06.11.1963
Sameinað þing: 12. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í D-deild Alþingistíðinda. (2715)

57. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Stjórnarstefnan, „viðreisn” er orðin gjaldþrota. Uppvíst er nú, að allt, sem höfundar hennar lofuðu í upphafi, hefur verið svikið. Allar þær vonir sem stuðningsmenn hennar gerðu sér um ágæti hennar, eru nú brostnar. Þegar ríkisstj. svo setti kórónuna á verkið með því að bera fram þvingunarlög gegn verkalýðshreyfingunni, báru þm. Alþb. þegar í stað fram vantraust á ríkisstj., og nú eru vantraustsumr. að hefjast hér frá hv. Alþingi. En er það ekki nú eins og fyrri daginn, að stjórnarandstæðingar séu einir til frásagnar um það, að stjórnarstefnan sé nú komin í ógöngur? Nei, nú játa fjöldamargir stuðningsmenn ríkisstj. opinskátt ófarirnar. Steinarnir eru sem sé farnir að tala.

Það er örstutt síðan við lásum í Alþýðublaðinu þessa lýsingu á ástandinu: „Verðbólgan færist í vöxt. Hún er eins og óhjákvæmilegt lögmál. Við æðum áfram, kröfsum til okkar af öllum kröftum, höldum víst, að þetta fari allt einhvern veginn vel. En það getur ekki farið vel. Ástandið er í raun og veru litlu betra en það var á Sturlungaöld. Við sjáum þetta, hvert sem litið er. Við erum í útsoginu.“

Þannig lýsir sem sé einn af reyndustu blaðamönnum stjórnarflokkanna ástandinu, sem viðreisnarstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. hefur skapað.

Útgerðarmenn í Vestmannaeyjum, stærstu verstöð landsins, gerðu nýlega einróma samþykkt um, að grundvöllur útgerðar væri brostinn, æskilegast væri, að ríkisstj. vildi hirða allt draslið núna fyrir vertíðarbyrjun. Já, ekki er það nú björgulegt eftir tvennar gengislækkanir, gerðar til þess að sögn, að útgerðin gæti staðið á eigin fótum án uppbóta og styrkja. En þeir, sem þetta sögðu, voru þó íhaldsmenn að miklum meiri hluta, ekki vantaði það .

Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna þingaði á dögunum. Það munaði minnstu, að samþykkt væri þar að stöðva vélbátaútgerðina, og lýst var yfir, að eftir fjögurra ára viðreisn vantaði a.m.k. 14% hækkun allra útflutningsverðmæta til þess að ná endum gjalda og tekna saman. Þetta jafngildir því, að útgerðina vanti um 56% allra vinnulauna að óbreyttu kaupi. ófögur er nú sú lýsingin, ef sönn reynist.

Þannig fer það ekki á milli mála, að útgerðarmenn, forustumenn fiskiðnaðar, sjómenn, verkafólk og bændur fordæma viðreisnina og ávexti hennar. Óánægjuraddirnar berast að úr öllum áttum, ekki bara úr andstæðingaherbúðum stjórnarinnar, heldur engu síður úr eigin herbúðum.

Svo er meira að segja komið, að ráðh. bera fram játningar. Hæstv. fjmrh. játaði í fjárlagaræðunni um daginn, að margt hefði úrskeiðis gengið á liðnu sumri. Niðurstaða hæstv. forsrh., Ölafs Thors, fyrir nokkrum dögum í framsöguræðu fyrir þvingunarlagafrv. var sú, að flest horfði nú illa í efnahagsmálum þjóðarinnar, þess vegna mætti alls ekki hækka kaup verkafólks, það yrði að setja það fast með lögum. Og sjálfur viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, tekur einnig í játningarstrenginn, greiðsluhallinn er válegur, nálgast 700 millj. og gjaldeyrisvarasjóðirnir eru farnir að tæmast. Þetta er þungur dómur um viðreisnina, en þetta er sannur dómur, þetta eru þeirra eigin orð. Ég hef kosið að láta stjórnarherrana sjálfa og þeirra fólk tala.

En hvernig má þetta nú vera? Í vor var þó allt í ljómandi lagi? Viðreisnin hafði heppnazt til fulls, allt í velsæld og blóma, og síðan aðeins stutt sumar á milli, ekkert hallærissumar, öðru nær. Heildarafli sjávarafurða rétt við nýtt met að verðmæti, og þó liggur nú öllu við stöðvun og ringulreið.

Hvað hefur eiginlega gerzt, og hvenær gerðist þetta? Það skyldi þó aldrei hafa verið skrökvað að þjóðinni í vor? Sannleikurinn er sá, að viðreisnin var hrunin í vor, og ríkisstj. vissi það sjálf. Þá voru seinustu forvöð, að hægt væri að dylja það. Þess vegna flýttu þeir kosningunum, sem að réttu lagi áttu annars að fara fram nú um þessar mundir.

Með engu móti verður því haldið fram með rökum, að óbilgirni og heimtufrekja verkalýðssamtakanna í launamálum hafi fellt viðreisnina. Verkalýðshreyfingin veitti lögbundinni kauplækkun Emils Jónssonar, sem stöðva átti alla verðbólgu og dýrtíð, grið allt árið 1959. Þrátt fyrir gengislækkun og afnám vísitölubóta á kaup árið 1960, knúði verkalýðshreyfingin ekki fram almennar kauphækkanir á því ári. Enn var beðið. Það skyldi nefnilega fullreynt, hvort úrræði viðreisnarinnar í efnahagsmálum væru raunhæf, ef kaupið stæði í stað. Það var loks 1961, sem verkalýðshreyfingin knúði fram 1012% kauphækkun og bauð jafnframt að stuðla að vinnufriði um 2 ára skeið. En á þá framréttu hönd var slegið af fyllsta ruddaskap með ástæðulausri gengislækkun sumarið 1961. Það var eitt hið versta verk þessarar stjórnar fyrr og síðar. Þessu svaraði verkalýðshreyfingin með 9–10% kauphækkun vorið 1962. Hún var svo hófsamleg, að atvinnurekendur og ríkisvald viðurkenndu 5% hækkun kaups án formlegra samningsuppsagna strax um áramótin 1962-63. S.l. vor ætlaði verkalýðshreyfingin svo að rétta hlut sinn, en féllst þó á að sætta sig við aðeins 71/2% kauphækkun þá, en fresta höfuðaðgerðum og bjarga þannig síldarvertíðinni norðanlands og austan. Þetta bráðabirgðasamkomulag kallaði hæstv. forsrh. í fögnuði sínum „þjóðhátíðarsamningana“. Þessi griðasáttmáli var gerður í því trausti, að tíminn fram til 15. okt. yrði vel notaður, m.a. af ríkisstj. En svo varð ekki. Ráðh. höfðu ekki fyrr fengið umboð um frest en þeir voru eins og fjaðrafok út um allan heim að skemmta sér, en lögðu frá sér alla ábyrgð.

Þetta eru allar þær kauphækkanir, sem orðið hafa í valdatíð núv. stjórnarsamsteypu. Ef miðað er við 1959, er kauphækkunin alls 35%, en sé miðað við 1958, áður en Emil Jónsson lækkaði kaupið með lögum, hefur kaup verkamanna aðeins hækkað um 17%. En hvað með dýrtíðina á sama tíma? Vísitala framfærslukostnaðar hefur síðan í marz 1959 hækkað um 44% og neyzluvöruvísitalan hvorki meira né minna en um 75%. Er það nú hægt með þessar staðreyndir í huga að kasta allri sökinnt á því, að viðreisnin hafi misheppnazt, á verkalýðshreyfinguna, en á því er sífellt klifað af ráðh. og málgögnum ríkisstj.? Nei, slíkt er vissulega ekki hægt. Það er hin argasta fjarstæða og rangsleitni í senn. Verðbólgu- og dýrtíðarófreskjan hefur aldrei magnazt neitt álíka og í sumar. Vísitala vöru og þjónustu hefur bara á sumrinu hækkað um 22 stig. sem jafngilda 44 stigum eftir gamla vísitölukerfinu. Ekki geta þetta verið afleiðingar kauphækkunar verkafólks í sumar, sem enn hefur engar kauphækkanir fengið. Ekki hefur viðreisnin getað hrunið fyrir óskum einum um hækkað kaup, en lengra er nú verkafólkið enn ekki komið. Nei, vissulega ekki.

En stjórnin hélt ótrauð áfram á ófarnaðarbraut verðbólgunnar í sumar. Já, aldrei eins geyst og í sumar. Í viðbót við verðbólgudæluna á Suðurnesjum, Keflavíkurflugvöll sem alltaf er í gangi, var enska láninu svokallaða, 240 millj. ísl. kr., dælt inn í íslenzkt efnahagskerfi á fáum vikum. Tryggingafélög jusu út lánum, og bankarnir voru hvattir til ríflegrar lánastarfsemi, langt umfram aukinn sparnað. Allt skyldi gera fyrir alla. Það voru nefnilega kosningar í vor. Þá herti það líka á spennunni, að gæðingar stjórnarflokkanna treystu á gengislækkun með haustinu. Þeir héldu, að þeir fengju enn einu sinni að borga fengin lán með smærri krónum og stinga svo mismuninum í vasa sinn, rétt eins og áður. Og máske þeir fái það líka, þó að ofsalegar skuldir stórkaupsýslunnar erlendis standi nú í bili í vegi fyrir nýrri gengislækkun. Hver veit nema Ólafur hressist?

Þetta og margt fleira í ráðleysispólitík stjórnarinnar stuðlaði að því, að efnahagskerfið fór algerlega úr böndunum í sumar. Þá gerðist og einstæður atburður í launamálum þjóðarinnar á sumrinu. Útvaldir sérfræðingar skyldu fella dóm um það, hvað fólkið í þjónustu ríkisins ætti að hafa í kaup. Sá dómur féll rétt eftir kosningar, og má þó vera, að einhver vitneskja hafi síazt út um dóminn fyrir kjördaginn. Ekki efa ég það, að launadómararnir hafa kynnt sér allrækilega, hvaða launagreiðslur þjóðarbúið þyldi, því að meðal dómenda var sjálfur Jóhannes Nordal, efnahagsmálasérfræðingur ríkisstj. nr. 1 eða 2. Meðaltalslaunahækkun samkv. kjaradómi varð 45%, en þeir, sem hæst laun höfðu fyrir, fengu þó allt upp í 90% launahækkun, þ.e. 7–10 þús. kr. í hækkun á mánuði. Kjaradómur átti ekki að valda neinu fordæmi til launahækkana, á því var margstaglazt, m.a. af ráðh. En önnur varð þó raunin. Fyrst knúðu blaðamenn Morgunblaðsins og Vísis fram kjaradómslaun sér til handa með verkfalli. Þá komu vinnuhjú Geirs borgarstjóra, starfsmenn Reykjavíkurborgar, og fengu kjaradómslaun með samningum, og enn þá var burðarmagn þjóðarskútunnar talið í ágætu lagi. Bein hliðstæða við það er svo starfsfólk annarra bæjarfélaga, sem auðvitað fær kjaradómskjör eftir fyrirmynd launareglugerðar Reykjavíkur. Þá fékk allt starfsfólk bankanna kjaradómskaup í september, og enn var þjóðarskútunni naumast brugðið, ekkert nálægt því að sökkva. En fyrir nokkrum dögum var mikill asi á bankaráðsmönnum. Þeir tóku daginn snemma, bankaráðsfundir voru kallaðir saman í skyndi, hæstv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen, hespaði af bankaráðsfundi í Landsbankanum, Emil Jónsson sjútvmrh. skundaði á bankaráðsfund í Seðlabankanum, og Guðmundur f. Guðmundsson utanrrh. boðaði fund í bankaráði Útvegsbankans. Menn vita það nú, að bar var verið að bjarga því í höfn að ákveða bankastjóralaun rúmlega 300 þús. kr. á ári. Ráðh. vissu nefnilega, að næsta dag átti að leggja fram stjórnarfrv. á Alþingi, sem bannaði allar kauphækkanir og svipti verkalýðsfélögin samningsrétti og verkfallsrétti. Þeir vissu, að næsta dag átti að skella hurðum á verkalýðinn og verkalýðssamtökin. Og nú heyrist allt í einu neyðaróp: Hingað og ekki lengra. Þjóðarskútan er að sökkva. Engar launahækkanir meir: Bjargið krónunni. — Og nú varð til spakleg hagfræðikenning. Hún er svona: Ef allir fá kauphækkun, fær enginn neitt. — Þetta var speki fyrir verkamenn, — ekkert vit í að vera að sækjast eftir hækkuðum launum. Þetta hljómaði í alþingissölunum, og það glumdi í útvarpinu. Dr. Benjamín Eiríksson bankastjóri kunngjörði verkamönnum af eldmóði í hinu hlutlausa ríkisútvarpi: Þið hafið ekkert gott af því að fá kauphækkun, því að ef allir fá hækkað kaup, fær enginn neitt. — Mikið talaði maðurinn vel, já, mikið talaði hann vel. Eða þá drengskapurinn og stórmennskan! Og þeir ráðh., sem löbbuðu heim til sín einn dag í september með 50 þús. kr. í umslagi, næstum því árslaun verkamanns, sem uppbót á kaupið sitt frá 1. júlí til 1. sept., hafa nú tileinkað sér spekina: Ef allir fá, fær enginn neitt. — Þess vegna berjast þeir nú ákaft fyrir kaupbindingu og kúgunarfrv. gegn verkafólki og verkalýðssamtökum. Réttlætið á að lifa.

Frv. um launamál o. fl., sem við höfum verið að ræða hér í þinginu undanfarna daga og nætur, á sér engan líka í allri þingsögunni. Það bannar allar kauphækkanir, hverju nafni sem nefnast. Það bannar alla kjarasamninga. Það bannar allar vinnustöðvanir, allt frá því að það var lagt fram á Alþingi. En það er alrangt, að í þessu frv. sé nokkurt bann að finna við verðhækkunum. í 4. gr. segir aðeins, að óheimilt sé að hækka hundraðshluta álagningar á vörum í heildsölu og smásölu. Krónutala álagningar .getur hins vegar hækkað. Enn fremur segir, að meiri hækkun en sem nemi sannanlegri verðhækkun efnivara og annarra kostnaðarliða sé ekki leyfileg, en samkv. því eru verðhækkanir af því tagi alveg sjálfsagðar. Þetta hefur hæstv. forsrh. líka fyllilega játað hér í umr. í þinginu. Það sker miklu dýpra inn í merg og bein, að ráðizt er með frv. þessu að helgustu lýðréttindum verkalýðssamtakanna, en þó að kaupið sjálft sé lögbundið. Það eitt væri þó ærið ranglátt og svívirðilegt eftir það, sem á undan er gengið. Verkalýðsfélögin væru nafnið eitt, eftir að þau væru svipt samningsrétti og verkfallsrétti. En undir slíka réttarsviptingu geta þau aldref beygt sig. Hér eru ólög á ferðinni, og gegn öðru en ólögum risa Íslendingar ekki.

Sú auma vörn og ósanna hefur verið tekin upp fyrir þessu ofbeldislagafrv., að ég hafi í ágúst 1956 gefið út brbl., sem hafi verið alveg hliðstæð við þetta frv. Bæði hæstv. dómsmrh.. Bjarni Benediktsson, og hæstv. forsrh., Ólafur Thors, hafa látið sér þessa staðhæfingu um munn fara og hún síðan verið margendurtekin í útvarpinu og höfð eftir þeim. Mér þykir leitt að verða hér frammi fyrir albjóð að lýsa báða þessa hæstv. ráðh. ósannindamenn að þessari fullyrðingu. Þannig stóðu sakir síðsumars 1956. að landbúnaðarvörur skyldu hækka í verði. Þá var vísitölukerfið í gildi, og áttu verkamenn og aðrir launþegar að fá þessa hækkun afurðaverðsins bætta með tilsvarandi vísitöluhækkun á kaupi. Þá voru verkalýðsfélögin spurð að því, hvort þau vildu sætta sig við að fá ekki vísitölubæturnar á kaupið, ef ríkisstj. greiddi niður afurðaverðshækkunina til bændanna og léti hana þannig alls ekki koma út í verðlagið. Þetta samþykktu öll þau verkalýðsfélög, sem til var leitað, sögðust heldur hagnast á þessu en hitt, því að þau höfðu aldrei talið sig fá fullar bætur verðhækkana með greiðslu vísitölubóta. Þannig eru það bein ósannindi, að grunnkaup hafi verið bundið með l. frá 1956. Enn frekari ósannindi eru það, að kaup hafi verið lækkað með nefndum lögum. Þau lögðu engar hömlur á samningsréttinn og því síður á verkfallsréttinn. Þau lög þrengdu á engan hátt að félagafrelsinu, en lögin frá 1956 lögðu fortakstaust bann við öllum verðhækkunum frá 15. ágúst allt til áramóta. Einnig að því leyti eru þau lög ólík þessu frv.

Ég endurtek, að l. 1956 um festingu verðlags og kaupgjalds voru sett í fullu samráði við verkalýðshreyfinguna, og ættu þeir herrar, sem að þvingunarlögunum nú standa, að reyna að fá samþykki, þótt ekki væri nema eins einasta verkalýðsfélags, við þessu frv., en enginn þarf að halda, að þeim takist það. Verkalýðsfélögin og verkalýðsstéttin um land allt hafa þegar svarað. Mótmælunum rignir að úr öllum áttum. Verkalýðsfélögin lýsa yfir, að þau haldi áfram markaðri stefnu sinni. Þau halda fast við aðalkröfur sínar, sem eru 40 kr. á klst. fyrir verkafólk, styttan vinnutíma og verðtryggingu þess kaups, sem um semst. Þau munu þreyta samninga til að ná þessum lágmarkskröfum fram, og þau hafa þegar fjöldamörg boðað verkföll með löglegum fyrirvara frá og með 11. þ.m.

Norsk verkalýðshreyfing braut á sínum tíma niður tugthúslögin illræmdu. Íslenzk verkalýðshreyfing braut niður og gerði að engu gerðardómslögin 1942, svo að höfundar þeirra urðu fljótlega að biðja Alþingi að ógilda slitrin. Slíkt ætti sannarlega að vera nægileg reynsla. Þetta frv. stríðir gegn réttarvitund almennings og réttlætistilfinningu allra sæmilegra manna. Þau verða því aldrei meira virði en pappírinn, sem þau eru prentuð á.

Það er óviturlegt af ríkisstj. að taka ekki þetta frv. aftur. Verkalýðshreyfingin bauð frest til að þreyta samninga í allt að hálfan mánuð, áður en frv. var lagt fram, til þess að reyna að leysa málin við samningaborðið. En á þá framréttu hönd var því miður slegið og boðinu hafnað. Enn eru allar leiðir farsættegri en lögfesting þvingunarlaganna. Af henni leiðir ófrið og stöðvun atvinnulífs um lengri eða skemmri tíma. Ég trúi því tæpast enn, að þm., sem tilheyra Alþfl. og verkalýðshreyfingunni. láti fara svo auðvirðilega með sig, að þeir samþykki það réttindarán á verkalýðsfélögin, sem í frv, felst. Þó má vera, að búið sé að fulltryggja það, og er þá að taka því.

Ég trúi líka varla, að réttlætiskennd útgerðarmanna og annarra atvinnurekenda segi þeim ekki, að það sé í rauninni svívirðilegt að lögbinda nú kaup verkafólks í slíku dýrtíðarflóði og miðað við launahækkanir annarra stétta. En ef réttlætiskennd þeirra bregzt, blasir augljós hætta við, sú hætta, að verkafólk flýi framleiðslustörfin enn fremur en orðið er og leiti til þægilegri milliliðastarfa, þar sem veitt hefur verið 45% meðaltalshækkun á kaupi. En með þeirri þróun mundi tréð visna frá rótum.

Herra forseti. Ég lýk máli mínu með því að vara enn á ný hæstv. ríkisstj. við því ofurkappi að knýja þessa ranglátu lagasetningu, þessi þrælalög fram. Pappírslög leysa engan vanda. Þetta frv. torveldar alla friðsamlega lausn vandamálanna. Hér erum vandamál að ræða, sem stjórnin er alls ómegnug að leysa. Hún á að játa gjaldþrot sitt. Það blasir nú við allri þjóðinni. Hún á að sýna þann manndóm og gera þá skyldu sína við þjóðina að segja strax af sér. Hún getur aldrei, — og það getur raunar engin ríkisstj., — leyst vanda launamálanna með valdboði í þvingunar- eða kúgunarlöggjöf. Og þó er það rétt, að um það er ekki síður vert að hafa fullt vald á þróun launamála en fjármála- og peningamála. Launamálin leysir engin ríkisstj. farsællega nema í falslausu og heiðarlegu samstarfi við framleiðslustéttir þjóðarinnar, verkafólk, iðnstéttirnar, sjómenn og bændur og samtök þessara stétta. Hvort sem hæstv. ríkisstj. trúir þessu eða ekki, þá er þetta samt sannleikur málsins. Launamálin hefur ríkisstj. tekið alveg öfugum tökum, eins og mörg önnur stórmál. Það á fyrst að ákveða fólkinu, sem framleiðslunni þjónar, lífvænleg kjör, og svo fer það eftir efnahag þjóðarinnar að öðru leyti, hvaða laun er hægt að greiða öðrum, allt upp í ráðh.

Núv. hæstv. ríkisstj. er úrræðalaus og hefur misst sjónar á réttlætinu. Hún hefur skapað sér vantraust þjóðarinnar og á því að biðjast lausnar. Úr því sem komið er, getur það aldrei orðið henni nema til vansæmdar að stritast lengur við að sitja. - Góða nótt.