01.04.1964
Sameinað þing: 57. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í D-deild Alþingistíðinda. (2703)

144. mál, tekjustofn handa þjóðkirkju Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég get nú ekki sýnt eina klerkinum, sem við nú höfum á Alþingi, og sálmaskáldinu minni sóma en þann að koma þó í stólinn á eftir þeim.

Hv. 2. þm. Norðurl. v. kom hér inn á það, að í sambandi við umr. um kristfjárjarðir hefði Þjóðviljinn farið að kalla mig einhvers konar fulltrúa Krists hérna eða ég hefði verið að verja hann. Þetta er nú sagt eins og hvert annað skemmtilegt grín. En það er ákaflega fjarri því, að ég hafi verið að bera mig eitthvað upp undan slíku, ef hv. 2. þm. Norðurl. v. heldur það . Mér þykir heiður að því, ef ég er kenndur við eitthvað slíkt, og það er vegna þess, að ég lít á Jesúm frá Nazaret fyrst og fremst sem byltingarmann, mann, sem hafi verið að boða kenningu, sem braut algerlega í bága við það þjóðfélag, sem þá ríkti, og við það ríki, sem hann bjó við, hann hafi verið að boða þeim fátæku fagnaðarboðskap, verið, eins og talað var um þá af hálfu yfirstéttarinnar, að æsa upp lýðinn og fá þá fátæku til að skilja það, að þeir væru jafngóðir menn og jafnmikilvægir í þjóðfélaginu og þeir ríku, og jafnvel að þrælarnir væru menn jafnir fyrir guði og þeir voldugu rómversku auðmenn og hershöfðingjar. Og þessar byltingarkenningar held ég, að flestir þeir, sem aðhyllast sósíalismann og skilja hann, hafi alltaf í heiðri og þann mann, sem lét lífið ásamt mörgum fleiri einmitt í hernumdu landi fyrir dóma þeirra erlendu hernámsstjóra, atyrtur og hrakinn af þeirri ríkjandi stétt í landinu, en elskaður af almenningi. Ég held, að menn sjái einmitt í þeirri persónu eins konar tákn fyrir þá uppreisnarmenn, sem hafa barizt fyrir svipuðum kenningum bróðurkærleikans og fyrir rétti þeirra fátæku og hafa hlotið álíka meðferð. Það var ekki Kristur einn, sem var krossfestur á þessum tímum. Þegar uppreisn þrælanna í Róm var barin niður nokkru áður, eftir að hafa barizt í 3 ár undir forustu Spartakusar, þá var alllangur vegur frá Róm og suður eftir Ítalíu þakinn krossum, þar sem þrælar voru krossfestir á hverjum einasta krossi. Það var siðurinn að meðhöndla uppreisnarmenn þannig þá, og ég held þess vegna, og Það hefur verið skoðun þeirra manna, sem ruddu sósíalismanum braut á Íslandi, eins og Þorsteins Erlingssonar, að um leið og þeir stóðu í mjög ákveðinni andstöðu við hina kristnu kirkju og hlutu af henni ýmsar kárínur, líka hér á Alþingi í sambandi við skáldalaun, — þótt einstakir menn úr kirkjunni, það skal ég fyllilega viðurkenna, hafi staðið sig þar vel, — þá héldu þeir að sama skapi máske því meira upp á Jesúm frá Nazaret sem þeir voru í meiri andstöðu við kirkjuna. Og ef Jesús frá Nazaret væri kominn hérna núna, Þá veit ég ekkert, hvernig þjóðkirkjunni yrði við hann. Ég er hræddur um, að henni litist ekkert sérstaklega á t.d. Fjallræðuna og allan boðskapinn gagnvart þeim ríku, og ég veit ekki, hvort prestarnir beita því sérstaklega mikið af prédikunarstólunum nú á tímum, hve erfitt sé fyrir ríka menn að komast í guðsríki, og draga samlíkingarnar. Ég held, að þeir hrópi ekki mikið „vei“ yfir þeim. Ég er ákaflega hræddur um, að honum mundi jafnvel finnast, að Farísearnir væru anzi sterkir, meira að segja innan kirkjunnar.

En látum það nú vera. Ég vildi aðeins segja þetta út af því, sem hv. 2. þm. Norðurl. v. kom inn á í þessu sambandi. Það er ekki mín skoðun, að það sé andstæða á milli þeirra kenninga, sem Jesús frá Nazaret boðaði um bróðurkærleikann og þúsund ára ríkið á jörðinni og annað slíkt, og sósíalismans, heldur þvert á móti. Ég held, að sósiallsminn sé sú stefna, sem muni skapa þann þjóðfélagslega grundvöll fyrir framkvæmd slíkra kenninga í framtíðinni, þar sem hagsmunaandstaða milli manna sé ekki lengur til, þar sem andstæðar stéttir séu ekki lengur til, þar sem mennirnir komi fram hver við annan sem bræður. Ég held, að einmitt framkvæmd sósialismans muni skapa grundvöll fyrir Það þjóðfélag, sem kristin kirkja hefur prédikað mismunandi vel í 2000 ár og ekki getað framkvæmt. En hitt skal ég viðurkenna, að kenningar Jesú frá Nazaret og kristin kirkja eru tvennt ólikt, og ef við eigum að fara út í þá historíu alla, þá býst ég við, að hv. 2. þm. Norðurl. v. verði mér líka sammála, að allmikið í þeirri organisasjón, sem nú er á kristinni kirkju, stafi ekki fyrst og fremst frá Jesú frá Nazaret, heldur, ef við viljum rekja það til baka, þá sé kannske uppruninn hjá Páli postula og síðan ummyndað allrækilega í yfirstéttum allra tíma í upp undir 2000 ár og byrjar með Konstantin mikla, þegar hann tók kirkjuna í þjónustu ríkisins.

Ég held þess vegna, að það sé ekkert undarlegt, og það er ekkert einstakt við boðskap meistarans frá Nazaret í samanburði við aðra trúarbragðahöfunda, að það inntak, sérstaklega það síðferðilega inntak, sem er í boðskapnum, sé raunverulega gert að svo að segja engu seinna meir í því skipulagsbákni, sem yfirstéttirnar seinna meir búa utan um þá kirkju, sem þeir taka á vissum tíma í sína þjónustu. En fyrst við erum nú að deila hér um söguna og kirkjuna, þá vil ég hins vegar gjarnan segja það, að það er stórkostleg breyting og stórkostleg framför, sem orðið hefur t.d. á íslenzku þjóðkirkjunni á þessari öld. Held ég, að ekki hafi hvað sízt þeir menn hjálpað til þess, sem stóðu utan hennar, t.d. að kenning eins og helvítiskenningin skuli raunverulega vera upprætt úr kirkjunni og hennar kenningum, eftir því sem mér skilst. Þar held ég, að fyrir utan menn eins og Matthías Jochumsson hafi raunverulega menn eins og Þorsteinn Erlingsson hjálpað eins mikið til við það og nokkrir aðrir, þannig að meira að segja Þeir menn, sem utan kirkjunnar hafa verið, hafa líka hjálpað til að gera íslenzku þjóðkirkjuna miklu betri nú, miklu frjálslyndari en hún var fyrir 100 árum.

Annars þykir mér vænt um, að það skuli hafa komið fram frá hálfu þeirra manna, sem hér hafa talað, að það sé rétt og nauðsynlegt að gera meira í ýmsum af okkar félagsmálum, og jafnvel, að kirkjan hefði átt að láta meira til sín taka. Og ég vil leyfa mér að spyrja, hvort það mundi nú ekki einmitt vera bezt viðeigandi í þessu sambandi, að það væri byrjað með því að framkvæma slíkt einmitt með því að breyta þessari þáltill., sem hér liggur fyrir, í þá stefnu, sem ég hef lagt til.