01.04.1964
Sameinað þing: 57. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í D-deild Alþingistíðinda. (2697)

144. mál, tekjustofn handa þjóðkirkju Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Nokkrir hv. þm. hafa flutt hér þáltill. um, að athugað verði um tekjustofn handa þjóðkirkju Íslands og aðstoð ríkisins við kirkjubyggingar í landinu. Ég veit nú satt að segja ekki betur en hingað til hafi hið íslenzka ríki séð nokkuð sómasamlega fyrir afkomu hins evangelísk-lúterska safnaðar á Íslandi með því að útvega honum sæmilega launaða starfsmenn, prestana, og aðstoða hann á ýmsan máta við kirkjubyggingar, og ég held, að menn verði að fara að athuga alvarlega, þegar till. koma fram eins og þessi, hvaða ábyrgðartilfinningu menn hafa gagnvart hinum ýmsu stofnunum og hinum ýmsu þegnum í landinu og hvar það sé nauðsynlegast - og mér liggur

við að segja kristilegast — að reyna að hjálpa til og sjá um, að bætt sé úr vandræðum, sem fyrir eru. Það hafa verið lögð á af hálfu ríkisins sérstök kirkjugjöld til að standa undir ýmsum kostnaði við kirkjurnar og þeirra starfsemi. Það hefur enn fremur verið sett löggjöf um alveg sérstök laun handa starfsmönnum kirkjunnar til þess að tryggja Þeirra líkamlegu afkomu.

Hinir evangelísku lútersku söfnuðir í landinu hafa sýnt mjög virðingarverðan áhuga á því að skapa sér sín fundarhús, og aðrir söfnuðir í landinu hafa unnið að sínu leyti að slíku án nokkurs opinbers styrks. Og ég held, að frá sjónarmiði trúarlífs sé bezt svo farið, að hver söfnuður um sig sýni sinn áhuga fyrir sinni trú með því fyrst og fremst að leggja fram sjálfur til slíks. Hins vegar hefur sá evangelíski lúterski söfnuður í landinu notið þar mjög mikilla sérréttinda lengi vel á Íslandi, og spurningin er, hvort það sé raunverulega þörf á að bæta þar á, og svo framarlega sem mönnum finnst það vera rétt að leggja meiri álögur á þjóðina og skapa nýja tekjustofna, hvort ekki mundi þá vera réttara að láta eitthvað annað ganga þar fyrir. Ég vil í því sambandi minna á, að þótt ýmislegt stangist á í stjórnarskránni um þessi mál og þessi mál séu nú ekki lengur eins mikið rædd og þau voru t.d. á fyrsta áratug þessarar aldar, þá stendur í 64, gr. stjórnarskrárinnar: „Enginn er skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til neinnar annarrar guðsdýrkunar en þeirrar, er hann sjálfur aðhyllist.“ Grunntónn stjórnarskrárinnar á að vera trúarbragðafrelsi og frelsi líka til að hafa engin trúarbrögð, og þess vegna á ekki að vera hægt að leggja á menn skatta og skyldur samkv. þessari grein stjórnarskrárinnar til hinna og þessara safnaða, sem menn tilheyra ekki. Út af þessu er brotið og hefur verið brotið, en það er ekki ástæða til að auka á þau stjórnarskrárbrot, sem þar hafa verið framin.

Ég veit ekki betur en við höfum á undanförnum árum, eins og hv. frsm. gat um, verið sífellt að bæta við þau fríðindi, sem þjóðkirkjan og sá evangelíski lúterski söfnuður hefur í landinu. Það hefur verið skapaður sérstakur kirkjubyggingasjóður, sem lagt hefur verið í, það hefur verið sett upp sérstakt kirkjuráð og kostað að mestu leyti af ríkinu og annað slíkt, og ég veit ekki, hvort það eru nokkur sérstök rök fyrir kirkjubyggingum í landinu, að boðskapur prédikarans verði svo miklu betri frá fínum og nýjum kirkjum heldur en frá þeim gömlu og stundum fátæklegu. Ég held jafnvel, að meistarinn frá Nazaret hafi prédikað úr frekar lélegum byggingum, þegar hann prédikaði, þannig að það sé ekki fyrst og fremst undir glæsileik hins ytra komið, hve mikið vald það orð hefur, sem sagt er í þeim efnum. Við skulum þá í fyrsta lagi taka fyrir, þegar lagt er til, að undirbúið sé frv. til laga um nýjan tekjustofn og nýjar álögur á almenning, hvað okkur sé brýnast í þessum efnum. Nýlega flutti hæstv. dómsmrh. fyrir okkur allýtarlega skýrslu um þörfina á spítölum í landinu og hvaða vandræðaástand við byggjum við í þeim efnum. Og ég býst við, að það hafi allir verið sammála um, hvaða hörmungarástand það er, sem ríkir á þessu sviði. Við vitum hvað snertir atriði, sem er líka fyrirskipað í stjórnarskránni, að börn eiga að geta fengið almenna menntun, og ákveðið að byggja barnaskála í landinu, en sem stendur vantar tvöfalt fleiri barnaskóla í landinu en til eru og í þorra af barnaskólum, sérstaklega hér í Reykjavík, er tvisett og í suma þrísett, og aðstaðan á heimilum víða hér í Reykjavík er þannig, að þorri barna getur ekki lesið heima hjá sér, getur ekki fengið að vera í skólastofunum síðari hluta dags til þess að fá tilsögn kennaranna við að lesa lexíuna undir morgundaginn, af því að skólarnir eru tví- og þrísettir. M.ö.o.: börnunum er svo að segja úthýst með tví- og þrísetningu í þessum skólum, og þetta stendur beinlínis í vegi fyrir þeirra uppeldi. Þeir, sem eru kennarar hér í Reykjavík, þekkja bezt, hvernig þetta er. Við vitum, hvernig ástandið er, — við höfum rætt það hér fyrir nokkru, — um barnaheimili, m.a. hér í Reykjavík, hvernig aðsóknin að því að koma börnum á barnaheimili er það mikil, að þau fáu barnaheimili, sem til eru, ég tala nú ekki um þau fáu rúm, sem til eru í vöggustofum, gera ekki neitt sem heitir í því að bæta úr þessum vandræðum, samanborið við það, hve þörfin er mikil. Það er enn fremur vitanlegt, að hér var fyrir löngu orðin þörf á, að kæmist upp heimili fyrir vangefin börn, virkilegt heimili, og ýmsir áhugamenn vinna að þessu. Alþingi hefur á ýmsum sviðum reynt ofur litið að hjálpa til með þetta, en samt sem áður er fyrst og fremst treyst á velvilja og fórnfýsi almennings í öllum þessum efnum.

Spurningin, sem fyrir liggur, þegar við erum að ræða um að leggja á nýja tekjustofna, er, til hvers þetta á fyrst og fremst að fara. Eigum við, ef við ætlum að leggja á nýja tekjustofna, fyrst og fremst að verja þeim t.d. til þess að koma upp barnaheimilum yfir börn almennt, yfir vangefin börn? Eigum við að verja þessu til þess líka að reyna að bæta úr skortinum á barnaskólum? Eigum við að verja þessu til þess að bæta úr skortinum á spítölum? Ég vil leyfa mér að spyrja út frá sjónarmiði þeirra manna, sem tilheyra þjóðkirkjunni: Hvað halda þeir, að Jesús frá Nazaret mundi hafa álitið um, hvort þarfara væri að reyna að hjálpa úr vandræðum, sem börnin búa við, heldur en byggja kirkjur? Ég er hræddur um, að það færi að fara nokkuð mikið fyrir sýndarmennskunni í sambandi við úrræðin í þjóðfélaginu, þegar við hér í Reykjavík núna t.d. eigum að fá upp hverja kirkjuna á fætur annarri, og það er eins og menn keppist við að gera þær sem allra óskaplegastar úr garði, á sama tíma sem þörfin fyrir barnaheimili og barnaskóla er þannig, að það kreppir að á heimilunum.

Það var einu sinni maður, sem sagði: „Það, sem þú gerir mínum minnsta bróður, það gerir þú og mér.“ Og ég býst við, að það væri nokkru nær að reyna að hugsa til þeirra smáu í þjóðfélaginu fyrst og fremst og reyna þá t.d. að bæta úr þörf barnanna heldur en einbeita sér að því að fara að láta Það ganga fyrir að auka styrki til kirkjubygginga. Ég held þess vegna að frá því sjónarmiði, hvað eigi að ganga fyrir á Íslandi, sé það ekki þetta, sem eigi að ganga fyrir.

Hv. frsm. gat þess, og ég sé líka, að það er sett fram sem ein aðalröksemd í grg. fyrir þessari þáltill., að hin evangelíska lúterska kirkja, þjóðkirkja Íslands, hafi haft svo óskapleg áhrif fyrir menningu þjóðarinnar, og hv. frsm. hafði nú þau orð um, að þjóðkirkjan væri elzta og virðulegasta stofnun þjóðarinnar eða þjóðfélagsins. Ég held, að það sé ekki rétt, ég held, að það sé alls ekki rétt sögulega séð. Og mér þykir það leitt, ef hv. frsm. gleymir þeirri stofnun, sem hann stendur sjálfur í. Ég held, að þar standi hann frammi fyrir, þar sem Alþingi Íslendinga er, elztu og virðulegustu stofnun þjóðarinnar. Vissulega er evangelíska lúterska kirkjan virðuleg stofnun í íslenzku þjóðfélagi og hefur margt gott gert. Og sú stofnun, sem á undan henni fór, sú almenna kaþólska kirkja, sú sem núverandi þjóðkirkja sló af, gerði vissulega ýmsa góða hluti. En ég vil þó minna á, að það er ekki einvörðungu eitthvað fagurt í sambandi við menningu þjóðarinnar, sem er bundið við þessar stofnanir. Þegar við ætlum að fara að athuga elztu menningarstofnanir þjóðarinnar þannig, kemur fleira til greina, ef á að fara að sýna þeim sérstaka virðingu. Ég vil a.m.k. leyfa mér að vonast til þess, að svo gleymnir séum við Íslendingar ekki orðnir á okkar sögu, að við munum ekki eftir því, að við höfum eitthvað gott gert í heiðni líka, og þær bókmenntir, sem við erum orðnir frægastir fyrir og eru með því bezta, sem til er í veröldinni, höfum við skapað sumpart í heiðni og sumpart á heiðnum grundvelli, og það, sem gott má segja um þáv. kirkju, þá kaþólsku kirkju á Íslandi, var einmitt, að hún var það lin í sinni trú, að hún sýndi sitt umburðarlyndi, að þær bókmenntir okkar fengu að þrifast líka innan hennar vébanda. Ofstækið hafði ekki gripið svo um sig eins og annars staðar í Evrópu, að hún dræpi þetta allt saman niður, eins og seinna varð tilhneiging til einmitt hjá núv. þjóðkirkju Íslands. Við skulum muna, svo að það sé ofur lítið litið á hina hliðina líka, að sú kaþólska kirkja á Íslandi var harðvitugt ránsvald, og ég veit ekki nema íslenzkir bændur frá 12.—15. öld, ef þeir mættu risa upp úr sinni gröf, mundu segja allmarga ljóta hluti um kirkjuna á Íslandi þá, það kirkjuvald, þegar sú kirkja hafði sölsað undir sig meginið af jarðeignunum á Íslandi og meðhöndlaði bændur eins og sagan kennir. Það er, ef ég man rétt, einmitt fyrsti maðurinn, sem minnzt er á í sambandi við höfuðskörunga kirkjunnar, sem við sérstaklega eigum að minnast og vissulega er þess maklega verður, það er Jón Arason, og það er einmitt sá maður, sem núverandi þjóðkirkja Íslands, hin lúterska kirkja, sá um, að væri höggvinn fyrir hans starf fyrir Ísland, af því að hann stóð á verði um sjálfstæði landsins. Ef á að fara að líta einvörðunga á þær ljósu hliðar á kirkjunni og reyna að mála þannig fyrir mönnum í einhverjum áróðri, að það sé ekkert annað til, þá verðum við að rifja upp söguna um þessa hluti. Mér dettur ekki í hug annað en viðurkenna það, sem þessir menn hafa gott gert. En Brynjólfur Sveinsson með öllu því, sem um hann verður sagt, var anzi harðdrægur sem kirkjuhöfðingi, og hann hugsaði kannske ekkert sérstaklega vel um þá þjóðlegu dýrgripi okkar, eða a.m.k. standa menn í því núna að reyna að heimta þá dýrgripi til baka, sem hann sendi burt af landinu. Og ef við eigum að meta allt við kirkjuna, er ég hræddur um, að margir beztu menn hennar hafi stundum orðið að gera ýmislegt af því bezta, sem þeir gerðu, í beinni andstöðu við hana, eða ætli Matthías Jochumsson hafi ekki verið nokkuð nærri því að vera sviptur hempunni fyrir sínar skoðanir og sina baráttu innan þjóðkirkjunnar þá?

Nei, við skulum alveg ganga út frá því, ef við ætlum að fara að rifja upp þessa hluti, að vegna þeirrar menningarlegu sögu eigum við að gera svona og svona mikið, þá er hægt að fara að rifja upp ýmislegt annað líka, og ef við ætlum fyrst og fremst að hugsa um íslenzka menningu, getum við farið að líta í ýmis horn til þess að bæta úr því, sem vangert hefur verið á undanförnum öldum. Ég vil leyfa mér að minna á þáð, að íslenzk þjóð hefur ekki í annan tíma sokkið öllu dýpra í eymd og niðurlægingu en á 17. og 18. öldinni undir áhrifum fyrst og fremst þjóðkirkjunnar þá, píetismans og alls slíks, og má nefna Stóradóm og allt, sem í sambandi við það var, og allt ofstæki kirkjunnar í sambandi við löggjöfina þá. Það er ekki verið að rifja þetta upp lengur núna, en Þetta var rifjað allrækilega upp um aldamótin, þegar m.a. ýmsir fremstu menn, líka hér á Alþingi, og þ. á m. menn, sem urðu biskupar, voru að berjast fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju og það af mjög eðlilegum og lýðræðislegum ástæðum. Það þarf ekki nema lesa sögur, sem ýmsir af okkar beztu rithöfundum skrifuðu þá, eins og t.d. Jónas frá Hrafnagili, til þess að muna, hvernig framkoma kirkjunnar var í garð almennings hér á þeim öldum.

Við skulum þess vegna ekki út frá því, sem gerzt hefur í okkar sögu, fara að byggja fyrst og fremst á því, hvað núna eigi að gera. Ég held, að það, sem okkur liggi á nú, sé að reyna að breyta þannig, þegar við ætlum að leggja álögur á almenning og deila því fé út aftur, að Það komi þar að gagni, sem skórinn kreppir mest, og ég hef ekki orðið var við það, að sem stendur þjáist menn af kirkjuleysi á Íslandi. Ég skal viðurkenna, að um það leyti sem á sunnudögum væri tvísett í kirkjur, væri yfirfullt í kirkjum, hér yrði að tvísetja í þær, mætti fara að athuga þessa hluti mjög alvarlega. En ég held, að sá tími sé ekki kominn enn. Hins vegar er tvísett í barnaskóla, og það liggur nær að reyna að bæta úr þeim hlutum.

Ég held þess vegna, að ef menn álíta nauðsynlegt að fara að leggja á nýja tekjustofna og finnst sjálfsagt að bæta því ofan á allar þær álögur, sem nú eru, þá eigi að athuga, hvort þeir tekjustofnar ættu ekki fyrst og fremst að fara til annars. Ég vil leyfa mér, — og ég vil taka það fram, að ég legg það fram persónulega, það er ekki frá flokknum, — að leggja fram brtt. við þessa þáltill. á þá leið, að öll þáltill. verði þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa og leggja fyrir Alþingi frv. til l. um tekjustofna handa barnaheimilum og stofnunum fyrir vangefin börn og um aðstoð ríkisins við að byggja hús fyrir rekstur þessara stofnana. Þá skal og ríkisstj., þegar þessum þörfum hefur verið fullnægt, athuga um aðstoð ríkisins við kirkjubyggingar í landinu, ef það kemur í ljós við rannsókn, að kirkjur verði yfirleitt að tvísetja vegna aðsóknar, svo sem er með barnaskóla nú.“

Ég álít mjög sanngjarnt, að ef sá evangeliski lúterski söfnuður í landinu sýnir slíkan gífurlegan áhuga, verði farið að athuga slíkt. En ég mundi hins vegar ekkert hafa á móti því, þó að sú hv. nefnd, sem fengi þetta frv. til meðferðar, athugaði áður, hvað henni fyndist um barnaskólana og hvort ekki mundi vera rétt máske þá að bæta þeim þarna inn í. Ég held, að við verðum að hafa hugrekki til þess að taka hvern hlut í þeirri röð, sem okkur finnst rétt að hann komi, og reyna að gera það upp við okkur, að sami peningur verður ekki notaður til tveggja eða fleiri hluta, og við segjum þá til um, hvað við álítum að eigi að hafa forgang í slíku efni.