29.04.1964
Sameinað þing: 70. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í D-deild Alþingistíðinda. (2677)

208. mál, tunnuverksmiðja á Skagaströnd

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Við höfum leyft okkur að flytja till. til þál. á þskj. 449, 3 þm. úr Norðurl. v. Till. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um, að stofnuð verði og starfrækt tunnuverksmiðja á Skagaströnd, svo fljótt sem við verður komið.“

Ástæðan fyrir því, að við flytjum þessa till., er einkum sú, að það hafa verið erfiðleikar með að hafa nægilega atvinnu í kauptúnum og kaupstöðum á Norðvesturlandi s.l. ár. Þó að það hafi oft borið við áður, að skort hafi atvinnu tíma úr árinu, hefur aflaleysi verið allt árið 1963 og það sem af er árinu 1964, þannig að það má heita dauður sjór á þessu svæði. Síld barst engin á land við Húnaflóa eða Skagafjörð s.l. sumar, og er það alveg óvanalegt. Beitusíldina varð alla að kaupa að, og svo var fisklaust seinni part vetrar árið 1963 og svo að segja alveg dauður sjór, það sem af er þessum vetri. Vera má, að þetta breytist. Það er ekki fullkomlega ljóst, hvað veldur þessu. Ef til vill eru það kaldir straumar eða sjórinn sé kaldari á þessu svæði, átan sé minni eða eitthvað því um líkt, nema síldin hefur ekki verið þarna og fiskur ekki heldur neitt að ráði. Það hefur oft komið fyrir á öllum tímum, að vertíðir hafa brugðizt, og það má ekki gera of mikið úr því. En þó að eðlileg fiskgengd sé, þá er það jafnan þannig tíma úr vetrinum, að það er lítil veiði á þessu svæði. Þann tíma, sem ég hef þekkt til þarna, hefur alltaf þrotið fisk, þegar kemur fram í febrúar. Sum árin hefur komið dálítill netafiskur í apríl, en mjög takmarkaður.

Við fluttum hér till. í vetur, sem var samþ., um að skipa nefnd til að athuga um aukinn iðnað, þar sem skortur væri á atvinnu, og við vorum að hugsa um að koma ekki með sjálfstæða till. þess vegna í þessu máli, láta nefndina um að gera till. En vegna beiðni heiman að bárum við samt sem áður fram þessa till.

Ég veit, að það er dálitlum örðugleikum bundið að fjölga þessum tunnuverksmiðjum. Þær hafa verið dálitið dýrari tunnurnar, sem hafa verið smíðaðar hér á landi, heldur en norsku tunnurnar og jafnvel heyrzt raddir um, að þær væru ekki jafnvel smiðaðar. En ég hygg, að ef eitthvað væri gert til þess að lagfæra þetta, þá væri hægt að gera þennan verðmun minni. Á Skagaströnd er dálítið sérstæð aðstaða. Þarna eru mikil hús, sem síldarverksmiðjur ríkisins eiga og eru lítið notuð. Það er mjög stór mjölskemma og tvö hús önnur, sem hægt væri að geyma í tunnur og efni. Ég hygg því, að með smávægilegum breytingum væri hægt að gera þarna aðstöðu til þess að smiða tunnur. Ég hef kynnt mér, hvað vélar mundu kosta í tunnuverksmiðju, hjá þeim manni, sem þekkir þar bezt til, og hann gerði ráð fyrir, að vélar í tunnuverksmiðju, sem gætu unnið við 20—40 menn, mundu kosta um 2 millj. Ég gæti vel ímyndað mér, að það væri hægt að koma þarna upp aðstöðu til tunnusmíði fyrir 21/2—3 millj., og það er ekki mikið fé. Ef eitthvað væri verulega gert til þess að gera þessa tunnusmíði ódýrari, væri það unnt, t.d. með því að útvega ódýr lán, eða jafnvel, ef þarna væri t.d. um 2—3 millj. kr. framlag að ræða, að leggja það fram úr atvinnuleysistryggingasjóði án þess að ætlast til, að vextir væru greiddir af því, eða með öðrum ráðstöfunum. En það er eðlilegt, meðan vextir eru hærri hér en í öðrum löndum og iðnaðurinn þarf að bera uppi þessa vexti, að hlutirnir verði dýrari hér. Annað atriði, sem ég hef ekki kynnt mér nægilega vel, er, hvort ekki væri hægt að fá efnið í tunnurnar ódýrara en verið hefur. Ég geri ráð fyrir, að þeir, sem annast um tunnusmíði ytra, fái þetta allt frá fyrstu hendi, það sé milliliðalaust. Ég hef ekki kynnt mér, hvort þetta er gert hjá þeim tunnuverksmiðjum, sem nú eru starfandi, en þetta skiptir töluverðu máli. Og svo eru farmgjöldin, það er ekki sama, hvort þau eru há eða lág.

Það hefur verið tunnuverksmiðja starfrækt á Akureyri, og ég sé ekki, að það þurfi að vera neitt verri aðstaða að starfrækja tunnuverksmiðju á Skagaströnd en á Akureyri, nema síður sé. Það eru meiri líkur til, að síld verði söltuð á Skagaströnd heldur en Akureyri, og það hefur stundum verið þannig undanfarið, að síldin hefur komið þar fyrst að sumrinu, og þá hafa tunnur ekki verið til, en ef tunnur væru smíðaðar á Skagaströnd, þá yrði nokkurn veginn tryggt, að tunnur væru alltaf til staðar fyrst á síldarvertíð, þannig að það þyrfti ekki að standa í vegi fyrir því, að söltun færi fram. En þar sem um takmarkað fjármagn er að ræða, þá hlífast menn við að birgja sig upp með tunnur og salt, fyrr en Þeir eru nokkurn veginn vissir um, að einhver síld verði, því að oft er erfitt að fá lán nema mjög takmarkað.

Það er þannig með atvinnumál á Skagaströnd, að fólkið er duglegt og á margan hátt framtakssamt, og Skagstrendingar sigldu 5 skipum hér suður fyrir land og hafa mokfiskað þar í vetur. Margir þeirra fóru suður og hafa haft mikla vinnu við fiskverkun, þeir sem ekki eru sjómenn, þannig að ég hygg, að það séu um 100 manns, sem hafa farið suður núna á vertíðinni og hafa yfirleitt haft mjög góðar tekjur, eins og sjómenn hafa haft í vetur hér við Suðvesturlandið, og sömuleiðis landverkafólk, það hefur verið um mikla vinnu að ræða.

Það gefur auga leið, að það eru alltaf í hverju kauptúni einhverjir einstaklingar, sem eiga mjög erfitt með að yfirgefa heimili sín, og veldur þar ýmislegt um, aldur sumra og heimilisástæður annarra, að þeir eru bundnir heima, þannig að það er mikil nauðsyn fyrir þessi kauptún og þessa kaupstaði að hafa einhverja fasta atvinnu, sem fólk, sem ætti erfitt með að fara heiman að frá sér, gæti unnið við, þegar ekki væri um aðra atvinnu að ræða.

Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, taldi sá maður, sem ég talaði við og hefur haft mikil kynni af tunnusmiði, að það þyrfti helzt um 40 menn í verksmiðju, til Þess að vélar væru fullnýttar. Ég skal ekki fullyrða um það, hve kostur væri á mörgum mönnum til þess að vinna þarna. Það er ekki hægt að fullyrða um það fyrir fram, og það væri ekki neitt við það að athuga, þótt það væri reynt að kynna sér það áður en ákveðið væri að reisa tunnuverksmiðju. Ég býst við, að tunnusmíðin norðanlands verði ekki nema vetrarvinna. Mér hefur verið sagt, að á Siglufirði fáist menn ekki í tunnuverksmiðjuna á sumrin, en aftur í flestum árum hafi verið nægilegur mannafli að vetrinum. Þannig mundi þetta verða líka á Skagaströnd, og þannig á það að verða. Fyrri hluta vetrarins er vanalega sæmileg vertíð. Þá yrði sennilega ekki mikið unnið að tunnusmiði; en eftir áramótin, eftir að fiskur minnkaði, mundi hún starfrækt af fullum krafti.

Ég get ekki séð, að þarna sé um svo mikið fjármagn að ræða, að ekki sé leggjandi í það til þess að tryggja atvinnu í kauptúninu. Vera má, að hægt sé að benda á einhverja aðra atvinnugrein, sem henti jafnvel, og er ekkert nema gott um það að segja, enda væri ekkert á móti því, að það væru fleiri en ein iðngrein, því að fólkinu fjölgar, svo framarlega sem atvinna er fyrir hendi, og Það þarf nýjar atvinnugreinar til þess að taka við fólksfjölguninni. Ég veit, að á Skagaströnd er mjög mikill áhugi á þessu máli, og ég hygg, að það sé hvergi aðstaða til að koma tunnuverksmiðju upp fyrir minna fjármagn en þarna vegna þeirrar sérstöðu, sem þarna er.

Hvort síldarútvegsnefnd verður látin reka þessa tunnuverksmiðju eða sjá um rekstur hennar, eins og hefur verið um hinar, er ekkert aðalatriði. Vera má, að það hentaði betur í þessu tilfelli, að síldarverksmiðjustjórn ríkisins sæi um það, vegna þess að hún á húsin þarna. Það er ekkert aðalatriði, aðalatriðið er, að þarna myndist trygg starfsemi, sem fólk gæti fengið vinnu við, þegar aðra vinnu væri ekki að fá.

Það má vel vera, að sjávarútvegurinn sé að taka stórfelldum breytingum, og það eru miklar líkur til þess. Ég hygg, að með þeim tryggingum, sem sjómenn hafa nú á línuveiðum, verði örðugt að gera út á línu í framtíðinni, ef ekki erum meiri fiskafla að ræða en var s.l. vetur. Og ég hef dálitlar áhyggjur um kauptúnin norðanlands, að það verði örðugt að stunda línuútgerð þaðan, ef fiskaflinn verður ekki meiri en verið hefur undanfarin ár. En það er annað, sem mér hefur dottið í hug í því sambandi til atvinnuaukningar, að ef verður farið að gera lítið að því að veiða á línu í þessum flóum, þá ætti að taka upp dragnótaveiði, til þess bæði að bjarga frystihúsunum á viðkomandi stöðum og eins að auka atvinnulífið fyrir landverkafólkið við að vinna úr aflanum. Ég held, að það væri miklu nær að stunda dragnótaveiði þar en hér í Faxaflóa, þar sem eru einar beztu hrygningarstöðvar landsins, að öllum líkindum. En Það kemur Þessu ekki beinlínis við. En eitthvað þarf að gera til að bæta atvinnuástandið, og við vildum gera þessa tilraun nú, því að ég tel, að þetta sé aðkallandi mál. Ég hef ekki lagt meiri áherzlu á þetta en það að óska eftir því, að þetta verði gert svo fljótt sem við verður komið, því að að sjálfsögðu er ómögulegt að framkvæma nokkurn hlut, fyrr en möguleikar eru fyrir hendi, að það sé framkvæmanlegt. Ég hef því ekki haft þetta tímabundið, vegna þess að ég álít, að það sé ekki hægt, og í öðru lagi er mjög hæpið, að nokkur ríkisstj. vilji taka við þannig fyrirmælum, að hafa lokið einhverju verki fyrir einhvern vissan dag, áður en búið er að gera ýtarlega athugun á því, á hvern hátt hagkvæmast er að framkvæma það og hvort það er álitið gerlegt að öllum aðstæðum athuguðum.

Ég legg til, að þessari tillögu verði vísað til n., og óska eftir, að henni verði vísað til allshn.