08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í D-deild Alþingistíðinda. (2536)

211. mál, vegáætlun 1964

Hannibal Valdimarason:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. kvartaði eiginlega undan því áðan, að ég hefði haft of hátt, það hefðu bara verið tveir þm., sem hefðu haft of hátt hérna í dag. Ég held, að ég hafi ekki haft neitt sérlega hátt núna, en ég hygg, að heldur hafi látið illa í eyrum hæstv. ráðh. það, sem ég hafði að segja um t.d. orðheldni hans, en ég sá enga ástæðu til þess að hvísla því.

Ég kem aftur að hæstv. ráðh. á eftir, en ég ætla að víkja nokkrum orðum að hv. 5. þm. Norðurl. v., sem kom hér að því er virtist eingöngu til þess að draga dár að því, að við Vestfjarðaþm. vildum standa fast á því, að á okkur væri ekki hallað í þeim málum, þar sem við höfum sterkastan réttargrundvöll til þess að krefjast mikils. En hann ætti að snúa gamansemi sinni að einhverju öðru. Hann ráðlagði mér að fara fyrr á fætur. Ég er ekkert morgunsvæfur fremur en hann sjálfsagt. En í einn og sama stað hefði komið niður, hversu snemma ég hefði farið á fætur í allan vetur, ég hefði enga aðstöðu fengið til þess að hafa áhrif á afgreiðslu vegáætlunarinnar fyrir því. Einn hv. stjórnarstuðningsmaður talaði hér á eftir honum og sagði: Við sáum ekki þessa áætlun, fyrr en hún var lögð fram í fjvn. — Og þannig var það auðvitað með mig og alla aðra þm. Það var ekkert svigrúm til þess að koma neinu til vegar til breytinga á þessari áætlun, fyrr en hún lá hér fyrir í þinginu. Og samkomulag mun hafa verið gert um það í fjvn, að hafa engar umr. um hana við fyrri umr. nema framsögu formanns. Umr. um hana skyldu fara fram við síðari umr. og þá auðvitað, ef ekki átti að binda hendur þm. á bak aftur í þessu þýðingarmikla máli, að gefa okkur rétt til þess að bera fram till. á þessu stigi málsins og aldrei endranær. Allt það, sem hv. þm. um þetta sagði, er því af fávizku mælt og hann fleiprar, Þótt aldraður sé. (BP: Við fengum að sjá hana.) Þú hefur ekkert fengið að sjá hana á undan neinum öðrum, og þó að það sé háttur þinn að nudda þér upp að stjórnarflokkunum við og við, þá hef ég ekki séð þau stórvirki, sem þú hefur fengið út á það . En það er enginn mannsbragur að því, og ég held, að svona aldraður þm., sem ber einhverja virðingu fyrir sjálfum sér, ætti að hætta því nuddi. (BP: Ég held, að ég hafi aldrei nuddað neitt.) Jú, Þú nuddar þér utan í stjórnarflokkana og heldur þig hafa einhvern ábata af því.

Annað höfuðerindi þessa hv. þm. hér í ræðustól virtist vera að atyrða og skensa ungan þm. Það fór heldur illa hjá þessum fullorðna og aldraða þm. að gera slíkt. Þegar tilefnið var nú ekki meira en það, að þessi ungi þm. hefur mjög á sínu fyrsta þingi spurzt fyrir um ýmis þýðingarmikil mál og fengið svör. Hann hefur ekki með þessum vinnubrögðum sínum verið að spila sig neinn speking. En það er einn þm. hér innan veggja, sem stundum á það til að spila sig sem speking, — aðeins einn. Og hv. 5. þm. Norðurl. v. þekkir þennan mann eða á að þekkja hann.

Hann vildi kenna mér þau vinnubrögð, að það ætti ekki að vera að skammast út í það, sem orðið væri, ekki að vera með deilur, eftir að málið væri búið að vera í n. Til hvers eru umr., eftir að mál hefur verið athugað í n.? Þær eru auðvitað til þess að koma fram brtt. við málið,

og brtt. má bera fram skv. þingsköpum allt til lokameðferðar máls. Um þetta þarf hv. þm. ekkert að kenna mér, þó að hann sé spekingur. Og við áttum þess ekki kost , að bera fram neinar till. við þetta mál fyrr en nú við þessa umr., og það höfum við leyft okkur, og sú till. er ekkert ósanngjörn. Það er algerlega rangt að kalla þetta yfirboðs- eða sýndartillögu. Þetta er hógvær till., byggð á sanngirnisgrundvelli.

Svo fór þessi hv. þm. að skensa hinn unga þm., sem hann mælti til, með því að hann væri landsk. þm., uppbótarþingmaður. Eru þeir landskjörnu þm. hér nokkuð önnur manntegund eða óæðri en þeir, sem hafa slampazt inn í kjördæmi? Ég veit ekki annað en að sumir ráðh. hafi verið og séu sumir landsk. þm. Þetta er alls óviðeigandi af hv. þm., sem ekki á að vera með neinn ungæðisskap, af því að hann er maður kominn á efri ár. Hann var nú ekki fjær því að verða landsk. þm. en það, að hann er í síðasta sæti hinna kjörnu þm. í Norðurl. v. og hangir þannig á horriminni rétt eins og ég. En það hefði enginn þm. litið neinum öðrum augum á hann eða talið hann neitt lakari þm. eða þurft að tala um hann í óvirðingartón fyrir það, þótt hann hefði orðið landsk. þm.

Í hvors hlutverki vilja nú þm. heldur vera, drengsins, sem hann nefndi, sem hefur notað ýmis tækifæri hér til að ýta á málefni kjördæmisins til þess að reyna að þoka þeim fram, svo sem þm. ber að gera, eða í hans sporum, sem kemur hér og segir: Ég þurfti ekki að biðja um neina brú í Austur-Húnavatnssýslu, ég þurfti ekki að biðja um neitt, ég er ánægður, ég er ekki að skammast neitt? — Það hefur verið sýnt fram á það áður, að það væri óviðeigandi, að stjórnarþingmenn færu einmitt að mala eins og ánægðar kisur, þegar það væri misgert þeirra kjördæmi og þeirra umbjóðendum. En að stjórnarandstöðuþingmenn fari líka að taka upp þennan hátt kattarins og mala, það tel ég enn þá meira óviðeigandi. Og svo ætla ég nú ekki að offra meiru á okkar spaka hv. 5. þm. Norðurl, v.

Ég fór um það nokkrum orðum í minni fyrri ræðu, að mér fyndist Vestfjarðaþm. í stjórnarliðinu hafa fylgt málum kjördæmisins, að því er snertir framlög til vegamála, í þetta sinn of linlega eftir, og þetta byggi ég á því, að ég trúi því ekki, ég trúi því bókstaflega ekki, að þeir séu lítils metnir í stjórnarflokkunum, forseti sameinaðs Alþingis, forseti neðri deildar nú og hv. 11. landsk., skrifari Nd., sem oft og tíðum hafði orð á því, að þeir væru linir í sóknum, Kjartan J. Jóhannsson og Gísli Jónsson, það skyldi nú verða einhver annar skriður á skútunni, þegar hann væri kominn á þing, hann skyldi hvorki láta mýla sig né beizla, hann ætlaði svo sem að sýna það, að hann mundi fylgja mátum kjördæmisins eftir, þegar hann væri kominn þangað. Og segi mér því hver sem vill, ég trúi því bara ekki, að ef þessir menn hefðu sagt með sinni hógværð: Við sættum okkur ekki við það, að hlutfall Vestfjarðakjördæmis um fjárframlög til vegamála lækki, lækki stórkostlega, ef það er ekki tekið tillit til þessarar sameiginlegu kröfu okkar, þá áskiljum við okkur rétt til þess að fylgja hverri hógværri till., sem fram kann að koma frá stjórnarandstöðunni, — Það þarf enginn mér að segja, að ef þeir hefðu haldið þannig á máli, og það var engin ósvífni í því, að þeir hefðu haldið svona á máli, þegar svo var hallað á þeirra kjördæmi sem raun bar vitni um, að það hefði ekki verið tekið tillit til þeirra. Þá eru þeir áhrifaminni í sínum flokkum en ég vil ætla. Þessu hefðu þeir því getað komið fram, og þeir geta enn komið fram þeirri litlu lagfæringartillögu, sem hér liggur fyrir. Ef þeir gera það ekki, þá er það bara af því, að þá skortir til þess viljann.

Þá aðeins örfá orð um hæstv. ráðh. og frammistöðu hans. Síðan ég talaði hér seinast, hefur hv. 3. þm. Norðurl. v. lesíð hér upp úr þingtíðindum kafla úr ræðu hæstv. ráðh. viðvíkjandi Strákaveginum, og þar var sannað með ekki ómerkara plaggi en þingtíðindum, að hæstv. ráðh. hafði lofað ákveðnum fjárveitingum á ákveðnum árum og sagt, að þessum vegi skyldi lokið ekki síðar en á árinu 1965. Og hann átti að vera búinn að fá meginhlutann af sínum fjárveitingum á árunum 1963 og 1964, og þegar á það var minnzt, hvort tæknilegur undirbúningur væri nú nægilega traustur, var sagt við þann þm., sem dró það í efa: Þú hefur ekki vit á þessu, það er búið að ganga vel frá þessu af sérfræðingum. — Það voru slegnar niður allar efasemdir. Nú kemur hæstv. ráðh. aftur og les upp úr Morgunblaðinu, — það var þá líka biblía, biblía sannleikans, — og svo sagði hann, þegar hann hafði lokið Morgunblaðslestri sínum: Þetta liggur nú fyrir, og hver getur nú áfellzt okkur fyrir Það, að verkinu er ekki komið lengra en raun ber vitni og enginn veit neitt, hvar göngin á að gera? — Ég segi: Þetta, sem nú liggur fyrir, þurfti að liggja fyrir, áður en hæstv. ráðh. gaf loforðin. Hann talaði áðan um það, hvað hinir gætnari þm. hefðu gert og hvernig þeir hefðu hagað sér hér við þessa umr. Ég segi: Hinir gætnari ráðh. hefðu ekki lofað Strákaveginum eða lýst því yfir, hvenær sæi fyrir endann á honum, fyrr en þeir hefðu nákvæma vitneskju um það, hvernig tæknilega þyrfti að búa verkið undir, en hæstv. ráðh. gat gert það, af því að hann er ekki meðal hinna gætnari ráðh. Hann kveinkaði sér undan því, að þessi frammistaða hans hefði verið nefnd svik, en vanefnd loforð, sem nú hafa verið sönnuð á Þennan hæstv. ráðh., hvað heita þau á íslenzku máli? Þau heita svik. Vanefnd loforð heita svik, og það er þinglegt að segja sannleikann.

Svo fór hæstv. ráðh., eftir að hann stóð uppi og sönnuð á hann þessi loforð, sem enn eru vanefnd, og taldi okkur skorta mannasíði að vera neitt að ónáða sig með því að minna á þetta. Ég vil nú segja, að það eru Ýmsir hér innan veggja, sem eru betur til þess fallnir að gerast kennarar í mannasíðum en hæstv. ráðh., og allra sízt ætti hann að gera það eftir þessa frammistöðu í Strákavegarloforðunum vanefndu.

Hv. 11. landsk. hélt hér allskörulega ræðu áðan og sagði í upphafi hennar þann sannleika, að hann og þeir stjórnarþm. í þingliði Vestfirðinga væru sáróánægðir. En svo fóru þeir samt að sætta sig við orðinn hlut. Það varð að samkomulagi að lækka viðhaldsfé vega um 5 millj. kr. Jú, og við sjáum það, að það er till. um það að skera 5 millj, af viðhaldsfénu. Nú er það vitað, að viðhaldsfé hefur á undanförnum árum, síðan vegakerfið fór nokkuð að þenjast út, verið ófullnægjandi, og það var sízt hægt að skerða viðhaldsfé vega, það var ekkert vit í því. Þetta er svo vitlaus till, sem hugsazt getur. Og Vestfirðingar hafa orðið einna harðast úti með það að fá sómasamlegt viðhald á sína vegi. En af því voru teknar 5 millj., og af því fékk Vestfjarðakjördæmi svo 11/2 millj., og þá fóru þeir að verða nokkuð ánægðir. Ég segi: Þeir voru of lítilþægir.

Það hefur sem sé verið ætlunin, þegar vegáætlunin var lögð fram, að skerða hlut Vestfjarðakjördæmis enn meir en nú er þó niðurstaðan, taka meir en 26% frá fyrra árs fjárveitingum af kjördæminu, og þetta fæst lagað að litlum hluta með því að taka það af vegaviðhaldsfénu, sem kannske bitnar harðast einmitt á okkar kjördæmi að hinu leytinu.

Ég álit, að það hafi verið lítil ástæða fyrir þá að verða ánægða, þó að þessi breyting væri á ger. Hún er ekki skynsamleg þessi till., og það er ekkert nýtt fé, sem þarna kom til, en það var það eitt, sem þurfti. Og ef þeir hefðu allir samtaka beitt sér fyrir því og tilkynnt, að þeir sættu sig ekki við, að hlutfall Vestfjarðakjördæmis, sem verst er vegað allra kjördæma, væri lækkað, þá veit ég, að þeir hefðu haft mátt til þess að koma því í gegn. En á því liði sínu hafa þeir legið, því miður.

Hv. 11, landsk. þm. sagði, að svo hefðu þeir gert annað til þess að bæta úr þessu óþolandi ástandi, sem þeir voru sáróánægðir með, og það var það að biðja hæstv. ráðh. að hlutast til um, að það fé, sem tekið var að láni af héruðunum, það þyrfti ekki að borgast á einu ári, og ráðh. hefði haft góð orð um, að það væri rétt að borga upp öll lánin núna, en svo fengju tveir þriðju eða helmingur að standa, Þ.e.a.s. að héruðin fengju að borga eftirstöðvarnar á einu eða tveimur árum hér á eftir. Og hvers vegna sögðust þeir hafa gert þetta? Til þess að framkvæmdir drægjust ekki verulega saman, til þess að framkvæmdir í vegamálum Vestfjarða drægjust ekki verulega saman, sagði hv. 11. landsk. M.ö.o.: þeir viðurkenna það, að þeir horfðu fram á, að vegaframkvæmdirnar í okkar kjördæmi drægjust verulega saman. Og þetta er sannleikur. Það verða minni framkvæmdir í þessu kjördæmi en áður, ef þetta fé, sem tekið var fyrir fram og eytt í framkvæmdir s.l. sumar, á að borgast á einu ári. En ég spurði áðan hæstv. ráðh., áður en hann talaði: Verður það ríkissjóður, sem ætlar að bera vaxtabyrðina af því fé, sem á þá að greiða á næstu tveimur árum, eða á að taka það af vegafénu og ætla héruðunum þannig að greiða það ? — Við því fékkst ekki svar.

Hv. 11. landsk. kallaði till. okkar þriggja Vestfjarðaþingmanna sýndartillögu og sagðist ekki vera hræddur við að rétta upp hendurnar á móti henni. Við þessa einu umr., sem við eigum þess kost að bera fram brtt. við áætlunina, höfum við lagt fram þessa till.:

„Viðbótarframlag úr ríkissjóði til vegabóta á Vestfjörðum, er þm. Vestfjarðakjördæmis skipta til þjóðbrauta og landsbrauta í samráði við vegamálastjóra, 3 millj. og 800 þús. kr.“

Er þetta sýndartillaga? Er það rétt að nefna

það svo? Sýndartillaga er að mínum skilningi till., sem er ósanngjörn, yfirboðstillaga á litlum rökum fram borin. Af hverju nefnum við 3 millj. og 800 þús., en ekki t.d. 30 millj., sem væri full þörf á í Vestfjarðakjördæmi? Við nefnum 3 millj. og 800 þús. af því, að við erum einungis að fara fram á þann hóflega hlut, að heildarfjárveitingar til vegamála í hinu illa vegaða Vestfjarðakjördæmi verði þær sömu og s.l. ár, í hlutfalli við heildarfjárveitinguna. Og þetta leyfir hv. 11. landsk. þm. sér að kalla sýndartillögu. Nei, þetta er engin sýndartillaga. Þetta er eins hógvær till. eins og hugsazt getur og borin fram á þeirri einu stundu, sem hægt er að bera fram till. við þetta mál. Og ég segi, að það mundu engir gullhringar detta af hv. þm. stjórnarflokkanna, þó að þeir nú beittu sér fyrir því, að þessi till. væri samþ., og það verður aldrei rökstutt af hæstv. samgmrh. eða ríkisstj., að hún hafi ekki efni á því að jafna hlutfall Vestfjarðakjördæmis með 3 millj. og 800 þús. kr. því getur hæstv. ráðh. komið til leiðar, ef hann vill. Það er með þessari till. hvorki verið að setja Vestfjarðaþingmenn né samgmrh. né ríkisstj. í neinn gapastokk, það er ekki verið að heimta af þeim neina óframkvæmanlega hluti. Til þessa þurfa þeir aðeins eitt: réttsýni, sannsýni, vilja til þess að bæta úr mistökum, sem hér hafa á orðið.

En hv. 11. landsk. þm. þurfti að láta í ljós ánægju sina með fleira, af því að hann hafði gerzt svo djarfur að segja í upphafi ræðu sinnar, að hann væri sáróánægður fyrir hönd síns kjördæmis, og það var þá í tilefni af því, að nú er fjárveiting til einnar brúar á Vestfjörðum, og fyrir það flutti hv. þm. þakkarávarp. Þetta brúaróhræsi er svo langt, svo stórt, það kostar með fyrirhleðslu, sem þarf að fylgja, til þess að komizt verði að brúnni, 2 millj. kr. Hefði nú ekki verið sanngjarnt, að við hefðum fengið þarna hálfa brú, hefði það nú ekki verið nóg, þessi er svo dýr? Jú, úr því að við fengum fjárveitingu í heila brú, og það var nú ekki gott að minnka hana, þá þarf að flytja þetta þakkarávarp. Þetta kalla ég að mala. Svo fór hann að hreyta skætingi í okkur fyrir það, að við hefðum ekki séð fyrir fjárveitingu í brú yfir ána Mórillu, þegar við hefðum verið í valdastóli. Þá var nú þannig ástatt, að það var enginn vegur kominn neitt í námunda við þetta brúarstæði. En það er fyrst þegar vegur er kominn að vatnsfalli, að það er aðkallandi að brúa vatnsfallið. Þó vildi ég vera með fyrra fallinu með tillögur um brú á þetta vatnsfall, og ég hef, að ég hygg, einn þingmanna flutt nokkrum sinnum till. um brú á Mórillu, svo að hv. þm. er orðið þetta nafn, þetta sérkennilega vatnsfallsnafn nokkuð kunnugt. Það var nánast till. vegamálastjóra s.l. ár, að Mórilla yrði brúuð. Þá var því aftur vikið í tvær aðrar smærri brýr, sem voru líka aðkallandi í okkar kjördæmi. Og núna, ég játa það, er staðið við fyrri fyrirheit um, að þessi á skuli brúuð, og það hefur ekki verið sett fjárveiting núna til hennar háifrar, heldur í heilu lagi. Það finnst mér ákaflega eðlilegt, og ég sé ekki nokkra minnstu ástæðu til þess að fagna og færa neitt þakkarávarp fyrir það. Hér erum það að ræða að koma einum af þeim mörgu sveitarfélögum Vestfjarða, sem enn þá eru ekki í vegasambandi, í samband við akvegakerfi landsins, og þeir mega hæla sér af því, sem vilja, því að það er til skammar, að mörg sveitarfélög Vestfjarða skuli enn þá vera afskorin frá vegasambandi við akvegakerfi landsins. Snæfjallahreppur verður tengdur akvegakerfinu á árinu 1964 með brúnni á Mórillu, sem hér er verið að flytja þakkarávörp fyrir, að loksins komi.

Og enn þurfti að þakka, og það var það, að sýsluvegaframlögin væru núna meiri í Vestfjarðakjördæmi en til annarra kjördæma. Af hverju eru sýsluvegaframlögin meiri þangað? Ætli þau séu ekki eftir svipaðri reglu og um önnur kjördæmi? Af því að það er bara meira af sýsluvegum, alveg eins og það er meira af ógerðum þjóðvegum, þjóðbrautum og landsbrautum, eins og það nú heitir, í Vestfjarðakjördæmi en í nokkru öðru kjördæmi.

Það er alveg rétt, sem hv. 11. landsk. þm. sagði, það er ekki rétt að ríghalda sér í fyrri skiptingu vegafjár. Það á að líta á, hvað eftir er að gera og hve mikil sé þörfin í hverju kjördæmi. En þá má sízt af öllu sætta sig við. að hlutfall Vestfjarðakjördæmis standi ekki í stað, heldur lækki, því að það er þarna meira eftir að gera en í nokkru öðru kjördæmi. Ef menn áttu að víkja frá reglunni um að ríghalda sér við fyrri skiptingu, þá átti það eingöngu að vera vegna þess, að menn teldu sig hafa réttlætisgrundvöll til að heimta meira, að hlutfallið hækkaði. Það er því alveg óviðunandi, að einmitt þar sem vegaþörfin er mest, þar skuli nú fara hlutfallslega minna til vegaframkvæmda en annars staðar.

Þegar ég hafði sagt, að það hefði verið unnið til þess að uppfylla kosningaloforðin fram á haust, þá minnti hv. þm. mig á það, að kosningarnar hefðu verið um vorið, hvað ég mundi nú. Það er alveg rétt hjá honum, þær voru á vordögum, en svo var unnið fram á haust, þegar lítill árangur varð af vegagerðinni. Hvers vegna var unnið á svona óskynsamlegum tíma? Það var af því, að það var verið að myndast við að efna kosningaloforð. Þeim þótti ekki rétt að svíkja þau. (Gripið fram í: Er það ekki fallegt?) Það er lofsamlegt, jú, það var fatlegt, en það var ekki skynsamlegt að vera að eyða fénu í bleytu og hafa tvær ýtur til þess að draga eina upp úr. Nei, það var ekki skynsamlegt, en siðferðilega standa þeir sig anzi vel með þetta, að þeir voru að efna kosningaloforð. Og það var hægt að gera það að hausti, þó að loforðin hefðu verið gefin á vordögum, svo að það er ekkert hægt að hanka mig á þessu.

Svo tók hv. 11. landsk. þm. sprett, því að þá fór hann að tala um hluti, sem tilheyrðu ekki nútímanum, og sagði: Það voru vegleysur í Barðastrandarsýslu, þangað til framsóknarmaðurinn féll og sjálfstæðismaðurinn komst að, og það voru anzi miklar vegleysur í Norður-Ísafjarðarsýslu, áður en kappinn Sigurður Bjarnason náði kosningu, en síðan ekki söguna meir, því að þá kom sá, sem gat rutt vegina og byggt brýrnar.

Er þetta nú frambærilegt? Erum við allir Vestfjarðaþingmenn, sem erum að lýsa vegleysunum á Vestfjörðum, að ljúga afrekin af sjálfstæðisþingmönnunum, þeir búnir að vega allt og brúa allt þarna? Ég ætla ekki að þreyta þm. með að lýsa vegleysunum á Vestfjörðum. En hann á bara að geta nærri, hvernig vegirnir eru þar, þegar næsti fjallgarður við Ísafjarðarkaupstað sjálfan er með niðurgrafinn bráðabirgðaveg, þegar vegurinn milli Ísafjarðarkaupstaðar og næsta stórkauptúns, Bolungarvíkur, er ekki hálfgerður, þar hefur aðeins verið höggvið í fjallshlíðina með ýtu, en aldrei ofan í hann borið, vegurinn til hinnar handarinnar, inn til Súðavíkur, einnig hálfgerður. Hvað halda menn þá um hina fjarlægari vegi í hinum fámennari sveitum, þegar þetta er svona í kringum höfuðstað Vestfjarða? Og þó var það, held ég, 1942, sem berserkurinn Sigurður Bjarnason var kosinn á þing. Þá var búið með vegleysurnar, þegar þm. hinna flokkanna féllu og sjálfstæðisþm. voru kosnir, sagði hv. 11. landsk. þm. Nei, það er því miður ekki satt. Ég vildi bara, að hamingjan gæfi, að þeir hefðu verið svona atorkusamir. En þá þyrftu þeir áreiðanlega að hafa upplitsdirfsku til þess að biðja um, að hlutfall þeirra kjördæmis sé ekki lækkað við afgreiðslu fjárl. eða vegáætlunar.

Nú skulum við segja, að það hefur meira áunnizt á síðari árum í vegamálum á Vestfjörðum en áður fyrr. Er það að þakka þm. Sjálfstfl. sérstaklega, eða er það því að þakka, að í gamla daga var unnið með haka og skóflu og þá unnust vegagerðir frekar seint í erfiðu fjalllendi? Það fór ekki að miða, þegar sjálfstæðisþm. voru kosnir, heldur þegar jarðýtur komu. Það munaði nefnilega meira um jarðýtur en hv. þm. Sjálfstfl. í vegagerðum á Vestfjörðum; og það er miklu nær sannleikanum, að það hafi verið jarðýturnar, sem hafi þarna sett skrið á vegagerð á Vestfjörðum, það lítið það er fremur en hv. þm. Sjálfstfl. Þetta kann nú að verða rengt, en svona held ég, að þetta sé.

Þegar hv. 11. landsk. var þarna af mælsku og þrótti að lýsa þessu lofi á sjálfstæðismennina, datt mér í hug gamall Vestfirðingur, sem reri á Arnarfirði við annan mann, og hann sagði og það var sannleikur hjá honum: „Þá fór að ganga, þegar Ólafur lagði upp.“ Hann reri meira á tvær árar heldur en þegar hinn, Ólafur, reri á borðið á móti honum. Hann var kraftamaður, ekkert síður en hv. 11. landsk. þm. segir, að þm. Sjálfstfl. séu.

En þó hefur hv. 11. landsk. ljóta sögu af mér að segja í sambandi við vegamál Vestfjarða, ég hafi aldrei haft áhuga á þeim málum og það lítið, sem ég hafi í þeim gert, hafi verið að þvælast fyrir og vera með ólund, illa lyntur og fúll. Þegar Sigurður Bjarnason var að böðlast í vegunum þarna og ryðja burt björgum, þá var ég með fýlu. Þá voru þm. Sjálfstfl. að leggja veg fyrir Arnarnes frá Ísafirði og inn til Súðavíkur, og ég var alveg á móti þessu. Þeir voru þá að fást við að gera fyrstu jarðgöng á Íslandi, en höfðu bara engin tæki til þess, það bognuðu allir borarnir og það hjakkaði allt í sama farinu í tvö ár. Og þá var það, sem ég leyfði mér að spyrjast fyrir um það í blaðagrein, hvort það hefði ekki verið við þessar aðstæður t.d. hyggilegt að leggja veginn yfir Arnarnesháls, sem er 100 m hár, og vera ekkert að bögglast við að bora gegnum Arnarneshamar, þegar þeir höfðu engin tæki til þess. Það er rétt, vegurinn er ekkert verr kominn nú með sjó gegnum Arnarneshamar heldur en hann hefði verið yfir hálsinn. En ákaflega lítill munur hefði verið á því, hvað það hefði verið óhagstæðara vegarstæði yfir Arnarnesháls, sem er ekki hár fjallvegur, heldur en þarna niðri. En nú er því gefið nafn og því er lýst hér á Alþingi, að ég hafi verið á móti vegi til Súðavíkur, af því að ég leyfði mér að skrifa um það á sínum tíma, hvort ekki hefði verið hyggilegra að leggja veginn á einu sumri, það væri gott vegarstæði uppi á hálsinum, heldur en að tefja vegagerðina í 2 ár í 15–20 m hörðu berglagi, sem þeir höfðu þá ekki tæki til að vinna. Ég álít, að þessi sagnfræði hv. 11. landsk. um afrekin í vegamálum Vestfjarða annars vegar, það séu afrek sjálfstæðisþm., en ekki jarðýtunnar, og það, sem ógert sé í vegamálunum, sé af því, að ég hafi verið með ólund og fýlu og verið á móti öllum umbótum í vegamálum á Vestfjörðum, — ég álít, að þetta sé afbragð að kenna þetta við Sjálfstfl. og kalla þetta vegamálasagnfræði Sjálfstfl.

Að lokum svo þetta: Það hefur verið talið hér óviðeigandi af okkur 3 Vestfjarðaþm. að flytja till., hógværa till. til breyt. á vegáætluninni til leiðréttingar á misrétti fyrir okkar kjördæmi. Þetta tek ég ekki nærri mér. Ég tel mig hafa og hygg, að eins sé um meðflm. mína, að við teljum okkur vera að gera okkar þingmannsskyldu með þessu og reyna að sannprófa, hvort ekki fáist leiðrétting á þessu máli, því að það er ekki litlafingursátak fyrir hæstv. samgmrh. að verða við óskum okkar Vestfjarðaþm. um það, að við fáum sama hlutfall og áður. Og mitt síðasta orð er svo það, að ég held, að það sé bezt, að við segjum það allir í einum kór: Þetta er ekki gott hjá okkur, — eins og drengurinn sagði, sem gerði rjúpuna að spendýri, — þetta er ekki gott hjá okkur, það er ekki góð afgreiðsla á þessari fyrstu vegáætlun okkar, en við skulum reyna að gera það betur næst.