20.12.1963
Sameinað þing: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

1. mál, fjárlög 1964

Frsm. 2. minni hl. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Við 2. umr. um fjárlfrv. gerði ég grein fyrir afstöðu Alþb. til þess og þeirrar stefnu, álaga- og verðbólgustefnu, sem mótar það og markar. Það er þó enn ljósara nú en var við 2. umr., hversu gegndarlaus hæstv. ríkisstj. ætlar að vera í skattpíningunni og hve langt hún ætlar að ganga í þá áttina að herða að kjörum almennings í landinu. Þegar 2. umr. fór fram, munu flestir hafa talið, að við 3. umr. yrði bætt inn í fjárlfrv. þeirri upphæð, sem þar vantar, til þess að framlag ríkissjóðs til niðurgreiðslna á vöruverði yrði jafnhátt og það er á fjárl. yfirstandandi árs. Nú er sýnt, að svo verður ekki. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa neitað að gera ráð fyrir jafnháum niðurgreiðslum á fjárl, næsta árs og þær eru á fjárl. ársins 1963. Þar munar 92 millj. kr., sem kemur á næsta ári fram sem hækkað vöruverð á algengustu neyzluvörum almennings, nema ríkisstj. hugsi sér, eins og allar líkur benda til, að ná þessari fjárhæð inn með hækkun á söluskatti eftir áramót. Sú hækkun kæmi þó sjálfsagt til með að nema miklu meiri upphæð en þessum 92 millj, kr., enda væri það ekki nema í fullu samræmi við alla stefnu hæstv. ríkisstj. til þessa og sannaði aðeins, að sízt var ofsagt um álaga- og skattheimtustefnu hennar við 2. umr. um fjárlögin. Til niðurgreiðslnanna hafa verið áætlaðir ákveðnir tekjustofnar, og það að stórlækka þær, en halda þeim tekjustofnum, svo sem ríkisstj. stefnir nú að, jafngildir nýrri skattaálagningu af versta tagi. Með því er viðreisnarstjórnin sem fyrr trú þeirri grundvallarreglu sinni, að gróðinn skuli vera friðhelgur, en daglaunafólkið geti alltaf bætt á sig sköttum.

Ég rakti það við 2. umr., hversu afar óhagkvæm skattheimta með söluskatti væri alþýðu manna og hvernig ríkisstj. hefur markvisst aukið neyzluskattana, sem bitna mest á stærstu fjölskyldunum. en lækkað hlutfallslega þá skatta, sem fara stighækkandi eftir eignum og tekjum. Lækkun niðurgreiðslna kemur ekki síður langsamlega verst niður á láglaunafólki, því fólki, sem notar tiltölulega stærstan hluta af tekjum sínum til þess að kaupa brýnustu matvörur, — þær vörur, sem greiddar hafa verið niður, en tiltölulega minna af öðrum vörum, því að til þess hefur það minna fé en aðrir, þeir sem tekjuhærri eru. Lækkun niðurgreiðslna bitnar jafnframt af mestum þunga á stærstu fjölskyldunum, sem þurfa mest af algengustu matvörum. Þannig kórónar ríkisstj. hina markvissu skattpíningu sína á almenningi og þó mest stærstu fjölskyldunum með því að ætla nú að lækka niðurgreiðslurnar um 92 millj. kr. á einu ári. Og geri hún á næsta ári ráðstafanir til þess að halda þeim í sama horfi, eftir að ekki hefur verið gert ráð fyrir þeim á fjárlögum af þeim tekjustofnum, sem til þess voru ætlaðir, þá verður það án efa gert með nýjum söluskatti, sérstakri hækkun á söluskatti ofan á þá nær 410 millj. kr. hækkun á tollum og sköttum, sem gert er ráð fyrir með fjárlögum næsta árs.

Eins og ég tók fram við 2. umr., höfðu stjórnarflokkarnir þá hvergi, ekki í einu einasta atriði, gert ráð fyrir sparnaði í ríkisbákninu við setningu fjárl. Nú hefur hæstv. ríkisstj. hins vegar fundið lið í fjárl., sem mætti lækka og það ekki lítið. Það er sá liðurinn, sem ætlaður var til þess að halda í skefjum verðlagi á brýnustu lífsnauðsynjum almennings, sá liðurinn, sem varið var til þess að létta hinum efnaminnstu lífsbaráttuna, og sá liðurinn, sem stuðlaði að því að draga úr verðbólgunni í landinu. Á þessum lið einum mátti spara, og það þótti ríkisstj. hæfa að gera hraustlega. Við setningu fjárl. var að dómi stjórnarflokkanna til nægilegt fé til þess að hækka fjárveitingu til að framkvæma álagningu skatta í landinu til ríkisskattanefndar og skattstofa á einu ári úr 8.5 millj. kr. í 15.5 millj. eða um 7 millj. kr. Það vantaði ekki heldur fé í ríkissjóðinn, þegar stjórnarflokkarnir samþykktu till. um að henda 1 millj. kr. í kirkjubáknið á Skólavörðuholti. Og það var nóg fé í ríkissjóði til þess að greiða hækkun á kostnaði við eitt einasta embætti í Reykjavík úr 3 millj. kr. í 5.8 millj. kr., eða um 2.8 millj. eða 93% á einu ári. En á sama tíma og allt þetta er gert verður að skera niður um 25% það fé, sem áður var veitt til þess að greiða niður verð á nauðsynlegustu og brýnustu matvörum almennings, það fé, sem beinlínis þjónar þeim tilgangi að draga úr dýrtíð í landinu og hafa hemil á verðbólgunni. En enn þá eru til svo minnugir og sögufróðir menn í landinu, að þeir halda því fram mitt í allri óðaverðbólgunni, að núv. hæstv. ríkisstj. hafi í öndverðu lofað því að stöðva verðbólguna og talið það vera aðalmarkmið sitt.

Á þskj. 179 hef ég lagt til, að 1. liðurinn á 19. gr., til niðurgreiðslu á vöruverði og uppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir, hækki um 92 millj. kr. og gert verði ráð fyrir jafnháum niðurgreiðslum í krónutölu og á núgildandi fjárl., og þyrfti þó talan fremur að vera hærri til jafns við rýrnandi verðgildi peninganna. Á því er enginn vafi, að ríkissjóður mun hafa mikinn greiðsluafgang á þessu ári, og tekjuáætlun fjárlfrv. er einnig á þann veg gerð nú, að gert er ráð fyrir, að sama gildi á næsta ári. En samtímis því, að þannig hafa verið og verða lagðir á skattar samkv. fjárl. langt umfram það, sem ráðstafað er til gjalda, eykur ríkissjóður skattpíningu sína með því að draga stórlega úr niðurgreiðslum á vöruverði algerlega að þarflausu, og stjórnarflokkarnir bíða nú með öndina í hálsinum eftir því, að lokið verði afgreiðslu fjárl., til þess að þeir geti komið fram með ný lög um aukningu á söluskatti, til þess að fá enn meira fé umfram það, sem ráðstafað er á fjárl. Það er engu líkara en hæstv. ráðh. fái greitt fyrir frammistöðuna í skattaálagningunni samkv. uppmælingartaxta.

Þessi ákvörðun ríkisstjórnarflokkanna um að lækka stórlega niðurgreiðslu á vöruverði samtímis því, sem hótanir fylgja um, að söluskattur verði þá hækkaður, ef niðurgreiðslurnar eigi að hækka, kemur sem hnefahögg í andlit framleiðslustéttanna, sem nú standa í erfiðri baráttu til þess að reyna að fá bætta að einhverju leyti a.m.k. þá kjararýrnun, sem þær hafa orðið að þola í tíð núv. ríkisstj., en kaupmáttur tímakaups er nú 20% lægri en hann var, þegar viðreisnarstjórnin tók við völdum, þrátt fyrir stóraukna þjóðarframleiðslu sökum aflaaukningar og góðæris. Þessi ákvörðun ríkisstj., sem rýrir enn kjör almennings, hlýtur að torvelda stórum lausn vinnudeilnanna, sem nú standa yfir, í stað þess að ríkisstj. ber skylda til að leggja þar eitthvað jákvætt til málanna, eitthvað, sem miðað gæti að því að bæta kjör almennings og gæti jafngilt beinni launahækkun. í stað þess grípur hæstv. núv. ríkisstj. til þess að gera sérstakar ráðstafanir, sem hljóta að stuðla að því að hækka kaupkröfur verkalýðsfélaganna, því að launþegar mega nú búa sig undir að mæta þessum nýju kjaraskerðingaráformum ríkisstj., sem hún er nú að upplýsa.

Þessi ákvörðun ríkisstj. hlýtur a.m.k. að valda því, að samningar, sem takast kynnu á milli atvinnurekenda og verkamanna, hljóta að standa skemmri tíma en ella. Þessi ákvörðun ríkisstj. á viðkvæmum tíma getur því haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar og valdið þjóðinni stórkostlegum erfiðleikum og tjóni. Hin neikvæðu afskipti ríkisstj. af samningaumleitununum milli atvinnurekenda og verkalýðsfélaga hafa verið nógu slæm til þessa, þótt ekki bættist þetta við.

Í umr. um vegalagafrv. nýja var ekki sízt rætt um það, hvert það framlag, sem ríkið ætti samkv. 89. gr. þeirra laga, sem nú er verið endanlega að setja, að leggja fram á fjárl. til viðbótar þeim tekjum, sem vegagerð ríkisins fengi af innflutningsgjöldum af benzíni, gúmmígjaldi og þungaskatti, sem hér eftir yrðu ekki teknaliðir 9 fjárl., heldur yrðu tekjustofnar vegagerðarinnar og rynnu beint til hennar. í aths. við vegalagafrv. og í öllum umr. um það var því haldið fram, að á næsta ári yrði framlagið 47.1 millj. kr., en ljóst var, að í rauninni var algerlega óákveðið, hvert það yrði á næstu árum, þegar síðasta ár gamla kerfisins rynni út í fortíðina og yrði fjarlægara og óraunhæfara til viðmiðunar.

Felld var till. frá Alþb. um, að þetta framlag á fjárlögum yrði jafnan reiknað sem ákveðið hlutfall af öðrum tekjum vegagerðarinnar, þannig að tryggt yrði, að ríkisvaldíð gæti ekki dregið úr beinni þátttöku sinni við framkvæmd vegamála í landinu. Nú er hins vegar komið í ljós, að ágreiningur um þessa upphæð bíður ekki næstu ára, heldur hefur þegar séð dagsins ljós í sambandi við ákvörðun framlags ríkisins í fyrsta sinn, sem það er ákveðið samkvæmt nýju lögunum, þótt sú upphæð, 47.1 millj. kr., hafi verið margnefnd í öllum umr. um vegalagafrv. og samkomulag milli flokkanna um afgreiðslu frv. hafi m.a. verið byggt á þeirri staðreynd. Nú ætla ríkisstjórnarflokkarnir nefnilega að haga þannig afgreiðslu fjárlaga, að framlagið til vegagerðarinnar verði ekki 47.1 millj. kr., eins og þeir hafa sjálfir staðhæft að yrði við allar umr. um vegalagafrv., heldur skuli það verða tæplega 35.4 millj. kr. og eigi það rætur að rekja til tölulegs ósamræmis milli vegalagafrv. og fjárlagafrv., sem hæstv. ríkisstj. hlýtur ein að bera ábyrgð á. Það væri í sjálfu sér nógu slæmt, að stjórnarflokkarnir gengju nú á bak orða sinna og ákvæðu framlagið til vegagerðarinnar um 12 millj. kr. lægra en lofað hefur verið til þessa, þótt það væri þá gert á þann hátt að fella niður 3. og 6. lið 2. gr. fjárlfrv., þ.e.a.s. tekjuliðina innflutningsgjald af benzíni og bifreiðaskatt, sem nú eiga ótvírætt að ganga til vegagerðarinnar, og fella samtímis niður á 13. gr. öll framlög til vegamála nema þessar 35.4 millj., sem þeir vilja nú skammta úr ríkissjóði í stað þeirra 47.1 millj. kr., sem lofað var. Það væri nógu slæmt, ef þannig væri gengið á bak loforða um 47.1 millj. kr. á næsta ári, þótt þessi sjálfsagða aðferð væri þá viðhöfð um þær 35.4 millj, kr., sem ríkisstj. ætlar að skammta, og sú eina löglega aðferð. Hitt er hálfu verra, að ætla að gera þetta á þann hátt að láta fjárlfrv. standa óbreytt og í ósamræmi við nýju vegalögin, að ætla að láta alla útgjaldaliðina standa óhreyfða á 13. gr. til þess að geta haldið tekjuliðunum innflutningsgjaldi á benzíni og bifreiðaskatti áfram á tekjuhlið ríkissjóðs, sem ekkert á um þessar tekjur að fjalla, eftir að vegalagafrv. hefur verið samþykkt.

Þetta getur í rauninni ekki staðizt og stríðir gegn hinum nýju vegalögum, að ríkissjóður telji á sínum fjárlögum tekjustofna, sem búið er með lögum að afhenda til vegagerðarinnar. Ef þetta verður haft svo, að þessir tekjustofnar verði hafðir tekjumegin á fjárl. ríkisins, gefur það tilefni til að álíta, að verði um umframtekjur að ræða á þessum liðum fram yfir áætlunarupphæðina, en við hana er miðað í aths. við vegalagafrv., hvað tekjur vegagerðarinnar geti orðið á næsta ári, þá sé ætlunin, að ríkissjóður hirði mismuninn, sem vegagerðin skilyrðislaust á að fá samkv. hinum nýju vegalögum. Vera má, að einhver hæstv. ráðh. gefi yfirlýsingu um, að svo verði ekki gert. En eftir það, sem á undan er gengið um efndir á því, að áætlaðar verði 47.1 millj. kr. á fjárlögum til vegagerðarinnar, og ef yfirleitt eru hafðar í huga efndir hæstv. ríkisstj. á loforðum sínum, er varla við því að búast, að menn treysti þeirri yfirlýsingu. Ég fyrir mitt leyti mundi treysta því betur, ef slík yfirlýsing kæmi frá hv. formanni fjvn. Þótt hann hafi ekki vald, sem ráðh. hafa, þá held ég, að það sé meira mark á honum takandi.

Ég hef í samræmi við hin nýju vegalög og þau loforð, sem fram hafa komið í umr. um vegalagafrv., lagt til á þskj. 179, að framlag ríkissjóðs á 13. gr. til vegagerðarinnar verði á næsta ári 47.1 millj. kr., en önnur gjöld falli niður, svo og tekjuliðirnir nr. 3 og 6 á 2. gr., þ.e.a.s. innflutningsgjald af benzíni og bifreiðaskattur.

Fyrir réttum hálfum mánuði voru hér á hv. Alþingi samþykkt lög um, að bótaþegar almannatrygginganna skyldu hljóta 15% hækkun á bótum frá og með 1. júlí s.l. Sams konar ákvæði eru í fjárlfrv. varðandi það fólk, sem uppbætur hlýtur á 18. gr. Allt það fólk, sem hér er um að ræða, hefur eins og aðrir orðið að taka á sig verðlagshækkanir, jafnóðum og þær hafa skollið á. og getur ekki undan þeim vikizt á neinn hátt. Fjárhagsaðstaða þess og geta til að mæta hækkunum er lakari en flestra annarra, sem þar að auki fá einhverjar úrbætur í kjaramálum fyrr en þetta fólk. Þannig hefur verið aðstaða þessara bótaþega, þeir hafa fengið hækkanir vöruverðs jafnsnemma öðru fólki, þó að þeir eigi erfiðara með að bera þær, en verða síðan að bíða lengst allra eftir einhverri leiðréttingu varðandi tekjur. Jafnvel þótt leiðréttingin komi seint og um síðir og sé miðuð við sömu prósentutölu og aðrir hafa þá fengið, — en jafnvel ekki alltaf um það að ræða, að þessir bótaþegar fái sömu prósentutölu, — þá hefur sú tekjuhækkun oft að meira eða minna leyti verið horfin inn í nýjar verðhækkanir, þegar lagfæringarnar hafa loks fengizt. Þetta fólk hefur því orðið flestum öðrum verr fyrir barðinu á óðaverðbólgunni, sem nú geisar í landinu.

Nú er þegar fyrirsjáanlegt, að margar og fjölmennar stéttir launþega hljóta að fá einhverja leiðréttingu mála sinna innan skamms. En enginn veit, hve lengi bótaþegum er ætlað að bíða, þegar þeir nú loks fyrir hálfum mánuði eru að fá hækkun, sem miðuð var við fyrri launabætur til þeirra, sem nú eru í verkfalli. Þess vegna hef ég á þskj. 179 lagt til, að á fjárlögum verði gert ráð fyrir heimild handa ríkisstj, til að ráðstafa af greiðsluafgangi ársins 1963 til hækkunar bóta til samræmis við launahækkanir, sem orðið hafa og fram kunna að koma, frá því að lög um hækkun bóta almannatrygginga voru sett hinn 6. des. s.1., til þess að þetta fólk, sem við einna bágust kjör býr, geti loks fengið bætur samtímis því, sem aðrir fá launahækkanir.

Tveim öðrum brtt., sem ég flyt við 3. umr. á þskj. 139, hef ég áður gert grein fyrir og hef þar engu við að bæta.