01.04.1964
Sameinað þing: 57. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í D-deild Alþingistíðinda. (2700)

144. mál, tekjustofn handa þjóðkirkju Íslands

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að deila um trúmál hér, ekki heldur um barnaheimili. Það er hægt að hæla hv. 3. þm. Reykv. fyrir það, að hann er hreinlyndur maður og hreinskiptinn og segir meiningu sína. Ég veit ekki, hvort hann er kristinn eða heiðinn. Hann mælti hér einu sinni fyrir minni heiðindómsins, og satt er það, að heiðindómurinn hafði vissan móral og vissa menningu. Það er líka satt, að kristin kirkja hefur margar syndir að baki, t.d. frá miðöldunum og annað slíkt, og það er í raun og veru ófögur saga, ef það væri tekin aðeins lakari hlið af hennar starfsemi, a.m.k. á vissum öldum. Það er líka rétt, að þá hafa sennilega kristnu söfnuðirnir verið heitastir og í raun og veru þeirra starfsemi fegurst, þegar þeir urðu að fara í felur með trú sína og ræktu sín trúmál í Katakombunum í Róm, þannig að það er ekki tryggt, þó að það séu byggðar stórar og skrautlegar kirkjur, að það sé sannkristnara fólk, sem þar kemur saman, heldur en þótt það sé í fátæklegri húsum.

Hitt er annað mál, og ég geri ráð fyrir, að því verði ekki breytt með okkar kirkju, að hún verði ríkiskirkja áfram, og það, sem ég vildi sérstaklega benda á í þessu sambandi, er, að ég álít, að kirkjumrh, hafi mikið starf að inna af höndum við að endurskipuleggja kirkjubyggingarnar og yfirleitt kennimannakerfið hér í landi. Aðstaðan er allbreytt frá því, sem áður var, þegar menn fóru fótgangandi til kirkjunnar eða þá á hestum. Nú fara menn á bílum. Ég álít, að það þurfi að endurskipuleggja þetta allt saman. Það er algerlega óþarft að hafa kirkjurnar jafnmargar og þær voru fyrir 50—60 árum, þegar samgöngumöguleikarnir voru allt aðrir en þeir eru nú. Ég held, að það verði frekar messufært, ef kirkjurnar eru færri og söfnuðirnir stærri. Ég áiít, að þetta kerfi þurfi allt að endurskoða og hefði verið eðlilegra að koma með þáltill. um það. Ég er ekkert sérstaklega prestatrúar og skal ekki, eins og ég sagði áðan, vera að deila um trúmál, en ég aðhyllist trúfrelsi. Það er ekkert við það að athuga, að menn hafi sína skoðun, og hefur hver maður rétt til þess. En ég geri ráð fyrir, að kirkjan verði starfrækt hér áfram sem ríkiskirkja. Við ættum að byggja þetta upp í tíma af meiri hagsýni og viti en gert hefur verið t.d. við félagsheimili hér á landi. Þau hafa verið byggð alveg skipulagslaust. Þau hafa verið byggð óþarflega þétt. Mér finnst það vera eins og hver önnur vitleysa, þegar ríkið leggur fram allt að því helming af stofnfénu, að það hlutist ekki til um, á hvern hátt þessu fé er varið, og skipuleggi þetta, því að það geta engir aðrir skipulagt það nema ríkið. Ég er sannfærður um, að það er ekkert óeðlilegt við það, að prestarnir hefðu stærra svæði en þeir hafa, þeir hefðu meira að gera, og þá er líka sjálfsagt að borga þeim það sæmilega, að þeir þurfi ekki að hafa önnur störf. Það þarf að hafa kirkjurnar þannig, að það sé hægt að messa í þeim, það þarf að hita þær upp og hafa þær sæmileg hús. Það má deila um, hversu mikið skraut á að vera í þeim og hversu stórar þær eigi að vera. Það er sjálfsagt að taka tillit til stærðar safnaðanna. Út í það skal ég ekki fara. En ég álít, að þetta þurfi allt að skipuleggja frá grunni, það þurfi að ákveða, hvar eigi að byggja kirkjur. Svo er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að ríkið leggi allríflegan hluta fram til nýbyggingar kirkna. Það er staðreynd, að gömlu timburkirkjurnar eru að hrynja og þær eru að verða ómessuhæfar. En kirkjunum má vafalaust fækka mikið, prestunum sjálfsagt eitthvað, og ég held, að það sé betra fyrir prestana, að þeir hefðu fullt starf og þá líka full laun. Það hygg ég raunar, að þeir hafi nú orðið. Þeir voru lengi lágt launaðir, svo að þeir urðu að hafa eitthvað annað með. En þetta álit ég, að ríkisstj. ætti að hafa forgöngu um, og ef ekki væri svona áliðið þings, mundi ég gjarnan vilja vera meðflm. þáltill. um að fela ríkisstj. að sjá um endurskoðun á öllu þessu kerfi. Ég held, að þetta sé, eins og ég tók fram áðan, til góðs fyrir starfsemina og trúmálin í heild, að stækka söfnuðina og um leið byggja sæmilegar kirkjur, þannig að það sé hægt að messa í þeim að vetrinum, þótt kalt sé, en það mun vera töluverð vöntun á því, að það sé messufært í sumum kirkjum.