08.04.1964
Sameinað þing: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í D-deild Alþingistíðinda. (2576)

137. mál, þörf atvinnuveganna fyrir tæknimenntað fólk

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 3. þm. Vestf. og hv. 4. þm. Sunnl. að bera fram till. til þál., svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta gera nákvæma athugun á þörf atvinnuvega landsins fyrir tæknimenntað fólk og áætlun, þar sem m.a. komi fram þessi atriði:

1) Þörf atvinnuvega landsins fyrir raunvísindamenn, verkfræðinga, tæknifræðinga og iðnfræðinga á næstu 10 árum.

2) Áætlað framboð slíkra manna á sama tímabili.

3) Skrá um fjölgun slíkra sérfræðinga hér á landi á síðustu 10 árum og um það, hve margir tæknimenntaðir Íslendingar starfa erlendis.

4. Samanburður við svipaðar áætlanir, sem gerðar hafa verið í nágrannalöndunum. Athugun þessari og áætlun skal lokið, áður en næsta reglulegt Alþingi kemur saman.“ Þessi öld hefur verið kennd við tækni og vísindi og það með miklum rétti. Framfarir allar hafa orðið stórkostlegri á undanförnum árum en dæmi voru áður til, og hraði þessarar þróunar verður stöðugt meiri. Allar eiga þessar framfarir að meira eða minna leyti rætur sínar að rekja til nýrra uppgötvana og alls konar framfara á sviði tækni og vísinda. Þjóðirnar hafa gert sér grein fyrir þessu, og er nú alls staðar kostað kapps um að tryggja sem bezt grundvöll tæknilegra framfara, en þar má fyrst og fremst telja tækni- og raunvísindamenntun hvers konar, og er þá tekið tillit til þess í skólakerfinu allt frá barnaskólum og upp í æðri skóla.

Hér á landi er þróunin sú, eins og með öðrum þjóðum, að verkaskipting fer stöðugt vaxandi og þjóðin færist meira og meira í fang á hinu verklega sviði. Þörfin meðal Íslendinga fyrir tæknimenntað fólk er því mikil og fer vaxandi, og það er enn fremur mjög mikilvægt fyrir sjálfstæða þjóð að vera sjálfri sér nóg, einnig á þessu sviði. En eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja um þetta efni, mun vanta mikið á, að Íslendingar standi að þessu leyti jafnfætis öðrum þjóðum. Í grg. eru birtar allmargar tölur, sem benda á þetta, og get ég að mestu leyti látið nægja að vísa til grg, um það. Ég vil þó aðeins geta þess, að eftir því sem við flm. till. höfum getað aflað okkur upplýsinga um, hefur starfandi verkfræðingum hér á landi aðeins fjölgað um 15 á tímabilinu frá 1959–1962, en það er um 5.8% aukning á 3 ára tímabili eða minna en 2% á ári, og það er því jafnframt tæplega eins mikil aukning og fólksfjölguninni í landinu nemur á sama tímabili. Við flm. höfum einnig aflað okkur upplýsinga um það, að hér á landi munu nú aðeins vera starfandi um það bil 100 tæknifræðingar og varla fleiri en 20 iðnfræðingar eða sem svarar til eins á móti hverjum þremur verkfræðingum. En með öðrum þjóðum, sem lengra eru á veg komnar að þessu leyti, er talið, að það sé eðlilegt hlutfall, að það séu tveir eða þrír tækni og iðnfræðingar á móti hverjum verkfræðingi. Ef litið er til Norðurlandanna að þessu leyti og athugaðar þær skýrslur, sem gerðar hafa verið þar og að þessu lúta, þá er augljóst, að þau ríki eru mun lengra á veg komin í þessu efni heldur en við Íslendingar, og er Þó þess að geta, að í Bandaríkjunum og meðal hinna stærstu þjóða er þó lagt enn þá meira kapp á þessi vísindi heldur en meðal hinna smærri þjóða. Allt þetta bendir til þess, að ástæða sé til að ætla, að framboð tæknimenntaðra manna hér á landi hafi ekki aukizt á síðustu árum eins mikið og eðlilegt og nauðsynlegt verður að telja.

Hér er lagt til, að gerð sé athugun á þessu máli og áætlun um fjölda þeirra manna, sem þessarar menntunar afla sér, og lagt er til, að athugun þessari sé flýtt og það leitt í ljós örugglega sem fyrst, hvaða breytinga er þörf, því að nauðsynleg lagfæring á þessum sviðum tekur mjög langan tíma vegna margra ára undirbúningsmenntunar og þjálfunar tæknifróðra manna.

Ég tel ekki ástæðu til að fylgja þessari till. úr hlaði með lengra máli, en legg til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.