15.04.1964
Sameinað þing: 64. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í D-deild Alþingistíðinda. (2666)

204. mál, félagsheimili

Ásgeir Pétursson:

Herra forseti. Það liggja hér fyrir í sameinuðu þingi tvær till. til þál. um endurskoðun l. um félagsheimili. Það er till. á þskj. 434, sem hv. 2. þm. Vestf. flytur ásamt öðrum þm., og svo viðaukatill. mín á þskj. 460. Fyrri till. stefnir að því, að félagsheimilalögin verði endurskoðuð með það höfuðmarkmið fyrir augum, að félagsheimilasjóður verði efldur, þannig að hann geti staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar. Viðaukatill. sú, sem ég hef leyft mér að flytja, stefnir hins vegar að því að hagnýta þá góðu aðstöðu, sem fengizt hefur víða um land með hinum mikla og góða húsakosti félagsheimilanna, til þess að auka og efla menningarlíf dreifbýlisins. Aðalatriði þessarar till. er það nýmæli, að framvegis verði hluta af tekjum félagsheimilasjóðs varið til þess að greiða fyrir slíkri starfsemi.

Áður en ég vík nánar að þeirri till., sem ég hef flutt hér, vil ég segja það um till. þeirra fimmmenninganna, að það væri mjög æskilegt, að hún yrði samþ., því að fjárhagur félagsheimilasjóðs er nú orðið ærið bágborinn og Það er óhjákvæmilegt að leita úrræða til úrbóta. En það er raunar í annað sinn, sem slík till. er flutt hér á Alþingi, því að á árinu 1956 var samþ. hérna rökstudd dagskrá um, að ríkisstj. léti endurskoða lögin um félagsheimili, nr. 115 frá 1951, í því skyni, að sjóðnum væri séð fyrir auknum tekjum.

Hv. 2. þm. Vestf., Sigurður Bjarnason, hefur gert grein fyrir fjárþörf félagsheimilasjóðs, og það er þess vegna óþarft að ræða Þann þátt málsins nánar, en ég bæti þó aðeins við örfáum aðalatriðum, sem varða hag sjóðsins. Þær upplýsingar, sem ég ætla að geta hér um, hef ég fengið í menntmrn. Samkvæmt þeim voru 77 félagsheimili á úthlutunarskrá um síðustu áramót. Þá var áfallinn byggingarkostnaður tæpar 107 millj. kr. Samkv. þeirri reglu 1., að félagsheimilasjóður greiði 40% kostnaðar, nam hlutur hans í þessum kostnaði 42.7 millj. kr. En af þeirri fjárhæð voru tæpar 24 millj. ógreiddar. Nú hagar svo til, að óáfallinn kostnaður við sömu hús var áætlaður 65 millj. kr. Hluti félagsheimilasjóðs af því eru 26 millj. Þess vegna var svo komið um þessi áramót, að ógreitt framlag, áfallið og áætlað, nam tæpum 50 millj. kr. Á hinn bóginn urðu tekjur sjóðsins einungis rúmar 4.1 millj. kr. á árinu 1962, og það er talið, að tekjur ársins 1963 verði rúmar 5 millj. kr., og þá ber að hafa í huga, að tekjuöflunarleið sú, sem hv. Alþingi samþ. hér í fyrra, kom ekki til framkvæmda, eftir því sem ég bezt veit, fyrr en í maímánuði á s.l. ári, og það má þess vegna gera ráð fyrir því, að tekjur þessa árs muni verða á 7. millj. kr., að öðru óbreyttu. Það er ljóst, að sá tekjustofn, sem félagsheimilasjóður hefur af skemmtanaskattinum, og aðrar tekjur, sem til hans renna, eru ónógar og það verður að gera ráðstafanir til úrbóta, og þá er rétt að hafa í huga, að það er ákaflega hæpið að ætla að leysa vanda sjóðsins með því einu, að beinar tekjur hans verði auknar að því marki, að þær hrökkvi fyrir skuldum. Húsunum er ætlað að standa lengi, og það er ekki óeðlilegt, að félagsheimilasjóður fengi heimild til lántöku, a.m.k. til þess að grynna á þegar áfallinni skuld.

Þá vildi ég leyfa mér að víkja að viðaukatill. minni um það, að hluta af tekjum félagsheimilasjóðs verði varið til þess að greiða fyrir félags- og fræðslustarfsemi í félagsheimilum. Ég vil minna á það á ný, að í dag er öllum tekjum félagsheimilasjóðs varið til þess að byggja félagsheimili, en engum hluta þeirra er varið til þess að afla félagsheimilum menningarlegra skemmti- og fræðsluþátta. Eins og ég gat um fyrr, er í núgildandi lögum um félagsheimili sú skipan á höfð, að öllum tekjum sjóðsins er varið til þess að styrkja byggingu félagsheimilanna. Það var fullkomlega eðlilegt, að þessi háttur væri hafður á í fyrstu, meðan verið var að koma húsunum upp víða um land og þar með skapa hin ytri skilyrði þess, að unnt væri að efla félags- og menningarlíf dreifbýlisins. Nú hefur hins vegar mikill fjöldi félagsheimila verið byggður víða um land eða samtals um 120 félagsheimili, og þar með hafa verið sköpuð hin ákjósanlegustu skilyrði til þess að auka og efla félagslíf og hvers kyns fræðslustarfsemi í tengslum við þau. En það eitt nægir ekki að byggja húsin. Hið sanna er það, að félagsheimilin standa víða lítt notuð og hið takmarkaða félagslíf, sem í þeim fer fram, er aðallega dansskemmtanir um helgar, þó að frá þessu séu að vísu markverðar undantekningar. Þessu veldur bæði sá fjárskortur, sem félagsheimilin eiga við að stríða og leiðir til viðleitni forráðamanna til þess að afla fjár með einhliða dansleikjahaldi, svo og skortur á skipulegri fyrirgreiðslu um öflun menningarlegra skemmti- og fræðsluþátta. Bágborinn fjárhagur hindrar forráðamenn hinna einstöku félagsheimila beinlínis í því að auka félags- og menningarlíf þeirra, en óbeint veldur fjárskorturinn því einnig, að forráðamennirnir geta ekki tekið neina áhættu í sambandi við öflun fræðslu- og skemmtiefnis. Það er ekki ætíð unnt að vita fyrir fram um aðsókn eða þátttöku almennings í skemmtunum eða fræðandi fyrirlestrum eða öðrum dagskráratriðum, og þá er eðlilegt, að menn veigri sér við því að ráða t.d. leikflokka eða tónlistarmenn, svo að dæmi séu nefnd, því að verði aðsókn einhverra hluta vegna lítil, er víðast enginn sjóður fyrir hendi til þess að standa undir tapinu. Af þessum sökum m.a. halda menn að sér höndum.

Það mætti hugsa sér, að tekjur félagsheimilasjóðs skiptust framvegis í tvo staði. Rynni mestur hluti þeirra í byggingarsjóð félagsheimilanna, en nokkur hluti tekna rynni í sjóð, sem t.d. mætti nefna rekstrarsjóð félagsheimila. Yrði hlutverk hans það að afla félagsheimilunum menningarlegs efnis, tónlistar, leiklistar, kvikmynda, listsýninga og annars góðs skemmtiefnis. svo og að efla tómstundastarfsemi fyrir æskufólk. Enn fremur annaðist sjóðsstjórnin skipulagningu á hagnýtingu slíks efnis í félagsheimilum víða um land í samráði við Ýmis landssamtök, svo sem t.d. Ungmennasamband Íslands, samtök bænda og sjómanna, svo að einhver dæmi séu nefnd um það. Ekki mundi rekstrarsjóðurinn þurfa að greiða allan kostnað við þessa starfsemi, því að eðlilegt væri, að aðgangseyrir rynni að frádregnum kostnaði við húsin í rekstrarsjóðinn. Væri þá hlutverk sjóðsins og stjórnar hans að glæða og efla menningarlíf og eiga frumkvæðið að því að veita almenningi aukinn aðgang að fræðslu, listum og góðum skemmtunum. Það er því mikilsvert að hefja þessa starfsemi sem fyrst, þótt í smáum stíl væri, til þess að öðlast reynslu og fyllri þekkingu á, hvers fólk óskar og hvað unnt er að hafa á boðstólum. Eðlilegt væri, að samráð væri haft við fulltrúa þjóðleikhússins, sinfóníuhljómsveitar, Landssambands ísl. kóra, fræðslumyndasafns og fleiri menningarstofnana um val efnis og annað það, sem að framkvæmd þessarar till, lýtur.

Nú kann að vera, að einhverjum þyki ekki tímabært að hefjast handa um útfærslu á hlutverki félagsheimilasjóðs, meðan ekki er séð, með hvaða hætti unnt er að ráða fram úr fjárskorti til bygginganna. En þá er því til að svara, að hér er aðeins lagt til, að broti af tekjum sjóðsins, t.d. 5-10%, verði varið til rekstrarsjóðs. Að sjálfsögðu getur ekki verið um það að ræða, að hlutur rekstrarsjóðs geti í fyrstu orðið nema smár, því að knýjandi nauðsyn er á því að grynna á skuldum félagsheimilasjóðs við heimili þau, sem í byggingu eru eða er nýlokið. Hins vegar kemur að því, að nægilega mörgum heimilum verður komið upp og skuldirnar minnka, og þá væri eðlilegt og rökrétt, að hlutur rekstrarsjóðs færi vaxandi, svo að hann geti í auknum mæli greitt fyrir því, að fólk úti á landsbyggðinni eigi kost á því að njóta þess, sem listamenn og fræðimenn hafa að bjóða. Þannig mundi þessi fyrirgreiðsla aukast, eftir því sem meiri reynsla fengist fyrir því, hvernig hagkvæmast og bezt væri að haga þessari þjónustu, og eftir því sem fjárhagsástæður bötnuðu. Enn fremur má benda á það, að eftir því sem tímar líða, verður að gera ráð fyrir, að hagur sjóðsins batni. Og loks er á það að líta, sem mestu máli skiptir og reynslan virðist örugglega sýna, að hin vönduðu félagsheimili koma alls ekki að tilætluðu gagni, nema sérstakar ráðstafanir verði gerðar til þess að efla menningarlíf í þeim. Þá er og eðlilegt, að það verði tekið tillit til hins nýja hlutverks sjóðsins, þegar áætluð er framtíðarfjárþörf hans. Það verður að hafa í huga, að vandamál æskulýðsins eru að ýmsu leyti önnur í dreifbýlinu en t.d. hér í Reykjavík. Hér liggur vandi æskufólks m.a. í skorti á viðfangsefnum og heilbrigðri dægradvöl. Unglingarnir hafa ekki nægilegan aðgang að hinni frjálsu náttúru landsins. Vandi æskunnar í sveitunum liggur aftur á móti m.a. í því, að hún á ekki nægilegan aðgang að heilbrigðum skemmtunum og slíkum fræðslu- og menningarlindum sem hér eru fyrir hendi. Það þýðir ekki annað en gera sér grein fyrir þessu, að sá skortur ýtir undir margan æskumanninn að flýja í þéttbýlið. Þessi staðreynd kemur enn skýrar fram, þegar atvinnuskorti úti á landsbyggðinni verður víða ekki lengur kennt um þann flótta, sem kann að eiga sér stað úr sveitunum. Hér er því um það að ræða að gera ráðstafanir til þess að veita fólki víðs vegar um landið aðgang að þeim menningarlindum, sem til eru í landinu, og þar með skapa mótvægi gegn því aðdráttarafli, sem aðstöðumunur þéttbýlisins á sviði menningar, fræðslu og holls skemmtanalífs veldur. Með setningu slíkra reglna væri stigið raunhæft spor í þá átt að hagnýta þá ágætu aðstöðu, sem hefur fengizt víða um land með hinum mikla og góða húsakosti félagsheimilanna, og þá væri greitt fyrir því á jákvæðan hátt, sem nú er mikið talað um og skrifað, jafnvægi í byggð lands okkar.