04.12.1963
Sameinað þing: 24. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í D-deild Alþingistíðinda. (2810)

22. mál, framkvæmdir Atlantshafsbandalagsins í Hvalfirði

Einar Olgeirason:

Herra forseti. Það er greinilegt, að því oftar og því meir sem hæstv. utanrrh. talar í þessu máli, því hættulegra verður það ástand, sem við búum við og því örlagaríkari verður afgreiðsla þessa máls. Það gengur eins og rauður þráður í gegnum alla hans ræðu þetta: Ég get gert allt, ég hef heimild til hvers sem ég vil, en ég ætla ekki að gera það núna. —- Og það er þetta, sem gerir það að verkum, að þessi þáltill.. sem hér liggur fyrir, verður enn þá miklu þýðingarmeiri en við raunverulega gengum út frá, flm., þegar við fluttum hana. Hæstv. utanrrh. segir: Með hernámssamningnum 1951 er því í eitt skipti fyrir öll slegið föstu, að ríkisstj. Íslands og fyrst og fremst utanrrh. Íslands hefur heimild til þess að gera það, sem hann álitur nauðsynlegt á hverjum tíma í samningum við Bandaríkin, án þess að spyrja Alþingi að. — Og ég ætla alveg sérstaklega að vekja eftirtekt hv. þm. á þessum endurteknu yfirlýsingum hæstv. utanrrh., því að þetta eru stórhættulegar yfirlýsingar. Þetta eru yfirlýsingar, sem hægt er að hagnýta sér á svo vægðarlausan hátt. að þjóðinni stendur voði af. Við munum það áður, þegar talað hefur verið um möguleikann á því að geyma kjarnorkuhlaðnar skotflaugar á Keflavíkurflugvelli, um þann hugsanlega möguleika, og þegar hæstv. utanrrh. var spurður að því, af því að bað upplýstist, að flugvélar, sem gætu skotið slíkum flaugum, mundu getað verið þar staðsettar, og hann var spurður að því, hvort hann vildi heita því, að slíkar flaugar yrðu ekki settar þangað til geymslu, nema ráðgast við Alþingi áður, og hann tók greinilega fram, að hann vildi engu lofa um það að ráðgast við Alþingi áður. M.ö.o.: það, sem hæstv. utanrrh, er að fara fram á, er, að með því, að þessi þáltill. sé ekki samþ., hafi hann algera heimild, algert alræði til að gera hvað sem er og hvaða utanrrh. sem kynni að taka við af honum á grundvelli varnarsamningsins svokallaða frá 1951, þannig að Alþ. má alvarlega vara sig, þegar svona er komið.

Nú mundi maður náttúrlega segja, ef það væri eins mikið mark takandi á talinu um lýðræðið og það er oft notað, næstum því eins og þegar aðrir leggja guðs nafn við hégóma, þá ætti svo sem einn svona voðalega lýðræðíslegur ráðh. að segja alveg þveröfugt við Alþingi Íslendinga, hann ætti að segja: Jú, sem harðvítugur lögfræðingur mundi ég máske líta svo á, að ég hefði leyfi til þess að gera þetta og þetta, en af því að ég elska svo heitt bæði lýðræðið og þingræðið, dytti mér aldrei nokkurn tíma í hug að gera slíkt, án þess að tala við Alþingi. — Það mundi vera lýðræðislega mælt og þingræðislega mælt. En hér er nú farið alveg þveröfugt að. Hér er sagt við þá 60 þm., sem hér sitja: Þið hafið ekkert um þetta að segja, ég tek mér vald til að gera hvað sem mér þóknast í sambandi við þessa hluti. — Hæstv. utanrrh. er sem sé búinn að lýsa því yfir, að hann álíti, að hann geti leyft flotastöð í Hvalfirði, að hann geti jafnvel leyft að bora þar undir fyrir Pólaris-kafbáta, til þess að gera Þyrilinn kjarnorkuheldan, til að gera byrgi þar undir kjarnorkuhelt. Mér skilst, að hann meini, að ef farið væri fram á Seyðisfjörð hinn daginn sem flotastöð, og hann áliti það nauðsynlegt til verndar lýðræðinu, þá segðist hann hafa rétt til að fara eins að með Seyðisfjörð, eða hinn daginn kæmi tillaga um Eyjafjörð, t.d. Akureyri, þá þættist hann út frá samningnum 1951 hafa sama rétt. Ég tala nú ekki um, hvað snertir okkur hérna í Reykjavík. 1945 var krafizt þess að fá Skerjafjörð að lendingarstöð og flugvöllinn hérna fyrir sjóflugvélar. Máske utanrrh. álíti líka, að hann hefði heimild til þess að semja um það á morgun, ef hann áliti það nauðsynlegt til verndar lýðræðinu? Ég held því, að það sé nauðsynlegt, að menn fari nú að athuga nokkuð vel, til hvers hæstv. utanrrh. þykist hafa heimild, því að fyrir þá okkar, sem áttu enn sæti á Alþingi 1951, eftir að búið var að gera þennan samning áður og varast að kalla Alþingi saman og búið að koma með hermenn inn í þetta land, þannig að Alþingi stóð frammi fyrir her, erlendum innrásarher í landinu, — þegar Alþingi átti að taka afstöðu til málsins, þá sagði ekki einn einasti maður af þeim, sem fyrir þessu töluðu: Utanrrh. Íslands skal héðan af hafa heimild í eitt skipti fyrir öll til þess að semja við Bandaríkjastjórn um herstöðvar á Íslandi í sambandi við þennan samning, eins og honum þóknast.

Það er bezt fyrir hæstv. utanrrh. að fara að athuga það, sem talað hefur verið. Það er ekki í ötlum milliríkjaviðskiptum aðeins farið eftir því, hvað harðsvíraðir lögfræðingar og einhverjir útfarnir lagasnápar kunna að reyna að finna út úr einhverri orðanna hljóðan. Í samningum á milli ríkja er talað um, hvað hafi verið hin rökrétta forsenda, hvað rætt hafi verið um, hverju gengið hafi verið út frá, a.m.k. að svo miklu leyti sem snýr að þjóðþingi því, sem utanrrh. er fulltrúi fyrir. Það má vel vera, að Bandaríkin í sambandi við þann samning, sem þau hafa gert, stundum á vegum NATO, stundum á vegum sjálfs sín, reyni að hafa sem útfarnasta lagasnápa í sinni þjónustu og túlka hvert einasta atriði sem allra frekast, og það þekkjum við. Við vitum, hvernig Bandaríkin túlkuðu ákvæðin í samningnum frá 1941. Við munum það enn, að þau túlkuðu þann samning öðruvísi en íslenzka ríkisstj. gerði. Þau túlkuðu þann samning þannig, að þau mættu hafa herinn áfram í landinu, eftir að stríðinu var hætt. En íslenzka ríkisstj. leit svo á með réttu, að til þess hefðu Bandaríkin ekki heimild, og ein af forsendunum fyrir Keflavíkursamningnum af hálfu þáv. hæstv. forsrh. var sú, að með því að gera hann, fengjust Bandaríkin til þess að fallast á að fara með herinn burt, sem þau álitu sig ekki þurfa að gera eftir samningnum frá 1941. M.ö.o.: við erum því vanir í viðskiptum við Bandaríkin, að þau túlki freklega og af ósvífni, með ágangi og ásælni á okkar land þann samning, sem við höfum gert við þau. En við höfum hingað til gengið út frá því, að sá, sem væri utanrrh. Íslands, væri ekki umboðsmaður Bandaríkjanna, heldur ætti hann að vera umboðsmaður Íslands og hann ætti að reyna að túlka þá samninga, sem Ísland gerir, eins og er Íslandi sem hentugast. En hæstv. utanrrh. virðist hafa tilhneigingu til að vilja túlka slíkan samning eins og Bandaríkjunum er hentugast og segja síðan, að þetta sé lýðræðislega hentugast, til að breiða einhverja fallega gæru yfir það.

Hæstv. utanrrh., hver sem hann er á hverjum tíma, verður að gera svo vel að gæta orða sinna. Hann er ekki bara að tala sem einhver og einhver lögfræðingur, þó að hann sé það að mennt, hann er að tala sem utanrrh. Íslands. Og hvert orð, sem hann segir af öðru eins ábyrgðarleysi og hæstv. utanrrh. hefur talað nú, verður notað á móti Íslandi seinna meir, þegar aðrir utanrrh. eru hér, sem lita öðruvísi á þetta mál og vilja túlka þann samning, sem Ísland hefur illu heilli gert, út frá hagsmunasjónarmiðum Íslands. Þess vegna á hver utanrrh. að tala gætilega í þessum málum. Hann á ekki að tala eins og hann væri einhver flokksmaður, þótt hann eðlilega sé það og tali út frá því pólitíska sjónarmiði, sem hann fylgir. Hann verður að gera svo vel að tala sem embættismaður þjóðarinnar, sem fulltrúi þjóðarinnar, og gæta þess, að þau orð, sem hann segir, eru ekki einhver orð, sem einhver t.d. Guðmundur f. Guðmundsson hefur sagt einhvern tíma, heldur orð, sem utanrrh. Íslands hefur sagt.

Ég segi þetta vegna þess, að það má ekki fara með þessi mál eins og við værum bara að rífast hér innbyrðis í pólitískum deilum. Það verður að fara með þessi mál sem utanríkismál, sem hvert íslenzkt Alþingi og hver íslenzk ríkisstj. verður að geta byggt á, þegar Alþ. væri máske allt öðruvísi skipað en nú. Þess vegna má ekki með svona yfirlýsingum vera að gefa undir fótinn með, hvað hægt sé að gera. Að vísu er rétt náttúrlega að taka það fram, svo að maður sé fullkomlega sanngjarn, að frá sjónarmiði hæstv. utanrrh. mundi þetta þýða, sem hann hefur sagt, að væri utanrrh., sem hugsaði öðruvísi en hann um þessi mál, þá hefði sá hinn sami utanrrh. rétt, án þess að ræða við Alþingi, að láta Bandaríkin fara úr öllum þeim herstöðvum, sem þau væru hér í, vegna þess að það væri einvörðungu utanrrh., sem það hefði gert. En ég álít sem sagt, að hvorugt sé heppilegt.

Af hverju verðum við að vera gætin i þessum málum? Við verðum að vera gætin vegna þess, að við eigum hér í langri baráttu, sem getur tekið enn þá áratugi fyrir okkur. Og við þurfum í þeirri baráttu að læra af forfeðrum okkar, sem kunnu það í okkar aldalöngu sjálfstæðisbaráttu, sem þeir háðu, þar sem þeir öldum saman stóðu á gömlum sáttmála, sem alltaf hafði verið brotinn öld eftir öld á þeim og þeir féllust aldrei á að búið væri að eyðileggja, heldur byggðu allar sjálfstæðis- og frelsiskröfur sínar á því, að Þessi sáttmáli væri enn í gildi. Einmitt við, sem höfum ekki annað að byggja á en rétt okkar, okkar túlkun á samningum okkar, verðum að vera gætnari með túlkun á samningum en nokkur önnur þjóð í heiminum. Aðrar þjóðir geta beitt valdinu, þær geta komið og sagt við þessa og þessa þjóð: Nú rís ég upp á móti þessu, og far þú burt með allt þitt hafurtask, — og rekið þá burt. Við getum það ekki. Við höfum ekkert nema réttinn að byggja á í þessu, eins og við höfðum áður, þegar við áttum í baráttu okkar við Dani. Við erum búnir að standa núna meira en 20 ár í þessari baráttu við Bandaríkin, og við skulum alveg gera okkur það ljóst, að þetta er barátta fyrst og fremst við Bandaríki Norður-Ameríku. Það voru Bandaríki Norður-Ameríku sem slík, sem fóru fram á það og ætluðu sannarlega að koma því í gegn að fá hér herstöðvar til 99 ára, og Það voru ekki aðeins herstöðvar, sem þau fóru fram á, Það var að fá vissa hluta úr Íslandi afhenta undir ameríska lögsögn, afhenta sem algerlega amerískt yfirráðasvæði, sem engir Íslendingar mættu koma inn á nema með leyfi Bandaríkjanna og íslenzk yfirvöld hefðu ekkert með að gera og hefðu ekkert yfir að segja.

Hæstv. utanrrh. minntist á Sósfl. hér áðan. Það, að Sósfl. átti sæti í þeirri ríkisstj., sem tók við þessum kröfum, Það, að kosningar voru fram undan á næsta ári og við höfðum með sameiginlegu átaki þjóðarinnar stofnað lýðveldi árinu áður, Það gerði það að verkum, að þessum kröfum var hafnað, og það eru enn til skýrslurnar um það, hvað fram fór á þeim fundum. Það var greinilegt, að hefði Sósfl. ekki notið við í ríkisstj., sem fyrst og fremst var vinsæl fyrir hans framkomu Þá, hefði verið fallizt á svo og svo mikið af þeim kröfum. Þá var það Keflavíkurflugvöllur, Skerjafjörðurinn og Hvalfjörður, sem áttu að fara undir ameríska lögsögn til 99 ára, — Hvalfjörðurinn undir ameríska lögsögn sem flotastöð til 99 ára, afgirtur, þannig að Íslendingar hefðu þar ekkert að segja, réðu engu, hvað gert væri, þyrftu ekki einu sinni að spyrja um múrningu, ekkí einu sinni utanrrh., hvað Þá ef Þeir hefðu viljað byggja þar einhver skotheld byrgi. Sósfl. fyrst og fremst og sú Þjóðernishreyfing, sem þá var á Íslandi, kom í veg fyrir, að þetta væri gert, og það er eitt af því bezta, sem sá flokkur hefur getað áorkað á Íslandi. Hann hefur síðan staðið Þessi 20 ár og rúm þó í baráttunni við þetta vald, það vald, sem ásælist okkur nú harðar og hættulegar en Danir ásældust land okkar nokkru sinni, á meðan þeir réðu því, — ég undirstrika sérstaklega: hættulegar. Og Sósfl. hefur staðið flokka fremst í þessari baráttu allan tímann, og það er barnaskapur af hæstv. utanrrh. að tala um það, ef þess er minnzt í sambandi við 25 ára afmæli Sósfl. og maður skrifar um það í erlent blað. eins þó að það sé blað kommúnistaflokks Sovétríkjanna, að þessa baráttu hafi Sósfl. háð og það hafi verið góð barátta. Og til allrar hamingju hafa Bandaríkjamenn ekki komizt lengra en þeir eru komnir, þrátt fyrir sína fyrirætlun 1945, einmitt vegna þess, að hér hefur verið staðið á verði. Það hefði ekki þurft að heyja neitt af þessari baráttu með neinni von um árangur, ef áhlaupið 1945 hefði heppnazt. Þá væri ameríska flotastöðin hérna enn þá til 77 ára eða eitthvað þar í kring, og hvað sem við berðumst, hefðum við litla möguleika til að koma þeim burt. Það stendur þó svo í dag, að við þurfum ekki nema hálft annað ár til þess að segja þessum samningi upp.

Þegar við ræðum þessi mál, verðum við þess vegna fyrst og fremst að ræða þau út frá sjónarmiði Íslands, út frá sjónarmiði þess, að Ísland er að verjast ásælni Bandaríkjanna í þessum efnum. Hæstv. utanrrh. hefur viljað reyna að leiða alþjóðastjórnmál og baráttuna milli sósíalismans og kapitalismans í heiminum inn í þessi mál. Það er vissulega alltaf fróðlegt að ræða þau mál, en það er ekki fyrst og fremst út frá Því sjónarmiði, sem við eigum að ræða þessi mál. Hæstv. utanrrh. vildi hugga sig með því, að Atlantshafsbandalagið hefði reynzt svo framúrskarandi gott bandalag, að eftir að það hefði komið til, hefði nú ekki aldeilis þýtt fyrir alþýðuna í heiminum að vera að berjast miklu meira á móti auðvaldinu. Sósíalisminn og Þjóðfrelsishreyfingin hefðu nú verið stöðvaðar, eftir að NATO hefði verið stofnað. Það er eins og hann gleymi því, að sama árið sem NATO var stofnað vann sósíalisminn einn sinn mesta sigur, sem hann hefur unnið í heiminum, Þegar byltingin sigraði í Kína og 1/4 hluti mannkynsins hóf að leggja grundvöll að því að reyna að byggja þar upp í því fjölmenna ríki sósíalístískt þjóðfélag. Og það er eins og hann gleymi því líka, þegar hann er að tala um, að það hafi ekki orðið neitt stórkostlegt um að vera í VesturEvrópu, nema kommúnistaflokkarnir séu að vinna á í löndum eins og Ítalíu og slíkum, að rétt við bæjardyrnar hjá aðalveldi Atlantshafsbandalagsins er nú risið upp eitt sósíalistískt ríki á Kúbu. Og fyrir utan allt þetta hefur á þessu sama skeiði, sem Atlantshafsbandalagið hefur verið og sumir menn eru að hreykja sér af þessu veldi, þá hefur allt það nýlenduveldi, sem einmitt Atlantshafsbandalagsríkin, auðveldin í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku, hafa verið að stæra sig af, verið að hrynja í rústir fyrir Þjóðfrelsisbyltingu í Afríku, Asíu og ólgunni, sem nú er að verða í Suður-Ameríku. M.ö.o.: Það sama Atlantshafsbandalag, sem var stofnað til þess að vernda auðmannastéttirnar í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku, sér tók þessara auðmannastétta í öllum heiminum vera að hrynja. Meira að segja nýlendur, sem sérstaklega var fram tekið að skyldu tilheyra Atlantshafsbandalaginu og vörnum þess, eins og Alsír, og Atlantshafsbandalagið árum saman barðist þar, hjálpaði Frökkum óbeint og beint, meira að segja þar hefur nú Þjóðfrelsisbyltingin sigrað á móti franska imperíalismanum og NATO. Ég vil aðeins minna á þetta, fyrst hæstv. utanrrh. var að fara út í alþjóðastjórnmálin í sambandi við þetta.

Hann segir, að við viljum hafa varnir Íslands sem veikastar. Við viljum hafa varnir Íslands mjög sterkar, og við höfum reynt að verja Ísland allan þennan tíma á móti þeim aðila, sem Íslandi hefur stafað hætta af. Sá aðili einn saman, eftir að Bretar réðust á okkur í tvígang, fyrst hertóku okkur 1940, síðan réðust á okkur í sambandi við landhelgismálið, — sá eini aðili, sem hefur sýnt okkur ásælni og ágang, er Bandaríkin, og hafa rofið á okkur samninga, hótað okkur i skjóli herveldis, sem þau hafa haft hérna i skjóli rofinna samninga, og þvingað þannig fram hvað eftir annað þau fríðindi, sem hafa gert það að verkum, að þau sitja nú hér með her sinn og reyna í sífellu og ætla auðsjáanlega að nota til þess aðstoð þeirra utanrrh., sem vilja túlka þá samninga, sem þau gera, eins og þessi hæstv. utanrrh. hefur túlkað, — ætla auðsjáanlega að reyna að dreifa vígstöðvum sínum smátt og smátt um allt landið, í hvert skipti sem þau finna til þess nógu þæga menn í utanrríkisráðherrastól.

Hæstv. utanrrh. Þarf ekki að halda, að her Bandaríkjanna á Íslandi sé einhver vörn á móti sósíalismanum í heiminum. Ef Það eru einhverjir, sem halda það, er það alger misskilningur.

Sósíalisminn getur jafnt sigrað hér á Íslandi og verið kallaður heimskommúnismi, eða hvað sem menn vilja kalla hann, ef menn vitja ekki kalla hann sínu nafni, þó að hér sé amerískur her. Sósíalisminn hefur þegar sigrað á Kúbu, þó að þar sé amerískur her, og almenningsálitið í heiminum er sterkara en nokkur amerískur her sem stendur. Hvenær sem sósialisminn fær fylgi meiri hluta Íslendinga, verður byrjað að byggja hér upp sósíalistískt ríki, jafnvel þó að hér væri enn amerískur her. Og ég ber það miklu meiri virðingu fyrir afstöðu amerískrar ríkisstj. til lýðræðis og þingræðis, að ég held, að hún mundi ekki beita þeim her á móti Íslandi, þó að hún hefði hann hér, meira að segja þó að hún sæi fram á, að e.t.v. yrði hann ekki miklu lengur hérna þar á eftir. Það má hins vegar vel vera, að hæstv. utanrrh. líti öðruvísi á, hann vilji líta á amerískan her á Íslandi sem sérstaka vörn fyrir t.d. auðvaldsskipulag á Íslandi, fyrir Reykjavíkurauðvaldið, fyrir heildsalana hérna, og svo framarlega sem hér ætti t.d. að fara að þjóðnýta olíuhringana, mundi jafnvel vera talið, að nú væri heimskommúnisminn að ryðja sér til rúms á Íslandi, ég tala nú ekki um, ef væri farið að þjóðnýta hér utanríkisverzlunina. Okkur greinir þarna máske dálítið á um lýðræði, vald, rétt og fullveldi einnar þjóðar, og máske höfum við einhverjar mismunandi hugmyndir meira að segja um afstöðu Bandaríkjastjórnar til laga og réttar.

Ég held þess vegna, þegar menn eru að ræða mál eins og þessi íslenzku utanríkismál, að þá sé vert að halda sér við það, sem fyrir liggur, og reyna að kryfja til mergjar, hvað frá sjónarmiði Íslands sé bezt að gera í þeim. Sovétríkin hafa aldrei ógnað Íslandi. Þau hafa ekki allan þann tíma, sem við höfum verið sjálfstætt lýðveldi, sýnt okkur neitt annað en vinsemd. Eini aðilinn, sem við auk Bretlands höfum eitthvað haft að óttast í þessum efnum, hefur troðið á okkar samningum, brotið á okkur samninga, rofið á okkur samninga, það eru Bandaríkin.

Mér finnst það dálitið óhugnanlegt þess vegna, að það skuli koma fram í þessum umræðum hjá hæstv. utanrrh. tvennt svona alveg gagnólikt, að annars vegar skuli hann segja: Utanrrh. Íslands hefur rétt samkv. samningnum 1951 til að gera svo að segja allt, setja herstöð á hvaða stað á Íslandi sem hann kærir sig um að semja um við Bandaríkin og án Þess að spyrja Alþ., en segja svo um leið: Þetta er ekki neitt, sem víð erum að gera. Ég má allt, en ég er ekki að gera neitt. — Þetta virðist vera höfuðinntakið, og þetta er hættulegt. Og af hverju er þetta hættulegt? Af því að þetta er búið í 20 ár að vera það, sem alltaf hefur verið sagt við okkur, það, sem alltaf hefur verið reynt að blekkja okkur með. Hvað var sagt við okkur 1941, þegar Alþ., eftir að amerískur her var genginn á land tveimur dögum áður, eftir að þáv. ríkisstj. höfðu verið settir 24 stunda úrslitakostir að fallast á samning, þar sem stóð, að hún féllist á hann af frjálsum vitja, — en hún féllst á hann með byssustingina á sér, ef svo má segja, — hvað var sagt við okkur þá um þann samning? Jú, hann væri bara meðan stríðið stæði. Svo var hann af Bandaríkjastjórn túlkaður allt öðruvísi, eftir að stríðið var búið, túlkaður þannig, að þeir eru ekki farnir burt af landinu enn, dulklæddu um tíma hermennina, en eru ekki farnir burt af landinu enn. Sá ólöglegi samningur, sem gerður var 1941, var rangtúlkaður af þeim, hann er enn þá grundvöllurinn að því, að þeir eru hérna. 1946 var sagt við okkur: Þetta, sem við erum að gera, það er alveg jákvætt, við erum að láta herinn fara, við erum að gera samning um að láta herinn fara. — Það var reynt alltaf að gera sem minnst úr þessu öllu saman: Við þurfum að gera þetta, við þurfum að gera þennan Keflavíkursamning til þess að losna við herinn, af því að Bandaríkjamenn rangtúlka samninginn frá 1941. M.ö.o.: Bandaríkin sögðu: Við höldum hernum hér, hvernig sem þið lítið á samninginn, ef þið fallizt ekki á Keflavíkursamninginn. Þeir sögðu: Ég er hér með hermennina og byssustingina, og ég fer ekki, nema þið fallizt á þennan samning. — Það var sagt við okkur: Þetta er óttalega saklaust, þetta er bara „civil“-flug, bara flutningar til Þýzkalands. — Og svo var sagt við okkur 1949, — ég held, að ég muni það orðrétt, sem sjálfur hæstv. forsrh. þá sagði, þá flokksforingi hæstv. utanrrh.: „Ef hér væri verið að ræða um það að setja herstöð á Íslandi, þá þyrftum við ekki að tala um þennan samning.“ Það held ég, að Stefán Jóh. Stefánsson hafi sagt þá, — þá þyrftum við ekki að tala um þennan samning, enda var það vel rökstutt þá, það var meira að segja uppáskrift sjálfs utanrrh. Bandartkjanna um, að fram á slíkt yrði ekki farið, því að þetta var svo ósköp lítið, sem verið var að gera, það var bara smáhernaðarbandalag af ást á lýðræðinu, gera bara smáhernaðarbandalag, en við ætluðum ekki að fara í neina herstöð hérna, — þá mundum við alls ekki gera þennan samning, sagði sjálfur forsrh. Og 1951, — jú, það voru einhverjir með eitthvert smásamvizkubit, meira að segja svo mikið, að Morgunblaðið kom sér ekki að því 9. ágúst 1951 að minnast slita þjóðfundarins á 100 ára afmælinu, þeir kunnu ekki við að minnast á, að það hefði verið mótmælt gerræði, sem umboðsmaður konungsins hefði framið, það var enn þá ofur lítil samvizka lifandi víða þá. En 1951, Þegar búið var að hleypa hernum inn, þá var sagt: Þetta er nú bara vegna Kóreustríðsins. Sameinuðu þjóðirnar eiga í stríði, og við erum í Sameinuðu þjóðunum, og við verðum að gera þetta fyrir blessaðar Sameinuðu þjóðirnar. Það er Kóreustríð, þar sem þær eru allar að slást við Kóreu — og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta er nú bara meðan allt ófriðarástandið er í heiminum. — Og svona hefur alltaf verið sagt við okkur, þetta hafa alltaf verið aðfarirnar. Og nú segir hæstv. utanrrh.: Nei, þetta er nú ekki neitt, þetta gerir ekki nokkurn skapaðan hlut, þetta eru einir einustu átta geymar af olíu, og olían lekur þarna út hjá þeim alveg hreint, þetta streymir út í Hvalfjörðinn. Það er ekki um nefna flotahættu að ræða, nei, nei, nei, en ég hef rétt til að semja um hana þegar ég vil, hvenær sem ég vil. Nei, ég er bara að hleypa hérna inn 8 geymum, en ef ég vil, get ég samið við Bandaríkin um flotastöð í Hvalfirði og þarf ekki að tala neitt við Alþ. um það. — Það er þetta, sem mér líkar ekki.

Ég held, að hæstv. utanrrh. sé með ræðum sínum hérna búinn að gefa till. okkar beztu meðmæli, sem hún gat fengið. Hann segir: Ég — og hver sem hefði mitt vald — get samið, ef ég vil, í eitt skipti fyrir öll á grundvelli samningsins frá 1951 um flotastöð í Hvalfirði, flotastöð á Seyðisfirði, flotastöð á Akureyri, flugvelli enn þá víðar á Íslandi, ef vill, ég tala nú ekki um radarstöðvar, ef þyrfti enn meira, — það er víst komið nóg, — ég get þetta allt. Þetta þýðir m.ö.o.: Höfum við verið andvaralausir fram að þessu, er eftir þessar yfirlýsingar óleyfilegt að vera það lengur. Hæstv. utanrrh. er búinn að segja Alþ. það, að þessa þáltill. verði það að samþykkja, ef Það ætlar ekki að gefa einum manni, sem situr í utanrrh: stólnum, alræði til þess að gera Ísland að algeru vopnahreiðri, án þess að minnast á það við Alþ.