20.12.1963
Sameinað þing: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

1. mál, fjárlög 1964

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. minntist á hér áðan, að það væri mjög þýðingarmikið að afgreiða fjárlög fyrir áramót, og skal ég ekki draga úr því, að slíkt sé heppilegt og nauðsynlegt og ætti að vera allsherjarregla. En á hinn bóginn kom það fram hjá hæstv. ráðh., að það væri ekki mögulegt að koma því þannig fyrir, að þessi fjárlög yrðu í samræmi við ástandið, eins og það væri orðið í dag, og verður óneitanlega að telja það ekki lítinn galla á fjárl., þegar hæstv. ráðh. lýsir slíku yfir sjálfur. Hann sagði, að einmitt núna væru að gerast svo miklar breytingar, að menn yrðu að skilja, að svo mundi væntanlega fara, að strax eftir áramótin yrði hæstv. ríkisstj. að leggja fram eins konar viðbótarfjárlög.

Auðvitað má deila um, hvort skynsamlegra sé, þegar svona stendur á, að fresta afgreiðslu fjárlaga og reyna að hafa þau sanna mynd af ástandinu og líkleg til að geta staðizt, eða hitt að drífa afgreiðsluna áfram með slíkum játningum um, að þau séu ekki raunverulega í samræmi við það, sem framkvæmdin hljóti að verða, og með yfirlýsingum um, að það eigi að setja ný viðbótarfjárlög eftir nokkra daga. Sjálfsagt má deila um, hvora aðferðina eigi að hafa. En ekki sýnist mér ástæða fyrir hæstv. ráðh. að vera að státa af þessari fjárlagaafgreiðslu, þó að hún sé gerð fyrir áramót með þessum hætti, sem hann þannig lýsir sjálfur.

Ég hefði ekki minnzt á þetta atriði, ef hæstv. fjmrh. hefði ekki verið að leiða umr. af því. En fyrst ég er farinn að tala um þessi efni, fjárlögin og það, sem fram undan er, vil ég fara ofur lítið nánar inn á það og þá sérstaklega vegna þess, að það er lífsnauðsyn að reyna að fá skýrar fram en enn er orðið, hvað fyrir hæstv. ríkisstj. vakir.

Vil ég þá fyrst snúa mér beint að þeirri spurningu: Ætlar hæstv. ríkisstj. að minnka niðurgreiðslurnar á nauðsynjavörum eða ekki? Það eru ekki greiddar niður nema helztu lífsnauðsynjar. Hæstv. fjmrh. var að tala fremur illa um niðurgreiðslurnar áðan. Virtist það benda í þá átt, að þeir hugsi sér að hætta við þær að einhverju leyti. Hann komst að þeirri undarlegu niðurstöðu, að niðurgreiðslurnar á helztu lífsnauðsynjum heimilanna mundu vera í þágu hinna ríku. Þetta er heldur furðuleg niðurstaða hjá hæstv. ráðh., þegar þess er gætt, að niðurgreiðslurnar eru aðeins á brýnustu lífsnauðsynjum heimilanna og engu öðru. Ef ætti að minnka niðurgreiðslurnar við þær kringumstæður, sem nú eru, jafngildir það hækkun á tollum eða gjöldum á lífsnauðsynjar, í hinni verstu mynd, sem hægt er að hafa slíkar álögur, því að það mundi koma þyngst á þær vörur, sem menn geta sízt neitað sér um, brýnustu nauðsynjarnar.

Ef hæstv. ríkisstj. ætlar sér að minnka niðurgreiðslurnar, er það vottur þess, að hún er að reyna að gera ráðstafanir til að ná af mönnum aftur að einhverju leyti eftir þeirri leið því, sem kann að ávinnast fyrir fólk í þeim kjaradeilum, sem nú standa yfir. Ég vara ríkisstj. alvarlega við því að leika þann leik. Ég vara hana alvarlega við þeim afleiðingum, sem af því hljóta að verða, ef hún ætlar enn að fitja upp á því sama og áður og byrja á þennan hátt. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðh. og ætlast til, að hann geti svarað því afdráttarlaust: Ætlar ríkisstj. að minnka niðurgreiðslurnar, eða ætlar hún ekki að minnka þær? Ef hún ætlar ekki að minnka niðurgreiðslurnar, þá á að samþykkja brtt, þá, sem hér hefur komið fram, um að færa fjárveitinguna til niðurgreiðslnanna í það horf, að hún geti staðið undir óbreyttum niðurgreiðslum. Þetta eiga menn heimtingu á að fá að vita, þegar verið er að afgreiða fjárlög fyrir árið 1964 og komið er fram undir jól, ef afgreiðsla fjárl. á að vera nokkuð annað en nafnið tómt, bara til að geta gortað af því, að fjárlög hafi verið afgreidd fyrir áramót.

Þá er annað, sem ég vil leyfa mér að minnast á, og það eru þær upplýsingar, sem hér hafa komið fram á Alþingi um, að hæstv. ríkisstj. hugsi sér að innleiða verulegar nýjar álögur þegar eftir áramótin. Þessi orðrómur hefur komizt á kreik vegna þess, að þegar ríkisstj. lagði fram till., sem áttu að vera til málamiðlunar í kjaradeilunni og gerðu ráð fyrir 8% hækkun á dagkaupi verkamanna og 4% hækkun á dagkaupi ýmissa annarra, hafði ríkisstj. um leið gefið fulltrúum verkalýðsins þær upplýsingar, að hún mundi þurfa að auka álögur á landsmenn um 220 millj. Þetta kom hér fram í umr. utan dagskrár, og þó að hæstv. forsrh. endurtæki þetta ekki eftir þeim, sem höfðu upplýst það, þá mótmælti hann því alls ekki, og dregur enginn í efa, að hæstv. forsrh. hefði mótmælt þessu eða leiðrétt, ef ekki hefði verið rétt frá þessu skýrt, að þetta hefði komið fram hjá hæstv. ríkisstj. í sambandi við uppástungur hennar um 8% og 4% kauphækkun.

Þetta allt virðist benda eindregið í þá átt, að hæstv. ríkisstj. hugsi sér að beita sér fyrir því að draga úr niðurgreiðslum og einnig fyrir stórfelldum, nýjum skattaálögum eftir áramótin. Ef hæstv. ríkisstj. leggur út í annað af þessu eða hvort tveggja, þá er hún beinlínis að ýta undir dýrtíðarþróunina í landinu og er þá að byrja á einni umferðinni enn. Hefði hún þó átt að vera búin að læra af þeirri reynslu, sem orðin er, því að nú hefði hæstv. ríkisstj. sannarlega átt að leggja sig fram um það, ef kjarasamningar nást, sem maður vonar að verði, — þá hefði hún sannarlega átt að leggja sig fram um að gera allt, sem í hennar valdi stendur, til að draga úr dýrtíðarflóðinu. En ef hún ætlar að beita sér fyrir nýjum álögum eða nýjum neyzlusköttum í formi þess að minnka niðurgreiðslur, þá er hún ráðin í því að halda óbreyttri þeirri stefnu, sem hún raunar hefur haft frá upphafi, sem sé að gera sífellt nýjar og nýjar ráðstafanir til að hækka verðlagið í landinu, en reyna að halda kaupgjaldi og afurðaverði til bænda niðri og ná þannig, eins og hún kallar, jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Frá fyrstu tíð hefur þetta verið aðalstefna ríkisstj. Ég á erfitt með að trúa því, að hún hafi ekkert lært af því, sem skeð hefur undanfarið, og hún ætli sér að byrja þannig á nýrri umferð. En allt það, sem hefur komið fram, bæði meðferð hæstv. ríkisstj. núna í sambandi við fjárl. á niðurgreiðslumálinu og eins það, sem kom fram um fyrirætlanir í sambandi við nýja skatta, þegar till. ríkisstj. til lausnar kjaradeilunni komu fram, allt þetta bendir alveg eindregið í þá átt, að ríkisstj. hafi í þessu tilliti ekkert lært.

Ég vil enn leyfa mér að vara ríkisstj. við afleiðingum þess, ef nú verður einu sinni farið af stað. Og í því sambandi vil ég benda á, að ríkistekjurnar fóru 300 millj. kr. fram úr áætlun 1962 og varð verulegur greiðsluafgangur hjá ríkissjóði. Á því ári, sem nú er að líða, fara ríkistekjurnar áreiðanlega ekki minna en 300–400 millj. fram úr áætlun, og með þeim hækkunum, sem nú eru að verða á kaupgjaldi og þá náttúrlega afurðaverði og ýmsu fleiru í landinu, er það alveg augljóst, að ríkistekjurnar eiga enn eftir að vaxa stórkostlega og verða miklu hærri á næsta ári en þær eru á þessu ári og áreiðanlega miklu hærri en hæstv. ríkisstj. og stjórnarmeirihl. gerir ráð fyrir í sínum till. í fjárl.

Ef nú á að fara að leggja á nýja tolla, eru þeir ekki lagðir á vegna þess, að nauðsyn sé að afla ríkissjóði meiri tekna, heldur beinlínis til þess, eins og ríkisstj. hefur svo oft talað um, beinlínis til þess að leita jafnvægis í þjóðarbúskapnum með því að magna dýrtíðina að óbreyttu kaupgjaldi og óbreyttu afurðaverði og fá greiðsluafgang í ríkissjóð til þess að leggja til jafnaðar inn í efnahagskerfíð. En ég sem sagt endurtek það enn, að ég vara hæstv. ríkisstj. við því að fara enn út á þessa braut, því að þetta hlýtur að leiða til áframhaldandi dýrtíðarflóðs, eins og það hefur gert á undanförnum árum. Það væri sannarlega ástæða fyrir hæstv. ríkisstj. að hugsa sig nú um og eiga nú ekki upptökin að nýrri umferð í þessu efni með þvílíkum ráðstöfunum. En einmitt þessar aðfarir allar nú við þessa síðustu umr. fjárl. benda eindregið í sömu átt og till. í sambandi við kjaramálin og um skattana. Niðurgreiðslurnar eru ekki settar inn á fjárl. að fullu, því að svo á að leika þann leik væntanlega eftir áramótin að segja: Það vantar peninga til þess að halda niðurgreiðslunum uppi, það þarf að leggja á nýja skatta. — Það vantar líka peninga til þess að gera ýmsar ráðstafanir vegna atvinnuveganna, eins og hæstv. fjmrh. var strax áðan að reyna að láta skína í.

Þetta var sagt og verður sagt, en við vitum, að það eru 300–400 millj., kr. umframtekjur á þessu ári, 300 millj. kr. umframtekjur í fyrra. Okkur er einnig öllum ljóst, að tekjurnar fara stórkostlega fram úr áætlun, eins og þessi mál horfa núna, svo framarlega sem ekki verða einhver sérstök óhöpp í atvinnurekstri á næsta ári, sem engin ástæða er til þess að gera ráð fyrir.

Þá vil ég minnast á, að mér finnst það vera einkennilegt, að fjárl. skuli ekki vera færð til samræmis við þau lög, sem búið er að samþykkja á Alþingi. Það er búið að samþykkja hér ný vegalög á Alþingi, og það er núna tekjumegin í fjárlfrv. gert ráð fyrir tekjum, sem ríkissjóður á alls ekki að njóta, þær eiga að renna til vegamálanna sérstaklega, og það er á útgjaldahlið frv. gert ráð fyrir útgjöldum til vegamálanna, sem ekki eru í neinu samræmi við gildandi lög og þar af leiðandi koma ekki til greina. En þetta fæst ekki lagfært vegna einhverrar undarlegrar þvermóðsku hæstv. fjmrh. Það er ekki hægt að fá því einu sinni framgengt, að því er virðist, að fjárl. séu færð til samræmis við þá löggjöf, sem búið er að samþykkja, þó að slíkt sé hægt að framkvæma á 10–15 mínútum. Það tekur ekki nema 10–15 mínútur að útbúa þær brtt., sem þarf til þess að koma þessu í horfið. En ég vil taka það fram, að ég vil mega treysta þeim yfirlýsingum, sem fram hafa komið frá hæstv. samgmrh. í þessu sambandi, komu fram í Ed., en við hann höfðum við samið um afgreiðslu vegamálsins, og þar sagði hann afdráttarlaust, að á næsta ári yrði varið til vegamála öllum tekjum samkv. vegalagafrv. og 47 millj. 100 þús. kr. að auki. Þetta var yfirlýsing hæstv. samgmrh. í Ed., og ég vil mega treysta því, að við hana verði staðið, og dreg það raunar ekki í efa. En hvað sem því líður, finnst mér fáránlegt að breyta ekki fjárl. til samræmis við vegalögin, jafnvel þó að það liggi fyrir í yfirlýsingu, að hæstv. ríkisstj. ætli að framkvæma þessi mál eins og samið hefur verið um.

Þá vildi ég minnast hér á eitt atriði, sem kom fram hjá hæstv. fjmrh., þó að ég ætli ekki að fara að svara honum frá orði til orðs, en þetta snertir stefnumun í þessum málum og er um till., sem hv. 1. minni hl. fjvn. flytur af hendi Framsfl. varðandi ráðstöfun á greiðsluafgangi. Hér er um algeran stefnumun að ræða, sem ástæða er til að setja feitt strik undir. Við leggjum til, að nokkru af greiðsluafgangi ríkissjóðs verði varið til að styðja ýmis mjög nauðsynleg mál, en hæstv. fjmrh. segist vera algerlega á móti þessu og stjórnarflokkarnir, vegna þess að það skapi ofþenslu að verja þessu fé í þessi mál, sem við stingum upp á.

Hér fæst býsna glögg mynd af mismunandi viðhorfum. Hver eru nú þessi mál, sem við leggjum til að greiðsluafganginum verði varið til að styðja? Það eru íbúðabyggingar, 60 millj. Það veldur ofþenslu að áliti hæstv. fjmrh. að verja 60 millj. meira en búið er að ákveða til íbúðabygginga. Það eru til veðdeildar Búnaðarbanka Íslands 30 millj. kr., sem á að vera til þess að greiða fyrir eigendaskiptum á jörðum og til að lána í margs konar öðrum tilgangi bændum landsins til vélakaupa og margra annarra ráðstafana og bústofnskaupa. En það veldur ofþenslu að dómi hæstv. fjmrh. og meiri hl. að ætla 30 millj. kr. meira í þessu skyni en áður hefur verið fyrirhugað. Sama er að segja um að verja 15 millj. kr. til iðnlánasjóðs umfram það, sem áður hefur verið ákveðið. Það veldur líka ofþenslu að dómi meiri hl. Enn fremur að greiða upp í hluta ríkissjóðs af hafnargerðarkostnaði og sjúkrahúsakostnaði, 30 millj. upp í hið fyrra og 15 millj. upp í hið síðara. Þetta veldur ofþenslu að dómi hæstv. ráðh. og meiri hl.

M.ö.o.: þessar framkvæmdir mega bíða, og það er ekki rétt að veita meira fé til þeirra. Það er miklu réttara að þeirra dómi að leggja greiðsluafganginn, hundruð milljóna, inn í bankakerfið og leggja þær þar fastar. Til hvers? Til þess að vega á móti framkvæmdum annarra en ríkisins, til þess að einkaframkvæmdirnar í landinu geti haldið áfram óhindrað eins og hverjum sýnist. Það á að leggja hundruð millj. af því, sem tekið er í sköttum af almenningi og tollum, inn í bankakerfið, til þess að villubyggingarnar geti haldið áfram, til þess að hægt sé að halda áfram að byggja verzlunarhúsin af fullum krafti og allar slíkar framkvæmdir. Það verður að leggja þetta fé til mótvægis inn í bankakerfið, taka það af mönnum með neyzlusköttum og tollum, hundruð millj. ofan á hundruð millj., og leggja það inn í kerfið, til þess að einkaframkvæmdirnar geti haldið áfram. Þetta er skilningur hæstv, fjmrh. á því, hvernig eigi að leysa þann vanda, sem við stöndum frammi fyrir.

En við segjum: Það á að taka það fé, sem lagt er á landsmenn, og nota það í þessi nauðsynlegustu verkefni, en fyrirbyggja ofþenslu með því að taka stjórn á fjárfestingunni og draga úr og láta þær framkvæmdir bíða, sem minnsta þjóðhagslega þýðingu hafa. Við erum algerlega á móti því, — og það skiptir alveg vötnum í þessu tilliti, — við erum algerlega á móti því að raka saman fé með neyzlutollum og hvers konar álögum á almenning og moka því inn í Seðlabankann og láta það liggja þar í því skyni að vega á móti ofþenslunni, eða m.ö.o.: til þess að þeir, sem hafa nægilegt fjármagn á milli handa, geti óhindrað haldið áfram með allar þær framkvæmdir, sem þeir vilja koma áleiðis. Og það var gott, að hæstv. ráðh. ræddi nokkuð einmitt um þessa till., vegna þess að hún mótar alveg stefnu í þessu.

Ég vil biðja hæstv. ríkisstj. að athuga, hvar þetta hlýtur að enda, ef nú á enn að hefja nýjan þátt í þessum leik með því að leggja á nýja skatta, t.d. í formi söluskatts eða á annan hátt, og draga saman þannig fé í greiðsluafgang handa ríkissjóði, til þess að allar aðrar framkvæmdir geti átt sér stað, magna þannig dýrtíðina á nýjan leik og ýta undir nýja flóðbylgju, eins og það sé ekki nóg, sem þegar er komið.

Eins og ég sagði áðan, ætla ég ekki að fara langt út í að ræða hina löngu ræðu hæstv. fjmrh., sem hann flutti hér áðan sér til afsökunar og fjármálastefnunni, en ég get ekki stillt mig um að minnast á aðeins örfá atriði með fáeinum setningum. Hann sagði t.d., að samanburður okkar um hækkanir á fjárl. væri ekki réttur, þau hefðu ekki hækkað um 1900 millj. eða nálega það, eins og við héldum fram, heldur um 1600 millj. síðan 1958. Það ber þarna 300 millj. á milli, sem liggur í því, að því er virðist, að hæstv. ráðh. ber saman á annan bóginn reikninginn 1958 og á hinn bóginn fjárlögin fyrir 1964, sem ekki má gera, vegna þess að allir vita, að ævinlega fer reikningur eitthvað fram úr fjárl. og sá samanburður er því ekki réttmætur.

Á hinn bóginn er líka þess að gæta, að okkar tölur eru alveg sambærilegar, því að við tökum til greina niðurgreiðslur 1958 og bætum þeim með eðlilegum hætti við, þannig að okkar tölur verða algerlega sambærilegar. En hvað sem því líður, hvort hækkunin er raunverulega 1600 millj. eða 1400 millj. eða einhvers staðar þar á milli, þá blasir það auðvitað fyrir allra augum, að fjárl. hafa á þessum örfáu árum þrefaldazt eða svo, ríkisútgjöldin hafa þrefaldazt á þessum stutta tíma, og það er verðbólgu- og dýrtíðarstefna ríkisstj., sem er undirrótin að þessu. En það skoplega við þetta var, að hæstv. ráðh, afsakaði einmitt þessar gífurlegu hækkanir á fjárl. með því, að þær væru vegna dýrtíðarinnar. En hvers vegna hefur dýrtíðin vaxið? Auðvitað vegna stjórnarstefnunnar, vegna þess, hvernig haldið hefur verið á þessum málum, vegna þess að stefnan hefur ævinlega verið fólgin í því að reyna að leita jafnvægis með því að hækka verðlagið í landinu með sérstökum ráðstöfunum, en halda óbreyttu kaupinu og afurðaverðinu til bænda. Það er stefnan. Og við skulum segja t.d., að það verði nú samið um nýtt kaupgjald, þá lítur út fyrir, að það eigi enn að byrja á nýjan leik, það eigi strax að koma ráðstafanir eftir áramótin til að leggja á nýja skatta, sem hækka verðlagið eða minnka niðurgreiðslu til þess að ná þannig af mönnum peningum aftur með hærra verðlagi í þeirri von, að kaupgjald og afurðaverð standi svo óbreytt. Af þessari stefnu hefur leitt hverja dýrtíðarbylgjuna af annarri. Og niðurstaðan er þessi ofboðslega hækkun á fjárlögunum eins og öllu öðru í landinu.

Síðan fór hæstv. fjmrh. að rekja, að ýmsir gagnlegir liðir í fjárl. hefðu hækkað og síðan spurði hann t.d.: Er of mikið í skóla? Nei, það er sannarlega ekki of mikið í skóla, því þó að skólakostnaður hafi hækkað jafngífurlega og hæstv. ráðh. færði fram dæmi um, þá er ástandið í skólamálunum verra nú en nokkru sinni fyrr. Það er meiri skortur á skólum í landinu en nokkru sinni áður þrátt fyrir þessar hækkuðu tölur til skólabygginga. Og þetta sýnir bezt, í hvert öngþveiti þessum málum hefur verið stefnt. Er of mikið til samgöngumála, sagði hæstv. ráðh., of mikið til vega? Nei, sannarlega hefur það ekki verið, því að vegakerfið hefur algerlega brostið. Um það voru allir sammála, bæði stjórnarstuðningsmenn og stjórnarandstæðingar, að vegakerfið væri algerlega brostið, væri að falla saman, vegna stóraukinnar umferðar og gífurlegrar dýrtíðar við vegaframkvæmdirnar, og það kveður svo rammt að þessu, að allir, bæði stjórnarstuðningsmenn og stjórnarandstæðingar, voru sammála um að leggja á 100 millj. í nýjum sköttum til að fá meira fé í vegina, því að ríkisstj. sagðist ekki geta látið einni krónu meira í vegina af þessum 2700 millj., yrði að fá nýja skatta til þess. Og þá vildu menn heldur styðja nýju skattana en fá ekki meira fé í vegina, miðað við það ástand, sem orðið var í þeim efnum.

Síðan nefndi hæstv. ráðh., hversu gífurlega hefðu hækkað framlög til trygginganna. Hvers vegna hafa hækkað framlög til trygginganna? Það eru fjármunir, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram, til þess að reyna að bæta mönnum ofur lítið af þeim gífurlegu búsifjum, sem á menn hafa verið lagðar með nýjum sköttum og ráðstöfunum til þess að auka dýrtíðina, og þó munu allir sammála um, að menn munu verr settir en áður, þótt þeir hafi fengið þessa gífurlegu hækkun, sem hæstv. ráðh. benti á í sambandi við tryggingamálin. Og það sýnir enn, hvernig þessi stefna hefur reynzt í framkvæmdinni. Þó að fjárveitingarnar hafi hækkað svona geysilega í krónutölu, er ástandið í nær öllum málaflokkum lakara en áður, verr séð fyrir þjónustunni en áður.

Hæstv. ráðh. sagði, að framsóknarmenn hefðu haldið því fram, að allir liðir fjárl. ættu alltaf að hækka jafnt. Hvenær hefur því verið haldið fram? Auðvitað aldrei. Þetta er vindmylla, sem hæstv. ráðh. býr sér til, eins og frægur riddari í frægri sögu, til þess að slást við. En framsóknarmenn hafa haldið öðru fram. Þeir hafa haldið fram, að það væri eðlilegt, að framlög til verklegra framkvæmda ykjust hlutfallslega við auknar ríkistekjur. Það er þetta, sem framsóknarmenn hafa haldið fram, en ekki það, að allir liðir fjárlaganna ættu ævinlega að hækka jafnt. En það er skoðun ráðherrans, að það sé ekki eðlileg stefna, að verklegar framkvæmdir fái jafnmikið hlutfallslega af ríkisrekstrinum og áður.

Ég skal ekki fara að ræða hér um hagsýslu hæstv. ráðh., en ég vil þó benda á, að hæstv. ráðh, fór af stað með miklu yfirlæti í þeim málum og lýsti því yfir, að mikið ætti að gera. En nú hefur hann aftur á móti uppgötvað, að hagsýslan fari hægt og sígandi. Það hefur náttúrlega talsvert áunnizt á þessum 4 árum, að hæstv. ráðh. hefur komizt að þessari niðurstöðu. Ég skal ekki fara út í einstök atriði, en ég vil benda t.d. á, að hann sagði, að það hefði verið gerð ákaflega merkileg skýrsla um vélakost vegagerðarinnar, og menn hefðu komizt að þeirri niðurstöðu, að hann væri orðinn ákaflega gamall, vélakostur vegagerðarinnar. Það hafði á hinn bóginn kostað mikla vinnu að komast eftir þessu og gera þessa skýrslu. Manni skilst, að það hafi tekið hæstv. ráðh. og hans félaga 4 ár að komast að þeirri niðurstöðu, að vélakostur vegagerðarinnar væri úr sér genginn og vélarnar óeðlilega gamlar. En þá kemur upp sú spurning: Hvernig stendur á því, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki hafa gert stórátak í því að endurnýja þennan vélakost með öllu því feikilega penir.gaflóði, sem ríkisstj. hefur haft yfir að ráða? Ef hæstv. ríkisstj. hefði gert stór átök í því að endurnýja vélakostinn, væru vélarnar ekki svona gamlar, þá væru vélarnar nýjar, a.m.k. mikið af þeim. En nú eru þær svona ákaflega gamlar. Og það er náttúrlega dálítið broslegt að heyra lýsingarnar á því, að það hafi kostað þessa gífurlegu vinnu að komast eftir aldri vegavinnuvélanna, eða hitt, að það skuli hafa fengizt sú merkilega niðurstaða, að það sé ódýrara að reka nýjan bíl en gamlan, sem hæstv. ráðh. tilkynnti líka sem eina aðalniðurstöðu hagsýslunnar. Og fleira mætti nefna í því sambandi.

Auðvitað er ætíð verið að reyna að finna heppilegri leiðir í þessum málum. Það er auðvitað nokkuð misjafnlega hart að því gengið, en ég held, að þegar upp verður gert, muni það koma í ljós, að það hafi sízt meira verið unnið í ráðdeildarátt nú um sinn en áður hafi verið gert, þó að minna væri af því gumað og um það skrumað.

Ég skal svo víkja fáeinum orðum að þeim brtt., sem við eigum hér fjórir þm. af Austfjörðum.

Það eru fyrst nokkrar till. um hafnargerðir. Við leggjum til, að framlagið til hafnargerðar á Breiðdalsvík verði hækkað úr 50 þús. í 250 þús. Það þarf að fara að byrja á nýjum áfanga í sambandi við höfnina á Breiðdalsvík, og vitanlega er ekki hægt að byrja á slíku með svona lítilli fjárveitingu, og leggjum við þess vegna til, að þetta verði hækkað í 250 þús. Við leggjum til, að framlag til Borgarfjarðar eystri, hafnargerðar þar, verði hækkað úr 225 þús. í 325 þús. Þar þarf að taka fyrir lengingu á hafnargarðinum, sem jafnframt er bryggja, og er lífsnauðsyn, að ekki verði minni fjárhæð veitt en við förum þarna fram á. Þá leggjum við til, að til Búðareyrarhafnar við Reyðarfjörð verði veittar 700 þús. Í staðinn fyrir 450 þús. Þar er vangoldið framlag til ríkissjóðs 1 millj. 462 þús., og leggjum við til, að tæplega helmingurinn af því fáist á næsta ári. Þá leggjum við til, að til Eskifjarðarhafnar verði veittar 700 þús. í stað 600 þús., og teljum við, að þar sé um svo stóra framkvæmd að ræða, að hún eigi að vera í flokki þeirra hafna, sem mest fá, en framkvæmdin er áætluð 6 millj. kr. Þá leggjum við til, að til hafnarframkvæmda í Höfn í Hornafirði verði veittar 400 þús., og er það að vísu nokkuð hátt í það, sem þarf til að greiða ríkisframlagið í áfangann, sem á að vinna á næsta ári, enda teljum við nauðsynlegt, að þetta verði allt veitt á næsta ári, vegna þess að jafnskjótt og þeim áfanga er lokið, verður að byrja á öðrum nýjum, og má því ekki safnast þarna skuld. Þá leggjum við til, að til Neskaupstaðar verði veittar 700 þús. í stað 500 þús., og þar er vangoldið framlag ríkissjóðs 1 millj. 210 þús. kr. Þar er verið að vinna að mjög merkum áfanga í hafnargerðinni á staðnum, en þegar honum er lokið, þarf tafarlaust að byrja á enn nýjum framkvæmdum, þannig að nauðsynlegt er, að ekki safnist þarna skuld. Þá leggjum við til, að til Stöðvarfjarðar verði veittar 500 þús. í stað 300 þús. Þar er gert ráð fyrir framkvæmd, sem kostar 2½ millj., og mundi féð til hennar koma á 2 árum, ef þessi till. væri samþykkt, enda má ekki lengri tími fara í þá framkvæmd en 2 ár. Þá er till. um að leggja til Vopnafjarðarhafna 700 þús. í stað 500 þús. Sá áfangi, sem á að fara að byrja á þar, kostar 4 millj., en það er aðeins mjög lítið af því, sem raunverulega þarf að aðhafast í höfninni, ef vel er, og þess vegna leggjum við til, að fjárveiting þar fari upp í það, sem hæst er veitt til annarra hafna, eða 700 þús. kr. Á Vopnafirði þurfa að vera stórframkvæmdir á næstu árum vegna sívaxandi skipaferða þar í sambandi við síldveiðarnar.

Þá eigum við till. við 22. gr. um að heimila að taka lán allt að 10 millj. kr. til vegaframkvæmda á Austurlandi. Það hafa verið tekin lán nú þegar til vegaframkvæmda í landinu, sem nema tugum millj. Ég hygg, að það séu samtals upp undir 80 millj., sem ákveðið hefur verið að taka að láni til vegaframkvæmda, en af því hefur ekkert runnið til Austurlands. Það er hróplegt ranglæti, þegar aðgætt er, hvernig ástatt er um vegamál þar samanborið við annars staðar, — hróplegt ranglæti. Við viljum vonast til þess, að hv. alþm. samþykki þessa till. um að heimila 10 millj. kr. lántöku og hæstv. ríkisstjórn láti þá verða af lántökunni, ef heimildin fæst. Það mundi ekki hrökkva langt til þess að jafna metin á lánamálunum, ef réttlæti ætti að ske. Ef réttlæti ætti að ske, ætti Austurland að fá lánsfé til vegaframkvæmda, sem næmi 20–30 millj. kr., en við förum þarna aðeins fram á 10, það er eins konar prófmál af okkar hendi til að vita, hvort menn vilja sýna í þessu sanngirni eða ekki. Við höfum ekki tekið fyrir ákveðna framkvæmd, en það er af nógu að taka, sem þarf að framkvæma þar.

Ég vil nefna t.d. eina framkvæmd í því sambandi. Það eru jarðgöng í Oddsskarði. Það er lífsnauðsyn að setja jarðgöng gegnum efstu bríkina í Oddsskarðinu. Það mundu þurfa að vera nokkur hundruð metra löng göng, og er ekkert ofboðslega dýrt að koma slíku í framkvæmd. En á hinn bóginn mundi þetta gerbreyta aðstöðunni þarna, vegna þess að efstu kinnarnar báðum megin, sem þá væri hægt að forðast, eru snjóþyngstar. Og þetta er ein af þeim framkvæmdum, sem við mundum nefna fyrst, og sennilega sú, sem við mundum nefna fyrst, þegar um lánsféð væri að ræða, sem kæmi umfram venjulegt vegafé, þó að þess sé ekki getið í till. Auk þess eru náttúrlega fjöldamargir aðrir vegir, sem við þurfum að fá peninga í umfram það, sem veitt er á fjárl.

Það er hérna ein till. frá einum þm. Austf., Jónasi Péturssyni, um lánsheimild til brúar á Hofsá í Vopnafirði, sem við styðjum mjög eindregið, en af einhverjum undarlegum ástæðum hefur honum ekki sýnzt að gefa okkur kost á að flytja hana með sér. Ekki vitum við, af hverju það er, en annars eru sæmileg samráð um ýmisleg slík mál hjá okkur. En við viljum eindregið styðja þessa till. og óska þess, að hún verði samþykkt.

Það væri talsvert þýðingarmikið að fá einmitt þessa till. samþykkta, því að ef það næði fram að ganga að byggja einmitt þessa brú fyrir lánsfé, sem ég er mjög fylgjandi, þá greiðir það fyrir því, að aðrar brýr geti komizt að eða fengið sæti á vegáætluninni væntanlegu, svo að við erum mjög áhugasamir um þetta, þó að við höfum ekki fengið að vera með í flutningi till. Ég vil því eindregið mæla með henni.