06.05.1964
Sameinað þing: 73. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í D-deild Alþingistíðinda. (2656)

199. mál, Björnssteinn á Rifi

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Vestur við Rif á Snæfellsnesi er sá staður, þar sem Björn ríki hirðstjóri var skorinn af Bretum fyrir tæplega fimm öldum. Þar heitir Björnssteinn, stundum kallaður Bjarnarsteinn, og er staður þessi nú allilla á sig kominn, steinninn hálfsokkinn í sand og í vanhirðu.

Þessi sögustaður er nú á athafnasvæði hinnar nýju Rifshafnar, og er því nú tími til þess að bjarga honum, ef ástæða þykir til að gera það. Þm. Vesturlands voru nýlega á ferð þarna vestur frá og sáu ummerki þessa gamla sögustaðar, sem hefur lifað í minningu þjóðarinnar, og töldu, að ekki væri rétt að gráta Björn, heldur safna liði. Þess vegna er þessi litla till. flutt. Er tilgangur hennar eingöngu að fá heimild Alþingis til, að bjarga megi þessum sögustað og láta landshöfnina í Rifi kosta þá björgun. Það er ekki mikill kostnaður, en eðlilegur vegna þess, að staðurinn er á landshafnarsvæðinu, og er hægt að varðveita steininn án þess að valda hafnarframkvæmdum nokkrum vandræðum. Mundi það raunar gott fordæmi, að þar sem verklegar framkvæmdir eiga sér nú stað, skuli jafnframt vera hugsað fyrir því að eyðileggja ekki fornar minjar, ef þær eru á viðkomandi stöðum.

Herra forseti. Ég legg til, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. fjvn.