08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í D-deild Alþingistíðinda. (2538)

211. mál, vegáætlun 1964

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Ég ræddi um vegáætlunina hér áður í kvöld og hafði ekki hugsað mér að fara að karpa við hv. 1. þm. Reykn. (AJ) um umferðarmálin í Kópavogi, við afgreiðslu þessarar vegáætlunar. En ég get ekki látið hjá líða að leiðrétta mestu rangfærslurnar í ræðu hans hér áðan. Hann hélt því fram, sem er rétt, að enn hefur ekki verið ákveðið endanlegt vegarstæði Hafnarfjarðarvegarins, þar sem hann liggur yfir Kópavogsháls. En hann vildi kenna bæjaryfirvöldum Kópavogs um, að málin stæðu svo. Hér skýtur nokkuð skökku við. Eins og ég hef margrakið, hefur vegagerð ríkisins ávallt séð um Hafnarfjarðarveginn, jafnt þar sem hann liggur yfir Kópavogsháls og annars staðar. Þessi umferðarbraut hefur algerlega verið mál vegagerðarinnar, þar til ný vegalög voru sett s.l. vetur, og vegagerðin átti að sjá um, að þessi vegur fullnægði jafnan kröfum umferðarinnar. Bæjaryfirvöld Kópavogs hafa á undanförnum árum og fyrir langa löngu gert þá kröfu til vegagerðarinnar, að hún ákvæði vegarstæðið, eins og það ætti endanlega að vera. Þessu verkefni vildi vegagerðin aldrei sinna, og hún sinnti veginum ekki meira en svo, að með vaxandi umferð hefur skapazt algert öngþveiti á þessari leið. Og er það verkefni bæjaryfirvalda Kópavogs að sjá um, að skipulagning vegarstæðisins sé nú ákveðin? Ónei, samkv. núgildandi skipulagslögum eiga stjórnarvöld landsins og skipulagsnefnd ríkisins að sjá um, að skipulagsuppdrættir séu gerðir „í samráði við bæjarstjórnir,“ eins og segir orðrétt í l. Það er því ekki til neins fyrir bæjarstjórn Kópavogs að fara á eigin spýtur að staðsetja Hafnarfjarðarveginn um Kópavogsháls, veg, sem vegamálastjórnin hafði algerlega með að gera. Þess má einnig geta, að samkv. l. á vegamálastjóri sæti í skipulagsnefnd ríkisins ásamt vitamálastjóra og húsameistara ríkisins. Hann er 1/3 nefndarinnar. Og þegar á það er litið, að þessi nefnd átti samkv. l. í umboði stjórnarvalda að sjá um skipulagsuppdrætti í kaupstöðum, held ég, að hv. þm. muni ganga illa að koma sökinni yfir á samborgara sína.

Sannleikurinn er sá, að af hverju sem það stafar, sinnti vegamálastjórnin aldrei kröfum bæjaryfirvalda Kópavogs um, að hún ákvæði staðsetningu vegarins yfir Kópavogsháls, og tíminn leið, án þess að vegamálastjórnin sinnti því neinu að endurbæta veginn, og þegar umferðin var komin í algert öngþveiti, gerist það með nýju vegal. frá í vetur, að Kópavogskaupstaður er arfleiddur að þessu öngþveiti, sem skapazt hefur, af því að vegamálastjórnin sinnti þessu máli aldrei, og til þess að leysa þetta vandamál, sem er vandamál miklu fleiri aðila en Kópavogsbúa og kostar tugi millj. kr. að leysa, fær Kópavogsbær um 1.3 millj, kr. á ári, samtímis því, að um 30 millj. kr. er dreift um allt landið til að endurbæta samtímis alla þá þjóðvegarspotta, sem liggja um kaupstaði og kauptún á öllu landinu. Og mér þykir miður, að það skuli finnast fulltrúi þessa byggðarlags, sem lætur sér þá tilhögun vel líka og er ánægður yfir því, að Kópavogsbæ skuli vera skilið eftir að leysa úr því öngþveiti, sem umferðarvandamálin voru komin í, þegar vegamálastjórnin losaði sig við þann vegarspotta, sem liggur yfir Kópavogsháls. Þó að hann sé ánægður yfir þessum málalokum, ætti hann ekki að ganga fram í því að koma sök yfir á samborgara sína vegna þess, sem vegamálastjórnin hefur látið undir höfuð leggjast að leysa á undanförnum árum.