13.11.1963
Sameinað þing: 15. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í D-deild Alþingistíðinda. (2825)

29. mál, búfjártryggingar

Flm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Till. sú, sem er á þskj. 29, hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar, að skipuð skuli 5 manna milliþn. til þess að endurskoða lög nr. 20 1943, um búfjártryggingar, svo og lög nr. 8 14. febr. 1961, um Bjargráðasjóð Íslands, og miðist endurskoðunin fyrst og fremst við rækilega athugun möguleika á því að koma á fót tryggingum gegn uppskerubresti og öðrum áföllum í landbúnaði með hliðsjón af aflatryggingasjóði sjávarútvegsins. Skipun nefndarinnar fer þannig fram, að sameinað Alþingi kýs með hlutbundinni kosningu 3 menn í nefndina, en Búnaðarfélag Íslands tilnefnir einn manninn og Stéttarsamband bænda annan. Nefndin kýs sér formann. Nefndin skilar áliti og till. svo fljótt sem henni er unnt. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

Þessi till. var flutt á siðasta Alþingi, en kom ekki einu sinni til umr. og er flutt nákvæmlega samhljóða því, sem þá var. Við flm. teljum, að það sé komin mikil reynsla á lögin um búfjártryggingar, þar sem þau eru 20 ára gömul. Og það má segja, að þessi löggjöf sé tvíþætt, þar sem annars vegar er gert ráð fyrir því, að það sé skylt að tryggja í búfjártryggingadeild gegn hvers konar vanhöldum kynbótahesta, kynbótanaut og kynbótahrúta, sem notaðir eru af félögum eða í kynbótabúum, sem styrks njóta af opinberu fé. Þetta er skyldutrygging. Hins vegar er heimilt að tryggja í búfjártryggingadeild gegn venjulegum vanhöldum og slysum með þeim undantekningum, sem um ræðir í 16. gr., þ.e. hrúta, naut, kynbótahesta, ær á kynbótabúum, kúabú og heil sauðfjárbú, þannig að meginþorri þessara trygginga er heimildarákvæði. Og það hefur líka sýnt sig við framkvæmd þessara laga, að þau hafa ekki náð þeim tilgangi, sem til var ætlazt i upphafi, að menn teldu sér hagfellt að tryggja búfé sitt. Hins vegar hefur þróunin orðið sú, að þeim hefur fækkað ár frá ári, sem hafa tryggt búfé sitt, og þeir einir hafa talið sér hagfellt að tryggja, sem hafa búið við mestu vanhöldin, svo að það hefur af þeim orsökum líka orðið þeim mun óhagstæðara fyrir búfjártryggingadeild Brunabótafélags Íslands og rekstrarhalli orðið meiri með hverju árinu sem hefur liðið. Þannig var komið s.l. haust, eða fyrir ári, að búfjártryggingadeildin taldi sér ekki unnt að taka til tryggingar heil sauðfjárbú, svo að því var hætt með öllu. Og það er litið nú af búfé, sem tryggt er, nema það, sem skyldutryggingin nær til. Iðgjöld eru líka mjög há og hafa farið hækkandi, en þó hafa þær hækkanir ekki nægt til þess að koma rekstri þessara trygginga á hagfelldan grundvöll, þótt tillag hafi nokkuð verið greitt úr ríkissjóði öll árin eða um 300 Þús. kr. árlega, sem veittar eru á fjárlögum til þessara trygginga. Það er því gefið mál, að þessi löggjöf þarf nákvæmrar athugunar við.

Búnaðarfélag Íslands og Brunabótafélag Íslands hafa á undanförnum árum sýnt mikla viðleitni til þess að finna þann grundvöll, sem búfjártryggingarnar gætu starfað á, en það virðist ekki hafa tekizt sem skyldi, þannig að bændasamtökin væru ánægð með þær ráðstafanir. Þess vegna er það, að það hefur vaknað sú spurning nú, hvort það muni heppilegt að athuga búfjártryggingarnar í samráði og sambandi við önnur tryggingamál landbúnaðarins, því að margt er það í landbúnaði, sem er áhættusamt og ótryggt. Bjargráðasjóður Íslands er í mörgum tilfellum góð hjálparhella. En eins og fram kemur í 9. gr. 1., er það ekki einungis landbúnaðurinn, sem á tilkali til hjálpar úr sjóðnum, heldur og sjávarútvegur líka, sem bjargráðasjóðurinn á að geta náð til undir víssum kringumstæðum. Þessi samhjálp er að sjálfsögðu góð, og ber að virða hana, svo langt sem hún nær. En séu mikil áföll til lands og sjávar, er sýnilegt, að bjargráðasjóður getur ekki orðið sú hjálparhella, sem til er ætlazt samkv. l. og þarf að verða undir slíkum kringumstæðum.

Áföll og skaðar eru margvíslegir í landbúnaði. Þótt nægjanlegt fóður sé til fyrir búfé landsmanna, sem bæði verður að gera kröfu til að sé og er í flestum tilfellum nokkuð öruggt, þá eru hætturnar samt margvíslegar, sem yfir vofa. Hríðarveður geta drepið sauðfé haust og vor og jafnvel um hávetur, ef skyndilega skellur á með stórhríð, og allir vitum við, hversu fámennt er orðið á heimilum og erfitt að ná saman sauðfé, ef skyndilega skellur á og fé er fjarri heimilunum, þannig að áhættan er alltaf yfirvofandi og getur valdið miklu tjóni, jafnvel á þeim tímum, þegar maður telur öryggi vera fyrir hendi, að tjón hljótist ekki. Þá er líka alþekkt, hversu óþurrkasumur geta gereyðilagt heyöflun, eins og t.d. s.l. sumar í nyrztu hreppum Strandasýslu og átt hefur sér stað oft og einatt hér á landi, t.d. sumarið 1955 og sumarið 1947, sem heyöflun um meginþorra landsins gekk mjög erfiðlega og heyforði mjög lélegur um haustið, auk þess sem venjulega er árlega í einhverjum landshluta, að veður hamla því, að heyforði sé eins tryggur og þarf að vera. Þá hefur og kal í túnum valdið mjög viða stórtjóni hin síðari ár, t.d. sumarið 1962 á norðausturhluta landsins og víðar. Rok og vond veður valda sums staðar stórtjóni, hús fjúka, heyforði eyðileggst og margs konar mannvirki eru i hættu. Hús brenna, og stundum brennur búfé líka inni, og er það þá venjulega ekki brunatryggt. Og þannig er það líka oft eftir frosta- og fannavetur og þegar eldfjöll gjósa, þá geta margvísleg og stór vandræði steðjað að stórum landshlutum, þannig að landbúnaðurinn getur orðið mjög miklum erfiðleikum bundinn, a.m.k. á tímabili. Þess vegna er það, að það er nauðsynlegt að reyna að finna einhver ráð til að bæta úr, þegar slík vandræði skapast.

Af þeim fáu dæmum, sem ég hef hér nefnt, má öllum ljóst vera þetta öryggisleysi, sem ríkir fyrir þá, sem landbúnað stunda. Eitt einasta óhappaár getur valdið því, að þeir, sem fyrir því verða, eiga aldrei framar fjárhagslega viðreisnar von. Við lifum á öld trygginganna, þar sem hundruðum milljóna er varið til að treysta afkomu og öryggi þegna þjóðfélagsins. Þess vegna verður að finna flöt á því að bæta þau stórfelldu tjón, sem alltaf eiga sér öðru hverju stað í landbúnaði. Það hefur verið leitazt við að skapa öryggi í sjávarútvegi, og það er vel farið, að svo hefur tekizt á mörgum sviðum. Aðrar þjóðir hafa líka skapað öryggi í landbúnaði, t.d. Norðmenn. Þar ríkir veruleg tryggingastarfsemi innan landbúnaðarins. Af þessu eigum við að læra og Þurfum að kynna okkur.

Viðhorf unga fólksins til landbúnaðarins er ekki glæsilegt hin síðari ár, og er það mjög illa farið. Búskapur okkar byggist æ meir og meir á viðskiptum innanlands og utan. Landbúnaðurinn býr ekki lengur að sínu, eins og áður var. Tæknin ryður sér til rúms í ríkum mæli, hún kostar mikið fjármagn, og það kostar líka mjög mikið fjármagn að stofna myndarlegt bú i sveit. En til þess að létta undir og skapa öryggi í fjárútvegun við bústofnsmyndun verður að hafa búið og búfénaðinn tryggðan, svo að þeir, sem fjármagn leggja í landbúnaðinn, eigi ekki á hættu að missa sitt, þótt óhöpp kunni að steðja að. Engum verður heldur fjær skapi en íslenzkum bændum að geta ekki staðið í skilum með sínar skuldbindingar, en það kann að vera erfitt á stundum, þegar illa árar.

Með lögum um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins á að bæta útgerðinni aflabrest, og er nánar í þeim lögum tilgreint, á hvern hátt þeim tryggingum er fyrir komið, í 10. gr. l. Engu skal ég um það spá, hversu víðtækum tryggingum hægt er að koma á í landbúnaði, en ég ætla, að þegar tvær höfuðstofnanir landbúnaðarins, Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda, eiga að hafa menn í ráðum á þessu sviði og við endurskoðun þessara laga, þá verði hagur bænda ekki fyrir borð borinn, enda eru þessi tvö félög brjóstvörn bændastéttarinnar allajafna. Svo er það einnig Alþingi sjálft, sem á að kjósa þrjá menn til að endurskoða þessa löggjöf og endurskoða tryggingamál landbúnaðarins í heild og finna leiðir til úrbóta í þeim efnum. Ég tel það nauðsynlegt, vegna þess að samráð verður að vera á milli bændastéttarinnar annars vegar og Alþingis hins vegar, svo að framgangur málsins verði tryggður með löggjöf, áður en langt um líður. Sé það svo, að nokkrir einstaklingar verða að leggja á sínar herðar stórfellt tjón, þá á þjóðarheildinni ekki að vera um megn að bera þær byrðar sameiginlega, en það er tilgangur tryggingastarfseminnar að verja einstaklinga gegn miklum áföllum, en láta þjóðarheildina koma þar með sinn hlut til að létta þeim byrðarnar, sem fyrir áföllunum verða.

Ég sé ekki á þessu stigi málsins, að ég þurfi hér fleira að segja eða færa meiri rök fyrir mínu máli, en vitna að öðru leyti til þeirrar grg., sem við flm. látum fylgja þessari till. Ég vænti þess, að Alþingi leggi sitt bezta fram til þess að leysa þessi mál, svo að vel fari. Og ég efast ekki um, að góður vilji er fyrir hendi í þeim efnum, þar sem fluttar hafa verið þrjár till. hér á hv. Alþingi um hliðstæð efni og miða í sömu átt. Vænti ég, að þær tillögur verði skoðaðar samhliða og reynt að finna úr þeim það bezta, sem verða má.

Ég legg svo til, að þessu máli verði vísað til allshn. og síðari umræðu.