06.11.1963
Sameinað þing: 12. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í D-deild Alþingistíðinda. (2723)

57. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Jón Skaftason:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh. lýstu því báðir yfir hér áðan, að unnið væri að því að finna leiðir til þess að bæta kjör hinna lægst launuðu, þannig að um raunverulega kjarabót yrði að ræða hjá þeim. Nefndu þeir lækkun skatta og útsvara og aukningu á niðurgreiðslum og tryggingabótum sem færar leiðir. Enga skýringu gátu þeir á því gefið, hvers vegna till. í þessa stefnu gátu ekki legið fyrir í upphafi þingsins, því að frest hafa þeir haft síðan um miðjan júní til að undirbúa þær. Yfirlýsingar nú um, að bæta eigi kjör hinna lægst launuðu eftir skatta- og útsvarsleiðinni, stangast á við yfirlýsingar hæstv. fjmrh. í Vísi, skömmu eftir að kjaradómur var kveðinn upp í sumar, þar sem gefið var undir fótinn með endurskoðun skatta- og útsvarslaga í þeim tilgangi, að hæstu kjaradómslaunin hyrfu ekki í skatta og útsvör. Ekki er það sérstaklega gert fyrir láglaunafólkið. Hækkun tryggingabóta kemur til hálaunamanna jafnt og láglaunamanna, og vandséð er því, hvernig sérstaklega eigi að bæta kjör láglaunafólks umfram aðra eftir þeirri leiðinni. Um aukningu á niðurgreiðslum til lækkunar á vöruverði er Það að segja, að samkv. fjárlfrv. 1964 á að lækka niðurðreiðslur um 92 millj. kr., en ekki hækka þær. Það er rétt hjá hæstv. dómsmrh., að ef vel er leitað, má finna í 2–3 ræðum hæstv. ráðh., höldnum á s.l. 4 árum, varnaðarorð um dýrtíðar- og launakapphlaupið. En það breytir engu um þá meginstaðreynd, að öðru var nær undantekningarlaust haldið að kjósendum af stjórnarliðum alla kosningabaráttuna, eins og ég mun víkja að síðar í ræðu mínni.

Ég vil gera grein fyrir þeirri afstöðu mínni að greiða fram kominni vantrauststill. atkv.. enn fremur nota þetta tækifæri til þess að hvetja hæstv. ríkisstj. til að leggja nú raunhæft mat á ástandið og stöðu sína hjá þjóðinni og draga af þeirri athugun rökrétta ályktun, sem hlýtur að vera sú, að henni beri að víkja, því að stjórn, sem tapað hefur trausti jafnört og núv. hæstv. ríkisstj. hefur gert síðustu vikurnar, er ekki fær um að leiða þjóðina út úr því alvarlega efnahags- og dýrtíðaröngþveiti, sem hún er nú stödd í.

Í útvarpsumr. 4. júní s.1., aðeins 5 dögum fyrir síðustu kosningar, mælti hæstv. forsrh., Ólafur Thors, á þessa leið, er hann ræddi sigurhorfur stjórnarflokkanna:

„En einkum byggi ég álit mitt og vonir á því , að aldrei hef ég orðið þess var, að nokkurri stjórn, sem ég hef átt sæti í, hafi auðnazt að ávinna sér jafnmikið og almennt traust, einnig sumra fyrri andstæðinga, eins og viðreisnarstjórninni hefur tekizt. Þetta held ég, að skeri úr. Þjóðin vill geta treyst stjórn sinni. Þetta þrennt: viðreisn, velmegun og traust, er mikið, en af því er traustíð mest. Og nú verður það traustið, sem tryggir viðreisninni sigur.“

Þannig fórust hæstv. forsrh. orð þá. Ég ætla að eyða ræðutíma mínum að mestu í að ræða, hvernig það traust var fengið, sem stjórnin hlaut í kosningunum í s.l. júní, og athuga í ljósi þeirra atburða, sem gerzt hafa á þeim 5 mánuðum, sem liðnir eru, á hve traustum grunni það var reist, því að ég er hæstv. forsrh. algerlega sammála um, að það skiptir öllu um gengi hvaða ríkisstj. sem er, að hún njóti sem mests trausts hjá sem stærstum hluta þjóðarinnar, ekki sízt gildir þetta, þegar erfiðlega gengur.

Ég minnist þess ekki frá þeim tíma, sem ég hef fylgzt með íslenzkum stjórnmálum, að nokkur ríkisstj. á Íslandi hafi haldið uppi jafnöflugum og skipulögðum áróðri um eigið ágæti og um ágæti stefnu sinnar og starfa og núv. hæstv. ríkisstj. Sjálf nafngiftin, sem hún tók sér, viðreisnarstjórnin, sýnir þetta vel. Talsmenn ríkisstj, og málgögn hennar hafa hamrað á því viku eftir viku og mánuð eftir mánuð, að allt hafi verið í rústum síðla árs 1959, er viðreisnarstjórnin tók við. í samræmi við það var ráðizt í byrjun árs 1950 í róttækustu efnahagsaðgerðir, sem sagan greinir. Nýjum tollum og sköttum að fjárhæð 1100 millj. kr. var dembt yfir þjóðina auk margs annars, því að nú átti í eitt skipti fyrir öll að leysa í einu þann mikla efnahagsvanda, sem þjóðin hafði meira eða minna búið við frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Þegar framsóknarmenn bentu á, að allt tal um að leysa efnahagsvandræðin í einum áfanga til frambúðar væri óraunhæft hjal, því að hjá okkar þjóð eins og annars staðar skapaði framvinda efnahagslífsins stöðugt ný og ný vandamál, sem landsstjórnin yrði að glíma við, og þegar við enn fremur létum í ljós efa um, að heljarstökk, eins og framkvæmt var í febr. 1960, væri hægt að taka og koma standandi niður, þá var viðvörunum okkar ekki skeytt og farið háðsorðum um þær. „Það er ekki hægt að stökkva yfir gjána í mörgum stökkum,“ sögðu stjórnarliðar þá. Sú fleyga setning heyrist ekki oft af þeirra vörum þessa dagana.

Í kosningunum í sumar héldu frambjóðendur og málgögn ríkisstj. því hiklaust fram, að árangur viðreisnarinnar væri svo mikill og svo góður, að óvenjubjart væri fram undan. Gildir gjaldeyrisvarasjóðir höfðu safnazt, sparifjáraukning með eindæmum, þjóðarframleiðslan Í hámarki og framkvæmdir á liðnu kjörtímabili meiri en nokkru sinni. „Valið er á milli viðreisnar og velmegunar eða hafta- og skömmtunarbúskapar stjórnarandstæðinga, sem snúa mun við allri framþróun til kyrrstöðu, skorts og ófrelsis,“ eins og Morgunblaðið stillti dæminu á svo ofur einfaldan hátt fyrir kjósendum 19. maí. Og þannig var hjalað og þannig var skrifað af hálfu stjórnarliða alla kosningabaráttuna, og minnti þetta allt á fleygan vísupart, eignaðan Sölva heitnum Helgasyni, sem var á sinn hátt jafnánægður með sig og hæstv. ríkisstj. var, eða þóttist a.m.k. vera, fyrir síðustu kosningar, en vísupartur þessi hljóðar þannig:

Ég er djásn og dýrmæti,

drottni sjálfum líkur.

Það var í þessu andrúmslofti og við slíkan málflutning af hálfu stjórnarliða, sem gengið var til kosninga. Morgunblaðið með sín 32 þús. eintök lét sig ekki muna um það 29. maí í leiðara að staðhæfa, að „það væri styrkur viðreisnarstjórnarinnar frá upphafi vega að skýra þjóðinni rétt og satt frá staðreyndum og lofa aldrei meiru en því, sem örugglega væri unnt að standa við.“

Stjórnin lifði kosningarnar af, naumlega þó, þrátt fyrir staðhæfingu hæstv. forsrh., sem ég vitnaði til í upphafi máls míns um, að hann hefði aldrei setið í stjórn, sem auðnazt hefði að ávinna sér jafnmikið og almennt traust, einnig andstæðinganna, eins og viðreisnarstjórninni hefði tekizt. En verðskuldar hæstv. ríkisstj. þá það traust, sem hún fékk í kosningunum í sumar? Er ástandið jafngott í dag og okkur var tjáð þá, að það mundi verða, og hverju er um að kenna, ef illa er komið? Þannig spyrja nú þúsundir kjósenda stjórnarflokkanna sjálfa sig hvarvetna um landið í dag.

Í síðustu viku lagði hæstv. ríkisstj. fram frv. til l. um launamál o.fl. fyrir hv. Nd. Frv. þetta gerir ráð fyrir að banna allar launahækkanir, hverju nafni sem nefnast, um a.m.k. 2 mánaða skeið. Samningsrétturinn um kaup og kjör og verkfallsrétturinn er tekinn af launþegafélögunum, en það eru þau réttindi, sem þau telja sér dýrmætust og hafa fórnað mestu til að ná. Hins vegar gerir frv. ráð fyrir, að heimilt sé að hækka vöruverð í ýmsum greinum og ýmiss konar þjónustu með samþykki viðkomandi yfirvalda á gildistíma laganna. Hér er því ekki um stöðvunarfrv. að ræða, sem bæði bindur laun og verðlag, eins og stundum heyrist haldið fram. Frv. sýnir eins ljóst og verða má, að það er álit hæstv. ríkisstj. sjálfrar, að nú liggi mikið við og grípa þurfi til róttækra björgunaraðgerða. Engin ríkisstj. í lýðfrjálsu landi leggur fram frv., sem gerir ráð fyrir einhliða launabindingu, afnámi verkfalls- og samningsréttar, nema til knúin. Því ætti ekki að þurfa að deila um það, hvort illa sé nú komið fyrir ríkisstj. eða ekki. En hvenær hafa þá þessi ósköp gerzt, og hverju er hér um að kenna? Ríkisstj. telur ástæðuna vera þá, að vegna launakapphlaups milli starfshópa og víxlhækkana kaupgjalds og verðlags hafi skapazt misræmi í efnahagslífinu. Sökina á þessu telur hún liggja hjá launþegasamtökunum og til þess að fyrirbyggja stöðvun útflutningsframleiðslunnar verði að lögbjóða kaupbindingu hjá láglaunafólki, verkamönnum, verzlunar- og skrifstofufólki. eftir að nálega allar aðrar starfsstéttir þjóðfélagsins, ekki sízt þær hæst launuðu, hafa fengið stórkostlegar launahækkanir. Slíkur er sá réttlætisgrundvöllur, sem þessi stjórnaraðgerð byggist á.

Það er athyglisvert að athuga þátt hæstv. ríkisstj. í sköpun þess efnahags- og dýrtíðaröngþveitis, sem nú ríkir og láglaunafólkið á nú að gjalda fyrir sérstaklega.

1) Ríkisstj. hefur með tvennum gengisfellingum og stórhækkuðum sölusköttum og fleiri aðgerðum hækkað allt verðiag í landinu á stjórnartímabilinu. Hækkun framfærsluvísitötunnar á stjórnartímabilinu nemur 44%, og meðaltalshækkun á matvörum á sama tíma nemur um 75%. Svo stórkostleg hefur skattheimta ríkissjóðs verið, að um 300 millj. kr. tekjuafgangur var á rekstrarreikningi ríkisins fyrir árið 1962.

2) Ríkisstj. hefur leyft nær takmarkalausa notkun stuttra vörukaupalána erlendis fyrir innflytjendur á aðeins 4—5% vöxtum. Þetta hefur leitt til gífurlegs og óhóflegs innflutnings, sem valdið hefur gjaldeyrissóun og skapað þenslu innanlands. Skýrasta dæmi þess er bílainnflutningurinn á þessu ári, sem í ágúst s.l. var kominn upp Í 233 millj. kr. Nú liggja hér og þar um borgina stórar bilabreiður, sem óvíst er, hvenær eða hvort seljast.

Stofnað hefur verið til stuttra vörukaupalána allt að fjárhæð 640 millj, kr. í ágúst s.1., sem engin innlend framleiðsla stendur fyrir, Þ.e.a.s. hér er lifað upp á krít, eins og það var kallað í gamla daga.

3) Ríkisstj. tók um s.l. áramót 240 millj, kr. lán í Bretlandi, sem notað var á mjög svo sérstæðan hátt í síðustu kosningum. Væri hægt að nefna þess mörg dæmi, þótt að sinni skuli því sleppt. Auðvitað jók lántaka þessi stórlega á þá miklu spennu, sem ríkt hefur í efnahagslífinu allt þetta ár og raunar á fyrra ári líka og jók til mikilla muna óróann á vinnumarkaðinum. Þetta vissi hæstv. ríkisstj. mætavel, áður en til lántöku þessarar var stofnað. En kosningar stóðu fyrir dyrum og góð ráð voru dýr.

Ég hef hér bent á þrjú atriði, sem öll sýna ljóslega, að hæstv. ríkisstj. hefur sjálf með stefnu sinni átt mjög stóran þátt í að skapa það efnahagsöngþveiti, er nú ríkir. Af öllum þeim stjórnaraðgerðum, er leitt hafa til þessa ástands, tel ég gengisfellinguna 1961 þá langsamlega afdrifaríkustu og skaðvænlegustu. Fyrir henni voru ekki efnahagsleg rök, heldur var um að ræða pólitíska hefndarráðstöfun, eins og sýnt var fram á.

Með samningum samvinnufélaganna og verkalýðsfélaganna frá í júní 1961 var verkamannakaup hækkað hóflega. Þau mikilsverðu nýmæli fólust í þessu samkomulagi, að samið var til langs tíma, 2 ára, og um leið samið um allar afleiðingar kauphækkunar þessarar til hækkunar á vöruverði. Þannig átti að girða strax fyrir víxlhækkanir kaupgjalds og vöruverðs, nema ef vöruverðshækkanir yrðu meiri en 5%, en það var talið nægilegt fyrir þeim hækkunum, sem leiddi af þessu samkomulagi. Þarna gafst því óvenjulega gott tækifæri fyrir hæstv. ríkisstj. til þess að fóta sig á verðbólgubrautinni og einbeita sér að því að byggja á Þeim grundvelli, sem atvinnurekendur og launþegar höfðu samið um algerlega frjálsir og í anda boðaðrar stefnu ríkisstj. En svo var lánleysi hæstv. ríkisstj. mikið, að Í stað Þess að nota tækifærið, réðst hún af óvenjulegri heift á samvinnufélögin og taldi, að hér væri um svikasamning að ræða. En hér er reynslan sem fyrr ólygnust og sker alveg úr. í stað þess að búa við óbreytt kaupgjald og í hæsta lagi 5% hærra verðlag í júní s.l. miðað við júní 1961, eins og verið hefði, ef samkomulagi þessu hefði ekki verið spillt með gengisfellingunni í ágúst 1961, þá hefur vísitala vöru og þjónustu hækkað frá júní 1961 til okt. s.l. um 41.74% og lágmarkskauptaxtar verkamannalauna í Reykjavík hækkað á sama tíma um 36.46%. Upplausnin í launamálunum er nú alger. Kjaradómur ákvað í sumar hækkun launa til opinberra starfsmanna, sem nemur að meðaltall 45%. Það var mat hlutlausra dómenda m.a. um launabætur þessu starfsfólki til handa vegna vaxandi dýrtíðar. Flest hinna stærri bæjarfélaga hafa hækkað laun sinna starfsmanna til samræmis við niðurstöður kjaradóms. Hæstv. ríkisstj. telur, að hér geti ekki verið um fordæmi fyrir aðra starfshópa að ræða, en hér fer hún áreiðanlega vill vegar og ekki í fyrsta skipti, eins og reynslan hefur sýnt og rakið hefur verið hér í kvöld af öðrum ræðumanni.

Hæstv. ríkisstj. sagði í upphafi valdatímabils síns, að hún ætlaði að leiða þjóðina inn á nýjar brautir, hún ætlaði að koma atvinnulífi þjóðarinnar á traustan og heilbrigðan grundvöll og hverfa af braut uppbóta- og haftakerfis. Því miður hefur þetta allt mistekizt. Óhjákvæmileg afleiðing þess er sú, að ríkisstj. og stefna hennar hefur glatað trausti margra þeirra , er studdu hana í sumar. Sannleikurinn er nú að koma Í ljós, og feluleiknum er lokið. Enn þá á stjórnin þó eitt tækifæri, og það ber henni að nota. Hún á að játa uppgjöf sína, áður en það er of seint og allt er komið Í enn þá harðari hnút en það nú er í. Af því mundi stjórnin vaxa, því að öllum getur missýnzt eða mistekizt.

Að endingu vil ég endurtaka orð hæstv. forsrh., Ólafs Thors, Þau er ég vitnaði til í upphafi máls míns: „Þjóðin vill geta treyst stjórn sinni.“ Þar sem ég er honum alveg sammála um þetta, en þykist sannfærður um, að traustíð sé ekki lengur fyrir hendi hjá meiri hl. þjóðarinnar, þá greiði ég fram kominni vantrauststill. atkv. mitt. — Góða nótt.