15.04.1964
Sameinað þing: 64. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í D-deild Alþingistíðinda. (2667)

204. mál, félagsheimili

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Að marggefnu tilefni er nú um það talað, að nauðsyn beri til, að án tafar verði gerð gangskör að því, að félagsheimilasjóði sé aflað mikilla viðbótartekna, svo að bætt verði úr því ófremdarástandi, sem fjármál félagsheimilanna eru í vegna vanskila sjóðsins við þau. Það hefur enn þá verið vanrækt að ráða hér á teljandi bót, því að augljóst er, að tekjuaukavon sú til handa félagsheimilasjóði, sem felst í lagabreytingu þar um frá síðasta Alþingi, verður eins og dropi í hafinu með tilliti til þeirra gífurlegu vanskila, sem félagsheimilasjóður hefur komizt í við félagsheimili. Er sönnu nær að telja, að sá tekjuauki gæti orðið til svolítilla bóta, ef sjóðurinn væri um leið gerður skuldlaus við félagsheimilin. Ég tel það því lofsvert, að fimm hv. alþm. hafa nú tekið sig til með flutningi þessarar þáltill. að ýta á hæstv. ríkisstj. um að draga ekki lengur að bjarga félagsheimilasjóði og þar með félagsheimilunum úr því fjárhagsöngþveiti, sem nú er komið í. En hvað snertir skuldahalann, hef ég ekki trú á, að fljótlega finnist sú tekjuöflun, sem samtímis nægi til að greiða nú þegar eða nægilega fljótt vanskilin við félagsheimilin og jafnframt nauðsynleg árleg framlög til félagsheimilanna vegna óhjákvæmilegra framkvæmda. Virðist mér í fljótu bragði, að þar sé aðeins til ein úrlausn, sem valdi því, að það verði sómasamlega úr þessu vandamáli ráðið, en það er, að ríkissjóður leggi nú fram fé til greiðslu skuldahalans og síðan sem allra fyrst árlegar tekjur sjóðsins auknar svo, að öruggt megi telja, að ekki sæki strax aftur í sama horfið með vanskil. Það mætti e.t.v. þá hugsa sér, að upp væri tekið fastara form um framkvæmdir félagsheimilanna, þeirra sem eftir eru og eftir er að byrja að byggja, og væri hugsanlegt t.d., að eitthvað væri haft þar til hliðsjónar það fyrirkomulag, sem nú gildir um byggingu nýrra barnaskóla og framlög ríkisins til þeirra. Jafnframt því að koma fjárreiðum fétagsheimilasjóðs í viðunandi horf, er sjálfsagt nauðsynlegt, eins og þessi þáltill. gerir ráð fyrir, að endurskoðuð séu l. um félagsheimili, og í því sambandi vil ég leyfa mér að benda á, að m.a. tel ég sjálfsagt að breyta l. þannig, að heimilt sé fyrir félagsheimilasjóð að greiða dálítið hærra fjárframlag, þegar um það er að ræða, að mörg sveitarfélög taka höndum saman að byggja eitt sameiginlegt félagsheimili, í stað þess að hvert og eitt sveitarfélag byggi út af fyrir sig. Hafa slík samtök marga augljósa kosti og þ. á m. að geta orðið stórlega til sparnaðar í byggingu, um leið og líkindi eru til, að auðveldara verði að reka slík hús með menningar- og myndarbrag, þegar mörg sveitarfélög standa að rekstrinum.

Við þm. Austf. höfum borið fram slíka till., sem ég minnist hér á, um héraðsheimili, og höfum við þar haft í huga byggingu slíks félagsheimilis eða héraðsheimilis fyrir 10 hreppa á Fljótsdalshéraði. En um rökstuðning Þess máls skal ég aðeins vísa til till. okkar og grg. í því efni, þegar það mál var til umr. hér á hv. Alþingi. En í hv. Nd. hlutu þessar till. okkar samþykki á s.l. Alþingi, en var vikið frá jákvæðri afgreiðslu í hv. Ed. af ástæðum, sem ég tel að hafi verið mjög á misskilningi byggðar. Ég vænti þess, að þetta mál verði gaumgæfilega skoðað, þegar til framkvæmda kemur nú við endurskoðun l. um félagsheimili. Þá tel ég, að megi einnig benda á, að eðlilegt sé, að til stofnkostnaðar félagsheimilanna teljist allur húsbúnaður ásamt kvikmyndatækjum, þannig að félagsheimilasjóður taki þátt í slíkum stofnkostnaði, eins og öðrum, sem viðkemur byggingu húsanna.