04.12.1963
Sameinað þing: 24. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í D-deild Alþingistíðinda. (2808)

22. mál, framkvæmdir Atlantshafsbandalagsins í Hvalfirði

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. í framsöguræðu minni í dag benti ég á það, að á þessu máli væru fyrst og fremst tvær hliðar, þ.e.a.s. hin lagalega hlið málsins og í öðru lagi sú hlið, sem snýr að þeirri spurningu, hvað raunverulega sé á seyði í Hvalfirði og hvað raunverulega sé ætlunin að gera þar. Ég er sammála tveimur seinustu ræðumönnum um það, að lagalega hlið málsins skiptir ekki mestu máli. En á hitt vil ég benda, að það hlýtur að varða hv. Alþingi töluvert miklu, hvort stjórnarskrá íslenzka lýðveldisins er þverbrotin frammi fyrir allri þjóðinni, og þar af leiðandi hljótum við að reyna að brjóta það mál til mergjar, hvort svo sé, ef af samningum verður og án þess að Alþingi sé spurt.

Hin lagalega hlið málsins rís upp af þeirri staðreynd, að í stjórnarskrá lýðveldisins, 21. gr. nánar tiltekið, segir, að ríkisstj. megi enga samninga gera við erlend ríki, sem hafi í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi, nema samþykki Alþingis komi til. Hæstv, utanrrh. gerði nokkra tilraun hér áðan til að sýna fram á, að þetta væri ekki stjórnarskrárbrot og að ríkisstj. hefði fullkomna lagaheimild til að gera þetta. Hann mótmælti því ekki, að hér er um að ræða samning við erlent ríki, eins og á er kveðið í stjórnarskránni. Hann mótmælti því ekki heldur, að hér er um að ræða kvaðir á landi. Hann reyndi ekki að styðja mál sitt þeim rökum, að skapað hefði verið fordæmi, sem leyfði þessa sérstöku málsmeðferð.

Það merkilega var, að hæstv. utanrrh. gerði ekki hina minnstu tilraun til þess að svara þeirri ásökun, sem ég bar hér fram í dag, þegar ég skýrði frá því og benti á það, að þegar samningur um lóranstöð á Snæfellsnesi var gerður í marz 1959, var hann gerður á röngum forsendum, þjóð og þing var blekkt og það var rangt skýrt frá aðalatriðum málsins. Ég fullyrti þá, að hæstv. utanrrh. hefði laumað þeim framkvæmdum inn á þjóðina, svo að litið bar á, og benti á, að aldrei hefði komið fram, að sá samningur væri gerður við Atlantshafsbandalagið, heldur þvert á móti voru þar tilgreindir aðrir aðilar. En núna, þegar hæstv. utanrrh. ræðir þessi mál, kemur það skýrt fram, að sá samningur var einmitt gerður við Atlantshafsbandalagið. Hæstv. utanrrh. gerði enga tilraun til að útskýra þetta, og vil ég vekja sérstaka athygli á því.

Allur málflutningur hæstv. utanrrh. byggðist á því, að ríkisstj. væri heimilt að gera þennan samning upp á sitt eindæmi á grundvelli varnarsamningsins, eins og hann hefur svo oftlega komizt að orði. Hann ætlar að reyna að komast fram hjá stjórnarskrárákvæðinu á þeim forsendum, að í samningnum frá 1951 við Bandaríkjamenn er ekkert um það rætt, hvað framkvæmt skuli eða hvar í landinu það skuli gert. Hann virðist sem sagt álfta, að á grundvelli þessa samnings geti ríkisstj. gert hvað eina, sem hún vill, hún geti haldið áfram um alla framtíð, komandi ríkisstj. geti byggt á þessum samningi, sem gerður var fyrir 12 árum, og þær geti leyft sér að halda áfram að byggja upp herstöðvar allt í kringum landið að vild og án þess að spyrja Alþingi nokkurn tíma leyfis. Ég vil ítreka það, sem ég sagði hér í dag, það er aldeilis útilokað, að ríkisstj. geti sniðgengið það ákvæði stjskr., sem ég nefndi hér áðan, með því að vísa til samningsgerðar, sem aðeins hefur lagagildi. Hingað til hafa lög ekki verið sett ofar stjórnarskránni. Það er útilokað, að í eitt skipti sé hægt að semja um það við erlent ríki,að um alla framtíð skuli stjórnarskráin sniðgengin.

Varðandi þá spurningu, hvað gera skuli, þar sem ekkert standi í samningnum um það, hvaða framkvæmdir séu leyfðar eða ekki, liggur í augum uppi, að það verður ekki túlkað á annan veg en þann, að með samningnum hafi verið leyfðar þær framkvæmdir, sem þá voru fyrirhugaðar og þá var hafizt handa um, og á þeim landssvæðum, sem Bandaríkjamenn fengu þá að nota, en þegar til frekari framkvæmda kemur, er nauðsynlegt að gera sérstakan samning hverju sinni og bera þann samning undir Alþ., eins og stjskr. segir mjög greinilega frá. Sem sagt, eins og ég sagði í dag, hér hlýtur allt að fylgjast að. Sé gerður nýr samningur, sem hefur í sér fólginn nýjan yfirráðarétt erlends ríkis á íslenzku landi og hafi þar með í sér fólgnar nýjar kvaðir á íslenzku landi, verður að koma til nýtt samþykki Alþingis.

Hin hlið málsins er sú spurning, sem ég gat um áðan, að hverju raunverulega er stefnt með framkvæmdum í Hvalfirði. Ég færði að því allsterkar líkur hér í dag, að það væri með þessum framkvæmdum, sem nú standa til, ekki aðeins verið að koma upp nokkrum olíubirgðum i Hvalfirði, heldur þvert á móti, að verið væri að byggja flotastöð þar í áföngum. Þessu hefur hæstv. utanrrh. mótmælt. Að sjálfsögðu verður ekki endanlega úr þessu skorið, eins og málin standa í dag, úr því að hæstv. utanrrh. mótmælir. En hitt hlýtur að liggja í augum uppi, að hver og einn skynsamur maður i landinu getur metið líkurnar, og ég vil enn einu sinni nefna þessar sterku líkur. Í fyrsta lagi er það hinn augljósi áhugi Bandaríkjamanna í fjöldamörg ár á því að koma upp flotastöð í Hvalfirði. Í því sambandi er nærtækast að vitna í orð hæstv. utanrrh., sem hann lét frá sér fara hér fyrir nokkrum vikum, þar sem hann sagði það alveg skýrt og greinilega með þessum nákvæmu orðum, að 1955 hefðu komið tilmæli til Framsfl, um stórfelldar hernaðarframkvæmdir í Hvalfirði. Ég hef hins vegar haldið því fram hér, að það sé alveg augljóst mál, að Bandaríkjamenn stefni enn að þessu sama marki, og það sé engin ástæða til þess að efast um það.

Við flm. þessarar till. höfum bent á ásókn Bandaríkjamanna í kafbátastöðvar víða í nágrannalöndunum. Við höfum greint frá því, að þeir hafi fengið neikvæðar viðtökur í Noregi, og við höfum bent á það, sem flestum mönnum mun ljóst, sem fylgjast með erlendum stjórnmálum, að líkurnar fyrir því, að Bandaríkjamenn haldi sínum kafbátastöðvum í Bretlandi, fara minnkandi, um leið og sigurlíkur Verkamannaflokksins fara vaxandi. Á það hefur líka verið bent, að Hvalfjörður er talinn mjög heppilegur staður fyrir slíka kafbátastóð og hentar til slíks brúks. Loks hefur á það verið bent, að ríkisstj. hefur að undanförnu tekið hvert skrefið af öðru í þessa átt, og það er ekkert, sem skyggir á það og mælir á móti því, að það sé einmitt verið að stíga þetta skref í áföngum.

Í fyrsta lagi hefur bandaríski flotinn nýverið tekið við yfirstjórn kafbátaflotans á norðanverðu Atlantshafi og tekið við herstöðvunum hér á landi. Flotinn er sem sagt réttilega kominn í stað landhersins, og á því þurfti að sjálfsögðu að halda, ef gera átti mjög þýðingarmikla flotastöð á Íslandi. Á þetta hefur hæstv. utanrrh. ekki enn þá þorað að minnast.

Í öðru lagi höfum við bent á þá furðulegu staðreynd, að erlent ríki hefur fengið réttindi til að mæla og kortleggja botn innan íslenzkrar lögsögu, þ.e.a.s. einmitt botn Faxaflóa, allt nágrenni Hvalfjarðar. Ekki hefur hæstv. utanrrh. minnzt á bessa staðreynd.

Í þriðja lagi höfum við bent á, að lóranstöðin á Snæfellsnesi og staðsetning hennar er augljóslega miðuð við að geta orðið heppileg miðunarstöð fyrir kafbáta, og nú bætist fjórða atriðið við, þar sem eru þessar framkvæmdir í Hvalfirði.

Eins og ég sagði áðan, hafa verið færðar sterkar líkur að okkar máli. Utanrrh. neitar. Og það er vissulega rétt að minna á það, að þegar slík mál hafa verið á döfinni, hafa þessir herrar alltaf neitað. Þeir hafa aldrei viljað viðurkenna nokkurn skapaðan hlut, fyrr en allt var um garð gengið. Það er rétt að minna á einn mjög hliðstæðan atburð fyrir um það bil 17 árum, þ.e.a.s. 1946. Hvað gerðist þá um haustið? Jú, þá stóð til að gera nýjan samning við Bandaríkjamenn um aðstöðu í Keflavík. Þá sögðu andstæðingar þess samnings. að enda þótt hann kynni kannske að líta sakleysislega út á yfirborðinu, væri hann vissulega fyrirboði þess, sem koma mundi. En forsvarsmenn samningsins, þ.e.a.s. Alþfl., Sjálfstfl. og helmingurinn af Framsfl., sögðu: Þetta er ósköp saklaust fyrirbæri, sem hér er á seyði. þetta er aðeins lendingarleyfi fyrir bandaríska flugherinn. — Og það er rétt í því sambandi að rifja upp, hverjar voru fyrirsagnir blaðanna á þessum tíma. Þegar þessi samningur var gerður, 20. sept., sagði Morgunblaðið, með leyfi forseta:

„Herstöðvamálið er niður fallið. Bandaríkjamenn flytja brott allan her sinn frá Íslandi. Flugvöllurinn við Keflavík afhentur Íslendingum. Herstöðvamálið er úr sögunni. Bandaríkin hafa nú algerlega látið niður falla óskir sínar um herstöðvar á Íslandi. Er það vissulega lofsvert, að þetta volduga lýðræðisríki hefur nú skilið tilfinningar íslenzku þjóðarinnar í þessum viðkvæmu málum og tekið fullt tillit til þeirra. Þessi samningur felur í sér uppfyllingu þeirra óska. sem íslenzka þjóðin hefur skýrt og skorinort látið í ljós.“

Þetta sögðu þessir sömu herrar, um leið og Keflavíkursamningurinn var gerður. Og þarf ég annað en minna á, hvað síðan hefur gerzt og hvert var framhald þessara mála, til þess að sýna fram á, hvað þetta mál og málið 1946 eru nauðalík? Ég vil aðeins bæta því við, hvað málgagn hæstv. utanrrh. sagði á þessum sama tíma. þegar það átti að líta svo út, að herinn væri að fara, en þá var hann einmitt að koma. Þá sagði Alþýðublaðið 20. sept., með leyfi hæstv. forseta:

„Herstöðvamálið er úr sögunni. Bandaríkin vilja fella niður herverndarsamninginn, afhenda Keflavíkurflugvöll og flytja allt lið héðan, en vilja fá afnotarétt af flugvellinum undir íslenzkri stjórn til uppfyllingar skuldbindingum sínum um hernám Þýzkalands. Má öllum vera ljóst, að Bandaríkin hafa með þessu tilboði fallið frá öllum tilmælum um leigu á herstóð hér á landi, hvort heldur til lengri eða skemmri tíma, m.ö.o.: að herstöðvamálið er með öllu úr sögunni“

Þar fengu menn að heyra það. Og þetta gerðist nákvæmlega sömu dagana, þegar herstöðvamálið var að byrja. Skyldi það ekki vera sama sagan, sem er að gerast í dag?