07.11.1963
Sameinað þing: 13. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í D-deild Alþingistíðinda. (2731)

57. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Alþb. hefur flutt vantrauststill. á ríkisstj. vegna fram komins frv. um stöðvun launa- og verðlagshækkana. Framsóknarmenn á Alþingi hafa sungið sama sönginn og kommúnistar, lýst yfir, að þeir muni snúast gegn frv. og greiða atkv. með fram kominni vantrauststill.

Það kemur engum á óvart, þótt stjórnarandstaðan hafi ekki minnzt á, hvað við muni taka, ef ríkisstj. fer frá. Fáir munu búast við, að stjórnarandstaðan hafi nokkra raunhæfa stefnu, sem sigla mætti eftir til þess að komast í gegnum þá stundarerfiðleika, sem nú steðja að í efnahagslífinu vegna kapphlaups í launamálum. Eitt er flestum ljóst, að framsóknarmenn og kommúnistar hafa ekkert lært síðan 1958, þegar þessir flokkar gáfust upp við að stjórna landinu, vegna þess að þeir réðu ekki við vandann og áttu engin úrræði til, sem gætu forðað þjóðinni frá efnahagslegu gjaldþroti.

Tæplega munu launþegar hafa gleymt því, sem gerðist á Alþýðusambandsþingi haustíð 1958, þegar fulltrúar þess þings voru sammála um, að ekki kæmi til mála að framlengja líf vinstri stjórnarinnar. Reynslan af þeirri stjórn var slík, að þeir, sem verst voru settir og lægst laun höfðu í þjóðfélaginu, töldu þá stjórn vera hina verstu fyrir verkalýðinn, sem setið hefur í landinu. Og Ólaf Jóhannesson vil ég minna á það, að bændur hafa ekki heldur gleymt vinstri stjórninni og meðferð hennar á þeim.

Þrátt fyrir þessa staðreynd flytja nú kommúnistar vantraust á ríkisstj. og hafa tryggt sér fylgi Framsfl., enda er Framsfl. vanastur því að fylgja flestu því, sem kommúnistar bera fram. Einn af þm. kommúnista lýsti því á Alþingi, hvað það væri ánægjulegt að vinna með framsóknarmönnum í stjórnarandstöðu. Þeir væru þá svo róttækir, að sérstök ástæða væri til að þakka góða liðveizlu, þegar snúast þyrfti gegn þeim málum, sem ríkisstj. vildi fá fram. Framsóknarmenn keppast um að lýsa fylgi sínu við það, sem kommúnistar vilja fá samþykkt. Flestir muna viðbrögð framsóknarmanna, þegar lausn landhelgismálsins fékkst. Formaður Framsfl. gaf út dagskipan, þar sem boðað var, að mótmælafundi skyldi halda um land allt, eins og kommúnistar höfðu einnig í hyggju að gera. Nú er ekki lengur talað um landhelgismálið, en allir sammála um, að sú lausn, sem fékkst í málinu, var farsæl og Íslendingum í hag.

Fyrir síðustu kosningar var mikið rætt um Efnahagsbandalag Evrópu. Stóðu framsóknarmenn við hliðina á kommúnistum í þeirri ljótu iðju að skrökva því að þjóðinni, að ríkisstj. ætlaði Íslandi að ganga í Efnahagsbandalagið og fórna með þeim hætti hagsmunum og sjálfstæði Íslands. Nú er ekki lengur minnzt á þetta mál, enda öllum ljóst nú, að stjórnarandstaðan fór með hreinar blekkingar í því skyni að ná atkv. frá stjórnarflokkunum, sem vissulega hefur tekizt að einhverju leyti. Þau atkv. voru illa fengin, og tæplega verður það tryggt fylgi fyrir stjórnarandstöðuna.

Nú síðast má minnast á Hvalfjarðarmálið svokallaða. Framsóknarmenn hafa einnig í því máli verið Í kapphlaupi við kommúnista. Það hefur þó reynzt erfitt fyrir Framsókn að telja alþjóð trú um, að ríkisstj. væri að leiða hættu yfir þjóðina með því að samþykkja endurnýjun á nokkrum olíugeymum í Hvalfirði, sem fyrirtæki Framsfl. hefur leigt varnarliðinu til afnota með góðum hagnaði.

Jafnvel í utanríkismálum elta framsóknarmenn kommúnista, þótt þeir telji sig öðru hverju vilja vestræna samvinnu og styðja samstarf lýðræðisþjóðanna. Í innanlandsmálum hafa framsóknarmenn, síðan þeir komust í stjórnarandstöðu, kastað fyrir borð þeim fræðilegu kenningum í efnahagsmálum, sem þeir töldu sjálfsagðar og réttar, á meðan þeir báru ábyrgð á ríkisstj. og vildu leitast við að láta skynsemina ráða.

Stjórnarandstaðan hefur snúizt gegn frv. ríkisstj. um stöðvun launa og verðlags undir því yfirskini, að með þessu frv. sé verið að níðast á launþegum og taka af þeim réttinn til þess að gera frjálsa samninga um kjaramálin. Fullyrða má, að þetta er ekki ástæðan fyrir því, að framsóknarmenn og kommúnistar snúast gegn þessu máll. Sjálfir hafa þeir sett brbl. til þess að hindra hækkun á kaupi til þeirra lægst launuðu, eins og greinilega hefur verið tekið fram í þessum umr. Launastöðvunin er aðeins til áramóta samkv. þessu frv. og til þess gerð að samræma till. um raunhæfar bætur til þeirra , sem verst eru settir og lægst hafa launin. Frv. er flutt til þess, að tími vinnist til að rétta hlut þeirra , sem hafa orðið út undan í kapphlaupinu um hækkuð laun að undanförnu. Það er og einnig flutt til þess að vernda krónuna frá falli.

Það eru mikil öfugmæli, þegar því er haldið fram, að ríkisstj. vinni gegn hagsmunum þeirra lægst launuðu. Með raunhæfum aðgerðum er að því unnið að rétta hlut þeirra, sem minnst bera frá borði, um leið og þannig verður haldið á málum, ef skemmdaröfl verða ekki ráðandi, að gjaldmiðillinn megi halda gildi sínu og komið verði í veg fyrir gengislækkun.

Stjórnarandstaðan segir, að frambjóðendur stjórnarflokkanna hafi blekkt kjósendur á s.l. vori og haldið því leyndu, sem nú er fram komið. Sannleikurinn er sá, að á fyrri hluta þessa árs hélt gjaldeyrisvarasjóður og sparifé þjóðarinnar áfram að vaxa. Atvinnuvegirnir gengu vel, og ekki var kvartað um of mikinn tilkostnað við framleiðsluna miðað við það verð, sem fyrir hana fékkst. Frambjóðendur Sjálfstfl. tóku það skýrt fram fyrir síðustu kosningar, að nauðsyn bæri til, að samræmi væri hverju sinni milli tilkostnaðar og framleiðsluverðs. Sjálfstæðismenn hafa ætíð gert sér ljóst og hvergi farið leynt með það, að hvenær sem hærri kröfur eru gerðar til atvinnuveganna en þeir geta staðið undir, er stefnt til vandræða, stöðvunar, gengisfellingar eða uppbótakerfis og skömmtunar, eins og framsóknarmenn eru nú farnir að tæpa á, þótt þeir séu feimnir að tala hátt um það enn sem komið er.

Það er ekki lengur ágreiningsefni, þegar talað er í alvöru, að viðreisnin heppnaðist og þjóðin var komin út úr þeim erfiðleikum, sem hún komst í fyrir fimm árum. Í júlíbyrjun kvað kjaradómur upp úrskurð í launamálum opinberra starfsmanna. Ekki er ástæða til að draga fjöður yfir það, að úrskurður kjaradóms hefur haft óholl áhrif á launamálin síðari vikurnar. Þótt opinberir starfsmenn hafi átt rétt á lagfæringu launa, vegna þess að þeir höfðu dregizt aftur úr undanfarin ár, er ljóst, að kjaradómur gekk í mörgum greinum það langt í hækkunarátt, að af því hefur leitt kröfugerð frá öðrum stéttum þjóðfélagsins, sem hafa gert samanburð, oft óréttmætan, á hinum nýju launum, sem opinberum starfsmönnum er ætlað að hafa. Það kemur svo úr hörðustu átt, þegar stjórnarandstaðan er með ásakanir í garð ríkisstj. fyrir það, að ýmsir launaflokkar opinberra starfsmanna hafa fengið rífleg laun samkv. úrskurði kjaradóms. Stjórnarandstaðan ber ekki siður ábyrgð á lögum um kjaradóm en stjórnarflokkarnir. Allir þm. voru fylgjandi lagasetningunni. Framsóknarmenn og kommúnistar gerðu till. um 60% hærri laun til handa þeim hæst launuðu en kjaradómur úrskurðaði. Framsóknarmenn og kommúnistar gerðu till. um meiri launamismun en niðurstöður kjaradóms sýna, enda þótt sá launamunur sé meiri en hollt getur talizt miðað við þann launajöfnuð, sem hefur jafnan verið í þessu landi.

Á þessu hausti hafa ýmis stéttarfélög gert kröfur um allt að 40% launahækkun. Útflutningsatvinnuvegirnir hafa látið frá sér heyra. Frystihús SH og SÍS hafa gefið út tilkynningu þess efnis, að frystihúsin geti engan aukinn tilkostnað tekið á sig og tæplega staðið undir þeim kostnaði, sem fyrir er. Miðað við þann málflutning, sem framsóknarmenn viðhafa á Alþingi, mætti ætla, að frystihús Sambandsins gætu tekið á sig útgjaldahækkanir. En því er ekki til að dreifa samkv. tilkynningum forráðamanna SÍS. Tilkynning þeirra er í fullu samræmi við það, sem stjórn SH hefur látið frá sér fara.

Framsóknarmenn á Alþingi halda því fram, að með því að lækka vexti hjá útgerðinni og frystihúsunum, afnema útflutningsgjaldið og lækka tolla á vélum, geti útgerðin og frystihúsin bætt á sig kauphækkunum eitthvað í líkingu við það, sem farið hefur verið fram á. Það er fróðlegt að gera sér grein fyrir því, hvað rétt er í þessu. Gera má ráð fyrir, að beinar og óbeinar kaupgreiðslur útgerðarinnar séu um 1800 millj. kr. Sé reiknað með 30% kauphækkun, ekki 40%, eins og farið hefur verið fram á, nemur greiðsluaukningin 540 millj. kr. Ef vextir væru lækkaðir um 3% eða talsvert niður fyrir það, sem vextirnir voru í tíð vinstri stjórnarinnar, kemur í ljós, að vaxtalækkunin næmi um 54 millj. kr., þar sem talið er, að lánsfé útgerðarinnar nemi um 1700—1800 millj. kr. Af 540 millj. kr. útgjaldaaukningu mætti því draga frá 54 millj. kr., ef vextirnir væru lækkaðir talsvert niður fyrir það, sem þeir áður voru. Ljóst er, að þetta nægir ekki til bjargar, ef útgjaldaaukningin færist yfir á útgerðina og frystihúsin. En stjórnarandstaðan er ekki ráðalaus. Hún segir, að til viðbótar vaxtalækkun megi afnema útflutningsgjaldið, sem er 7.4%. Stjórnarandstaðan virðist gleyma því, að útflutningsgjaldið rennur allt til útvegsins aftur. Með útflutningsgjaldinu eru tryggingagjöld greidd, gjöld til aflatryggingasjóðs, gjöld til fiskveiðasjóðs og annarra þarfa útvegsins. Fullvíst er, að útvegsmenn telja ekki hjálp í því að afnema útflutningsgjaldið, nema þá ríkissjóður taki á sig þær greiðslur, sem útflutningsgjaldið hefur staðið undir. E.t.v. er það þetta, sem framsóknarmenn og kommúnistar vilja, þ.e. að taka aftur upp uppbótakerfið og leggja nýja skatta á almenning í landinu, til þess að standa undir því kerfi, sem gekk sér eftirminnilega til húðar í tíð vinstri stjórnarinnar. Þriðji liðurinn, sem stjórnarandstaðan telur að megi verða útgerðinni til bjargar, er lækkun tolla. Þótt vélar til fiskiðnaðar, sem hér eftir verða fluttar inn, væru gerðar tollfrjálsar, getur það lítið hjálpað á næstu vertíð.

Vera má, að einhver segi, að þegar rætt er um greiðsluaukningu frystihúsanna og útvegsins, beri ekki að reikna með öllum greiðslum, bæði beinum og óbeinum, það sé of há upphæð. Fyrir þá, sem það telja, skal tekið annað dæmi og reiknað aðeins með beinum greiðslum útvegsins, sem munu vera meira en helmingi lægri en sú upphæð, sem ég áðan nefndi, eða um 800 millj. kr. Sé reiknað með 30% greiðsluaukningu af 800 millj., verður um að ræða aðeins 240 millj. kr. útgjaldaaukningu. Vaxtalækkunin miðast þá aðeins við það, sem útgerðin fær hverju sinni í rekstrarfé, en ekki af samningsbundnum stofnlánum. En það er, eftir því sem næst verður komizt, afurðalán, hámark 700 millj., lágmark

300 millj., eða til jafnaðar á ársvöxtum allt að 500 millj. kr., viðbótarlán í viðskiptabönkunum, 15% af afurðalánunum, sem gerir 75 millj., yfirdráttarlán, aðallega vegna rekstrar, allt að 150 millj. kr. Rekstrarlán á ársvöxtum nema því 725 millj. kr. 3% vaxtalækkun af þeirri upphæð nemur 21 millj. 750 þús. kr.

Af þessu er ljóst, að allt tal um vaxtalækkun til hjálpar í þessu efni er út í hött. Það er auðvitað æskilegt fyrir sjávarútveginn og aðra atvinnuvegi að hafa ódýrt rekstrarfé og ódýr stofnlán, en það bjargar ekki öllu, eins og dæmin sýna, sem hér hafa verið nefnd. Til þess að geta staðið undir kauphækkunum þarf aukna framleiðslu, aukna tækni og vinnuhagræðingu, sem miðar að auknum afköstum. Enginn vafi er á því, að með þeim hætti er unnt að bæta kjör þeirra, sem við framleiðsluna vinna. En það þarf sinn tíma til þess að verða almennt að gagni. Má fullvíst telja, að við Íslendingar eigum margt ólært á því sviði, sem eðlilegt er, þar sem þróunin hér á landi á sér stutta sögu á hinu tæknilega sviði. Ríkisstj. hefur beitt sér fyrir athugunum á þessu máli og lagt grundvöll að því, að raunhæfar aðgerðir verði hafnar, til þess að skjótur árangur geti náðst.

Ríkisstj. tók við arfi vinstri stjórnarinnar og sigraðist á þeim erfiðleikum, sem hún skildi eftir óleysta. Sá vandi, sem nú steðjar að, er vissulega viðráðanlegur. Unnið mun verða eftir raunhæfum leiðum til lausnar vandanum með almenningsheill fyrir augum. Frv. um stöðvun launa og verðlags er flutt til þess að fá nokkurn frest til nauðsynlegra athugana á lausn málanna. Stjórnarandstaðan er með hótanir um að brjóta niður löggjöf, sem nú verður sett. Öruggt er, að verkamenn og aðrir launþegar í landinu muni ekki hlýða kalli ábyrgðarlausra manna, sem vilja hvetja til óhæfuverka og grafa undan hornsteinum lýðræðis og sjálfstæðis á Íslandi. Launþegar munu að athuguðu máli sannfærast um, að ríkisstj. er að vinna að lausn málanna með hagsmuni þeirra og alþjóðar fyrir augum. Sú var tíðin, að atvinna var takmörkuð í þessu landi og launþegar kviðu því að hafa ekki næga atvinnu. Ríkisstj. hefur unnið að því að skapa atvinnuöryggi og næga atvinnu fyrir alla. Nú dettur engum í hug, að atvinnuleysi steðji að, nema atvinnuvegirnir verði stöðvaðir vegna of mikillar kröfugerðar. Ríkisstj. hefur margfaldað starfsemi tryggingamálanna með því að stórauka bætur hinna tryggðu, fjölskyldubætur, ellilífeyri og slysabætur. Stjórnarflokkarnir hafa lagt grundvöllinn að Því að tryggja alla Íslendinga gegn skorti. Áfram verður stefnt Í þá átt að gera það kerfi enn fullkomnara, sem tryggir þá, sem á bótum þurfa að halda, enn betur en áður.

Stjórnarandstaðan fullyrðir, að ríkisstj. hafi misst traust þjóðarinnar. Slíkar fullyrðingar hafa lítið gildi og styðjast aðeins við þann áróður, sem stjórnarandstaðan hefur haft uppi síðustu vikurnar. Fullyrða má, að afstaða Framsfl. mælist mjög illa fyrir úti um land, og hafa ýmsir framsóknarmenn sagt, að forusta flokksins hafi tapað trausti margra gætnari manna víðs vegar um landið. Það eru ekki aðeins bændurnir, sem hafa tapað trausti á Framsfl., það er fólk úr öllum flokkum um landið allt. Það er of mikil bjartsýni hjá stjórnarandstöðunni, ef hún trúir því , að þjóðin vilji, að framsóknarmenn og kommúnistar taki völdin Í landinu. Reynslan af valdatíma þeirra er ekki gleymd og mun verða um langa framtíð til viðvörunar. Þjóðin vill hafa ríkisstj., sem þorir að horfast í augu við vandann hverju sinni og gera þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til lausnar. Það hefur núv. ríkisstj. gert á undanförnum 4 árum, og þannig mun hún halda áfram að vinna. — Góða nótt.