06.02.1964
Sameinað þing: 39. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í D-deild Alþingistíðinda. (2783)

49. mál, æskulýðsmálaráðstefna

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Það kom fram í ræðu hæstv. menntmrh., að hann hefur góðan skilning á þeim vandamálum, sem hér eru gerð að umræðuefni í sambandi við þessa till., eins og vænta mátti. En hann virðist ekki líta svo á, að þörf sé á eða ástæða til, að Alþingi geri ályktun í þessu máli á annan veg en þann að vísa till., sem hér liggur fyrir, til ríkisstj., og skírskotar til þess, að hann sem ráðh. hafi skipað nefnd manna til að undirbúa löggjöf um æskulýðsmál. Ég vil nú taka fram og leggja á það áherzlu, að mér virðist, að þetta tvennt geti vel farið saman og þurfi alls ekki að rekast á, sú till., sem hér er til umræðu, þótt samþykkt yrði, og sú nefndarskipun, sem hæstv. ráðh. hefur beitt sér fyrir. Það er, eins og kveðið var að fornu, að það „varðar mest til allra orða, að undirstaðan sé réttleg fundin,“ og þetta á sérstaklega við, þegar setja á löggjöf um nýmæli, sem jafnvel ekki á sér fullkomnar hliðstæður í löggjöf annarra þjóða, eins og hæstv. ráðh. gaf nú upptýsingar um. Það er því að mínum dómi og okkar flm. eðlileg aðferð i þessu máli að leita fyrst eftir till. og uppástungum sem víðast að úr þjóðfélaginu og reyna að virkja þann áhuga meðal margra einstaklinga og félagsheilda í þessum efnum, sem til staðar er, en nú er allt of dreifður og skilar ekki sameiginlegu átaki, til þess að færa þessi mál í það horf, sem við erum sammála um að þörf sé á. Með till. okkar er sérstaklega miðað við það að fá uppástungur, ábendingar og till. sem viðast að, vekja áhuga hjá mörgum félagasamtökum og áhrifamiklum stofnunum í þjóðfélaginu og tengja þær þannig við þetta mál að víssu leyti, áður en löggjöfin er sett, því að það er alveg augljóst, eins og ég tók fram í fyrri ræðu minni, að hér þarf að sækja gegn straumi aldarandans, og til þess að fá góðan árangur, þarf almenningsálitið að standa að baki aðgerðum ríkisvaldsins á þessu sviði. Við ætlumst til, að þessi ráðstefna starfi í sumar og þessir 25 fulltrúar sitji ekki að störfum mjög langan tíma, heldur komi fram með sínar till. og beri ráð sín saman, síðan vinni 5 manna undirnefnd að því að gera till. til ríkisstj. eftir þeim ábendingum, sem fram koma á ráðstefnunni, og við ætlumst til, að þessu starfi verði lokið fyrir 1. okt. 1964. Ég fæ ekki betur séð en það væri augljós ávinningur fyrir þá nefnd, sem hæstv. ráðh. hefur skipað og hefur því hlutverki að gegna að semja frv. til laga um þetta efni, að fá upp í hendurnar einmitt tillögugerð sem og álit ráðstefnu, sem við leggjum til að kvödd verði til starfa. Mér virðist því, að þetta þurfi alls ekki að brjóta í bága hvort við annað, heldur sé mjög vel hægt að samræma þetta og það gæti orðið stuðningur að því fyrir þá nefnd, sem á að undirbúa löggjöf á þessu sviði, að hafa til hliðsjónar og leiðbeiningar þær till., sem ráðstefnan kynni að gera, og það væri eðlilegt með tilliti til þess, hve viðfangsefni n. er að ýmsu leyti fjölþætt og ekki kannað nema að litlu leyti, og má alveg gera ráð fyrir, eins og hæstv. ráðh. drap á, að hún þurfi lengri tíma til starfa en fram að þingbyrjun á næsta hausti, og ég fæ ekki betur séð en það væri einnig stuðningur fyrir ríkisstj. í viðleitni hennar til að ráða bót á þessum vanda að hafa á bak við sig samþykkt Alþingis á þeim grundvelli, sem við leggjum til.

Ég vil því eindregið vænta þess, að sú nefnd, sem fær þetta mál til athugunar, líti á þau sjónarmið. sem ég hef dregið hér fram, og skoði málið í því 1jósi, að samþykkt till. þeirrar, sem hér liggur fyrir, þarf alls ekki á nokkurn hátt að brjóta í bága við störf þeirrar n., sem hæstv. ráðh. hefur skipað, því að hér er um þjóðfélagslegt vandamál að ræða, sem við erum sammála um, að þarf að ráða bætur á.