07.11.1963
Sameinað þing: 13. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í D-deild Alþingistíðinda. (2738)

57. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundason):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þegar í ljós kom eftir alþingiskosningarnar í sumar, að 56% kjósenda höfðu vottað ríkisstjórninni traust, flutti form. Alþb., Hannibal Valdimarsson, ávarp til þjóðarinnar í ríkisútvarpið. Niðurlagsorð þessa ávarps hljóðuðu svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Viðreisnarflokkarnir hafa nú tilkynnt þjóðinni, að viðreisninni verði haldið áfram. Þeirri stefnu eru Alþb. og verkalýðssamtökin andvíg í grundvallaratriðum. Þeirri stefnu viljum við hnekkja. Þess vegna boðar Alþb. nú stríð, en ekki frið. Og það veit, að viðreisninni verður hnekkt“.

Flestir urðu undrandi, er þeir heyrðu þessa yfirlýsingu Hannibals Valdimarssonar. Meiri hluti þjóðarinnar hafði við almennar alþingiskosningar vottað viðreisnarstarfi ríkisstj. traust og látið í ljós þann vilja, að því væri haldið áfram. Með yfirlýsingu sinni í sumar boðar Hannibal Valdimarsson stríð, en ekki frið. Hann tilkynnir meiri hluta þjóðarinnar í ríkisútvarpinu, að vilja hennar skuli verða hnekkt. Stjórnarandstöðunni hafði ekki tekizt að fella ríkisstj. við kjörborðið. Meiri hluti kjósenda hafði séð fyrir því. Þá dugði ekkert minna en lýsa yfir styrjöld á hendur vilja meiri hluta kjósenda. Viðreisninni skyldi hnekkt, hvað sem vilja meiri hluta þjóðarinnar leið.

En hver var þessi viðreisn, sem Hannibal Valdimarsson og Alþb. vildu hnekkja með styrjöld, og hvað vildu þessir aðilar fá í staðinn? Athugum það lítillega.

Ríkisstj. hafði gert rekstrarskilyrði sjávarútvegsins stórum heilbrigðari en áður var með afnámi uppbótakerfisins og með breytingu stuttra lána í löng. Fyrir þetta sköpuðust betri skilyrði til aukinnar þjóðarframleiðslu og þar með raunverulega bættra lífskjara. Hallinn, sem verið hafði á greiðslujöfnuði þjóðarinnar við önnur lönd frá því í lok styrjaldarinnar, hafði horfið. Í stað hans kom verulegur greiðsluafgangur bæði árin 1961 og 1962. Með þessum og öðrum aðgerðum hafði lánstraust þjóðarinnar erlendis og traustíð á gjaldmiðlinum verið endurreist. Íslendingar gátu nú fengið framkvæmdalán til langs tíma með eðlilegum hætti hjá alþjóðastofnunum, á fjármagnsmörkuðum og í erlendum bönkum, sem þeir áður gátu ekki. Þetta gerði það mögulegt að halda uppi meiri framkvæmdum en ella og þar með auka þjóðarframleiðsluna og bæta lífskjörin. Gjaldeyrisvarasjóður, sem nam 1100 millj. kr., hafði myndazt og spariinnlán í bönkum höfðu tvöfaldazt. Innflutningur hafði að mestu verið gefinn frjáls og svartamarkaðsbrask horfið, vöruval stóraukizt, skipastóll landsmanna hafði vaxið meira en nokkru sinni fyrr, lögin um almannatryggingar höfðu verið endurskoðuð og framlög til þeirra sexfölduð, lögin um verkamannabústaði höfðu einnig verið endurskoðuð og framlag til verkamannabústaða og íbúðabygginga stórum aukið. Þannig mætti lengi telja. Lífskjör alls almennings í landinu höfðu aldrei verið jafngóð, og aldrei höfðu einstaklingar veitt sér eins mikið áður. Öllu þessu vildi Alþb. hnekkja, og gegn því boðar það stríð, en ekki frið, strax og úrslit alþingiskosninganna voru kunn. En hvað vildi þá Alþb. fá í staðinn? An efa það ástand, sem ríkti, meðan það sjálft átti sæti í ríkisstjórn, vinstri stjórninni. Alþb. vildi hverfa aftur til desemberdaganna 1958, þegar form. Framsfl. lýsti því yfir, að óðaverðbólga væri skollin yfir og engin samstaða væri innan ríkisstj. um neina úrlausn.

Alþb. telur, að nú sé tími kominn til að leggja til atlögu gegn viðreisnarstarfi ríkisstj. Tilefnið, sem notað er, er ósk ríkisstj. um tveggja mánaða frest eða varla það til að ganga frá till. varðandi efnahagsvandamál. Á undanförnum mánuðum hefur skapazt misræmi í efnahagslífinu vegna launakapphlaups og víxlhækkana kaupgjalds og verðlags. Att hefur sér stað almenn launahækkun samkvæmt kjarasamningum, sem nemur 13%, til viðbótar við launahækkanir 1962, sem að meðaltall námu 12%. Í sumar hækkuðu og laun opinberra starfsmanna samkvæmt úrskurði kjaradóms. Ríkisstj. átti engan þátt í þeirri niðurstöðu. Stjórnarandstaðan hefur sitt hvað um þessa hækkun að segja, en gleymir því gjarnan, að lögin um kjaradóm voru sett með samþykki allra flokka. Hún gleymir því einnig, að launakröfur opinberra starfsmanna voru allar studdar af stjórnarandstöðunni, enda þótt þær væru til muna hærri en niðurstöður dómsins, einkum hinna hæst launuðu. Þá hækkaði og verð landbúnaðarafurða í haust um sem svarar 21% í verðgrundvelli eða 26% í tekjum bóndans. Hér er í heild um miklar hækkanir að ræða. Árangur viðreisnarstarfs ríkisstj., sem Hannibal Valdimarsson vill nú fyrir hvern mun brjóta niður, er hins vegar sá, að efnahagskerfið getur borið þessar hækkanir.

Seinustu vikurnar hafa komið fram kröfur um nýjar launahækkanir, sem nema eigi undir 40% og sumar miklu meira. Augljóst er, að nái kröfur um almennar launahækkanir fram að ganga nú, svo sem til er stofnað, þá stöðvast atvinnutæki landsmanna, nema róttækar ráðstafanir verði gerðar þeim til bjargar, og vist er, að ný verðbólgualda skeilur þá yfir, sem eyðir launahækkuninni á skömmum tíma.

Ríkisstj. hefur oft lýst því yfir, að hún telji óhjákvæmilegt að rétta hlut láglaunafólks. Á undanförnum árum hefur þróunin verið sú, að fyrst hefur láglaunafólk komið fram launahækkunum, síðan hafa aðrir komið á eftír og náð fram meiri hækkunum, og loks hafa hækkanir á vöruverði, landbúnaðarvörum og öðru, fylgt í kjölfarið, og á skömmum tíma hafa kjarabæturnar verið étnar upp og meira en það. Láglaunafólk hefur verið verr sett eftir en áður og verst sett af öllu. Stéttarfélög láglaunafólks hafa ekki reynzt þess megnug að ráða við þessa þróun.

En eins og ríkisstj. telur, að rétta verði hlut láglaunafólks, þá telur hún einnig, að slíkt verði ekki gert nema fyrir atbeina ríkisvaldsins. Þess vegna hefur ríkisstj. unnið að því að finna leiðir til úrlausnar á málinu, án þess að til almennra launahækkana leiði og án þess að sú kjarabót, sem láglaunafólk fengi, fari inn í hringrás verðbólgu og dýrtíðar. Þetta er vandasamt verk, og þarf margt að athuga. Hefur komið til álita að ákveða lágmarkslaun hærri en nú eru, ívilnanir í opinberum gjöldum o.fl. Einn af ræðumönnum Framsfl. vék að þessum hugmyndum í útvarpsræðu í gærkvöld og fann á þeim öll tormerki. Sýnir það bezt, hve vandasamt málið er.

Er verkföll áttu að hefjast 1. þ.m., hafði ríkisstj. ekki till. sinar tilbúnar. Þess vegna óskaði hún eftir fresti á aðgerðum í launamálum í tæpa tvo mánuði. Stjórnarandstaðan hefur ekki komizt hjá því að viðurkenna, að eðlilegt sé og réttmætt, að ríkisstj. fái nokkurn frest. Það kom fram í útvarpsumr. í gærkvöld hjá einum af ræðumönnum Alþb., að af þess hálfu var boðið upp á 10 daga frest. En með því að svo skammur frestur er ófullnægjandi, átti ríkisstj. ekki annarra kosta völ en að bera fram frv. Alþb. hefur einu sinni verið í svipuðum vanda og ríkisstj. er nú. Það var sumarið 1956. Hannibal Valdimarsson leysti þann vanda með útgáfu brbl., þar sem felldar voru úr gildi í 4 mánuði launahækkanir, sem verkalýðsfélögin áttu samningsbundinn rétt til. Þegar verkalýðsfélögin kvörtuðu undan því, að sjálfur forseti Alþýðusambandsins hefði gefið út slík lög án samráðs við þau, svaraði hann því til, að slíkt samráð hefði ekki samrýmzt hagsmunum verkalýðsfélaganna. En þegar ríkisstj. nú fer fram á frest á, að gerðir verði nýir kjarasamningar, í tvo mánuði eða tæplega það, þá er slíkt talið gerræði við verkalýðssamtökin.

Stjórnarandstaðan beitir sér nú gegn því á Alþingi, að ríkisstj. fái umbeðinn frest. Alþb. ber fram vantraust, og Framsfl. fylgir því . Utan þings beitir Alþb. sér fyrir vinnustöðvun gegn væntanlegum lögum, og Framsfl. tekur einnig þátt í því. Ljóst er, að Alþb. telur, að nú sé tími kominn til að hefja styrjöld þá gegn viðreisninni, sem Hannibal Valdimarsson boðaði eftir kosningarnar í sumar. Um það er ekkert hirt, þótt af slíku leiði nýja verðbólguöldu og aðgerðir stjórnarandstöðunnar séu þannig beint fjörráð við þá lægst launuðu í landinu. Hannibal Valdimarsson vitnaði til þess í útvarpsumr. í gærkvöld, að verkalýðsfélögin í Noregi hafi á sínum tíma með vinnustöðvunum brotíð á bak aftur löggjöf, sem þau vildu ekki þola. Þetta er rétt. Þessir atburðir gerðust í Noregi fyrir u.þ.b. 40 árum. En hins vegar gleymdi Hannibal Valdimarsson að segja frá því, að reynsla norsku verkalýðshreyfingarinnar af þessum verkföllum varð sú, að hún hefur aldrei gripið til slíkra ráðstafana síðan og jafnan eftir þetta verið öruggur talsmaður þess, að vinnustöðvanir væru ekki notaðar gegn ríkisvaldinu og lögmætum stjórnarathöfnum. Því má einnig bæta hér við, að fáum árum eftir að norska verkalýðshreyfingin beitti vinnustöðvunum gegn framkvæmd laga, þá studdi hún setningu laga, reynslunni ríkari. Hannibal Valdimarsson veit vel, að dæmi það, sem hann vitnaði til úr sögu norsku verkalýðshreyfingarinnar, hefur um áratugi af verkalýðshreyfingunni sjálfri verið skoðað sem fordæmi, sem forðast bæri, en ekki taka til fyrirmyndar.

Alþfl. hefur unnið að viðreisnarstarfi ríkisstj. fyrir sitt leyti vegna þess, að hann telur, að í henni felist sú heppilegasta lausn þjóðmála, sem af núv. flokkaskipun leiðir. Alþfl. styður frv. ríkisstj. vegna þess, að frestinn á að nota til að skapa láglaunafólki raunverulegar kjarabætur. Fáist fresturinn ekki, er vá fyrir dyrum og mest hjá þeim, sem lægst eru launaðir. Alþfl. varar við slíku, og minnir á, að enn eru í fullu gildi ummæli Jóns heitins Baldvinssonar: Eðli verkalýðshreyfingarinnar er ekki skyndiupphlaup, hávaðafundir og ævintýri, heldur markvisst, sleitulaust strit fyrir málefnunum sjálfum. — Góða nótt.