06.11.1963
Sameinað þing: 12. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í D-deild Alþingistíðinda. (2716)

57. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Áður en ég sný mér að því að ræða efnahagsmálin, en út af þeim er þetta vantraust flutt, tel ég rétt að leiða athygli hv. hlustenda að því, að það eru 4 af ráðh. vinstri stjórnarinnar, sem ýmist flytja það eða standa að því. Rök þeirra eru, eins og menn heyrðu, annars vegar þau, að aldrei hafi nokkur ríkisstj. orðið jafnber að brigðmælum sem núv. stjórn, en hins vegar, að það sé svívirðileg kúgun að svipta launþega frjálsum samningsrétti og lögbinda kaupgjaldið um tveggja mánaða skeið til þess að forðast, að einstakir hópar launþega girði fyrir sanngjarna og farsæla heildarlausn málsins með því að tryggja sér aukin fríðindi, meðan á lokarannsókn og endanlegri lausn stendur.

Ummæli stjórnarandstæðinga hljóma kannske ekki illa, en þau verða þó, Þegar að er gáð, dálitið hjákátleg í munni þessara manna og ekki hvað sízt hv. síðasta ræðumanns, Hannibals Valdimarssonar.

Ætli nokkur Íslendingur sé búinn að gleyma ferli vinstri stjórnarinnar? Aldrei hefur ríkisstj. á Íslandi setzt að völdum með meiri fjálgleik og yfirlæti og glæstari fyrirheitum en vinstri stjórnin. Öllu skyldi kippt í lag án allra fórna af nokkurs manns hendi. Uppbótum skyldi tafarlaust hætt, skuldir greiddar, skattar lækkaðir, dýrtíðardraugurinn dysjaður og annað þar eftir. Og loks voru helgir eiðar unnir að 20 ára samstarfi í þágu alþýðu Íslands.

Ekki var Hannibal Valdimarsson fyrr setztur í ráðherrastólinn en hann gerði sig sekan um það, sem þeir nú jafna til glæpsamlegs athæfis. Með brbl. svipti hann, hvað svo sem hann nú segir, verkamenn hluta af umsömdu kaupi þeirra og löghelgaði þessar árásir á alþýðuna, eins og slíkt heitir nú, í 4 mánuði, en ekki aðeins 2, eins og nú er lagt til. Hann reyndi að sönnu að afsaka sig og sagði, að verkalýðurinn hefði viljað þetta. En ég spyr: Ef svo var, hvers vegna þurfti þá að lögþvinga það ? Mér dettur ekki í hug að drótta því að Hannibal, að hann hafi gert þetta af illum hug. Því fer víðs fjarri. Hann gerði það aðeins af illri nauðsyn, vegna þess að þá stóð líkt á fyrir honum og nú fyrir okkur. Ég ásaka Hannibal því alls ekki fyrir þessa lagasetningu. En ég tel, að maður með fortíð hans á bakinu eigi að tala af meiri sanngirni og stillingu en hann nú gerir um sambærilegar ráðstafanir okkar.

Eftir tvö ár var svo komið fyrir vinstri stjórninni, að enginn spurði lengur um það, hvað hún ætti eftir að efna af loforðum sínum, heldur var spurt um hitt, hvað hún ætti eftir að svíkja. Og þegar hún eftir 21/2 ár hrökklaðist frá, þá hafði henni tekizt að bregðast öllum aðalfyrirheitum sínum. Aldrei höfðu uppbæturnar verið meiri en þá, skuldir höfðu ekki minnkað, heldur vaxið um hundruð millj. kr., skattar ekki verið lækkaðir, heldur hækkaðir um 1200 millj, kr. árlega og dýrtíðarskepnan var ekki dysjuð, heldur var hún fjórðungi meiri um sig en nokkru sinni fyrr. Og ný verðbólgualda var risin og óviðráðanleg óðaverðbólga á næsta leyti að dómi forsrh.

Að lokum sviku þeir þó það, sem þeir þó vildu reynast trúir, þ.e.a.s. ráðherrastólana, en þeim hafði verið heitið órofatryggð, þar til gröfin tæki við.

Mér leiðist að rifja upp raunir vinstri stjórnarinnar. En þegar þessir menn með heilagri vandlætingu og furðanlegum belgingi og óbilgirni, eins og hv. síðasti ræðumaður, brigzla okkur um svik og þrælalög, tel ég rétt að bregða upp þessari mynd af árásarliðinu, um leið og ég segi við það : Öðrum ferst, en þér ekki.

En það er ekki þessi saga, sem ég ætla að segja, hversu þýðingarmikið sem það er að halda áfram að geyma hana sér í minni. Ég ætla ekki heldur að svara fullyrðingum Hannibals Valdimarssonar og ádeilum, sem sumar voru réttar, en flestar rangar, nema óbeint. Ég tel mér skylt að snúa mér beint að þeim vandamálum, sem nú eru fyrir hendi, vandamálum, sem ríkisstj. hefur talið vera þess eðlis, að þau krefðust sérstakra og skjótra aðgerða. Þau atriði, sem ég vil fyrst gera skil, eru þessi: Hvers eðlis eru þessi vandamál, hverjar eru orsakir þeirra, og hvers vegna eru þau orðin svo alvarleg sem raun ber vitni? Og hverjar leiðir eru til úrbóta?

Engum fær dulizt, að þessi vandamál eru sama eðlis og þau, sem við höfum löngum átt við að etja árin eftir styrjöldina. Einkennin eru hin sömu: Miklar launa- og verðhækkanir innanlands, byrjandi halli á greiðsluviðskiptum við önnur lönd, minnkandi gjaldeyrisforði, vaxandi erfiðleikar útflutningsframleiðslunnar vegna hækkaðs tilkostnaðar. Það þarf ekki heldur að leita lengi að orsökum þessarar þróunar. Aðalorsökin er sú, hvort sem menn hafa hreinskilni til að játa það eða ekki, að laun hafa á undanförnum árum hækkað mun meira en þjóðarframleiðslan. Á s.l. ári hefur það svo einnig komið til, að aðhald í útlánum hefur ekki verið eins mikið og skyldi og framkvæmdir opinberra aðila hafa aukizt meira en heppilegt var með tilliti til þeirrar aukningar framkvæmda, sem átt hefur sér stað hjá einkaaðilum.

Á undanförnum árum hefur margoft verið á það bent, að því aðeins að launahækkanir væru í samræmi við vöxt þjóðarframleiðslunnar, leiddu þær til raunverulegra kjarabóta. Það hefur einnig margoft verið á Það bent, að sá árangur, sem náðst hefur í viðreisn efnahagsmálanna á undanförnum árum, væri í hættu, ef ekki kæmi til heilbrigðari þróun launamála en verið hefur. Vil ég í því sambandi minna á þau orð, sem ég viðhafði í síðustu áramótaræðu minni, að víxlhækkanir kaupgjalds og afurðaverðs umfram það, sem aukning þjóðarframleiðslunnar þyldi, hlytu að valda verðbólgu, sem fyrr eða síðar mundi gleypa ávexti þess, sem bezt hefði tekizt. Þetta sagði ég um síðustu áramót og hef oft áður sagt svipað.

Hér hefur hins vegar verið við mikla örðugleika að etja. Heildarsamningar um laun, líkt og tíðkast í mörgum nágrannalandanna, hafa aldrei verið gerðir hér á landi, og um samræmda stefnu í launamálum hefur ekki heldur verið að ræða, hvorki af hálfu samtaka launþega né vinnuveitenda, enda er sjálft skipulag samtakanna með þeim hætti, að þetta er mjög torvelt, að ekki sé fastara að kveðið. Afleiðingin er sú, að á milli einstakra hópa launþega er háð kapphlaup um að ná til sín sem mestu án allrar hliðsjónar af aukningu þjóðarframleiðslunnar, sem kröfurnar þó verða að miðast við. Tekjuhækkanir, sem verða af sérstökum ástæðum hjá einstökum starfshópum, eins og t.d. hjá sjómönnum vegna góðs afla, leiða til þess, að aðrir hópar krefjast sams konar hækkana. Hið sama á sér stað, er reynt er að leiðrétta misræmi í launakjörum eins hóps í samanburði við aðra. Enda þótt það sé í orði viðurkennt, að leiðréttingin sé réttmæt, er hún eigi að síður notuð sem grundvöllur að nýjum kröfum annarra hópa. Launahækkanir af þessu tagi leiða ekki til bættra lífskjara, heldur til hækkaðs verðlags, sem svo verður upphaf nýrrar kröfugerðar.

Þetta ástand launamála olli miklum erfiðleikum þegar á árinu 1961. Launahækkanir, sem gerðar voru á því sumri, voru langt umfram það, sem vexti þjóðarframleiðslunnar nam. Þetta veit hv. síðasti ræðumaður mjög vel, þótt hann segði þveröfugt. Árangur viðreisnarinnar var þá rétt að byrja að koma í ljós. Gjaldeyrisforði var enn lítill og sjávarútvegurinn hafði enn ekki rétt sig við eftir mikið verðfall á útflutningsafurðum og slæma síldarvertíð árið áður. Hinar miklu launahækkanir hlutu þess vegna von bráðar að leiða til hallarekstrar atvinnufyrirtækjanna og samdráttar í framfærslu og framkvæmdum, jafnframt því sem greiðsluhalli við útlönd myndaðist á nýjan leik. Efnahagur landsins var enn of veikur til þess að þola slíka erfiðleika, jafnvel þótt um skamma hríð væri, og var því ekki um annað að ræða en lækka gengið þegar í stað. Eftir að það hafði verið gert, skapaðist fljótlega jafnvægisástand að nýju, og gjaldeyrisforðinn hélt áfram að vaxa.

Sömu erfiðleikarnir í launamálum gerðu vart við sig árið 1962. Það ár var eitt hið hagstæðasta fyrir þjóðarbúskap Íslendinga. Útflutningsframleiðslan var mikil og vaxandi og þjóðarframleiðslan í heild jókst um 7% frá árinu áður. Hins vegar hækkuðu bæði laun og tekjur mun meira en svaraði aukningu þjóðarframleiðslunnar, en það hlaut að leiða til verðhækkana. Íslendingar báru þess vegna ekki gæfu til

að nota þetta einstaka árferði til að tryggja samtímis aukna almenna velmegun og stöðugt verðlag.

A því ári, sem nú er að líða, horfir málið öðruvísi við. Þjóðarframleiðslan hefur á þessu ári aukizt allmiklu minna en á s.l. ári, eða sennilega ekki um meira en 4%, og útflutningsframleiðslan hefur ekki aukizt neitt, svo að teljandi sé. Hins vegar hefur launakapphlaupið verið enn ákafara en áður. Almennar launahækkanir hafa numið um 13%. Tekjur bóndans í verðlagsgrundvelli landbúnaðar hafa hækkað um 26%. Opinberir starfsmenn hafa samkv. niðurstöðu kjaradóms fengið miklar kauphækkanir með tilliti til þeirrar ábyrgðar og menntunar, sem störfum þeirra fylgir. Að þeirri löggjöf stóðu allir þm., og vildi Alþb. meira að segja ætla opinberum starfsmönnum enn þá meiri rétt. Þetta er gott, að menn hafi hugfast, þegar þeir hugleiða þau orð, sem hv. þm. Hannibal Valdimarsson hafði um þetta. Núna er sú ólga, sem kjaradómurinn hefur valdið, notuð til árása á ríkisstj. Það er með öllu óréttmætt, því að þar eru atlir þingflokkar í sama bát að öðru leyti en því, að stjórnarandstæðingar ætluðu þeim mönnum 33 þús. á mánuði, sem kjaradómur þó ákvað ekki nema 20 þús. Loks eru nú uppi miklar kröfur um enn frekari kauphækkanir, er nema 40% og það an af meira.

Það er launakapphlaupið, sem ég nú hef lýst, sem er meginorsök vaxandi verðþenslu, greiðsluhalla og erfiðleika í rekstri útflutningsatvinnuveganna, þótt fleira komi til. En launakapphlaupið og víxlhækkanir verðlags og kaupgjalds hafa ekki aðeins haft í för með sér örari tekjuaukningu en þjóðarframleiðslan hefur leyft, heldur hefur þetta ásamt vaxandi kröfugerð af hálfu flestra eða allra hagsmunahópa þjóðfélagsins grafið undan trú manna á framtíðargildi peninganna, ýtt undir spákaupmennsku og komið af stað kapphlaupi um framkvæmdir og vörukaup af hálfu alls almennings. Þótt enginn vilji verða aftur úr í slíku kapphlaupi, ætti þó öllum að vera ljóst, að með þessum aðgerðum getur enginn unnið á nema á kostnað annarra og á kostnað þjóðarheildarinnar, þegar til lengdar lætur.

Sérhvert stéttarfélag reynir að sjá til þess, að umbjóðendur þess dragist ekki aftur úr í launakapphlaupinu, og flestum þeirra verður vel ágengt í þessu efni. Þrátt fyrir þetta eru til þeir hópar, sem næstum óhjákvæmilega hljóta að dragast aftur úr, vegna þess að þeir eru lítið eða ekki skipulagðir eða vegna þess að þeir hafa veika samningsaðstöðu. Þess sjást t.d. greinileg merkí á síðari árum, bæði hér í landi og annars staðar, að verkamenn, sem stunda almenna verkamannavinnu og hafa ekki neina sérkunnáttu til að bera, eigi erfitt með að fylgjast með launakanphlaupinu, jafnvel þótt þeir séu vel skipulagðir eins og hér á landi. Stafar þetta af því, að eftirspurn eftir þjónustu þeirra fer minnkandi í nútímaþjóðfélagi, en eftirspurn eftir þjónustu þeirra manna fer vaxandi, sem hafa einhvers konar sérkunnáttu til að bera. Nú eru verkamenn, sem stunda almenna verkamannavinnu, einmitt þeir, sem yfirleitt hafa lægstar tekjur fyrir, og leiðir þá launakapphlaupið til þeirra breytinga á tekjuskiptingunni, sem fæstir mundu telja í réttlætisátt.

En launakapphlaupið hefur ekki aðeins áhrif á tekjuskiptinguna, heldur einnig á það, hversu mikið er til skiptanna. Sú upplausn efnahagslífsins, sem er fylgifiskur launakapphlaups af því tagi, sem nú ríkir hér á landi, leiðir til þess, að vöxtur þjóðarframleiðslunnar verður minni en hann ella hefði getað orðið. Fyrir þessu er margendurtekin reynsla, bæði hér á landi og í öðrum löndum. Með launakapphlaupinu erum við beinlínis að skerða þá upphæð, sem gæti verið til skiptanna.

Launakapphlaupið er þess vegna ekki aðeins tilgangslaust að því leyti, að verið er að keppast um að skipta miklu hærri upphæð en raunverulega er fyrir hendi. Það er hverjum einstökum og allri þjóðinni beinlínis skaðlegt vegna þess, að upphæðin, sem til skiptanna er, verður minni en ella mundi og skiptingin óréttlátari en áður. Nágrannaþjóðir okkar, þær sem lengst eru komnar í lýðræðislegum stjórnarháttum og þar sem verkalýðshreyfingin hefur nað mestum þroska, leysa þau vandamál, sem hér eru fyrir hendi, með því móti, að launþegasamtökin móta samræmda stefnu í kjaramálum og gera á grundvelli hennar heildarsamninga við atvinnurekendur. Slíkir samningar eru venjulega gerðir að lokinni nákvæmri athugun á þróun efnahagsmálanna og oft og tíðum í nánu samráði við fulltrúa ríkisvaldsins. Með slíkum samningum er stefnt að því í fyrsta lagi að miða kauphækkanirnar við aukningu þjóðarframleiðslunnar og í öðru lagi að stuðla að því, að kauphækkanirnar komi þeim fyrst og fremst til góða, sem taldir eru eiga á því mesta heimtingu.

Það hefur lengi verið skoðun mín, að hér á landi þurfi að leggja inn á sömu brautir og gert hefur verið í þessum löndum. Á þessu eru hins vegar miklir örðugleikar. Sjálft skipulag samtakanna, bæði launþega og atvinnurekenda, er með þeim hætti hér á landi, að torvelt er að koma á samræmdri stefnu í launamálum og heildarsamningum. Skilningur á nauðsyn þess hefur einnig til skamms tíma verið af skornum skammti. í ræðu þeirri, sem ég hélt í útvarpinu um s.l. áramót og ég áðan vitnaði i, gerði ég þessi mál að umræðuefni. Ég benti á, að því aðeins gætu launþegar vænzt varanlegra kjarabóta, að launahækkanir þeim til handa væru byggðar á vaxandi þjóðarframleiðslu. Ég benti á, hversu oft hin svokallaða kjarabarátta hér á landi verður til þess að draga úr viðleitni til aukinnar framleiðslu og vinnur þannig beinlínis gegn þeim tilgangi, sem hún ætti að hafa. Ég benti á þýðingu þess, að samtök launþega og atvinnurekenda kynntu sér þau gögn, sem fyrir hendi væru um þróun þjóðarbúskaparins, ofan í kjölinn og tækju ákvarðanir sinar í samningum á grundvelli þeirrar athugunar. Ég benti að lokum á nauðsyn þess, að samtök launþega og atvinnurekenda sjálf réðu yfir stofnunum, sem væru færar um að kanna og meta allar upplýsingar og safna eigin gögnum. Mundu þá aukast líkurnar fyrir því, að kröfurnar væru í samræmi við gjaldþolið.

Í sambandi við þá launasamninga, sem gerðir voru í júnímánuði s. 1., var á það fallizt af hálfu beggja aðila samkv. uppástungu ríkisstj., að athugun færi fram á því, hversu miklar launahækkanir mættu verða, til þess að þær gætu komið launþegum sjálfum að gagni. Þetta samkomulag var að mínum dómi þýðingarmikið spor í rétta átt, og ég fagnaði því innilega og gerði mér vonir um og geri raunar enn, að það gæti stuðlað að því, að mótuð væri samræmd stefna í launamálum og heildarsamningar upp teknir. Sú kjararannsóknarnefnd, sem Alþýðusambandið og samtök vinnuveitenda settu á fót á s.l. sumri í áframhaldi af þessu samkomulagi, hefur unnið þýðingarmikið starf við könnun á þróun þjóðarframleiðslunnar og launatekna á undanförnum árum og við athugun á afkomu sjávarútvegsins. Ég er sannfærður um, að þau samtök, sem að nefndinni standa, hafa nú yfir að ráða gleggri og betri vitneskju um þessi mál en þau hafa áður haft, og það hlýtur, þegar fram liða stundir, að hafa áhrif á afstöðu þeirra.

En hvað sem öllu þessu líður, eins og nú standa sakir kemst ríkisstj. ekki hjá því að hafa afskipti af launamálunum, m.a. vegna þess, eins og nú er komið í ljós, að kröfunum er jafnvel fyrst og fremst beint að ríkisvaldinu.

Látum okkur staldra við og athuga vandann, sem við er að etja. Annars vegar eru uppi háværar kröfur um mjög miklar launahækkanir. Hins vegar segir sjávarútvegurinn, að enda þótt kaup hækki ekkert, þarfnist hann aðstoðar, svo að hundruðum millj. kr. nemi. Augljóst er, að ef orðið verður við kröfunum, mundi vandinn í efnahagsmálunum aukast um allan helming, verðlag enn hækka stórlega, halli á greiðslujöfnuðinum enn aukast hröðum skrefum og útflutningsframleiðslan með engu móti geta staðið undir kostnaði sínum.

Athuganir þær, sem ríkisstj. hefur að undanförnu unnið að, hafa þess vegna beinzt að því fyrst og fremst að kanna, hvaða ráðstafanir væri hægt að gera til þess að rétta hlut hinna lægst launuðu, sem dregizt hafa aftur úr í launakapphlaupinu undanfarið, án kauphækkana, sem von bráðar mundu breiðast um allt, eins og sams konar launahækkanir hafa gert alltaf á undanförnum árum, og valda nýjum verðhækkunum, meiri greiðsluhalla og auknum örðugleikum fyrir útflutningsatvinnuvegina. Að því loknu mundu jafnt hinir lægst launuðu sem aðrir vera verr settir en áður, en ekki betur. Telur ríkisstj. , að til séu önnur úrræði, sem leitt geta til raunverulegra kjarabóta. Koma hér m.a. til greina lækkanir beinna skatta og útsvara og hækkanir bóta almannatrygginga o.fl. Sem stendur er ríkisstj. að láta fara fram athugun á því, hvað sé hægt að gera á þessum vettvangi. En það er flókið og vandasamt verk. Leggur ríkisstj. á það áherzlu, að ráðstafanir séu gerðar til þess að bæta kjör þeirra lægst launuðu á þann hátt, er geti orðið þeim að raunverulegu gagni. Hefur ríkisstj. því lagt fram frv. á Alþingi um launamál o.fl., sem miðar að því að skapa nauðsynlegt ráðrúm til þess að kanna þessar leiðir til hlítar og gera þær sérstöku ráðstafanir, sem að haldi megi koma. Jafnframt munu þeir aðilar, sem nú hafa gert kröfur um miklar nýjar kauphækkanir, fá ráðrúm til þess að átta sig á því, að hve miklu leyti þeir muni sjálfir hagnast á því að fá kröfum sínum framgengt, þegar skeiðið er á enda runnið og allir hafa fengið tilsvarandi hækkanir, þ. á m. bændur og opinberir starfsmenn, sem eiga rétt til þess samkv. lögum að fá hækkanir á tekjum sínum í samræmi við þær hækkanir, sem verða hjá öðrum. Þetta er sú leið, sem ríkisstj. vill fara.

En hver er leið stjórnarandstöðunnar? Hún er í stuttu máli fólgin í því að verða við þeim kröfum um kauphækkanir, sem nú eru uppi, en bæta sjávarútveginum þá kostnaðarhækkun, sem af því hlýzt, með tvennu móti: með afnámi útflutningsgjalda og með lækkun vaxta.

Það er alkunna, að allar tekjur af útflutningsgjöldum af sjávarafurðum renna til sjávarútvegsins sjálfs. Að nokkru leyti ganga þessar tekjur til að greiða vátryggingar báta og togara og að nokkru renna Þær til fiskveiðasjóðs og aflatryggingasjóðs og það an aftur til sjávarútvegsins. Þetta gjald mun í ár nema framt að 300 millj. kr. Sé því nú aflétt, hver á þá að greiða vátryggingargjöldin og það annað, sem nú er greitt með útflutningsgjaldinu fyrir útveginn? Það á að greiðast af almannafé, var sagt við 1. umr. frv. um launamál o. fl. Sama sögðu framsóknarmenn, þegar endurreistir voru sjóðir Búnaðarbankans, sem Framsókn skildi við gjaldþrota. Og sama kvað við, er efldir voru sjóðir iðnaðarins. Bændur áttu ekkert að greiða og iðnaðurinn baðan af síður. Allt átti að greiðast af almannafé, þ.e.a.s. mörg hundruð millj. kr. á þannig að heimta af almenningi til þessara þarfa með nýjum sköttum.

Um vextina og áhrif þeirra hefur svo mikið verið rætt á undanförnum árum, að ekki ætti að þurfa miklu þar við að bæta. Vinnst ekki heldur tími til að rekja þá sögu hér. Verð ég að láta nægja að benda á, að staðhæfingar stjórnarandstöðunnar um áhrif vaxta á framleiðslukostnað eru stórlega ýktar, svo að ég ekki segi helber vitleysa. Lækkun vaxta um 2% eða ofan í það, sem þeir voru árið 1959, mundi hafa í för með sér útgjaldalækkun fyrir sjávarútveginn hvað afurðalán og rekstrarlán áhrærir, er næmu 30 millj. kr. á ári. En þær launakröfur, sem nú eru uppi, mundu hins vegar hafa í för með sér hækkun framleiðslukostnaðar á sjávarútveginum, sem beint og óbeint næmi hundruðum millj. kr.

Þau úrræði, sem stjórnarandstaðan telur sig geta bent á, eru því engin úrræði, heldur blekkingar einberar. Formælendur stjórnarandstöðunnar hafa rétt einu sinni brugðið sér í líki sjónhverfingamanna. En enginn þarf að fara í grafgötur um það, hver sá veruleiki sé, sem að baki sjónhverfinganna felst: áframhaldandi verðbólga og greiðsluhalli, sem von bráðar leiðir til falls krónunnar. Þegar þeim leik er lokið, mun sá sannleikur koma í ljós, að þeir launþegar, sem stjórnarandstaðan nú heitir kauphækkunum, bera ekkert úr býtum annað en vonbrigði og kjararýrnun.

Þegar nú er flutt vantraust á ríkisstj. með þeim rökum, sem gert er, þá er rétt að minna enn á, að þegar við tókum við, blasti ekkert við nema greiðsluþrot út á við, glundroði og upplausn inn á við. Hver eyrir var upp étinn, bankarnir skulduðu erlendis hundruð millj. kr., og vinstri óreiðan hafði sett slagbrand fyrir allar erlendar fjárhirzlur, en Ísland, sem í augum umheimsins var máttvana, vanskila vesalingur, átti hvergi afdrep. Og sjálf var þjóðin vonsvikin og kvíðin.

Hvaða breytingar hafa nú á orðið? Höfum við gengið til góðs eða miðað aftur á bak? Við höfum rétt við álit landsins út á við svo farsællega, að jafnvel vandlátustu lánamarkaðir hafa opnazt okkur. Komið hefur verið á verzlunarfrelsi ötlum almenningi til mikilla hagsbóta. Þjóðin hefur fyllzt sjálfstrausti og aldrei verið athafnasamari. Sparifé hefur tvöfaldazt, bankarnir greitt óreiðuskuldirnar og eiga nú erlenda gjaldeyrissjóði að upphæð nær 1100 millj. kr. Ríkt hefur efnahagslegt jafnvægi í landinu, og 2/3 hlutum allra tekna ríkissjóðs er varið ýmist til að mennta þjóðina eða til að tryggja hana gegn sjúkdómum, elli, örorku o.s.frv. í stuttu máli sagt: Aldrei hafa lífskjör Íslendinga verið jafngóð sem nú, aldrei hefur þjóðin veitt sér jafnmikið, aldrei framkvæmt jafnmikið og aldrei lagt upp jafnmikið sem síðustu tvö árin. Þetta gerist ekki af sjálfu sér og ekki undir duglausri og óviturri forustu eða rangri stefnu, hvað sem góðærinu líður.

Eftir allt þetta er svo borið fram vantraust á ríkisstj. í skjóli tímabundinna örðugleika, sem hægt er að bæta úr, ef menn vilja. Og þetta gera mennirnir, sem sjálfir skildu við allt efnahagslíf þjóðarinnar í rústum. Í þessu ljósi verða menn að hlýða á og dæma þær umr., sem hér fara fram.

Tíma mínum er nú að ljúka. Að lokum segi ég þetta: Hér er barizt um tvær stefnur. Annars vegar er sú leið, sem ríkisstj. bendir á og vill fara. Sú leið felur í sér björgun krónunnar. Hún gerir það kleift að rétta hlut þeirra lægst launuðu, og hún skapar grundvöll að áframhaldandi vexti þjóðarframleiðslunnar og velmegunar á komandi árum. Hins vegar er leið stjórnarandstæðinga. Þeir vilja uppfylla óskir og kröfur allra um stórfellda hækkun þeirrar krónutölu, sem hver og einn ber úr býtum. Þessi krónutala er aðeins mælikvarði á þau verðmæti, sem til skiptanna eru. Allir hljóta því að skilja, að úr því að verðmætin sjálf eru óbreytt eða hafa jafnvel minnkað, þá hljóta líka krónurnar, sem eiga að jafngilda þeim, að verða að sama skapi minni sem þeim fjölgar. Leið stjórnarandstæðinga er því grímulaus gengisfelling. Þær kauphækkanir, sem hún felur í sér, munu jafnóðum hverfa í eld verðbólgu og krónufalls. Hún gerir ókleift að rétta hlut hinna lægst launuðu, og hún grefur undan þeim stoðum, sem heilbrigt efnahagslíf, vaxandi þjóðarframleiðsla og velmegun hvíla á. Það ætti ekki að vera erfitt að velja á milli þessara tveggja leiða. En því aðeins að allur þorri þjóðarinnar veiti þeirri leið, sem valin er, stuðning sinn, getur hún leitt til þess árangurs, sem vonir standa til: stöðvunar verðþenslunnar, björgunar krónunnar og raunverulegra kjarabóta til handa þeim lægst launuðu.

Hv. hlustendur. Það er verðgildi krónunnar, sem nú er barizt um. Styðjið krónuna með virkri þátttöku í þeirri baráttu. Sparifjáreigendur, verndið eign ykkar. Láglaunamenn, þið eigið mest í húfi. Látið ekki glepjast af slagorðum og æsingum. Minnizt þess, að kjarni málsins er sá, að leggist allir á eitt, er auðið að bæta hag þeirra, sem verst eru settir, og tryggja jafnframt verðgildi krónunnar. Verði hins vegar orðið við kröfum allra stétta, eins og stjórnarandstaðan nú krefst, er krónan þar með fallin. Allir verða verr settir eftir en áður, en þeir lægst launuðu þó verst, eins og jafnan hefur reynzt að undanförnu.

Verðgildi krónunnar og hagsmunir þeirra lægst launuðu eru þannig tengd órofa böndum. Það er til þess að leitast við að vernda heiður og heill og hag þjóðarinnar allrar, réttlæti og sérhagsmuni þeirra, sem minnst bera úr býtum, sem ríkisstj. fer fram á þann frest, sem frv. um launamál o.fl. mælir fyrir um. — Góða nótt.