15.04.1964
Sameinað þing: 64. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í D-deild Alþingistíðinda. (2665)

204. mál, félagsheimili

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. í þáltill. þeirri, sem hér liggur fyrir, er lagt til, að Alþingi skori á ríkisstj. að láta fram fara endurskoðun á gildandi lögum um félagsheimili með það fyrir augum, að félagsheimilasjóður verði efldur og eðlileg skilyrði heilbrigðs félags- og menningarlífs verði sköpuð í sem flestum byggðarlögum landsins. Jafnframt verði ráðið fram úr þeim vandræðum, sem fjárskortur félagsheimilasjóðs hefur valdið einstökum héruðum. Skal þessari endurskoðun lokið fyrir samkomudag næsta reglulegs Alþingis.

Til rökstuðnings þessari till. þarf ekki að hafa mörg orð. Það er öllum landsmönnum kunnugt, að félagsheimilasjóður, sem stofnaður var með lögum árið 1947, hefur reynzt hin gagnlegasta stofnun, sem stuðlað hefur að byggingu fjölda myndarlegra og glæsitegra samkomuhúsa víðs vegar um land. Í stað gamalla, hrörlegra og gersamlega ófullnægjandi samkomuhúsa hafa verið byggð fögur og aðlaðandi félagsheimili, þar sem hvers konar félagslíf fólksins í sveit og við sjó hefur eignazt athvarf. Þessi nýju og vístlegu salarkynni hafa stórbreytt aðstöðu til félagslegs samstarfs og margvíslegrar menningarstarfsemi í fjölda byggðarlaga. Fólkið hefur ekki aðeins átt þess kost að koma saman til skemmtunar, félags og menningarstarfa heima fyrir, heldur hefur það fengið heimsóknir beztu listamanna þjóðarinnar á sviði leiklistar og hljómlistar. Jafnvel hin unga Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur getað haldið hljómleika í öllum landshlutum, vegna þess að þar voru risin rúmgóð og fögur samkomuhús.

Raddir hafa að vísu heyrzt um það, að félagsheimilin séu gróðrarstía spillingar og upplausnar. Vitanlega er framkoma fólks á samkomum þar misjöfn, eins og almennt gerist í skemmtanalífi þjóðarinnar. En það er áreiðanlega ekki of djúpt tekið í árinni, að einmitt hin nýju og fallegu félagsheimili, sem byggð hafa verið víðs vegar um land, hafa átt ríkan þátt í að bæta samkomubrag og setja menningarsvip á hinar ýmsu greinar félagslífsins. En engum er það ljósara en okkur fim. þessarar till., að brýna nauðsyn ber til þess að draga úr óreglu og drykkjuskap á skemmtisamkomum, ekki aðeins í félagsheimilum, heldur og í öðrum samkomuhúsum og veitingastöðum bæði í sveit og borg.

Eins og kunnugt er, er félagsheimilasjóður byggður upp af nokkrum hluta skemmtanaskatts. En því fer víðs fjarri, að sá hluti skemmtanaskattsins, sem rennur í félagsheimilasjóð, nægi til þess, að sjóðurinn geti staðið í skilum með þau 40% byggingarkostnaðar, sem lögin gera ráð fyrir að hann leggi fram til einstakra félagsheimila. Er nú svo komið, að fjöldi félagsheimila, sem orðin eru fokheld eða bygging þeirra jafnvel lengra á veg komin, hafa svo til engan stuðning hlotið úr félagsheimilasjóði. Veldur þetta þessum byggðarlögum eðlilega miklum erfiðleikum og stendur félagslífi þeirra fyrir þrifum. Í mörgum öðrum byggðarlögum hefur ekki heldur verið unnt að ráðast í byggingu nýrra félagsheimila vegna hins þrönga fjárhags félagsheimilasjóðs.

Það er skoðun flm. þessarar till., að úr þessu vandræðaástandi verði að bæta. Þess vegna er lagt til, að ríkisstj, láti endurskoða lögin um félagsheimili frá 1947 og freisti nýrra leiða til þess að efla félagsheimilasjóð og gera honum kleift að standa við skuldbindingar sínar gagnvart þeim byggðarlögum og samtökum almennings, sem ráðizt hafa í byggingu félagsheimila víðs vegar um land eða hafa slíkar framkvæmdir í undirbúningi.

Í sambandi við endurskoðun l. um félagsheimilasjóð er eðlilegt, að fram fari jafnframt endurskoðun á lögum og reglum um skemmtanaskatt, sem verið hefur megintekjustofn sjóðsins.

Um það þarf ekki að fara í neinar grafgötur, að eðlilegt og heilbrigt félags- og menningarlíf hefur stórfelld áhrif á allt líf og viðhorf fólksins í hverju byggðarlagi. Það er ekki aðeins æskan, sem vill hafa aðstöðu til félagslífs og skemmtana. Allir menn, ungir og gamlir, vilja geta komið saman, blandað geði og notið tilbreytingar og skemmtunar. Það er krafa nútímans, jafnt í strjálbýli sem þéttbýli, jafnt í kauptúnum og kaupstöðum sem stærri borgum.

Hér í höfuðborginni hefur orðið stórfelld og ánægjuleg breyting til batnaðar á allri aðstöðu til iðkunar félags- og menningarlífs. Félagsheimilin úti um land hafa stórbætt aðstöðuna á þessu sviði í fjölmörgum byggðarlögum. En allt of mörg héruð búa enn þá við léleg samkomuhús og ófullkomin skilyrði til félagslífs.

Úr þessu verður að bæta. Að því er stefnt með þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að óska þess, að þessari till. verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. allshn.