06.11.1963
Sameinað þing: 12. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í D-deild Alþingistíðinda. (2717)

57. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Síðast þegar mál voru rædd nokkuð hér á hv. Alþingi í áheyrn alþjóðar, voru tjöld dregin frá og gaf nokkuð að líta yfir val viðreisnarinnar. Gjaldþrot hennar hefur ríkisstj. orðið að játa og hefur síðan þó neyðzt til að viðurkenna enn fleiri af staðreyndunum. Hið víðfræga, sjálfvirka, nýja kerfi hefur fyrir allra augum skapað algera upplausn í efnahags- og launamálum landsins, óðadýrtíð og stórfelldari verðrýrnun sparifjár en nokkru sinni fyrr í stað stöðugs verðlags, sem lofað var, óhófseyðslu í stað hagsýslu og ráðdeildar, sem heitið var. Í stað lækkunar á sköttum hafa komið meiri álögur en nokkru sinni áður í sögu landsins. Greiða átti niður erlendar skuldir þjóðarinnar, eins og þær voru, þegar vinstri stjórnin skildi við, en þess í stað eru erlendu skuldirnar nú að frádregnum innstæðunum hærri, en ekki lægri en nokkru sinni áður, og hafa þó engin stórvirki verið unnin á þessu tímabili til móts við hinar stóru framkvæmdir áður fyrr.

Nú hefur hæstv. forsrh. og stjórnin bætt við hér á Alþingi síðustu dagana einum vitnisburðinum enn um gjaldþrot stjórnarstefnunnar, og sá segir sex. Forsrh. segir, að höfuðframleiðslugreinar Íslendinga hafi ekki ráð á að borga verkamanni 67 þús. kr. á ári fyrir að vinna 8 stundir alla vinnudaga ársins. Með þessu segir ráðh. sjálfur, að stjórnarstefnan þeirra, viðreisnin, hafi ofan á allt annað búið þannig að útflutningsatvinnuvegunum, að þeir geti ekki borgað þetta kaup þrátt fyrir einumuna góðæri til sjávarins, metafla og óvenju hagstætt verðlag á sjávarafurðum. Og þessar 67 þús. kr., sem ráðh. segir framleiðslunni orðið um megn að greiða, eiga á hinn bóginn að hrökkva til að borga 95 þús. kr. framfærslukostnað meðalfjölskyldu, og eru þá einungis ætlaðar 922 kr. á mánuði í húsnæðiskostnað.

Forsrh., sem nú málar upp þessa mynd af ástandinu hér við umr. í þinginu, gaf af þessu allt aðra mynd í kosningunum í vor, en þá sagði hann þjóðinni ósatt og hans menn. Ég er áreiðanlega ekki einn um þá skoðun, að sú stjórn, sem búin er að leika íslenzkt efnahags- og framleiðslulíf svona grátt, þyrfti að bæta stefnu sína og starfsaðferðir eitthvað meira en lítið, ef hún ætti að eiga rétt á að sitja stundinni lengur, enda þótt stjórnarflokkarnir merðu meiri hl. í kosningunum í vor með taumlausum blekkingum um ástandið og það, sem fram undan var.

Ég benti á það um daginn við 1. umr. fjárlaga, að mestu máli skipti, hvort stjórnin hefði horfið frá þeirri stefnu sinni að reyna að leita jafnvægis með því að láta verðlag hækka og gera lánsfé dýrara, en halda niðri kaupi og afurðaverði til bænda. Þrálátur orðrómur gekk um, að stjórnin hefði í engu breytt stefnunni, en hefði í hyggju að leggja út á þá braut að reyna að halda kaupgjaldi launastétta og bænda niðri með lögum, því að of mikil hækkun á almennu kaupi launastéttanna og bændanna virtist að dómi ráðh. eina orsök allra þeirra ófara, enda þótt um það geti ekki orðið deilt, að engin fjölskylda getur dregið fram lífið á almenna kaupinu, sem borgað er fyrir venjulegan vinnudag, ef miðað er við viðreisnarhúsaleigu, þ.e.a.s. þeir einir geta dregið fram lífið á þessu kaupi, sem voru búnir að eignast húsnæði, áður en þessi viturlega og sanngjarna stjórnarstefna var innleidd hér. Og sízt er betur ástatt fyrir bændunum. Samt eiga of miklar hækkanir á almennu kaupi þessara stétta að hafa sett allt úr skorðum og komið framleiðslunni í sjálfheldu í mestu góðærum í sögu landsins.

Er mögulegt, að skynsamir menn sjái ekki, að eitthvað er meira en lítið bogið við þetta, eða réttara sagt, hvílikur þjóðarvoði þetta búskaparlag er, sem ríkisstj. kallar viðreisn? Svo er mönnum sagt, að það sé í raun og veru ekki um neinar aðrar stjórnarstefnur að ræða, þær séu eiginlega ekki til. Svona sé þetta og eigi að vera eftir lögmálinu, þetta sé eins konar náttúrulögmál. Allt tal um annað sé bara ábyrgðarleysi stjórnarandstæðinga, lýðskrum og leiði til ofþenslu, er viðkvæðið.

En hvað ætli forustumenn jafnaðarmannaflokka og umbótaflokka í öðrum löndum segðu t.d. um þá kenningu, að það væri ekki um neinar aðrar stjórnaraðferðir að ræða en Þær, sem byggðust á algeru stjórnleysi í fjárfestingarmálum, okurvöxtum, þ. á m. á lífsnauðsynlegustu lánum til íbúðabygginga og uppbyggingar í landbúnaði, með afleiðingum, sem slíkt hefur á launaþörf almennings og verðlag, beinum ráðstöfunum til að leita jafnvægis með hækkunum verðlags og svo ofan á allt annað lögbindingu kaupgjalds og þar með afnámi samningafrelsis stéttarfélaganna, svo að aðeins örfá atriði séu nefnd? En hér segja hinir ábyrgu helzt, að barátta gegn þessum ósköpum hljóti að vera byggð á fávizku eða illvilja. Þannig er reynt að forheimska þjóðina.

Nú hefur ríkisstj. komið hér fram með úrræði sín til að bæta úr og lækna ofþensluna, eins og hún kallar það, og gegn þeirri meinsemd, að bjóðin sé nú aftur farin að lífa um efni fram, eins og fjmrh. orðaði það svo fallega í blaði sínu. Og hver eru svo úrræðin? Að stöðva með lagaboði hækkun á kaupgjaldi hinna lægra launuðu og bænda og banna með lögum samræmingu á launum skrifstofu- og verzlunarfólks við kaup ríkisins fyrir sams konar vinnu. Það eru víst þessar stéttir, sem standa fyrir ofþenslunni og hættulegustu eyðslunni að dómi stjórnendanna. Þegar þetta á að gera, hafa flestir þeir, sem hærri laun taka í landinu, fengið verulegar kauphækkanir. Þetta er gert, þegar röðin er komin að þeim, sem lægri laun hafa, að fá nokkrar úrbætur á óbærilegu ástandi. Slíkt á sér enga hliðstæðu í íslenzkri stjórnmálasögu né þótt víðar væri leitað.

Þegar kom að þeim lægra launuðu, uppgötvaði ríkisstj., að ráðstafanir þurfti að gera gegn ofþenslunni og þjóðin væri farin að lífa um efni fram, og það var svo sem auðvitað, að þá var hættan mest á því, að keypt væri umfram það, sem þjóðfélagið hefði ráð á, ef verkamannakaupið færi upp fyrir 67 þús. kr. á ári eða verzlunar- og skrifstofufólkið fengi kjör sín samræmd því, sem ríkið greiðir sínu eigin starfsfólki. En undanfarna mánuði hefur látlaust rignt yfirlýsingum um, að samið yrði um samræmingu verzlunar- og skrifstofukaupgjalds, og þá ekki sízt fyrir kosningarnar í vor auðvitað, því að þá var ekki sparað að lofa samræmingu. En það er eitt til marks um þá löggjöf, sem nú á að setja til að rétta viðreisnina við, að hún byggist á því m.a. að banna öðrum með valdboði að greiða sama kaup fyrir sömu vinnu og ríkið sjálft greiðir sínu fólki. Hvernig halda menn, að þetta sé framkvæmanlegt?

Þessi löggjöf er óviturleg og byggð á óverjandi ranglæti. Menn ættu að taka eftir því líka, að það mun ekki verða reynt að sýna fram á í þessum umr., að menn geti búið við það kaup, sem á að lögbinda, né vogað að halda því fram, að nokkur frambærileg rök séu fyrir því að banna það með lögum, að kaup verzlunar- og skrifstofufólks sé samræmt því kaupi, sem ríkið borgar fyrir sömu störf. Þess í stað mun þvargað og bollalagt um, að fyrr hafi verið sett lagaákvæði um kaupgjald á Íslandi, og engu skeytt, þótt ekkert þeirra mála eigi nokkuð skylt við þetta efnislega né miðað við kringumstæðurnar.

Fyrir 21 ári var á stríðstímum í landinu hernumdu innleiddur almennur gerðardómur, sem þáv. forsrh., Ólafur Thors, lýsti með þessum orðum:

„Ekki einu sinni er fyrirskipað óbreytt grunnkaup. Nei, heimilt er að hækka grunnkaupið til lagfæringar og samræmingar, en síðan goldin alveg full og ótakmörkuð uppbót, eftir því sem vísitala verðlags segir til um.“

En ekki einu sinni þessi löggjöf reyndist framkvæmanleg og það á stríðstímum, vegna þess að hún skerti samningsfrelsi verkalýðssamtakanna. Því spyrja menn, þegar ráðh. nefna í sambandi við þetta mál sitt núna meira en 20 ára gamla styrjaldarlagasetningu, sem ekki reyndist framkvæmanleg: Er það gert til að nefna æskilega fyrirmynd eða bara til þess að reyna að komast hjá því að ræða réttmæti þess, sem þeir eru að gera núna, og hversu viturlegt það er að leggja út í lögbindingarstríð? En Framsfl. hefur undanfarna tvo áratugi dregið ályktanir af reynslu sinni í þessum málum og staðið fast á því að skerða ekki samningsrétt verkalýðshreyfingarinnar.

Allar hrókaræður á Alþingi um hliðstæðu við þessa löggjöf áður á vegum annarra, sem réttlæti þetta, sem nú er verið að gera, eru út í hött og einungis til þess gerðar að leiða athyglina frá þeim óverjandi málstað, sem nú liggur fyrir. En flestar þær lagasetningar, sem vísað hefur verið til í umr., hafa miðað að því að draga úr víxláhrifum vísitölunnar, án þess að fjalla um grunnkaupið. En þessi stjórn hefur frá upphafi búið við Þau kjör að vera laus við þau áhrif vísitölunnar, sem áður voru mikið vandamál. Samt hefur ríkisstj. með dýrtíðarstefnu sinni sett allt efnahagskerfið úr skorðum. En það er kannske ekki von á góðu, því að þessi málflutningur ráðh. hér á undanförnum dögum sýnir, að þeir snúa andlitunum aftur, og er það ekki vænlegt til að leysa þann vanda, sem fram undan er. Útúrsnúningar og rangfærslur um liðna tíð eru ekki holl viðfangsefni fyrir þá, sem standa frammi fyrir því að leysa vandamál á raunsæjan og sanngjarnan hátt. Um það virðist vera að fást átakanleg reynsla. Það reynist ekki drjúgt til leiðbeiningar við vandasamar ákvarðanir að búa sér til ranga og skrumskælda mynd af liðnum atburðum, þótt slíkur óvandaður áróður gæti kannske borið einhvern árangur í bili eða verið freistandi.

Ríkisstj. hefur nú valið ófriðarleiðina og kastað stríðshanzkanum og það með harla óvenjulegum hætti, því að hún átti þátt í því í vor, einmitt rétt fyrir þjóðhátíðardaginn, að kjaramálin voru leyst til bráðabirgða og á þann hátt að fresta samningum þangað til upp úr miðjum október nú í haust. En ríkisstj. , sem var aðili að þessu samkomulagi, notfærði sér svo frestinn til þess að taka samningsréttinn af verkalýðsfélögunum og félögum verzlunarfólksins með lagaboði. Sýnast mönnum svona vinnuaðferðir líklegar til að vekja traust, sanngjarnar eða viturlegar, eins og málum hefur verið komið hér nú?

Bindingarlögin núna eru kölluð til bráðabirgða. En dettur nokkrum í hug, að neitað hefði verið nú að reyna samninga og lagt út í ófrið um þessi lög, ef ætlunin væri að hafa samningsfrelsi um kjaramálin, svo sem verið hefur?

Ég skoraði á hæstv. forsrh. þegar við 1. umr. málsins að sýna, að hér væri um ákvæði til bráðabirgða raunverulega að ræða, með því að gefa út yfirlýsingu um, að ekki kæmi annað til mála en samningsfrelsið yrði aftur upp tekið eftir 31. des. n.k. Ráðh. aftók að gefa slíka yfirlýsingu. Það fer því ekkert á milli mála, hvað á seyði er, þegar við þetta bætast yfirlýsingar hæstv. forsrh. um óbreytta stjórnarstefnu að öðru leyti en því, að í stað samningsfrelsis í kjaramálum, sem áður var yfirlýst eitt grundvaltaratriðið í stefnu ríkisstj., skuli koma lögbinding á kaupi launastétta og bænda og á með því að loka öllum undankomuleiðum almennings í stríðinu við dýrtíðarstefnu ríkisstj. Þetta þýðir, að ríkisstj. er ráðin í því að reyna að leysa ofþensluna með því að þrengja kosti almennings, því að enn eru boðaðar ráðstafanir í peningamálum, sem hljóta að auka dýrtíðina. En þeir peningasterku eiga að koma því fram, sem þeir vilja, því að þeirra eyðsla eða þeirra framkvæmdir auka ekki ofþensluna að dómi ríkisstj.

Ríkisstj. hefur frá upphafi sagt við menn, að hennar stefna væri stefna frelsisins og fyrir frelsið yrðu menn að fórna. Ríkisstj. var meira að segja svo harðsvíruð að heyja kosningabaráttuna í vor undir merki frelsisins, en með lögbindingu á kaupgjaldinu uppi í erminni. Með lögbindingarfrv. í erminni sögðu þeir: Markmið okkar er frelsi, hinir vilja meiri ríkisafskipti. — Enn fremur sögðu þeir: Það er meginhugsjón sjálfstæðismanna að takmarka afskipti ríkisvaldsins af málefnum borgaranna. — Með svona svardögum mörðu þeir meiri hl. í vor og segjast svo hafa fengið traust þjóðarinnar til að sitja og lögbjóða freklegri frelsissviptingu en áður hefur þekkzt. Nú sjá menn tvennt: hvers þeir meta heit sín, sem þeim var treyst til þess að framkvæma, og hvað það er, sem þeir meina með frelsi. Og ég spyr: Hvað á nú að verða eftir af frelsinu, þegar innleiða á enn harðhentari skömmtun á lánsfé en enn þá hefur þekkzt, þvinga viðskiptabankana og aðrar stofnanir með valdboði til þess að framkvæma þetta, bæta svo við allsherjarbanni á öllum frjálsum samningum um kaupgjald, meira að segja banna einstaklingum og félagssamtökum í landinu að greiða sama kaup og ríkið greiðir sjálft fyrir sömu vinnu? Fyrir hverja er það, sem eftir er af frelsinu, þegar svona er komið? Það fer nú ekki lengur fram hjá neinum. Frelsið er ekki þá orðið til fyrir neina aðra en þá, sem hafa fullar hendur fjár, enda allur þessi leikur til þess gerður frá upphafi, að þeir fái komið sínu fram, og fyrir því skal allt víkja. Nauðsynjakaup almennings, nauðsynlegustu þjónustuframkvæmdir hins opinbera, rekstrarfjárþörf sjálfrar framleiðslunnar og samvinnufélaganna, sem ásamt stéttarfélögunum hafa verið sterkustu stoðir fólksins, lífsnauðsynlegustu framkvæmdir heimilanna, svo sem íbúðabyggingar, eins og húsnæðisástandið vottar, allt skal þetta víkja fyrir framkvæmdum og eyðslu þeirra, sem fyrir fjármagninu ráða. Samt segja þeir, að ofþenslan stafi af of mikilli einkafjárfestingu.

Leið frelsisins á m.a. að vera fólgin í því að reyra böndin fastar að viðskiptabönkunum og öðrum stofnunum, sem fyrir þeim peningum ráða, sem mest gætu greitt fyrir hinum þýðingarmestu málum, bæta svo við jafnvel nýjum álögum og hafa stóra greiðsluafganga hjá ríkissjóði, fengna með neyzlusköttum, til að leggja inn í kerfið til jafnvægis á móti framkvæmdum og eyðslu hinna fáu frjálsu, bæta svo ofan á að binda allan almenning á höndum og fótum í kjaramálunum. Til jafnvægis leiðir þetta tæpast. Til þess verða gæðingarnir of aðsópsmiklir, eins og reynslan sýnir. En þetta leiðir til þess, að sjálfur grundvöllur þjóðarbúskaparins breytist stjórninni meira að skapi.

Það yrði dýrkeypt jafnvægi, sem fengist eftir þessum leiðum, því að ofan á allt annað draga þessar aðferðir úr sjálfri framleiðslunni. Svo á að telja fólki trú um, að það sé hreint engin önnur nothæf stjórnarstefna til en þessi. Þeir, sem ekki segja já og amen við þessu, séu ábyrgðarlausir lýðskrumarar, eins og forsrh. sagði hér áðan með ofur lítið öðrum orðum. Menn setji út á þessi góðu verk aðeins af því, að þeir séu ekki sjálfir í ríkisstj. Mér þætti ekkert skrýtið, þótt menn væru farnir að þreytast á því að heyra ráðh. afsaka ráðleysi sitt með þessum hætti.

Ráðh, og ýmsir fleiri tala um nauðsyn ábyrgrar stjórnarandstöðu, og ekki dreg ég úr því, að miklar kröfur séu gerðar til stjórnarandstöðunnar í því efni. En hvað um ríkisstj. landsins? Eiga menn ekki rétt á því, að hún sé ábyrg og fari skynsamlega, hóflega og af hæfilegri gætni og sanngirni með málefni landsins? Og nú spyr ég: Hvorir voru ábyrgari 1960, ríkisstj., sem skellti yfir viðreisninni, sem svona hefur leikið málefni þjóðarinnar, eða stjórnarandstaðan, sem varaði við þessu sterklega og sagði, hvernig hlyti að fara? Hvorir voru ábyrgari 1961, stjórnarandstæðingarnir, sem áttu þátt í hóflegum kjarasamningum, tryggðu með því framleiðsluna, forðuðu frá stórverkföllum og framleiðslustöðvun, eða ríkisstj., sem í bræði og fljótræði framkvæmdi þá vanhugsuðu gengislækkun, sem flestir mundu nú vilja mikið til vinna að aldrei hefði til mála komið? Og loks spyr ég: Hvorir eru ábyrgari núna, ríkisstj.. sem leggur inn á ófriðarleiðina, sem hlýtur að reynast ófær og hafa í för með sér óbætanlegt tjón fyrir þjóðarbúið, eða Framsfl. í stjórnarandstöðunni, sem bendir á og vill fara „hina leiðina“? Og þá kemur spurningin: Hver er „hin leiðin“, miðað við núv. kringumstæður?

Ég nefni nokkur höfuðatriði: Viðurkenna, að núv. almennt kaupgjald launastéttanna og bænda fær ekki staðizt eftir það, sem skeð hefur, og engri átt nær að lögbinda kaupið. Virða afdráttarlaust samningsfrelsi verkalýðsfélaganna og stéttarfélaga bænda og hafna lögbindingu kaupsins. Leggja kapp á samninga, sem miðast við að leiðrétta það herfilega misrétti, sem orðið er, í áföngum, því að í einu stökki verður það ekki gert. Keppa umfram allt að viðtækum samningum og samkomulagi á breiðari grundvelli en verið hefur, og fyrir því var jarðvegur og gæti orðið, ef stjórnin hætti við frv. sitt. Snúa að því með oddi og egg og margs konar ráðum að gera íslenzkum framleiðslugreinum aftur kleift að borga mannsæmandi kaup fyrir venjulegan vinnudag og þola réttmætt afurðaverð til bænda. Lækka vextina, því að íslenzkir framleiðendur geta ekki búið við miklu hærri vexti en atvinnuvegir annarra þjóða. Hækka afurðalánin með sanngjörnum vöxtum. Lækka vexti á íbúðalánum og framkvæmdalánum í sveitum og við sjó, því að íslenzk framleiðsla stendur aldrei undir því kaupi né því afurðaverði, sem hér þarf að vera, ef þessir vextir eru hafðir miklu hærri en annars staðar, og til lengdar verður ekki á móti Því staðið, að háu vextirnir komi inn í framleiðslukostnaðinn, enda koma þangað sumpart strax og sumpart síðar. Kveða niður þá blekkingu, að vextirnir séu ekki stórfelldari liður í þjóðarbúskapnum en inn- og útborgunarvextir samtals í bönkum sýna, því að fram hjá þeirri staðreynd verður ekki komizt, að kaupgjald í landinu hlýtur, ef nokkur sanngirni fær að ráða, en ekki einber rangindi, að miðast við, að unga fólkið geti búið í íbúðum og borgað háu vextina af þeim, en vextir af einu íbúðarverði gleypa núna næstum heils árs laun verkamanns, og hliðstætt og þó enn verr er ástatt hjá bændum. Þetta mótar framleiðslukostnaðinn í æ ríkari mæli og verður ekki læknað með nýjum og nýjum kaupþvingunarlögum. Tryggja þarf framleiðslugreinunum vinnuafl með því að draga úr þeirri fjárfestingu, sem helzt má bíða. Lækka verður útflutningsgjaldið, sem nemur orðið 7.4% af útflutningsverði framleiðslunnar og jafngildir 30–35% af öllu kaupgjaldinu í fiskiðnaðinum, og afnema verður sérstaka launaskattinn á bændur, en ætla bæði sjávarútvegi og landbúnaði lánsfé í sína sjóði af fjármagni því, sem myndast í landinu eða tekið er að láni erlendis, eins og öðrum lánsstofnunum. Þessar atvinnugreinar geta ekki lánað sjálfum sér, eins og nú er málum komið. Ríkið verður að taka á sig að kosta þær rannsóknir í þágu sjávarútvegsins, sem hann kostar nú með útflutningsgjaldinu. Og fleiri ráðstafanir í sömu átt verður að gera til að létta álögum og útgjöldum af framleiðslunni. Kemur hér til hjálpar, að ríkistekjurnar eru stórvaxandi með hækkandi verðiagi og það svo, að ríkissjóðstekjur munu fara mörg hundruð millj. fram úr áætlun á þessu ári. Endurskoða verður tolla- og álagakerfið allt með tilliti til þarfa framleiðslunnar. Með öllu þessu og með mörgum öðrum ráðstöfunum í sömu átt þarf að vinna að því að gera framleiðslunni aftur kleift að borga lífsnauðsynlegt kaup og draga til sín á ný nauðsynlegt vinnuafl, en með stefnu ríkisstj. verður framleiðslan í vaxandi mæli rúin vinnuaflinu í þágu einkafjárfestingarinnar, sem ráðh. viðurkenna að hafi valdið ofþenslunni, en æði mikið af henni á litið skylt við þjóðarnauðsyn.

Hraðfrystiiðnaðurinn mun standa höllustum fæti, en fólkið, sem þar vinnur, er í þeim hópi, sem brýnasta þörf hefur nýrra samninga. En erfiðleika hraðfrystihúsanna nú hafa þeir að skálkaskjóli í kaupbindingarmálinu. Er því rétt að upplýsa, að allt kaupgjald í hraðfrystihúsunum, bæði hærra og lægra, nær ekki 200 millj. samtals, að þau verða að skila 60—70 millj. í útflutningsgjöld og vextir eru taldir álíka fjárhæð. Þar við bætast svo aðrir liðir, sem hægt er að hreyfa til lækkunar, ef menn vildu fara „hina leiðina“ út úr ógöngunum.

Allt er þetta, sem ég hef nefnt, og fjölmargt fleira þýðingarmiklir þættir í „hinni leiðinni“. Mest af öllu ríður þó á því að taka upp skipulega sókn til aukinnar framleiðslu og aukinnar framleiðni á öllum sviðum í stað þess handahófs og stjórnleysis, sem nú ríkir í öllum slíkum málum, laða saman og styðja alla hina beztu krafta til forustu á þessu sviði og verja hiklaust og skipulega fjármagni til þess að láta það sitja fyrir, sem horfir í þessa átt og vandann getur hjálpað til að leysa.

Vinnuafl og vélaafl samanlagt ráði því, hverju verði til vegar komið í framleiðslu og framkvæmdum, og ofþenslu varnað með því að láta þær framkvæmdir sitja á hakanum, sem minni almenna þýðingu hafa og síður bæta úr brýnni nauðsyn eða auka framleiðni og þjóðartekjur, að ég nú ekki tali um þær framkvæmdir, sem beinlínis sóa verðmætum. Þessar framkvæmdir og óhófseyðslan eiga að víkja fyrir brýnustu nauðsynjum heimilanna og til þess að framleiðslan í landinu fái vinnuafl og fjármagn til starfa, en ekki öfugt, eins og verið hefur og nú er stefnt að í enn ríkara mæli en fyrr. Þannig sé leitað jafnvægis og unnið gegn ofþenslu, en ekki með lögþingaðri kjaraskerðingu og ráðstöfunum, sem beinlínis draga úr framleiðslunni og framleiðninni og draga fólkið frá nauðsynlegustu störfunum, eins og gert er með vaxtapólitíkinni, rekstrarfjárskortinum og

skorti á fé til þess, sem mestu skiptir, jafnframt því sem sumt af því, sem sízt skyldi, sogar til sín fjármagn og vinnuafl.

Þetta voru nokkur orð um „hina leiðina“, og þyrfti þó margt fleira að segja. En hvort skyldi vera þjóðinni nytsamlegra, eins og nú stendur, að þessi úrræði og önnur hliðstæð, sem leitt gætu til heppilegrar niðurstöðu og stjórnarhátta, séu rædd með rökum og athuguð hleypidómalaust eða umr. látnar vera útúrsnúningar og pex um það, sem gerðist fyrir 20 árum, eins og stjórnin temur sér, en framkvæmdirnar jafngilda ófriði á hendur miklum þorra landsmanna, þótt aðrar leiðir séu vel færar.

Menn hefðu átt að mega vænta þess, að ríkisstj., sem búin er að koma málefnum landsins í slíkt öngþveiti sem nú blasir við allra augum, hefði þó séð ástæðu til að endurskoða stefnu sina og hverfa frá þeim úrræðum, sem verst hafa gefizt. Ríkisstj., sem eins og ástatt er hefur ekkert nýtt til málanna að leggja annað en lögbinda kaup launastéttanna og bændanna og lýsir því yfir um leið, að hún ætli að halda fast við alla aðra þætti, sem verst hafa gefizt, og þar á ofan hefur hættulega afstöðu í málefnum landsins út á við, sú ríkisstj. á að fara frá og það strax. Ríkisstj. hefur engan rétt til að þröngva fram þvingunarlagasetningu sinni þvert ofan í beinar heitstrengingar í vor um frjálsa stefnu í kaupgjalds- og kjaramálum. Meiri hl. sinn hefur ríkisstj. fengið með prettum. Það liggur nú opið fyrir allra sugum. Og þjóðin hefur aldrei gefið henni neitt umboð til að gera það, sem hún nú ætlar að fara að aðhafast. Meiri hl. í vor hefðu stjórnarflokkarnir aldrei fengið, ekki að tala um, ef þeir hefðu ekki haldið því leyndu, sem nú er fram komið.

Þessi ríkisstj. á því engan rétt á sér. Úrræði hennar munu gera illt ástand verra, efla ófrið, reynast óframkvæmanleg, en valda stórfelldu tjóni. í stað þess að efla úlfúð og fjandskap átti ríkisstj. að gera sér grein fyrir því, hve veik hún var og hvernig meiri hl. hennar í vor var fenginn, og leggja sig því fram um að efla samkomulag um viðkvæmustu málin, enda var jarðvegur fyrir slíkt og úrlausnir tiltækar, eins og sýnt hefur verið fram á. En ríkisstj. gerði það, sem sízt skyldi.

Afstaða Framsfl. til vantrauststill. er því skýr og afdráttarlaus. Því fyrr sem ríkisstj. vikur, því betra, enda nú hverjum manni augljóst orðið, að nýjar leiðir fást ekki einu sinni athugaðar, hvað þá framkvæmdar, nema þessi ríkisstj. fari frá. Við greiðum að sjálfsögðu atkv. með vantrauststillögunni. - Góða nótt.