08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í D-deild Alþingistíðinda. (2532)

211. mál, vegáætlun 1964

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Hv. þm. hafa rætt nokkuð um vegamálin. Það er að vonum. Samgöngurnar eru í vaxandi mæli lífæð hvers byggðarlags. Hv. þingmenn Vestf. nokkrir og hv. 1. þm. Austf, hafa bent á sérstöðu þá, sem Vestfirðir og Austfirðir hafa í vegamálunum. Ég vil leyfa mér að árétta þau ummæli með örfáum orðum.

Á löngu árabili höfðu fjárveitingarnar til vegamála til gömlu kjördæmanna haldizt í mjög líku hlutfalli, og það virtist ákaflega erfitt að fá því hlutfalli breytt. Það var löngum svo á þessu árabili að vísu, að hæstar fjárveitingar í einstakar sýslur voru til sýslnanna á Austurlandi og Vestfjörðum, t.d. Múlasýslna og Barðastrandarsýslu. En engu að síður hallaði í rauninni undan fæti hlutfallslega fyrir þessi héruð vegna þeirra gífurlegu erfiðleika, sem þar mæta vegagerðinni, og þeirra miklu vegalengda, sem þar er við að glíma. Eins og ég sagði, voru hlutföllin milli gömlu kjördæmanna í ákaflega föstum skorðum, og virtist erfitt að hnika nokkru til. Nú eru spilin stokkuð upp. Það er gert æðistórt átak í þessum málum, og þá hafði maður vænzt þess, að unnt yrði að mæta þörfum þeirra verst settu að nokkru. En þá kemur það á daginn, þegar málið er nú lagt fyrir þing eftir svo ýtarlegan undirbúning sem tök voru á á þeim tíma, sem til umráða var, að hlutfall hinna verst settu landshluta hefur versnað, en ekki batnað. Það hefur versnað og það svo, að um munar. Þetta er í rauninni alveg óviðunandi, og þá gildir það einu, hvort litið er á þær tölur, sem hér hafa verið birtar í umr. Í dag um lengd ólagðra vega, fjölda óbyggðra brúa í hinum ýmsu landshlutum, — það gildir einu, hvort litið er á þessar tölulegu staðreyndir eða á hitt, ástandið eins og það er raunverulega í hverri sveit og eins og þeir þekkja það, sem eru þar staðkunnugir.

Ég ætla að leyfa mér að bregða upp myndum til þess að sýna, hvernig ástandið er í raun og veru á Austurlandi í þessum sökum. Strandbyggðin frá Borgarfirði suður til Eskifjarðar, sveitabyggðin á þessu svæði, er nánast alveg eydd. Þessi héruð hafa vegna legu sinnar og fámennis orðið síðust í röð um vegina og með þessum afleiðingum, því að vissulega er það m.a. og ekki sízt samgönguleysið, sem þessu veldur. Á allt öðrum stað, við allt aðrar aðstæður uppi á Fljótsdalshéraði er ein frjósamasta sveitin, Hróarstunga, mjög illa sett í þessum efnum. Víða eru vegirnir þar algerlega malarlausar og niðurgrafnar moldargötur, þó að einnig megi þar finna nýja og betri vegarkafla. Þarna hagar svo til, að fremur erfitt erum sauðfjárrækt, en ræktanlegt land er mikið, og þetta er sérstaklega heppileg sveit til mjólkurframleiðslu, en vegleysið hindrar vöxt hennar. Það hefur eðlilega verið unnið meira að vegum fyrir þéttbýlustu staðina austur þar, eins og venja er, en einnig þar eru verkefnin ákaflega brýn. Neskaupstaður, fjölmennasta byggðarlagið, býr við þannig vegasamband, að á venjulegum vetrum er nær óhugsandi að halda þar opnum vegi hálft árið. Þar biður það verkefni að gera jarðgöng undir eggina á Oddsskarði. Mundi sú framkvæmd leysa vegaþörf Neskaupstaðar. í snjóavetrum er að vísu ekki unnt að halda þar neinum vegum opnum, en eftir að göng væru komin gegnum fjallseggina, yrði þarna ævinlega fær snjóbílsleið. Ég nefni annað byggðarlag þarna við sjávarsíðuna, Fáskrúðsfjörð. Það hefur mikið verið unnið að vegi þangað báðum megin við Staðarskarð, en enn þá er notazt við gamlan veg yfir skarðið, sem er hinn mesti tröllavegur. Hefur ekki reynzt unnt að byrja á því, sem þegar er áformað, nýjum vegi út fyrir Vattarnes. Þá má enn nefna það, að vegaviðhaldið á Fljótsdalshéraði hefur verið með þeim endemum hin síðustu árin, að aðalvegir þeir, sem næst liggja miðpunkti, svo sem Eiðavegurinn og fleiri og fleiri, verða svo gersamlega ófærir í aurbleytum á vorin, að bændur koma jafnvel ekki einu sinni traktorum sínum um vegina, heldur eru þess dæmi, að það hafi þurft að nota jarðýtur á auðum vegi til þess að koma mjólkinni. Ég skal láta þessi dæmi nægja til þess að sýna, hversu þörfin er brýn.

Nú er mikið aukið fjármagn til veganna og gerð stór átök. En fyrsti áfanginn á þeirri braut er ekki glæsilegur fyrir Austfirði og Vestfirði, því að hlutfall þeirra versnar enn. Eftir því sem ég bezt fæ séð, er ekki hægt að byrja á neinum nýjum verkefnum, t.d. á Austurlandi, og margir vegir þar, sem væri mjög brýn nauðsyn á að sinna verulega, þeir hafa ekki fengið hækkun sem nokkru nemur í hinum nýju tillögum.

Menn fagna því vitanlega, að mjög veruleg aukning verður nú á fjárveitingum til veganna — í krónutölu. Að vísu hefur verðbólgan séð fyrir nokkrum hluta af þeirri hækkun fyrir fram, og þeir landshlutar, sem hallastir standa, Austfirðir og Vestfirðir, fá verra hlutfall en áður, eins og ég hef tekið fram.

Það virðist tilgangslaust nú að flytja brtt. Það hefur verið gert samkomulag um þessi mál í hv. fjvn., sem fulltrúar allra þingflokka standa að, og málið þegar á lokastigi. En þessi áætlun er aðeins fyrir eitt ár, og þingmenn þeirra landshluta, sem hallast standa, hljóta að leggja hina ríkustu áherzlu á það við samningu nýrrar áætlunar í haust að fá sinn hlut réttan frá því, sem nú er.