15.04.1964
Sameinað þing: 63. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í D-deild Alþingistíðinda. (2756)

179. mál, utanríkisstefna íslenska lýðveldisins

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Á föstudagskvöldið í vikunni sem leið var útvarpað umr. hér á Alþingi. Ákveðið var, að hver þingflokkur skyldi hafa 45 mínútna ræðutíma, en allir flokkarnir notuðu lengri tíma. Hjá einum flokki var ræðutími 47 mínútur, hjá öðrum 48 og þeim þriðja 49 mínútur. En fjórði flokkurinn fór verulega fram úr þessum tíma. Ræðumenn hans töluðu samtals í 54 mínútur. Það hefur oft komið fyrir áður, að ræðumenn í útvarpsumr. hafa notað lengri ræðutíma en leyfilegt er, og fer þá jafnan svo, að tíminn verður ójafn hjá flokkunum. Þetta er mjög aðfinnsluvert, því að með þessu háttalagi hafa menn rangt við. Ég geri þetta að umtalsefni utan dagskrár, til þess að koma á framfæri þeirri áskorun til hæstv. forseta Alþingis, að þeir komi fram siðabót í þessu efni. Trúlegt þætti mér, að forsetar gætu gert þetta í samvinnu við formenn þingflokkanna. Annars verða forsetar hiklaust að beita valdi sínu til að kveða þennan ósið niður. Ég vil skora á forsetana að gera þær ráðstafanir, sem að gagni koma, til Þess að framvegis noti enginn þingflokkur lengri ræðutíma í útvarpsumr. á þinginu en fyrir fram ákveðið og leyfilegt er.