08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í D-deild Alþingistíðinda. (2539)

211. mál, vegáætlun 1964

Einar Ingimundarson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. að neinu ráði, enda er orðið býsna framorðið. En ég sagði það í ræðu, sem ég flutti fyrr í þessum umr., að ég harmaði það, að hv. 5. landsk. þm. var ekki staddur í salnum, þegar ég talaði, vegna þess að til hans beindi ég aðallega mínu máli. En ég sé nú, að ég hefði getað sparað mér þetta, vegna þess að það kom á daginn, þegar hv. 1. þm. Norðurl. v., sem er nú Jón Kjartansson, tók til máls, að þar hafði hv. 5. landsk. þm. fengið ágætan hjálparmann og samherja í deilunni um Strákaveg, svo að ég tali nú ekki um hv. 5. þm. Vestf.

Hv. 1. þm. Norðurl, v. tók upp sama þráð og hv. 5. landsk, þm., þ.e. að brigzla um svik og pretti í sambandi við framkvæmd jarðgangagerðarinnar í Strákafjalli. Verst var, að ég gat aldrei fengið botn í það, hvern hv. 1. þm. Norðurl. v. var að skamma, hvort það var hæstv. samgmrh., vegamálastjóri eða ég.

Þá sagði hv. 5. þm. Vestf. nokkru seinna, að ég hefði iðað í skinninu af fögnuði og malað eins og köttur, þegar ég var að lýsa því, að jarðgangagerðinni um Stráka mundi eitthvað seinka. Ég kannast ekki við að hafa gert þetta, að hafa haft uppi þessa tilburði. Einmitt þvert á móti harmaði ég það, hvernig komið væri. En það er eitt, sem víst er, að bæði hv. 5. þm. Vestf. og hv. 5. landsk. þm. iða í skinninu af fögnuði yfir því, að nú skuli vera komið babb í bátinn með framkvæmd vegagerðarinnar við Stráka, vegna þess að meiri hvalreki hefur áreiðanlega ekki borizt á þeirra fjörur í langan tíma. Víst harma það allir, sem áhuga hafa fyrir því, að vegarlagningunni um Stráka ljúki sem fyrst, að henni seinkar eitthvað. En allir, sem vitja, vita, að það er af óviðráðanlegum ástæðum.

Hvort sem það stendur í sambandi við kosningar eða ekki kosningar, þá er það staðreynd, sem ekki er hægt að mæla gegn, að það er núverandi ríkisstj. , sem gerði fyrsta og eina stórátakið til að leysa þetta mál.

Ég vit svo aðeins taka fram eða endurtaka út af svikabrigzlum hv. 1. þm. Norðurl. v., hv. 5. landsk. þm., hv. 5. þm. Vestf. það, sem ég sagði hér í fyrri ræðu minni, að ég kalla það ekki svik á framkvæmdaáætluninni frá 1963, þótt jarðgangagerðinni seinki af ástæðum, sem þá voru gersamlega ókunnar, tæknilegum erfiðleikum, sem þá var ómögulegt að sjá fyrir. Og ég vil að lokum skora á þá félaga, hv. 5. þm. Vestf. og hv. 5. landsk. þm., að hlutast til um, að grg. vegamálastjóra, sem hann sendi fjvn., verði birt í málgögnum þeirra. Þar er sannleikurinn um seinkun vegarlagningarinnar um Stráka sagður afdráttarlaust, og af þeirri grg. er ljóst, að það er ekki hæstv. samgmrh., sem hefur brugðizt í máli þessu, heldur er mistökum jarðfræðinga um að kenna.