27.02.1964
Efri deild: 53. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í D-deild Alþingistíðinda. (2770)

40. mál, rannsóknarnefnd til rannsóknar á verðbréfa- og víxlakaupum

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil nú byrja á því að þakka minni hl. hv. n. fyrir það að taka jákvætt í þetta mál og leggja til, að sú till. um rannsóknarnefnd, sem hér er til umr., verði samþykkt. Hins vegar hlýt ég að harma það, hver afstaða meiri hl. n. hefur orðið til þessa máls. Mig undrar það, að hann skuli ætla sér að eyða þessu máli með ástæðum, sem ég get ekki betur séð en séu algerar tylliástæður. Meiri hl. leggur til, að till. verði vísað frá með rökstuddri dagskrá, en rökin, sem fyrir henni eru fram flutt og hv. frsm. lagði nú mikið upp úr og flutti hér um langt mál, virðist mér að séu harla léttvæg, eins og ég ætla að koma dálítið betur að síðar.

Ástæðan til þess, að þessi till. um skipun rannsóknarnefndar í sambandi við tiltekin viðskipti, þ.e.a.s. verðbréfa- og víxlaviðskipti, var flutt, er alkunn, þ.e. í fyrsta lagi sú mikla lausung, sem nú er orðin í íslenzku fjármála- og viðskiptalífi og virðist koma fram í ýmsum myndum. Í sambandi við flutning till. voru nefnd tiltekin dæmi, þar sem miklar umr. höfðu orðið þá nýlega um ýmis meint misferli í sambandi við víxla- og verðbréfakaup. Önnur dæmi voru um svipaða hluti eða ýmist, að umr. höfðu orðið um það í blöðum, að slíkir hlutir hefðu gerzt, eða jafnvel slík mál voru komin til dómstólanna. Það var sagt og hefur verið dregið mjög í efa opinberlega, að réttum eða a.m.k. eðlilegum viðskiptareglum hefði ætíð verið fylgt í sambandi við kaup og sölu á þessum verðbréfum og víxlum. Einstakir aðilar lágu og liggja enn undir grun eða aðdróttunum um óeðlilega viðskiptahætti í þessum efnum. Okkur þótti því full ástæða til þess, að Alþingi gerði sitt til að fá úr því skorið, hvort þessar ásakanir væru réttmætar eða ekki, svo að sekt manna eða sýkna gæti komið í ljós. En jafnframt vakti það fyrir okkur, að í sambandi við slíka allsherjarrannsókn kynni það að koma í ljós, að af löggjafans hálfu væri ekki nægilega vel og tryggilega um hnútana búið í ýmsum efnum i sambandi við víxla- og verðbréfaviðskipti í landinu. Það vakti fyrir okkur, að slík rannsókn sem þessi kynni að leiða í ljós, að þarna þyrfti löggjafinn að bæta úr með nýrri eða endurbættri löggjöf um þessi efni.

Í þeirri umsögn, sem komið hefur frá Seðlabankanum um þessa þáltill. um rannsóknarnefnd, kemur það fram, að Seðlabankinn er þeirrar skoðunar, að hér skorti skýr lagaákvæði, a.m.k. um tiltekin atriði varðandi verðbréfasölu í landinu. Það er að vísu talað um það í þessu áliti, að enn sé naumast tímabært að setja slík lagaákvæði, vegna þess að bankinn hefur ekki enn notað þá heimild, sem hann hefur til þess að koma hér upp opnum verðbréfamarkaði. Þetta er sjálfsagt eitt af þeim atriðum, sem ég tel að kæmu skýrar fram í sambandi við þá rannsókn, sem hér er lagt til að framkvæmd verði, hvort álit Seðlabankans, að löggjöf skorti um þetta efni, en tæplega sé tímabært að setja hana enn, þ.e. hvort það stenzt eða hvort löggjöfin eigi að koma sem fyrst.

Meiri hl. n. leggur hins vegar til, að þetta sé ekki rannsakað, till. sé vísað frá og engin rannsókn fari fram, hvorki um það atriði, hvort þurfi frekari löggjöf í þessu efni, eða hvort misferli hafi átt sér stað. Og aðalröksemdin hjá meiri hl. er sú, að bankaráð bankanna, sem séu þingkjörin, ættu að vera næg trygging í þessum efnum, það séu þau, sem geti í rauninni komið í stað og hljóti að koma í stað þeirrar rannsóknarnefndar, sem till. fjallar um. Hv. frsm. meiri hl. n. lagði einmitt í sinni ræðu megináherzlu á þetta, að bankaráðin hefðu því hlutverki að gegna í rauninni, sem rannsóknarnefndinni væri ætlað, og hann las ýmislegt upp úr lögum bankanna þessu til staðfestingar. Og sá lestur og röksemdafærsla hans átti að sanna það, að þar sem bankaráð séu starfandi og kosin af Alþingi, sé þessi till. um rannsóknarnefnd óþörf. Ég held, að þarna sé um hinn mesta misskilning að ræða. Það er að sjálfsögðu allt önnur aðstaða hjá þingkjörinni nefnd, nefnd, sem fær alveg sérstakt rannsóknarefni samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar, heldur en hjá bankaráðunum hverju um sig, til þess að rannsaka í heild slík mál sem þetta niður í kjölinn.

Hv. frsm. meiri hl. lagði á það töluverða áherzlu, að þessi till. sé í rauninni hið mesta vantraust á bankaráðin. Mér þykir þetta nú í sjálfu sér nokkuð langsótt fullyrðing, og mér fannst hv. frsm. ekki færa veigamikil rök fyrir þeirri staðhæfingu sinni. Ég vil kveða fastar að orði um þetta. Mér fannst, að þær tilraunir til röksemda, sem hann bar fram í þessu sambandi, væru í rauninni alveg út í hött, því að það er vitað, að bankaráð bankanna starfa hvert á sínum afmarkaða vettvangi. Hér er hins vegar lagt til, að framkvæmd verði af þingkjörinni nefnd heildarrannsókn á þessum málum. Það er lagt til, að þingkjörin nefnd fái sérstakt rannsóknarvald samkv. tiltekinni grein stjórnarskrárinnar og geti fjallað um þessi mál í heild með því valdi, sem þar er tiltekið. Það vald tekur m.a. til þess, að slík þingkjörin rannsóknarnefnd getur kallað menn fyrir sig, jafnt embættismenn sem einstaklinga, og krafizt þess, að þeir standi fyrir sínu máli og gefi skýrslur um þau efni, sem um er spurt og verið er að rannsaka. Bankaráð bankanna hafa hins vegar ekkert slíkt vald, a.m.k. ekki vald, sem í hverju tilfelli nær þá neitt út fyrir þá stofnun, sem bankaráðin hvert og eitt tilheyra. Og bankaráðin hafa ekki heldur aðstöðu til að undirbúa löggjöf, ef á þyrfti að halda í sambandi við þessi mál, eins og er einn megintilgangur þeirrar till., sem hér er nú til umr.

Með tilvísun til þessa vil ég algerlega vísa því á bug, að till. sé borin fram sem nokkurt sérstakt vantraust á bankaráð bankanna í heild eða hvert fyrir sig.

Ef ég man rétt, eru nú liðnir rúmir þrír mánuðir, síðan við tveir þm. þessarar hv. d. lögðum fram till. okkar um skipun rannsóknarnefndar vegna víxlakaupa og verðbréfakaupa. Okkur þótti þá, eins og fram hefur komið, veruleg ástæða til þess, að slík rannsókn færi fram, og ég verð að segja, að á þeim þremur mánuðum eða svo, sem síðan eru liðnir, hefur eitt og annað gerzt í íslenzku fjármálalífi, sem gerir það að verkum, að það er ekki síður þörf nú að taka þessi mál öll eins föstum tökum og nokkur kostur er. Ástæðan er sízt minni nú en þegar þessi till. var flutt fyrir 3 mánuðum eða rúmlega það. Það má segja, að undanfarna mánuði hafi hvert málið viðskiptalegs eðlis af öðru skotið upp kollinum, þar sem bankar hafa að meira eða minna leyti átt hlut að, að því leyti til, að þeir virðast hafa reynzt furðu hjálpsamir við ýmsa miður heppilega fjármálamenn. Ég held, að það sé ekki í þessu sambandi ástæða til að nefna nein tiltekin dæmi, þau eru hv. alþm. meira og minna kunn, m.a. af blaðaskrifum og af rannsóknum, sem þegar eru hafnar í sumum þessara mála, þó engan veginn, að því er ég hygg, öllum.

Ég get ekki stillt mig um í sambandi við þessar umr. að vitna í mjög ákveðin og skorinorð ummæli, sem nýlega féllu í ríkisútvarpinu. Sá, sem þau ummæli viðhafði, var einn af bankastjórum Landsbankans, Pétur Benediktsson. Þessi bankastjóri Landsbankans sagði þar, eftir að hafa rakið tiltekið fjársvikamál, sem hefur verið ofarlega á baugi, með leyfi hæstv. forseta:

„En nú getur varla verið blöðum um það að fletta, að fram undan séu jafnvel allmörg mál ekki ósvipaðs eðlis á næstu missirum.“ Og enn sagði bankastjórinn: „Þótt margt ljótt hafi orðið uppvíst nú að undanförnu, fer því víðs fjarri, að öll kurl séu komin til grafar. Það er örugglega víst, að hér eru farin að myndast bófafélög, sem stunda margar tegundir glæpa og þar sem hver glæpamaður styður annan með ráðum og dáð.

Ég held, að enginn hafi verið eins þungorður um það ástand í íslenzku fjármála- og viðskiptalífi, sem hér virðist vera að skapast, eins og þessi bankastjóri stærsta ríkisbankans. Því miður virðast of margar stoðir renna undir það, að þessi hörðu orð séu a.m.k. ekki alveg úr lausu lofti gripin. En þegar svo er ástatt, þegar jafnvel fjármála- og viðskiptasiðferði þjóðarinnar kann að vera í veði, er full ástæða til þess fyrir Alþingi að gera allt, bókstaflega allt, sem í þess valdi stendur, til þess að stemma þar stigu við, til þess að reyna að hamla á móti og ef unnt væri að uppræta meinsemdina.

Þessi rannsóknartill., sem hér er nú til umr. varðandi verðbréfa- og víxlaviðskipti í landinu almennt, er því í hæsta máta tímabær. Ég vil segja, að eins og ástandið er í okkar viðskiptasiðferði, er það ekkí mikil ábyrgðartilfinning, sem í því felst að ætla að vísa henni frá. Ástandið í viðskiptalífi okkar er víssulega þannig, að einskis má láta ófreistað til þess að reyna að kippa því í liðinn, sem aflaga fer. Þessi till. er viðleitni í þá átt. Það mæla því öll rök með því, að hv. d. samþykki till. Á þann hátt leggur d. svo ríka áherzlu á það sem verða má, að á þeim sviðum viðskiptalífsins, sem till. fjallar um, sé þörf rannsóknar og að líkindum bættrar og hertrar löggjafar.