12.02.1964
Sameinað þing: 40. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í D-deild Alþingistíðinda. (2563)

132. mál, hægri handar akstur

Flm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt nokkrum öðrum þm. leyft mér að bera fram á þskj. 237 till. til þál., sem þannig hljóðar, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta hefja hið allra fyrsta undirbúning að því, að upp verði tekinn hægri handar akstur hér á landi.“

Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við að bæta af rökum fyrir þessari till. umfram það, sem stendur í grg. með þáltill. Þó vil ég taka það fram, að slík breyting, sem till. fjallar um, er fyrst og fremst gerð til samræmis við aðrar þjóðir, einkum grannþjóðir okkar í Evrópu, sem hafa flestar fyrir alllöngu tekið upp hægri handar akstur, og þær, sem hafa ekki þegar gert það, eru ýmist búnar að ákveða að taka upp hægri handar akstur eða hafa hafið undirbúning að málinu. Það er sjálfsagt hægt að læra mikið af reynslu þeirra þjóða, sem þegar hafa breytt um í þessu efni, og vil ég t.d. nefna, að Austurríki tók upp hægri handar akstur 1938, Tékkóslóvakía 1939 og Ungverjaland um svipað leyti, og í Svíþjóð er búið að samþykkja að taka upp hægri handar akstur árið 1967, og hefur um nokkurt skeið farið fram mjög rækilegur undirbúningur að þeirri breytingu. Við getum nokkuð lært af reynslu Svía í þessu efni, þ.e.a.s. við getum séð af þeirra reynslu, hvað það mundi kosta okkur í beinum fjárframlögum að draga þetta mál öllu lengur en gert hefur verið. Svíar létu fara fram athugun á því árið 1945, hvað þá mundi kosta að breyta yfir í hægri handar akstur úr vinstri handar akstri, og þá var kostnaðurinn áætlaður 47 millj. sænskra króna. En þá varð ekki úr þessu, og málið hefur dregizt á langinn hjá þeim, en nú er reiknað með, að breytingin, sem fram á að fara árið 1967, komi til með að kosta Svía 400 millj. sænskra króna.

Hér á landi mun reglan um vinstri handar umferð upphaflega hafa verið sett í lög með tilliti til ríðandi kvenfólks, sem sat í söðli, og þessi regla var hér í gildi, þangað til fyrstu umferðarlögin voru sett árið 1940. Það voru ekki til sérstök umferðarlög hér á landi fyrr en þá. Þau ákvæði, sem giltu um umferðina, voru áður innifalin í vegalögunum. En árið 1940 þegar umferðarlög voru fyrst sett, þótti sjálfsagt að taka upp hægri handar akstur, og þetta var lögleitt með þeim lögum, og átti þessi regla að koma til framkvæmda 1. jan. 1941. Ástæðan til þess, að horfið var frá að gera breytinguna þá, var sú, að Bretar hernámu landið, og þar sem þeir framfylgja vinstri handar reglu í umferð, mun hafa verið álitið, að því væri samfara nokkur slysahætta að gera breytinguna, meðan brezka hernámsliðið væri í landinu. Umferðarlögin hafa síðan verið endurskoðuð, síðast 1958, og er mér ekki kunnugt um, að þá hafi verið aðrar ástæður fyrir því, að ekki var breytt til, en fjárhagslegar ástæður. Að sjálfsögðu kostar breytingin nokkurt fé, en þó mun aðalkostnaðurinn vera samfara því að breyta gerð almenningsvagna, og í umferðarlögunum 1940 var gert ráð fyrir, að ríkissjóður tæki þátt í þeim kostnaði að hálfu á móti þeim, sem ættu ökutækin. Það er að sjáifsögðu atriði, sem þarf að athuga og kanna, hvernig koma eigi fyrir kostnaðinum, sem af þessu leiðir, og hvað langan tíma þurfi til að undirbúa breytinguna. En ég hygg, að það sé augljóst, og við höfum reynslu af því sjálfir, og aðrir hafa reynslu af því, að allur dráttur í þessu efni er aðeins til þess að auka kostnaðinn.

Ég sé ekki ástæðu til að fjalla um þessa þáltill. í lengra máli, en ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að umræðunni verði frestað og till. vísað til allshn.