10.04.1964
Sameinað þing: 61. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í D-deild Alþingistíðinda. (2747)

179. mál, utanríkisstefna íslenska lýðveldisins

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þáltill. sú, sem hér liggur fyrir, er borin fram af fulltrúum þeirra þriggja samtaka, sem Alþb. kallast. Flm. eru Einar Olgeirsson og Ragnar Arnalds, fulltrúi kommúnistadeildar Sameiningarflokks alþýðu, Alfreð Gíslason, fulltrúi Málfundafélags jafnaðarmanna, og Gils Guðmundsson, fulltrúi eftirstöðva þjóðvarnarflokksins.

Efni þáltill. er, að Albingi ákveði sjálft, en ekki ríkisstj., eins og hingað til hefur verið venja, hver skuli verða grundvallaratriði íslenzkrar utanríkisstefnu. Segja má, að þáltill. geri ráð fyrir því, að bessi grundvallaratriði eigi að vera þríþætt. Í fyrsta lagi, að Alþingi lýsi því yfir, að íslenzka þjóðin haldi fullu sjálfstæði sínu, stjórnarfarslegu og efnahagslegu, enda hafi Íslendingar einir eignar- og yfirráðarétt yfir auðlindum landsins og atvinnutækjum, en hafi við hverja bjóð sérhver þau skipti, menningarleg og viðskiptaleg, sem samrýmast hagsmunum og sæmd íslenzku þjóðarinnar. Í öðru lagi, að Alþingi lýsi því yfir, að Ísland starfi innan Sameinuðu þjóðanna og hvarvetna á alþjóðavettvangi að friðsamlegri lausn deilumála eða styðji hverja þá viðleitni til takmarkaðrar og almennrar afvopnunar, sem fram kann að koma, jafnframt því sem Ísland lýsi yfir hlutleysi í hernaðarátökum, segi sig úr Atlantshafsbandalaginu og vísi varnarliðinu úr landi. Og loks í þriðja lagi, að Albingi lýsi yfir stuðningi við undirokaðar og nýfrjálsar þjóðir í baráttu þeirra fyrir fullu frelsi og efnahagslegu sjálfstæði.

Bæði orðalag þáltill. sjálfrar og grg.. sem henni fylgir, ber greinilega með sér, að tilgangur flm. er að ákveða stefnu Íslands í utanríkismálum í heild og einnig í vissum, einstökum atriðum nú og í nánustu framtíð.

Hver, sem hugleiðir slíka till., hlýtur að spyrja sjálfan sig tveggja spurninga. Í fyrsta lagi: Hvaða grundvallarsjónarmiðum byggja sjálfstæð ríki yfirleitt stefnu sína í utanríkismálum á? Í öðru lagi: Eru flm. þáltill. þeirrar, sem hér liggur fyrir, svo bekktir að því að virða slík sjónarmið, að þess megi vænta. að till. frá þeim sé til þess fallin að vera grundvöllur íslenzkrar utanríkismátastefnu?

Um fyrra atriðið, á hvaða sjónarmiðum sjálfstæð ríki byggja utanríkisstefnu sína, get ég verið fáorður. Það atriði er ljóst og óumdeilanlegt. Grundvallartilgangur utanríkisstefnu sérhvers ríkis er að vernda og efla hagsmuni þess, tryggja og treysta frelsi þess og sjálfstæði, pólitískt og efnahagslegt. Fyrir þessum sjónarmiðum hljóta önnur sjónarmið að víkja. Íslendingar verða að byggja utanríkisstefnu sína á þessu grundvallaratriði, á sama hátt og allar aðrar þjóðir. Afstaða þeirra til málefna á erlendum vettvangi og til annarra þjóða hlýtur að fara eftir því, hvað bezt samrýmist íslenzkum hagsmunum. Íslenzkir hagsmunir hljóta ætíð að vera leiðarljósið, sem siglt er eftir.

Er þá komið að síðara atriðinu, spurningunni um það, hvort feður þeirrar þáltill., sem hér liggur fyrir, séu þekktir að því að virða svo íslenzka hagsmuni í sambandi við utanríkismál, að ætla megi, að þeim sé treystandi til að marka stefnu Íslands í þeim efnum. Fróðlegt er að athuga lítillega feril þeirra á liðnum árum. Tímans vegna er þó aðeins hægt að nefna fá dæmi.

Þegar Ísland öðlaðist fullveldi árið 1918, lýsti það yfir ævarandi hlutleysi. Þjóðarbandalagið var stofnað nokkrum mánuðum síðar. Árið 1930 voru flestar þjóðir Evrópu meðlimir Þjóðabandalagsins nema Sovétríkin, sem stóðu utan þess. Þá var um það rætt, að Ísland gengi í bandalagið. Einar Olgeirsson réðst hatrammlega gegn slíkum áformum og sagði, að það væri höfuðglæpur, sem kórónaði kúgun og svívirðingar síðustu þúsund ára, ef Ísland gengi í þjóðabandalagið sem hann nefndi þá fjandaflokk auðvaldbandalags gegn hinum uppvaxandi, frjálsu alþýðuríkjum Sovétríkjunum. Einar krafðist þess, að Ísland héldi fast við hlutleysið, sem væri þess eina og örugga vernd. Þetta var árið 1930.

Nokkrum árum síðar gengu Sovétríkin í Þjóðabandalagið. Þá tók Einar Olgeirsson upp baráttu fyrir því á Alþingi, að Ísland gengi einnig í Þjóðabandalagið. Nú lýsti hann því yfir, að þetta bandalag væri eina öryggi Íslendinga, enda væri hlutleysið með öllu haldlaust og það tálvon ein, að hlutleysisyfirlýsingin frá 1918 gæti verndað okkur. M.ö.o.: innganga Rússa í Þjóðabandalagið sneri alveg við afstöðu kommúnista til bandalagsins og hlutleysisins.

Haustið 1939 gerðu Hitler og Stalín með sér griðasáttmála. Hitler hóf síðari heimsstyrjöldina, en Sovétríkin voru hlutlaus. Þá gerðust þau tíðindi, að íslenzkir kommúnistar skiptu á ný um skoðun á hlutleysinu á einni nóttu. Gerðust þeir ákafir talsmenn hlutleysis, töldu engu máli skipta, hvor ynni styrjöldina, nazistar eða vesturveldin. Slíkt væri aðeins smekksatriði, eins og þeir kölluðu það. Þegar svo Bretar nokkru siðar hernámu ísland, hvöttu þeir Íslendinga til mótspyrnu og nefndu vinnu verkafólks fyrir Breta landráðavinnu. Tveimur árum síðar réðust Þjóðverjar á Rússland. Á svipstundu breyttist afstaða íslenzkra kommúnista til hlutleysis. Nú kalla þeir hlutleysi svívirðilegan glæp, vinnan fyrir Breta á Íslandi heitir ekki lengur landráðavinna, hún heitir landvarnavinna, og nú verða allir að leggja sig fram um að vinna fyrir Breta. Talsmaður kommúnista á Alþingi lýsti því beinlínis yfir, að svo sannarlega mætti skjóta frá Íslandi, ef með þyrfti. Hlutleysi væri hreinasta fásinna.

Undir lok heimsstyrjaldarinnar síðari voru Sameinuðu þjóðirnar stofnaðar. Íslandi var gefinn kostur á að gerast stofnandi, en fyrir atbeina Sovétríkjanna var það skilyrði látið fylgja, að Ísland segði Þjóðverjum og Japönum stríð á hendur, en báðar voru þessar þjóðir þá að falli komnar. Alþm. ýmist brostu eða voru undrandi yfir skilyrðinu um, að Ísland segði Þýzkalandi og Japan stríð á hendur, allir nema kommúnistar, þeir vildu óðir og uppvægir, að Ísland lýsti yfir styrjöld við þessi ríki.

Eftir heimsstyrjöldina síðari tók hinn alþjóðlegi kommúnismi að sölsa undir sig hvert ríkið á fætur öðru með ofbeldi og vopnavaldi. Þegar farið var að svipta þessi lönd frelsi sínu, skipti það miklu máli fyrir hinn alþjóðlega kommúnisma að fá að gera slíkt í friði og að ekki kæmist á samstarf frjálsra ríkja þeim til varnar. Höfuðstöðvar hins alþjóðlega kommúnisma hvöttu þá frjálsar þjóðir til varnarleysis og hlutleysis. Og það stóð ekki á íslenzkum kommúnistum, þeir snarsnerust. Hlutleysið, sem þeir áður fordæmdu, var nú lausnarorðið, einasta vörn smáríkis.

Ég ætla ekki að rekja þetta nánar eða lengra. Þessi dæmi sanna, að flokkur kommúnista hefur margsnúizt og snarsnúizt í afstöðu sinni til hlutleysis. Afstaða flokksins til þess máls fer ekki eftir íslenzkum hagsmunum. Hún mótast af því einu, hver stefna Sovétríkjanna er á hverjum tíma, og íslenzkir kommúnistar fylgja nákvæmlega þeim fyrirmælum, sem þeir fá frá höfuðstöðvum hins alþjóðlega kommúnisma. Og þannig er það í utanríkssmálum yfirleitt. Afstaðan til hlutleysisins er ekki einsdæmi. Flokkurinn og forustumenn hans eru ekki sjálfráðir um stefnuna.

Þegar Alþfl. gekk til samstarfs við kommúnista í vinstri stjórninni 1956. gerði hann sér ljóst, að kommúnistaflokkurinn var ekki hæfur til samstarfs um utanríkismál. Samstarfið var því aðeins hugsanlegt, að samkomutag næðist um, að Alþb., sem kommúnistar réðu öllu í, væri haldið gersamlega utan utanríkismálanna. Alþfl. setti það því sem skilyrði fyrir stjórnarsamstarfinu við myndun vinstri stj., svo og það, að Alþfl. væri falin meðferð utanríkismála í þeirri stjórn, til þess að tryggja, að Alþb. kæmi þar hvergi nærri. Á þetta féllust Alþb.-menn. Þeir viðurkenndu í verki, að ekki væri hægt að ætlast til þess, að þeir fengju að fylgjast með eða hafa áhrif á meðferð utanríkismála í þeirri ríkisstj., sem þeir sjálfir áttu þó sæti í. Þeir gerðu sér ljóst, að öll þjóðin vissi, að á því sviði voru þeir fjarstýrður flokkur, ósjálfráður gerða sinna og því eðlilegt, að þeir væru utangarðs. Það skal játað, að á vinstristjórnartímabilinu stóð Alþb. furðanlega vel við þetta. Því var aldrei skýrt frá neinu í utanríkismálum, og það spurði aldrei neins. Þegar þm. þess og ráðherrar heyrðu á Alþingi í des. 1956. að horfið hafði verið frá því að vísa varnarliðinu úr landi, létu þeir sér það vel líka, og aldrei báru ráðherrar Alþb. fram nein tilmæli í ríkisstj. um brottför varnarliðsins eða úrsögn úr NATO. Það eina, sem heyrðist frá Alþb. í þessa átt, var haustíð 1957, er Einar Olgeirsson skildi eftir bréf um málið til formanns Alþfl. og Framsfl., er hann fór til fundarhalda í Moskvu. Einar lét sér vel líka, að bréf hans var að engu haft.

Það sætir því nokkurri furðu, að Alþb., sem fyrir fáum árum gekk inn á að styðja ríkisstj. og eiga í henni ráðherra á þeim grundvelli að mega hvorki fylgjast með meðferð utanríkismála né hafa áhrif á gang þeirra, skuli nú, þegar það er í stjórnarandstöðu, krefjast þess að móta utanríkisstefnuna í grundvallaratriðum og jafnvel að vissu leyti í einstökum atriðum. Það er skoðun míns flokks, að stefnuna í utanríkismálum beri ætíð að miða við hagsmuni íslenzku þjóðarinnar. Kommúnistar, sem einir ráða öllu í Alþb., hafa ætíð og ávallt sýnt, að utanríkisstefnu sína miða þeir við utanríkisstefnu og hagsmuni Sovétríkjanna, og þeir taka við og fara eftir fyrirmælum hins alþjóðlega kommúnisma. Þess vegna á Alþb. að vera utangarðs í utanríkismálum. Þeim var sómi að því að viðurkenna þetta í vinstri stjórninni, og þeir væru menn að meiri, ef þeir héldu áfram að viðurkenna þessa staðreynd, í stað þess að bera fram till. á Alþingi og ætlast til þess að fá að hafa áhrif á utanríkisstefnuna.

Þáltill. sú, sem hér liggur fyrir, ber það greinilega með sér, að hún er innflutt. Akvæði þau, sem flm. hennar vilja láta Alþ. samþykkja sem grundvöll íslenzkrar utanríkisstefnu, eru ýmist tilefnislaus og gefa villandi hugmynd um ástandið eða eru beinlínis gagnstæð íslenzkum hagsmunum. Tilefnislaust og villandi er fyrsta ákvæði till. um, að íslenzka þjóðin skuli halda sjálfstæði sínu, stjórnarfarslegu sem efnahagslegu. Engum kemur eða hefur komið til hugar að skerða sjálfstæði þjóðarinnar, en ákvæði till. gefur til kynna, að svo hafi verið.

Í grg. till. er þetta atriði rökstutt með því, að ráðagerðir hafi verið uppi um, að Ísland gerðist fullgildur aðili að Efnahagsbandalagi Evrópu, og ef svo hefði farið, væri sjálfstæði þjóðarinnar fargað. Þetta er rangt. Stefna ríkisstj. í þessum málum var alltaf ljós og alveg ótvíræð. Ríkisstj. taldi þær skuldbindingar, sem fylgja mundu fullri aðild að Efnahagsbandalaginu, ekki geta samrýmzt hagsmunum Íslands og margvíslegri sérstöðu þess. Þetta var margsagt hér á Alþingi og utan þess, og þetta var öllum erlendum ríkisstjórnum, sem málið var rætt við, gert fullkomlega ljóst. Hitt hlaut öllum vitibornum mönnum að liggja í augum uppi, að ef ríki Fríverzlunarbandalagsins hefðu yfirleitt undir forustu Bretlands gengið í Efnahagsbandalagið og Vestur-Evrópa þannig orðið ein viðskiptaheild, sem smám saman hefði komið upp sameiginlegum tolli gagnvart öðrum ríkjum, þ. á m. Íslandi, þá hefði mikilvægum viðskiptahagsmunum Íslendinga verið stefnt í voða. Það hlaut því að vera skylda íslenzkra stjórnarvalda að gera sem gleggsta grein fyrir því, með hverjum hætti auðveldast væri að gæta hagsmuna þjóðarinnar. Í því skyni hlutu könnunarviðræður við ríkisstjórnir efnahagsbandalagsríkja og fríverzlunarbandalagsríkja að vera nauðsynlegar.

Ríkisstj. undirstrikaði það sérstaklega hér innanlands og lét það koma fram í öllum viðræðum við erlendar ríkisstjórnir, að tvær leiðir kæmu til greina til þess að tryggja hagsmuni íslendinga, leið aukaaðildar að Efnahagsbandalaginu og tollasamningur við það. Í umr. við hinar erlendu ríkisstjórnir kom það fram, að aukaaðildarhugtakið hafði ekki enn verið mótað svo skýrt, að Íslendingar gætu gert sér grein fyrir því, hvort það gæti samrýmzt hagsmunum þeirra að gera aukaaðildarsamning. Það kom enn fremur í ljós, að ógerningur var að fá fullnægjandi vitneskju um, hvað falizt gæti í tollasamningi við Efnahagsbandalagið. Þess vegna var það stefna ríkisstj. að bíða, þangað til málið skýrðist betur, ekki væri tímabært að velja milli aukaaðildar og tollasamningsins. Þannig stóðu málin, þegar slitnaði upp úr samningum Efnahagsbandalagsins og Breta. Það er því fjarri öllu lagi, að í stefnu ríkisstj. í þessu máli hafi falizt nokkur hætta fyrir sjálfstæði Íslands.

Þá er annað ákvæði þáltill. um, að íslendingar skuli einir hafa eignar- og yfirráðarétt yfir auðlindum landsins og atvinnutækjum, einnig tilefnislaust og algerlega villandi. Engum hefur komið til hugar að skerða þessi réttindi, eins og till. gefur í skyn.

Í grg. rökstyðja flm. till. sína um þetta atriði með því, að nú sé unnið að stórfelldum flutningi erlends fjármagns inn í landið og sé augljóst, að ríkisstj. vilji sem minnstar skorður reisa við athöfnum erlendra auðfélaga á íslenzkri grund. Slíkar staðhæfingar eru fjarri öllum sanni. Sú samvinna, sem ríkisstj. hefur talið eðlilegt að þreifa fyrir sér um við erlenda aðila varðandi uppbyggingu framleiðslugreina hér á landi, felur ekki á nokkurn hátt Í sér fráhvarf frá þeirri meginstefnu allra íslenzkra stjórnmálaflokka, að Íslendingar hafi einir tögl og hagldir um atvinnumál landsins og þá sérstaklega að auðlindir þjóðarinnar lendi ekki í höndum erlendra aðila.

Þær framleiðslugreinar, sem ríkisstj. hefur athugað um uppbyggingu á með erlendu fjármagni, eru aðallega þrjár. Er þar fyrst að nefna byggingu kísilgúrverksmiðju við Mývatn, en frv. um hana hefur nýlega verið lagt fyrir Alþingi. Í þessu máli er gert ráð fyrir nokkurri samvinnu við erlenda aðila, sem Íslendingum er mikilvæg í sambandi við sölu framleiðslunnar erlendis. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir því, að þetta erlenda fyrirtæki eigi nema 20% hið mesta í kísilgúrverksmiðjunni. Kísilgúrvinnslan byggist á því, að í Mývatni eru mikilvægar kísilgúrnámur. En frv. gerir ráð fyrir því, að námur þessar verði áfram eign ríkisins og það selji verksmiðjunni hráefni úr námunni eða leigi henni afnot hennar. Þær auðlindir, sem eru undirstaða þessarar framleiðslu, verða því áfram í höndum Íslendinga einna, svo að hér verður ekki fastar að hnútunum búið en gert er.

Annað málið, sem mjög hefur verið unnið að á vegum ríkisstj., er bygging alúmíníumverksmiðju. Hér er um svo stórkostlega fjárfestingu að ræða, að óhugsandi er, að íslendingar gætu ráðizt í hana sjálfir, enda fullkomið óráð að leggja í slíka framleiðslu fyrir Þá, sem ekki búa yfir hinni fullkomnustu tæknikunnáttu og aðstöðu á heimsmörkuðum. Það hefur því virzt óhjákvæmilegt, að hið erlenda fyrirtæki ætti alúminíumverksmiðjuna svo að segja eitt, en keypti raforku af Íslendingum. Staðsetning alúminíumverksmiðju á Íslandi mundi byggjast á því eingöngu, að við gætum látíð í té orku á hagstæðu verði miðað við það, sem annars staðar er fáanlegt við hliðstæðar aðstæður. Eign orkuveranna er því lykillinn að þessari framleiðslu, en aldrei hefur komið annað til greina en þau verði í höndum Íslendinga einna. Hér er því engan veginn um það að ræða að láta útlendingum Í té yfirráðarétt yfir íslenzkum auðlindum, heldur aðeins að selja þeim ákveðna framleiðslu, Þ.e.a.s. í þessu tilfelli raforku. Gert er ráð fyrir því, að gerður verði samningur um sölu raforkunnar til tiltekins árabils, en slíkur samningur er nauðsynleg forsenda fjáröflunar til virkjunarframkvæmda. Réttindi og athafnafrelsi hins erlenda aðila hér á landi yrði algerlega bundið samningum milli hans og íslenzka ríkisins, og er engin hætta á því , að yfirráðum Íslendinga yfir landi sínu geti stafað hin minnsta hætta af slíku fyrirkomulagi. Margar fyrirmyndir eru að slíkum samningum erlendis og þ. á m. í löndum, þar sem ekki er minni tortryggni í garð erlendra manna og auðhringa en hjá flm. þessarar þáltill.

Loks hefur verið nokkuð rætt um olíuhreinsunarstöð hér á landi, en ríkisstj. hefur ekki verið beinn aðili að þeim samningi. Hins vegar liggur það fyrir og gert er ráð fyrir því, að meiri hluti fyrirtækisins verði íslenzkur, en jafnframt, að allt hlutafé færist smám saman á íslenzkar hendur á ákveðnu árabili. Mun ríkisstj. að sjálfsögðu leggja áherzlu á, að tryggilega verði um þetta búið, ef úr frekari aðgerðum verður á þessu sviði.

Það, sem verið er að gera í þessum málum hér á landi, er á engan hátt frábrugðið því , sem átt hefur sér stað að undanförnu í svo að segja hverju einasta ríki í hinum frjálsa heimi. Samvinna við erlenda aðila um stofnsetningu nýrra atvinnuvega er nauðsyn hverri þjóð, sem vill auka fjölbreytni og styrk atvinnuvega sinna. Íslendingar hafa hvorki fjármagn, tæknilega þekkingu né aðstöðu á erlendum mörkuðum, er geri þeim kleift að nýta til fulls alla þá möguleika, sem land vort hefur að bjóða. Það væri því beinlínis hættulegt að afsala sér slíkri samvinnu af tilhæfulausum ótta við það, að við getum ekki staðið á rétti okkar og haldið áhrifum erlendra aðila innan þeirra marka, sem við sjálfir teljum æskileg. Þeir, sem þannig tala, eru hin raunverulegu íhaldsöfl á Íslandi í dag, sem vilja fórna ómetanlegum möguleikum til framfara vegna þess, að þeir trúa ekki á getu þjóðar sinnar til þess að standa á rétti sínum og virðingu.

Þá eru ekki síður tilefnislaus og villandi ákvæði þáltill. um, að Ísland starfi á alþjóðavettvangi að friðsamlegri lausn deilumála og afvopnun, veiti undirokuðum þjóðum og nýfrjálsum þjóðum stuðning í baráttu þeirra fyrir fullu frelsi og efnahagslegu sjálfstæði og hafi við hverja þjóð þau skipti, menningarleg og viðskiptaleg, sem samrýmast hagsmunum Íslands. Allt þetta höfum við gert, og er beinlínis ósæmilegt að gefa annað í skyn í till. Ísland hefur ætíð á alþjóðavettvangi stutt allar till. til fríðsamlegrar lausnar deilumála og fordæmt ofbeldi. Allar raunhæfar till. til afvopnunar hafa hlotið stuðning Íslands, og við höfum beinlínis vakið á okkur athygli fyrir traustan og óbrigðulan stuðning við undirokaðar og nýfrjálsar þjóðir í baráttu þeirra fyrir fullu frelsi og sjálfstæði. Ég harma, að Alþb. skyldi lást á dögum byltingarinnar í Ungverjalandi 1956 að bera fram till. um stuðning við undirokaðar þjóðir, ekki á Alþ., heldur innan þingflokks Alþb. sjálfs, því að þar var þess vissulega þörf.

Loks verður ekki aðeins sagt, að ákvæði till. um úrsögn Íslands úr Atlantshafsbandalaginu, brottvísun varnarliðsins frá Íslandi og hlutleysi Íslands séu tilefnislaus, heldur beinlínis gagnstæð hagsmunum íslenzku þjóðarinnar. Mönnum er enn í fersku minni, hvernig hinn alþjóðlegi kommúnismi sölsaði undir sig í lok heimsstyrjaldarinnar landssvæði, sem samtals námu hálfri millj. km2 með 23 millj. íbúa. Menn hafa ekki heldur gleymt því, hvernig hinum alþjóðlega kommúnisma tókst eftir heimsstyrjöldina með brögðum, valdi og stjórnlagarofum að koma kommúnistaflokkum, sem alls staðar voru minnihlutaflokkar, til úrslitavalds í Evrópulöndum að stærð samanlagt 1 millj. km2 með 92 millj. íbúa. Engin þeirra þjóða, sem þannig urðu kommúnismanum að bráð, gekk honum á hönd af frjálsum vilja. Vopnuðu ofbeldi var alls staðar beitt, og í skjóli þess hrifsuðu fámennir kommúnistaflokkar, minnihlutaflokkar, til sín völdin gegn vilja yfirgnæfandi meiri hluta íbúa sérhvers lands. sem lenti í klóm þeirra. Það er með öllu óþekkt fyrirbrigði, að nokkur þjóð hafi í frjálsum kosningum valið leiðina til kommúnisma, enda eru þegnréttindi afnumin í ríkjum kommúnismans og engir stjórnmálaflokkar leyfðir nema kommúnistaflokkur.

Þjóðir Vestur-Evrópu sáu, hvert stefndi. Þær vissu, að hinn alþjóðlegi kommúnismi mundi halda áfram herferð sinni vestur eftir Evrópu og sölsa undir sig hvert ríkið á fætur öðru með brögðum, valdi og stjórnlagarofum, ef vestrænar þjóðir byggjust ekki til varna. Aðfarirnar voru þegar byrjaðar í Grikklandi og Tyrklandi. Þá stofnuðu vestrænar þjóðir Atlantshafsbandalagið til varnar frelsi sínu og sjálfstæði. Þessa dagana minnist Atlantshafsbandalagið 15 ára afmælis síns, og hver er árangurinn af 15 ára starfi þess? Ekki ein einasta þjóð innan vébanda þess hefur glatað frelsi sínu og sjálfstæði. Nú bera Alþb.-menn undir forustu kommúnista fram á Alþ. till. um, að Ísland gangi úr Atlantshafsbandalaginu og rjúfi þannig styrk þess og samtakamátt. Í þágu hverra er slík till. flutt? Þjónar hún íslenzkum hagsmunum? Nei, öðru nær. Hún er fram borin í þeim tilgangi einum að rjúfa varnarmúr frjálsra þjóða í Evrópu, svo að hinn alþjóðlegi kommúnismi megi á ný taka til við það, sem stöðvað var við stofnun Atlantshafsbandalagsins, að sölsa undir sig frjálsar þjóðir með brögðum, valdi og stjórnlagarofum gegn vitja yfirgnæfandi meiri hluta viðkomandi þjóða. Í slíkum hildarleik hlyti röðin að koma að okkur fyrr en varir. Frelsi þjóðar og einstaklinga væri þá glatað.

Till. sem þessi er ekki borin fram vegna hagsmuna Íslendinga. Hún er flutt í þágu og í umboði hins alþjóðlega kommúnisma. Till. um brottvísun varnarliðsins frá íslandi og hlutleysisyfirlýsingin þjónar sama tilgangi og till. um brottför Íslands úr Atlantshafsbandalaginu. Það er aðeins broslegt að sjá nú sömu mennina bera fram kröfu um, að Ísland lýsi yfir hlutleysi, sem áður hafa snúizt í því máli eins og vindhanar á bæjarburst, eftir því, hvernig vindurinn stóð frá Rússum og hinum alþjóðlega kommúnisma. Það er einnig dálítið ógætilegt af þeim að bera fram slíka till., vegna þess að þeir geta ekkert um það vitað, nema þeir sjálfir þurfi að snúast í málinu, eins og þeir gerðu 1930, 1937, 1933, 1941 og 1946. Íslendingar vilja ekki láta kommúnista, hvort sem þeir kalla sig Alþb. eða eitthvað annað, hafa áhrif á eða ráða meðferð og stefnu utanríkismála sinna. Þjóðin krefst þess, að stefnan verði miðuð við hennar hagsmuni, en ekki hagsmuni annars ríkis eða einhverra alþjóðlegra samtaka. Því munu þm. hafna þáltill. þeirri, sem hér liggur fyrir. Góða nótt.