07.11.1963
Sameinað þing: 13. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í D-deild Alþingistíðinda. (2734)

57. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hæstv. fjmrh. vildi svo vera láta, að aðeins stjórnarandstæðingar hefðu mótmælt frv. ríkisstj. um launamál. Samkv. þessu eru forráðamenn fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavik, stjórnendur Iðju í Reykjavík og stjórnendur Alþýðusambands Vestfjarða stjórnarandstæðingar, þótt þeir hafi áður tilheyrt stjórnarflokkunum. Allir þessir aðilar hafa mótmælt frv. ríkisstj. mjög harðlega og varað við afleiðingum þess. Þá lézt hæstv. fjmrh. vera mjög ánægður með fund, sem haldinn var í gærkvöld í Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur. Hversu ánægður hæstv, ráðh. má vera með þennan fund, geta menn bezt dæmt af eftirfarandi till., sem var samþ. einróma á fundinum:

„Fundur í Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur, haldinn 6. nóv. 1963 á Hótel Sögu, mótmælir harðlega fram komnu frv. um launamál o.fl. og skorar á Alþingi að fella það. Fundurinn telur frv. ranglátt, þar sem það felur í sér bann við launahækkunum þrátt fyrir sívaxandi dýrtíð og afnemur sjálfsögðustu mannréttindi, sem eru frjálsir samningar um kaupgjald og vinnutíma. Jafnframt skorar fundurinn á allt verzlunarfólk að standa fast saman um réttmætar kröfur sínar og neyta allra ráða til þess, að þær nái fram að ganga.“

Þetta var ályktun Verzlunarmannafélags Reykjavíkur.

Hæstv. viðskmrh. lét sér sæma að fara með þau ósannindi, að Framsfl. hefði sjö sinnum á seinustu 25 árum verið með löggjöf, sem væri sambærileg við það frv. stjórnarinnar, sem nú liggur fyrir Alþingi. Þetta er algerlega tilhæfulaust. Samkv. gerðardómsl. frá 1942. sem byggðust á styrjaldarástæðum, var leyft að hækka kaupgjald til samræmingar og jafnframt greidd dýrtíðaruppbót. Samt varð reynslan af þessum lögum svo slæm, að Framsfl. hefur aldrei síðan staðið að lögum, er tækju samningsréttinn af verkalýðsfélögunum. Í gengislögunum 1950 og vísitölulögunum 1956 fólst engin skerðing á samningsréttinum, og er furðulegt, að hæstv. ráðh. skuli ganga jafnlangt í hreinum ósannindum og að staðhæfa slíkt. Annars stæði hæstv. ráðh. nær að rekja frekar afstöðu Alþfl. en Framsfl. til þessara mála. En það gerir ráðh. ekki, enda eðlilegt, því að þá kæmi bezt í ljós, hve Alþfl. svíkur nú öll sín fyrri stefnumál og fótumtreður helgustu réttindamál verkalýðshreyfingarinnar. Sælir eru þeir Jón Baldvinsson og Sigurjón A. Ólafsson að þurfa ekki að lifa hin algeru svik Gylfa, Emils og Guðmundar í þessum málum.

Ein er sú mannlýsing í íslenzkum sögum, er glöggt lýsir andúð sagnaritarans. Þessi mannlýsing felst í einu orði: ójafnaðarmaður. Jafnaðarkennd og réttlætistilfinning átti sterkari rætur hér á landi í fornöld en dæmi eru til um hjá öðrum þjóðum þá. Um það vitna ýmis lagafyrirmæli frá þessum tíma. Þessi lafnaðar- og réttlætiskennd hefur varðveitzt hjá þjóðinni fram á þennan dag. Hér hefur verið gerður minni mannamunur en annars staðar hefur þekkzt. Landlæg er hér andúðin á þeim húsbændum, sem skiptu hjúum sínum ójafnt, þegar skortur var í búi. En fátt hefur þótt prýða betur góðan forustumann, þegar hörgull var vista eða annar aðbúnaður ónógur, en að deila kjörum með liðsmönnum sínum. Fátt hefur verið sannara sagt um íslenzka þjóð en hún hafi ódeig sætt sig við harðræði, þegar þess hefur þurft, en misrétti af manna völdum hefur hún jafnan illa þolað.

En hví skyldi á þessum stað og þessari stundu verið að minna á þá jafnaðar- og réttlætiskennd, sem verið hefur aðalsmerki íslenzku þjóðarinnar í gegnum aldirnar? Ég geri það vegna þess, að aldrei hefur verið ríkari ástæða til þess á Alþingi að minna á þetta en einmitt nú. Aldrei hafa verið lögð fram á Alþingi Íslendinga slík ólög ójafnaðarins sem frv. það um launamál o.fl., sem ríkisstj. hefur lagt fram og verið hefur hér til umr, seinustu dagana. Þótt farið sé í gegnum alla þingsöguna og grandskoðað hvert einasta mál, mundi aldrei neitt mál fyrirfinnast, er felur í sér því líka ósanngirni eða byggt er á slíku misrétti sem þetta frv.

Efni þessa frv. er í stuttu máli það, að þeir, sem lægst laun hafa og verst eru settir, skuli engar launahækkanir og kjarabætur fá, þótt hinir, sem hærri laun hafa og miklu betur eru settir, hafi þegar fengið miklar kauphækkanir og þó einkum þeir, sem hæst laun hafa. Aldrei áður í þingsögunni hefur það gerzt, að þannig sé níðzt á þeim, sem verst eru settir í þjóðfélaginu. Ranglátara og ódrengilegra mál hefur ekki verið flutt á Alþingi Íslendinga.

Það gleðilega hefur hins vegar gerzt, að það hefur komið ótvírætt í ljós, að enn er jafnaðarog réttlætiskenndin rík í Íslendingum. Til Alþingis hafa borizt mótmæli úr öllum áttum og það ekki aðeins frá þeim, sem með þessum lögum á að setja skör neðar en aðra þegna þjóðfélagsins. Mótmælin og andúðin hafa ekki síður komið frá þeim, sem eiga að hafa hinn betri hlut samkv. þessu frv. Utan Alþingis hef ég ekki heyrt nema einn einasta mann lýsa velþóknun á þessu lagastarfi. Benjamín Eiríksson bankastjóra í útvarpsræðu nýlega. Benjamín hefur ekki heldur persónulegar ástæður til að kvarta. Seinasta verk hæstv. ráðh., áður en þeir lögðu þetta mál fyrir þingið, var að hækka laun bankastjóra um 40% og munu þau nú vera í kringum 400 þús. á ári, þegar risna og bílastyrkur er meðtalinn, eða u.þ.b. 5—6—föld verkamannalaun.

Af hálfu hæstv. ráðh. hafa verið færð næsta fáránleg rök fyrir þessu máli. Hæstv. forsrh. hampar því mjög, að þetta sé gert fyrir þá launalægstu. Það er sem sagt gert fyrir þá launalægstu að láta skammt þeirra vera óbreyttan, meðan aðrir fá skammt sinn stóraukinn og dýrtíðin magnast meira en nokkru sinni fyrr. Ólafur Thors hefur oft verið skemmtilega fyndinn, en þessi fyndni hans skýtur langt yfir markið. Ólafur Thors mundi skilja það, ef hann hefði sjálfur ekki nema 67 þús. kr. í árslaun í stað 450 þús. kr. árslauna að ótöldum mörgum fríðindum.

Emil Jónsson og Gylfi Þ. Gíslason lofa að bæta láglaunamönnum þetta upp með lækkun skatta og útsvara. En hvorir ætli græði nú meira á þessari ráðgerðu skatta- og tollalækkun, verkamaðurinn. sem hefur 67 þús. kr. árslaun eða Emil og Gylfi, sem hafa hvor um sig yfir 400 þús. kr. árslaun að ótöldum fríðindum? Ekki kæmi mér á óvart, þótt skattalækkunin hjá Emil og Gylfa yrði a.m.k. tíföld. jafnvel tuttuguföld sú skattalækkun, sem verkamaðurinn fær.

Þetta frv. hæstv. ríkisstj. er ekki aðeins mesta ójafnaðar- og misréttismál, sem lagt hefur verið fyrir Alþingi, það stefnir einnig gegn þeim réttindum launastéttanna, sem eru þeim dýrmætust og mikilvægust allra réttinda, verkfallsréttinum. Það á að afnema hann fyrst í tvo mánuði, síðan í lengri tíma. Það á að sníða verkalýðshreyfingunni hér sama stakk og á Spáni og í Portúgal og fyrir austan tjald. Hér skal vera, eins og í þessum tveim löndum, verkalýðshreyfing án verkfallsréttar, verkalýðshreyfing, sem í raun og veru er ekki annað en nafnið, gagnslaus gervihreyfing. Á þann hátt skal framkvæma langþráðan draum stóratvinnurekenda og stórgróðamanna, koma þeim í paradís gróðavaldsins, sem þá hefur lengi dreymt um.

Það hefur margt misjafnt verið sagt um verkfallsréttinn, og vissulega hefur hann oft verið misnotaður, alveg eins og líðræðið hefur oft verið misnotað. Hér á landi þarf vissulega að koma þessum málum í miklu fastara form með frjálsu samkomulagi atvinnurekenda og launþegasamtaka, t.d. eins og á Norðurlöndum, þar sem gerðir eru heildarsamningar til lengri tíma. En þrátt fyrir þessa galla verkfallsréttarins. sem vel á að mega sigrast á með frjálsum samningum atvinnurekenda og launþega, hefur hann ekki aðeins gagnazt launastéttunum vel, heldur verið vestrænum þjóðum ómetanleg lyftistöng. — Einhverjir kunna að segja, að ég fari með öfugmæli, þegar ég segi, að hann hafi verið vestrænum þjóðum ómetanleg lyftistöng. En hvers vegna halda menn. að þau lönd séu fremst í framleiðslu, framleiðni og tækni, er lengst hafa búið við verkfallsrétt? Hvers vegna halda menn, að lífskjörin séu bezt í þessum löndum og kommúnistar eigi þar örðugast uppdráttar? Það stafar einfaldlaga af því, að launþegar þessara landa hafa getað beitt samtakamættinum til að knýja fram bætt kjör. Bætt kjör þeirra hafa skapað framleiðslunni stóraukinn markað. og bætt kjör launþega eða réttara sagt hækkað laun þeirra hefur knúið atvinnurekendur til að taka framleiðni og tækni í sívaxandi mæli í þjónustu sína. Lágt kaupgjald er atvinnurekendum hins vegar engin hvatning í þessum efnum, og því er tækni og framleiðni yfirleitt á lágu stigi, þar sem kaupgjald er lágt.

Íslenzk alþýða hefur á undanförnum áratugum búið við sæmileg kjör. Það á hún að þakka samtakarétti sínum framar öllu öðru. Samtakaréttinn verður hún að verja. Sá réttur er hins vegar raunverulega úr sögunni með frv. ríkisstj. um launamál, því að þótt þar sé talað um að afnema hann í fyrstu í tvo mánuði, efast enginn um að það er aðeins hugsað sem upphaf að öðru meira.

Það er víst, að sú stefna ójafnaðar, misréttis og réttindasviptingar, er felst í frv. ríkisstj., ber sjálf dauðann í sér. Svo sterk er jafnaðarkennd og réttlætishugsjón þjóðarinnar, að hún getur ekki þolað slík álög, ekki slíkan ójöfnuð, ekki slíkt misrétti. Verkalýðssamtökin mega ekki láta afmá þýðingarmesta rétt sinn án öflugustu baráttu, sem þau geta innt af hendi. Frv. ríkisstj. er því ekki aðeins ranglátt, heldur hættulegt friðnum í landinu. Ríkisstj. á að hafa séð á þeirri mótmælaöldu, sem þegar er risin og enn á eftir að magnast, að hún er þar að kynda styrjaldareld, sem getur gert íslenzku þjóðlífi óbætanlegt tjón um langa framtíð.

Það. sem þessi þjóð þarf, ef hún á að halda hlut sínum meðal hinna stærri þjóða, er samstarf og samhugur, gagnkvæmur skilningur og gagnkvæmur drengskapur einstaklinga og stétta. Þetta frv. grefur grunninn undan slíku samstarfi og slíkum skilningi. Það margfaldar þá sambúðarörðugleika, sem nú er búið við. Þetta frv. ríkisstj. hefur þegar skapað þann vanda, að ég efast um, að þjóðin hafi horfzt í augu við þvílíkan um áratugi. Á slíkum stundum má ekki láta misskilinn metnað ráða, ekki æstar tilfinningar, heldur hóflega skynsemi. Hafi ríkisstj. á einhverju stigi gert sér von um. að frv. hennar mundi leysa einhvern vanda, má henni vera ljóst, að það gerir hið gagnstæða. Ríkisstj. á því ekki nema eina leið út úr þeim vanda, sem hún hefur komið sér og þjóðinni í, því að það er ekki leið að auka enn deilurnar og ófriðinn. Þessi leið er sú, að stjórnin segi af sér og dragi frv. sitt til baka og hjálpi síðan til þess að bæta sambúð stéttanna. Þetta er sú eina leið, sem stjórnin mundi vaxa af, hin eina leið, sem sæmir mönnum, er finna til skyldunnar á örlagastund. — Góða nótt.