22.04.1964
Sameinað þing: 68. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í D-deild Alþingistíðinda. (2641)

188. mál, áfengisvandamálið

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég mun aðeins segja fá orð um þessa till. nú, en fyrst og fremst það, að ég lýsi ánægju minni yfir því, að hún er komin fram, og stuðningi við hana. Hún er að því leyti merkileg, að ég kalla, að þarna á að fela alþm. einum að rannsaka mál og koma með till. í því máli. Þetta tel ég mikinn kost við till. Það fer vel á því, að það komi í ljós, hversu alþm. taka málið alvarlega. Mér hefur fundizt stundum, að á Alþingi hafi verið talað blítt, en lítið aðhafzt í Þessum málum á þeim undanförnu árum, sem ég hef setið á þingi. Ég átti hlut að því einu sinni að flytja till. um þessi mál. Það var um að afnema þann ósíð að veita áfengi í opinberum veizlum. En við þrír, sem fluttum þá till., vorum hv. þm. Alfreð Gíslason, Pétur Ottesen og ég. Og útkoman þá, þegar atkvæði voru greidd um þá till., gaf ekki góðar vonir um framtak Alþingis til umbóta í þessum málum. Mér finnst því fara vel á því, að nú sé reynt á það, hvað alþm. sjálfir duga, hvað alvaran er mikil í því að reyna að hefta það böl nokkuð, áfengisbölið, sem nú er hér í landi.

Hv. flm. nefndi m.a. í ræðu sinni hér áðan, að almenningsálitið þyrfti að breytast í þessum efnum. Þetta er alveg rétt. En af hverju er almenningsálitið eins og það er ? Ætli yfirvöld landsins, Alþingi og aðrir, sem forustuhlutverk hafa í þjóðfélaginu, eigi ekki sína sök á þessu almenningsáliti? Það er vitað mál, að það hefur sin áhrif, hvað höfðingjarnir hafast að. Og meðan stjórnarvöld halda uppi, ég vil kannske ekki segja daglegum drykkjuveizlum, en allt að því, þá er ekki von á góðu.

Mér er ljóst, að það verður ekki mikill árangur af þessum störfum þingmannanefndarinnar, ef þm. hafa ekki hörku í sér til þess að taka á þessum málum eins og þarf að taka, svo að einhver árangur náist. Það verður að koma við hagsmuni eða óskir ýmissa aðila og jafnvei háttsettra aðila í landinu, ef einhver árangur á að nást. Það er ekki langt síðan hér var til umr. frv. um þessi mál, það mun vera komið til 3. umr. í hv. Nd. Mér er tjáð, að allar líkur bendi til þess, að það sofni þar. Ég veit ekki, hvað rétt er í því, að ástæðan sé sú, að flutt var brtt. við frv. um að afnema þann afslátt, sem ýmsum háttsettum mönnum hefur verið veittur við áfengiskaup. Svona er það, þegar á á að herða, þá verður árangurinn ekki meiri en þetta. En við skulum vona, að hin væntanlega þingmannanefnd hafi framtak og dirfsku til þess að brjóta ísinn og hiki ekki við að koma við þessa gömlu síði, drykkjusiðina, hagsmunina, frelsið til þess að drekka, þegar menn vilja drekka, o.s.frv. Reynist nefndin ekki fær um það, þá held ég, að árangurinn verði lítill. En hafi hún manndóm til þess að gera Það, Þá hefur hún betri skilyrði til þess að koma hér miklu til leiðar heldur en nokkur önnur nefnd, sem að þessu hefur starfað.

Mér finnst n. nokkuð fjölmenn. En ég veit, að hv. fim. hefur gert það til þess, að allir flokkar gætu átt þarna fulltrúa, og það er líka nauðsynlegt. Það hefði líka mátt hugsa sér, að þetta væri 4 manna nefnd, þar sem hver flokkur hefði tilnefnt sinn fulltrúa, — það er ekkert aðalatriði, ég legg enga áherzlu á það. Þá sýnist mér, að ekki sé gert ráð fyrir í till., að neinn kostnaður verði af þessu. Ég held, að það þyrfti að bæta úr því. Mér hefur fundizt stundum, að þegar nefndir hafa átt að starfa án þess að fá neitt fyrir það og kannske án þess að fá greiddan neinn kostnað, sem af störfunum kynni að leiða, þá yrði það til þess að draga úr árangrinum. Svo mikið græðir ríkið á áfengissölunni í landinu, að það er ekki of gott til þess að kosta eina nefnd. Ég vil beina þessu til hv. þn., sem fær þetta til athugunar. Ég skal ekki segja um það fleiri orð nú, en ég vænti þess, að þessari till. verði vel tekið.