13.05.1964
Sameinað þing: 78. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í D-deild Alþingistíðinda. (2558)

115. mál, almennur lífeyrissjóður

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil þakka fjvn. fyrir að hafa afgreitt þessa þáltill., en vil þó jafnframt taka fram, að ég tel þær breytingar, sem hún hefur gert á till., ekki vera til bóta. Í minni upphaflegu till., sem ég ásamt fleiri framsóknarmönnum flutti, var gert ráð fyrir, að kjörin væri 5 manna n. af Alþingi til þess að annast samningu löggjafar um almennan lífeyrissjóð. Ég hefði talið það heppilegra, að þingkjörin n. fjallaði um málið.

Í öðru lagi vil ég minna á það, að það var þegar árið 1958 samkv. þáltill., sem samþ. var á Alþingi 1957, sett n. til þess að athuga, hvort tiltækilegt væri að setja upp almennan lífeyrissjóð hér á landi fyrir alla landsmenn. Sú n. skilaði áliti til ríkisstj. í nóv. 1960 og var á einu máli um að leggja til, að sett skyldi löggjöf um almennan lífeyrissjóð. Í því máli hefur síðan af hálfu ríkisstj. ekkert verið aðhafzt. Með tilliti til þeirrar athugunar, sem þegar hefur farið fram í þessu máli, hefði ég talið eðlilegra, að það hefði verið kveðið fastar að orði í þeirri brtt., sem hæstv. fjvn. hefur gert um það, að ríkisstj. skyldi nú setja löggjöf um þetta efni, af því að þegar hefur farið fram rannsókn á því og niðurstaða þeirrar rannsóknar hefur orðið sú, að það væri rétt að setja löggjöf um þetta efni. Sú niðurstaða fékkst fyrir 31/2 ári. En ég leyfi mér að skilja till. fjvn. á þá lund, að í henni felist boð til ríkisstj. nú um að sjá um, að samið verði frv. að löggjöf um setningu laga um almennan lífeyrissjóð, og ég tel eftir atvikum ekki ástæðu til að efast um, að það verði nú gert þrátt fyrir fádæma seinagang í þessu máli, þar sem bæði hæstv. menntmrh. og hæstv. landbrh. lýstu því í nýafstöðnum útvarpsumr., að þetta væri eitt mesta nauðsynjamálið.