manni, en það er nú aukaatriði. En hann hefur þennan brennandi áhuga. En það, sem ég er óánægður við þennan hv. þm. fyrir, er að tala ekki á móti Strákaveginum. Þá væri von til, að honum yrði hraðað, en að vera að tala með honum, það yfirtók allt, því að tal í þessum tón með máli er til að spilla fyrir því, það skilja allir lífandi menn. En hitt er, að mér er annt um þennan dreng og lít á hann sem nokkurs konar fósturson minn, og tilfellið er, að honum er orðið betur við mig en flesta aðra, og kærleikar okkar eiga eftir að verða miklu meiri en þeir eru nú. En ég vil bara koma honum í skilning um, að hann er ekki orðinn neinn spekingur. Það getur skeð, að hann verði sæmilega vitiborinn, en hann er það ekki enn þá. Hann hefur ekki vit á neinu enn sem komið er nema bara stóryrðum og hávaða, sem ekki er eðlilegt, drengurinn hefur enga reynslu. Þegar hann var nýfermdur, fór hann í skóla hlá Einari Olgeirssyni, lærði þar kommúnistafræði, pjakkaði um landsbyggðina og talaði um helsprengjur og herinn ætti að fara, eldheitur ættjarðarvinur. Svo var hann nú sendur þarna norður til að kála mér, fór um kjördæmið og fullyrti, að ég væri fallinn, og svo fór það nú öðruvísi en ætlað var. En mér er annt um piltinn, og ég vil, að hann vitkist, og þá getur hann orðið bara dágóður, og svo ef hann færi að vinna, t.d. að draga þorsk úr sjó og hirti kindur einn vetur og væri fjósamaður annan vetur, þá færi honum að aukast vit og þekking og ekki sízt, ef hann ynni t.d. í banka einn vetur, t.d. Landsbankanum, og vissi, hvað þeir væru áhugasamir að koma peningunum út á landsbyggðina. Þetta skapaði allt reynslu og þekkingu.

Ég veit, að við þurfum miklu meira vegafé og miklu fleiri brýr. En það verður bara ekki allt gert í einu, og ég held, að það sé ekki til neins að koma hér upp, þegar búið er að ráðstafa þessu fé, og deila mikið um það. Það verður þá að taka það af einhverjum öðrum. Um að gera er að fylgjast með þessu í tíma, og ef einhver er órétti beittur, þá að benda þessum mönnum, sem vinna að úthlutuninni, fyrst og fremst vegamálastjóra eða n., sem hefur með þetta að gera, á, að þetta sé ekki réttlátt. En það er ekki til neins að koma með einhverjar hækkunartill. og segla ekki, hvar eigi að taka peningana, því að við getum ekki búizt við því, að það verði neinar sérstakar aukafjárveitingar hér. Ég er ekki í neinum vafa um það, að Vestfirðir og Austfirðir eru illa settir með vegasamband, og þar er landslagið þannig, að það er ákaflega erfitt að halda vegum opnum og raunar ómögulegt á mörgum tímum, það er yfir heiðar og fjallvegi að fara, og þá verður að nota skipin. En það er ekki af því, að ég efist um, að þessir menn, sem að þessu vinna, vilji vel og reyni að gera sitt bezta. En við, sem til þekkjum, verðum bara að taka hluti í tíma, benda þeim, sem með þessi mál hafa að gera, á, að þetta sé ekki sanngjarnt og ekki rétt. En það er of seint að koma, þegar búið er að ákveða hlutina, og deila þá um þá.