13.05.1964
Sameinað þing: 78. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í D-deild Alþingistíðinda. (2649)

188. mál, áfengisvandamálið

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð í tilefni af ræðu hv. 6. þm. Norðurl. e.

Í þeirri till. til þál., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir að kjósa n. 7 alþm. til þess, eins og það er orðað, að rannsaka svo sem verða má ástandið í áfengismálum þjóðarinnar og eðlilegar orsakir þessa mikla vandmáls. Í brtt. minni á þskj. 552 er ekki gert ráð fyrir neinni breytingu á skipun n. Það er aðeins gert ráð fyrir því, að í till. sjálfri verði tekið fram, að við tillögugerð skuli haft samráð við þau samtök í landinu, sem einkum hafa unnið gegn áfengisbölinu. Hér er ekki sagt, að fara skuli eftir till. þessara aðila, eingöngu að það skuli haft samráð við þá. Að því er ég bezt veit, er það mjög venjulegt orðalag, þegar n. eru settar, að þá sé mælt svo fyrir, að haft sé samráð við hina og aðra aðila í starfi sínu, stéttarfélög, áhugamannafélög og alls konar stofnanir. Það er ekkert óvenjulegt við þetta. Mér finnst þetta tilhlýðilegt, og mér finnst, eins og ég sagði áðan, þetta gefa till. æskilegan blæ. Og ég verð að segja það, að ef ekkert slíkt er í till., er hún að mínum dómi nokkuð blælítil. Hitt má vel vera, að þetta samráð verði haft eigi að síður við Þessi samtök. En hitt hefði mér þótt, eins og ég sagði, tilhlýðilegra, að það væri tekið fram í till. sjálfri, eins og algengt er.

Ég tók eftir því, að hv. frsm. allshn. tók ekki afstöðu til þessarar till. En mér til nokkurrar undrunar hefur flm. till. heldur lagzt á móti því, að hún yrði samþykkt, og vildi ég nú biðja hann að athuga, hvort hann sæi ekki ástæðu til þess að endurskoða þá afstöðu sína til málsins. Skal ég svo ekki segja meira um þetta að sinni.