13.11.1963
Sameinað þing: 15. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í D-deild Alþingistíðinda. (2830)

31. mál, tryggingarsjóður landbúnaðarins

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Á síðasta Alþingi fluttum við Karl Guðjónsson, þáv. þm. Sunnl. till. til þál. samhljóða þeirri, sem ég hef nú leyft mér að flytja hér ásamt hv. 5. landsk. þm. og hv. 5. þm. Reykn. Till. er á þá lund, að Alþingi álykti að skora á ríkisstj. að undirbúa í samráði við Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda löggjöf um tryggingarsjóð landbúnaðarins, sem ætlað sé það hlutverk að tryggja bændastéttina gegn tjóni af völdum uppskerubrests eða öðru tjóni, sem að höndum kann að bera, eins og t.d. vegna óhagstæðrar veðráttu, af völdum náttúruhamfara og af öðrum ástæðum, og við löggjöf þessa skuli höfð hliðsjón af þeim tryggingum, sem sjávarútvegurinn nýtur samkv. l. um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins.

Áður en ég vík að sjálfu efni þessa máls, vil ég geta þess, að á síðasta þingi Sósfl. var að frumkvæði bændafulltrúa, sem þingið sátu, gerð ályktun, sem mjög var á sömu lund og þessi þáltill., og það var í framhaldi af samþykkt þess þings, sem við Karl Guðjónsson fluttum þessa till. á síðasta þingi, Ég tel eftir atvikum rétt að geta um þessa forsögu málsins, þar sem svo skemmtilega hefur viljað til, að till. okkar Karls Guðjónssonar hafði ekki legið hér frammi á hv. Alþingi nema 2—3 daga, þegar birtust tvær aðrar þátill. að mestu eða öllu um sama efni og önnur þeirra því nær samhljóða, þ.e.a.s. till. hv. 1. þm. Vesturl. o.fl. Og flm. beggja þessara till. hafa svo endurflutt þær á því hv. Alþingi, sem nú situr. Það er vissulega ánægjulegt, eins og hv. 1. þm. Vesturl. sagði hér í sinni ræðu, þegar það kemur í ljós, að fyrir hendi er svo eindreginn samstöðuvilji til framkvæmda í nauðsynjamáli, og væri þá ekki ólíklega spáð, að slíkur áhugi þriggja stærstu þingflokkanna entist málinu til samþykktar á þessu þingi til hagsbóta fyrir bændastéttina og löggjafarþinginu til sæmdar. Og það ætti svo ekki að spilla fyrir framgangi málsins, að tveir stærstu þingflokkarnir, þ.e.a.s. þeir, sem oftast hafa talið sig hafa eins konar einkaleyfi á því að fjalla um hagsmunamál bænda, hafa með miklu og lofsverðu snarræði brugðið svo skjótt við á þessu þingi, að við, sem upphaflega fluttum málið, mælum nú fyrir því síðastir. En ég skal ekki kvarta undan því, það er auðvitað aðalatriði um gott mál, að það nái fram að ganga, en hitt algert aukaatriði, hvort það verður frekar þakkað einum eða öðrum eða í hvaða röð menn hafa veitt því stuðning sinn.

Ég tel, að þar óbeinu undirtektir, sem þetta mál hefur fengið með flutningi þriggja þáltill., sýni ótvírætt, að hér er um þarft mál að ræða, og flm. hinna till., bæði hv. 3. þm. Austf. og hv. 1. Þm. Vesturl., hafa í rauninni sparað mér að flytja ýmis rök, sem ég annars kynni að hafa talíð fram þessu máli til framdráttar. Ég get því í ýmsum greinum látið mér nægja að taka undir þau rök, sem þeir hala flutt fyrir sínum till. En það er kjarni þessa máls, að afkomumöguleikar þeirra tveggja atvinnugreina, sem þjóðin hefur lengst byggt afkomu sína á og gerir enn að miklu leyti, þ.e.a.s. sjávarútvegs og landbúnaðar, eru enn þrátt fyrir alla nútímatækni og margvíslegar framfarir að verulegu leyti háðar náttúruöflunum, sem oft má gera ráð fyrir að skapi jafnvel mjög miklar sveiflur, sem geta orðið einstaklingunum ofviða. Í sjávarútveginum hefur verið reynt og það með verulegum árangri að jafna áföll vegna aflabrests og fleyta þeim, sem af þeim sökum fara halloka, yfir erfiðleikana. Þetta hefur verið gert með tryggingastarfsemi aflatryggingasjóðs sjávarútvegsins, en eins og öllum er kunnugt, þá er fjár til hans aflað bæði frá útveginum sjálfum og frá ríkissjóði. Það gegnir í raun og veru hreinni furðu, að ekki skuli enn vera fyrir hendi nein tryggingastarfsemi, sem geti á hliðstæðan hátt tryggt þá, sem stunda landbúnað, að einhverju leyti gegn uppskerubresti og mildað þannig afleiðingar óhagstæðs árferðis, en afleiðingar þess hafa m.a. orðið þær, að það hefur orðið að grípa til sérstakra aðgerða í sérstökum neyðartilfeilum, eins og t.d. 1951 vegna óþurrkanna miklu á Norður og Austurlandi og Suðurlandi 1955. En miklu oftar hafa þó bændur orðið að þola óbætt tjón sitt af mörgum þeim búsifjum, sem eðlilegt og sjálfsagt er að tryggingar nái til, eins og t.d. vegna stórfelldra kalskemmda, sem orðið hafa alveg sérstaklega síðustu árin á stórum landssvæðum og hafa rýrt heyfeng og afkomu bænda jafnvel allt að helmingi, eða svo að tekið sé dæmi af þeirri búgrein, sem nýjust er, en margir binda þó stórar vonir við, þ.e.a.s. kornræktinni, þegar hún bregzt jafnvei í heilum sveitum, sem vafalaust getur komið fyrir, þó að hún hafi öll skilyrði til þess að heppnast venjulega.

Þá vil ég taka undir það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði um nauðsynina á því, að búfjártryggingar séu efldar, en þær eru nú mjög ófullkomnar, eins og hann rakti ýtarlega í sinni ræðu.

Það er vafalaust ekki vandalaust verk að byggja upp sæmilega fullkomna tryggingastarfsemi i þágu landbúnaðarins og vafalaust margt í þeim efnum, sem torveldara kann að reynast í framkvæmd en við fyrstu ráðagerð. Og það veltur Þess vegna áreiðanlega á miklu, að vel sé til vandað og fullt samráð sé haft við samtök bænda um allan undirbúning og framkvæmdir í þessu máli, eins og við flm. leggjum til.

Ég vil svo aðeins ljúka orðum mínum með því að láta enn í ljós þá von, að sá áhugi, sem sýnilega er vakinn fyrir þessu máli, megi fleyta því til lokaafgreiðslu og samþykktar á yfirstandandi þingi. Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að umr. verði nú frestað og málinu vísað til allshn.