04.12.1963
Sameinað þing: 24. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í D-deild Alþingistíðinda. (2806)

22. mál, framkvæmdir Atlantshafsbandalagsins í Hvalfirði

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Enda þótt afstaða Framsfl. í þessu máli sé vel kunn og hafi komið skýrt fram í umr. á þessu hv. Alþ. við önnur tækifæri, þykir mér rétt að rifja hana upp í aðeins örfáum orðum í sambandi við þessa þáltill. og lýsa um leið afstöðunni til þáltill. sjálfrar.

Þegar vart varð við það í sumar samkv. fréttatilkynningu frá hæstv. ríkisstj. og upplýsingum, sem fengust hjá hæstv. utanrrh., að ætlunin væri að semja um nýjar framkvæmdir eða leyfa nýjar framkvæmdir af hálfu NATO í Hvalfirði, tók framkvæmdastjórn Framsfl. í fjarveru þingflokksins afstöðu til málsins og gerði heyrinkunna, m.a. hæstv. ríkisstj., og þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Lýsir Framsfl. sig andvígan því, að aukinn verði herbúnaður í Hvalfirði með byggingu nýrra flotamannvirkja eða á annan hátt, og skorar á ríkisstj. að ljá ekki máls á samningum um slíkt “

Þetta var sú afstaða, sem tekin var í tilefni af þessum upplýsingum og þessum samningaumleitunum, sem sagt var að yfir stæðu, og þessi afstaða er enn hin sama og hún var þá, og hefur verið áður greint frá því hér á hv. Alþingi. Ég vil færa rök fyrir þessari afstöðu í fáeinum setningum, en ég skal viðurkenna, að það verður ekki margt nýtt í því, sem ég segi um þetta, því að það hefur áður verið tekið fram hér á hv. Alþingi af minni hálfu.

Við álítum, að menn verði að gera það upp við sig nú sem fyrr, hvort það eigi að ljá máls á því, að í Hvalfirði komi flotastöð. Við vitum, að það hefur hvað eftir annað verið farið fram á að gera ýmsar framkvæmdir í Hvalfirði, sem hlutu að teljast vera hugsaðar í sambandi við að koma þar upp flotastöð, en þessar framkvæmdir, eins og allir vita, hafa ekki verið samþykktar.

Nú teljum við, að það sé ríkari ástæða til en nokkru sinni fyrr að standa gegn því, að slíkar framkvæmdir eigi sér stað í Hvalfirði, þar sem friðvænlegra er nú í heiminum en lengi hefur verið áður, og skal ég ekkert draga úr því, að Atlantshafsbandalaginu sé það að verulegu leyti að þakka. Það er annað mál, ég skal ekkert draga úr því, að það geti verið rétt. En við teljum alveg sjálfsagt að ljá nú ekki máls á neinum nýjum hernaðarframkvæmdum í Hvalfirði fremur en áður. Við álítum, að þessi framkvæmd, sem nú kemur til greina, að NATO byggi þarna nýja stöð, hljóti að teljast undir nýjar hernaðarframkvæmdir. Nú er sagt, að vísu eigi ekki að vera nema 8 geymar fyrst, en þar með fylgja nýjar bryggjur og bólverk og svo legufæri, sem er nokkuð óljóst, hvort eigi að setja strax niður í sjálfan fjörðinn eða hvort eigi að vera þar til taks. Ég held, að það geti engum blandazt hugur um, að þessar framkvæmdir hljóti að vera hugsaðar sem byrjun að öðru meiru, ef svo vill verkast, og með tilliti til þess, sem áður hefur komið fram um óskir varðandi Hvalfjörð, er mjög líklegt, að það geti einmitt orðið sótt á að koma upp þarna raunverulegri flotastöð í áföngum, — í staðinn fyrir, að áður hefur verið farið fram á meira og því hefur verið illa tekið, þá sé farið fram á minna með það fyrir augum að koma þarna upp flotastöð í áföngum. Við teljum þess vegna, að það sé lífsnauðsyn að taka þessa línu hreina og leyfa ekki neinar nýjar framkvæmdir í Hvalfirði af þessu tagi og leyfa ekki Atlantshafsbandalaginu að setja þarna upp nýja stöð.

Þetta er okkar afstaða, og þetta er okkar hugsun. Við teljum, að það væri mjög illa farið, ef það væri farið að færa út hernaðarframkvæmdir í landinu, eins og nú standa sakir, og koma upp nýjum stöðvum. Og við bendum á, og ég benti á það um daginn líka, og ég bendi á það enn, að það er ekkert ólíklegt, að ef léð er nú máls á því að setja þarna upp stöð á vegum NATO, þá kæmu, áður en langt um líður, óskir um að setja varnarlið í þá stöð, og gæti þá, áður en menn vissu, verið þannig komið, að þarna yrði flota- og hernaðarstöð á aðalþjóðleiðinni umhverfis landið. Við viljum ekki eiga þátt í þessu, og við viljum skora á hæstv. ríkisstj. að gera ekki samning um að byggja þessa nýju stöð í Hvalfirði á vegum NATO og ljá ekki máls á þessum framkvæmdum.

Ég vil benda á, eins og ég hef áður gert, að þótt Íslendingar séu aðilar að Atlantshafsbandalaginu, ber þeim engin skylda til að leyfa framkvæmdir eins og þessar, og það er algerlega á okkar valdi sjálfra, hvaða framkvæmdir við leyfum í sambandi við varnarundirbúning í landinu. Það hvílir ekki á okkur nein samningsskylda í þessu efni og heldur engin siðferðileg eða mórölsk skylda, vegna þess að þegar Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið, var það greinilega tekið fram af þeim, sem töluðu fyrir ríkisstj. og Alþingi, að það væri ekki gert ráð fyrir því, að hér yrði erlent varnarlið á friðartímum í landinu. Og það var margtekið fram af þeim, sem ræddu við íslenzka ráðamenn á þeim tímum um afstöðu Íslands og annarra landa til Atlantshafsbandalagsins, að það væri stórfelldur ávinningur að því fyrir bandalagið, ef Ísland vildi vera með, þó að hér yrði ekki leyfður neinn her á friðartímum, og við töldum það, sem stóðum að þeirri framkvæmd, einnig ávinning fyrir Ísland, vegna þess að í Atlantshafsbandalaginu eru gagnkvæmar yfirlýsingar og skuldbindingar um, að árás á einn er skoðuð sem árás á annan og í þessu væri fólgin mikil vernd fyrir Ísland, og ég er enn sömu skoðunar um þetta og ég var þá.

Nú hefur verið hér varnarlið í landinu ærið lengi, og það hefur verið byggt á því, hversu ófriðvænlegt hefur verið í heiminum, og þegar tillit er tekið til þess, er það alveg augljóst mál, að íslendingar hafa a.m.k. uppfyllt það, sem þeir létu skína í, að þeir gætu lagt fram til þessara mála, þegar þeir gerðust aðilar að NATO, — uppfyllt það alveg fullkomlega og vel það, sem þá var látið skína í að kæmi til greina, þannig að um siðferðislega skyldu vegna verunnar í Atlantshafsbandalaginu til að leyfa að koma upp nýrri hernaðarstöð í Hvalfirði er alls ekki að ræða.

Að okkar áliti verður, eins og ég sagði áðan, að taka hér hreina stefnu og leyfa ekki þarna neinar nýjar hernaðarframkvæmdir á vegum Atlantshafsbandalagsins.

Þá vil ég segja það varðandi sjálfa þáltill., sem fyrir liggur, að það er okkar skoðun, að hér sé um stórfellt mál að ræða, hér sé um stefnumál að ræða, hvort eigi að ganga út á þá braut að veita þarna leyfi fyrir hernaðarmannvirkjum. Það skiptir ekki ákaflega miklu máli í því sambandi, hvort þau mannvirki, sem byrjað er að leyfa þarna á vegum NATO, eru stór eða smá, heldur er hitt „prinsip“-atriði, hvort á að fara að leyfa NATO að byggja hernaðarmannvirki í Hvalfirði. Við álítum því, að það sé algerlega rangt og eigi ekki að koma til mála að afgreiða nokkuð slíkt, án þess að um það sé fjallað á Alþingi eða samþykki Alþingis komi hreinlega til. Og í því sambandi skipta lagakrókar engu máll. Hér er um stóra ákvörðun að ræða, hér er um verulegt stefnumál að ræða, hvort það eigi að ganga inn á þessa braut eða ekki, og af þeim ástæðum álitum við, að það sé ekki viðeigandi af hæstv. ríkisstj. og hún sé ámælisverð fyrir, ef hún ætlar sér að gera slíkan samning, án þess að hafa fyrir því fullt samþykki Alþingis.

Af þessu leiðir, að við munum standa með þeirri þáltill., sem hér er borin fram, því að hún einskorðar sig við það að lýsa yfir, að það sé skoðun Alþingis, að óheimilt sé að gera nokkra samninga við Atlantshafsbandalagið um framkvæmdir i Hvalfirði, nema samþykki Alþingis komi til. Og sé þessi þáltill., samþ., er það alveg augljóst mál, að stjórnin hefur ekki neina heimild til að gera þetta. Ég lýsi því fylgi við þessa þátill,. eins og hún liggur fyrir.