20.11.1963
Sameinað þing: 18. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í D-deild Alþingistíðinda. (2845)

38. mál, þjóðhagsáætlun fyrir árin 1964-1968

Flm. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði í ræðu hæstv. viðskmrh., sem hann hélt í þessu máli s.l. miðvikudag, sem gefa mér tilefni til þess að kveðja mér hljóðs. Hæstv. viðskmrh. hefur farið frá. (Gripið fram í: Hann var hér fyrir stundu síðan.) Hæstv. viðskmrh. hélt því fram þá, að ég væri að reyna að gera lítið úr því markmiði, sem ríkisstj. hefði sett sér um hagvöxt í landinu í þeirri áætlun, sem hún lagði fram í vor. Og það má víssulega til sanns vegar færa, að ég hefði reynt að gera lítið úr því, en þó ekki minna en efni stóðu til. Sannleikurinn er nefnilega sá, að ríkisstj. hefur sjálf gert næsta litið úr þessu markmiði sinu. Ef við sláum upp á bls. 20 í þjóðhagsáætlun ríkisstj., má þar lesa þessa setningu: „Sá vöxtur þjóðarframleiðslu á mann, sem búast má við að unnt sé að ná á Íslandi, liggur því milli markanna 2% og 4% á mann, en það er á þessu bili, sem hagvöxturinn hefur verið síðan 1955 í langflestum löndum Vestur-Evrópu.“ Þ.e.a.s. milli 2% og 4% á mann er eðlilegt markmið að dómi ríkisstj. sjálfrar. Að svo mæltu velur hún sér markmið, sem er 2.2 í hæsta lagi eða 2, eftir því, hvernig fólksfjölgunin er áætluð, sem sagt eins lágt og mögulegt er innan þess ramma, sem talinn er raunsær. Það er þess vegna ekki ég einn, sem er að gera lítið úr þessu markmiði. Það kom einnig fram í ræðu hæstv. viðskmrh., að hann var ekki sérlega stoltur yfir þessu markmiði. Hann sagði annars staðar i ræðu sinni, þar sem hann var að tala um framleiðsluaukninguna alls, ekki á mann, að þetta mark, sem hefði verið sett, 4%, í því tilliti, væri ekki einsdæmi Ég hef ekki haldið því fram, að það væri einsdæmi, en ég hef haldið því fram, að það væri of lágt fyrir okkur Íslendinga, þjóð, sem er í mjög örri fjölgun. Enn fremur sagði hæstv. viðskmrh., að vöxturinn hefði verið tæplega þetta, tæplega það, sem gert er ráð fyrir í þjóðhagsáætluninni, á þeim tíma, sem Framsfl. hefði sett svip sinn á stjórnmálin. Nú er framleiðsluaukningin áætluð 4%, en ef við lítum á bls. 38 í þjóðhagsáætluninni, þar sem birtir eru þjóðhagsreikningar undanfarinna ára, þá sjáum við eftirfarandi: Vöxtur vergrar þjóðarframleiðslu, sem við erum hér að tala um, var á tímabilinu 1955—1962 4.1%, sem sagt aðeins hærri en nú er gert ráð fyrir. En á tímabilinu 1955—1959, en þetta tímabil næstum allt var Framsfl. í stjórn, var vöxturinn þó 4.4%, en á tímabilinu 1960—1962 segir þessi sama áreiðanlega heimild, að vöxturinn hafi verið 3.7%. Ég veit ekki, hvort hæstv. viðskmrh. meinar, að það sé þetta tímabil, árin 1960—1962, sem Framsfl. hafi sett sérstaklega svip sinn á, en ef hann hefur meint það, þá vísa ég þeirri ásökun heim til föðurhúsa.

Hæstv. viðskmrh. taldi einnig í þessari ræðu sinni, sem ég nú er að gera að umræðuefni, að það gætti nokkurs misskilnings eða jafnvel villandi málflutnings hjá mér í framsöguræðu minni og einnig í grg., þar sem hann taldi, að ég bæri saman 4.6% vöxt þjóðarteknanna á undanförnum árum annars vegar og hins vegar 4% áætlaðan vöxt þjóðarframleiðslunnar. Þetta er ekki rétt hjá hæstv. viðskmrh. Ég bar saman þjóðartekjurnar í báðum tilfellum, enda segir bæði á bls. 30 og á bls. 33 í þjóðhagsáætluninni, að aukning þjóðarteknanna sé einnig áætluð 4% á áætlunartímabilinu. Ég tók það hins vegar skýrt fram í framsöguræðu minni, að það væri engan veginn fyrir okkar tilverknað sjálfra, sem þjóðartekjurnar hefðu aukizt svo miklu meir en þjóðarframleiðslan á undanförnum árum, heldur ættum við það að þakka hagkvæmum ytri aðstæðum. Hins vegar er óvarlegt, eins og ríkisstj. sjálf segir, að gera ráð fyrir því, að viðskiptakjörin fari áframhaldandi batnandi og þess vegna sé ekki hægt að gera ráð fyrir, að þjóðartekjurnar aukist meira en þjóðarframleiðslan. En einmitt ef viðskiptakjörin hætta að batna, þá er þeim mun meiri ástæða fyrir okkur til þess að reyna að vega það upp með auknum hraða í framleiðsluaukningunni. Það er þetta atriði, sem ég vildi benda á og reyndi að benda á, og ég held, að menn hafi ekki þurft að misskilja mig í því efni, ef þeir vildu skilja orð mín rétt.

Það hefur lengi verið talið drengskaparbragð á Íslandi að tala hlýlega um gamla vini sína, þó að eitthvað kunni að hafa sletzt upp á vinskapinn. Hæstv. viðskmrh. hefur hins vegar tamið sér nokkuð sérstæðan og einkennilegan málflutning, þegar hann ræðir um fyrri vini sína. Hann taldi í ræðu sinni hér t.d., að Framsfl. hefði beitt sér gegn og komið í veg fyrir framkvæmd till. hans, hæstv. ráðh., í vinstri stjórninni. Út af fyrir sig sé ég ekki ástæðu til þess að vefengja það, ef hæstv. viðskmrh. telur henta að halda því fram, að hann hafi átt erfitt með að koma till. sínum fram i vinstri stjórninni og ekki verið þar mjög áhrifamikill. En hitt er ekki rétt, að Framsfl. hafi ævinlega verið andvígur áætlunargerð þar til nú. Ég hlýt að minna hæstv. viðskmrh. á það, að þó að áætlunargerðir hafi auðvitað breytt mjög um form, eftir því sem tímarnir hafa liðið, og þær þjóðhagsáætlanir, sem nú tíðkast, séu ekki gamalt form, þá er nú ýmiss konar áætlunargerð og planökónómía töluvert gamalt fyrirbrigði, og ég hlýt að minna á það í þessu sambandi, að strax á árinu 1934 beitti Framsfl. sér fyrir því í samvinnu við flokk hæstv. viðskmrh., að sett var á stofn nefnd, sem vann um nokkurt skeið að áætlunargerð af ýmsu tagi. Þessi nefnd var kölluð, ef ég man rétt, skinulagsnefnd atvinnuveganna, en gekk undir nafninu „Rauðka“ meðal almennings. Ég hlýt einnig i þessu sambandi að minna hæstv. viðskmrh. á það og raunar hv. 3. þm. Reykv. líka, sem sá ástæðu til þess að taka undir þennan málflutning hæstv. viðskmrh., að á árinu 1947 stóð Framsfl. ásamt flokki hæstv. viðskmrh. og raunar Sjálfstfl. einnig að stofnun fjárhagsráðs, sem átti að hafa það hlutverk að gegna áætlunarstörfum, þó að það verði að viðurkennast, að ýmsar ástæður leiddu til þess, að þeim árangri varð ekki náð í því efni, sem vonir stóðu til. Á árinu 1952 var það fyrir forgöngu þáv. fjmrh., hv. 1. þm. Austf., að lögfest voru lög um Framkvæmdabanka Íslands, meðal þeirra hlutverka, sem honum voru ætluð, var einmitt a.m.k. viss þáttur áætlunargerðar, og það kom greinilega fram í framsöguræðu hv. 1. þm. Austf., þáv. fjmrh., að hann hafði þessa hluti mjög í huga við undirbúning málsins um Framkvæmdabanka Íslands. Ég sé ekki ástæðu til sérstakra tilvitnana í ræðu hans um þetta efni, en ég vil benda mönnum á, sem áhuga hafa á, að kynna sér það, og þá sérstaklega hæstv. viðskmrh.

En hverjar skýringar eru þá á því, að ekki er gerð þjóðhagsáætlun á árinu 1956? Þegar ég leita skýringa á því fyrirbrigði, verður mér fyrst fyrir sú mjög svo eðlilega skýring, sem fram kemur í þjóðhagsáætlun ríkisstj.. á bls. 14, með leyfi hæstv. forseta. Þar stendur: „Til þess að hægt sé að gera almennar þjóðhagsáætlanir, þarf fyrst og fremst að vera til haldgott kerfi þjóðhagsreikninga fyrir liðinn tíma, mikil almenn þekking á atvinnulífi landsins og sem nýjastar upplýsingar um þróun efnahagsmála.“

Fyrsta tilraunin til þess að gera þjóðhagsreikninga að nokkru gagni á Íslandi var gerð af hagfræðideild Framkvæmdabankans og hófst líklega á árinu 1954. Það er vitað mál og öllum kunnugt, að niðurstöður þess mjög þarfa starfs, sem þar hefur verið unnið. voru ekki orðnar neinar verulegar fyrr en nú fyrir örfáum árum, og meira að segja á bls. 13 í þjóðhags- og framkvæmdaáætlun ríkisstj. segir frá því, að starf hinna norsku hagfræðinga, sem hingað hafi verið fengnir, hafi reynzt miklum erfiðleikum bundið. — það var víst á árinu 1962, ef ég man rétt, eða 1961, — vegna þess að frumgögn þau, sem stuðzt er við í slíkri áætlunargerð, voru ekki til hér á landi nema að litlu leyti og í ófullkominni mynd. Hagfræðingar Framkvæmdabankans og síðar Efnahagsstofnunarinnar hafa sífellt verið að betrumbæta sína reikninga og eru að því enn, og það er ekki fyrr en núna nýlega, að nokkur grundvöllur hefur verið fyrir því að gera þjóðhagsáætlun af því tagi, sem hér er um að ræða. Hins vegar er rétt í þessu sambandi, þegar Framsfl. er borinn þeim sökum að hafa sífellt sýnt þessum málum áhugaleysi, að benda á, að einmitt á árinu 1956 lét Framsfl. í ljós áhuga sinn og vilja til þess að taka þátt í slíkri áætlunargerð, og ég vil í því sambandi leyfa mér að lesa hér upp, með leyfi hæstv. forseta, örfáar setningar úr framsöguræðu þáv. hæstv. fjmrh. fyrir fjárlagafrv. fyrir árið 1957.

„Eitt af því," segir þar, „sem mundi geta glætt skilning á þessum efnum og bætt vinnuskilyrði þeirra á Alþ. og utan þings, sem að þessu vilja keppa, væri þjóðhagsáætlun, sem fylgdi fjárlagafrv. hverju sinni, eins konar fjárlög fyrir þjóðarbúskapinn í heild, þar sem reynt væri að gera grein fyrir tekjum og gjöldum þjóðarbúsins ásamt fyrirhuguðum framkvæmdum, svo að nokkur atriði séu nefnd. Kæmi þá gleggra í ljós margt af því, sem þarf að fá sem skýrasta mynd af, t.d. hve fjárfestingin í heild getur með góðu móti verið mikil, án þess að getunni sé ofboðið, hvort þjóðartekjur séu vaxandi og hvort gera megi ráð fyrir, að neyzla geti farið vaxandi miðað við þjóðartekjur og nauðsynlega fjárfestingu, svo að dæmi séu nefnd. Samkvæmt lögum Framkvæmdabankans er í þeirri stofnun dregið saman mikið efni í slíka þjóðhagsáætlun, og vona ég að þess verði ekki langt að bíða úr þessu, að þjóðhagsáætlun geti fylgt fjárlagafrv.“

Og að endingu vil ég minna á það, þá hv. þm. og hæstv. ráðh., sem klifa á áhugaleysi Framsfl. í þessum efnum, að á Alþ. 1960. þskj. 92, er till. til þál. um undirbúning löggjafar um framleiðslu- og framkvæmdaáætlun þjóðarinnar, flutt af hv. þm. Gísla Guðmundssyni, Ólafi Jóhannessyni, Páli Þorsteinssyni. Halldóri E. Sigurðssyni, Karli Kristjánssyni, Einari Ágústssyni, Garðari Halldórssyni og Eysteini Jónssyni.

Ég hef hér drepið á nokkur atriði, sem hæstv. viðskmrh. gætt að skaðlausu haft í huga, áður en hann ber fyrri samstarfsmenn sína ósanngjörnum og röngum sökum um þetta efni.

Hæstv. viðskmrh. greip á lofti í ræðu sinni um þetta mál setningu úr greinargerðinni með þessari till., sem hljóðar svona: ,.Hér á landi gera nú fleiri og fleiri sér ljóst að með óbreyttum þjóðartekjum getur ein stétt ekki bætt kjör sín nema á kostnað annarrar.“ Þessa setningu taldi hæstv. viðskmrh. vera réttlætingu fyrir þvingunarlögum gegn þeim lægst launuðu og taldi, að við framsóknarmenn, sem bæði hefðum sagt þessa setningu og einnig beitt okkur gegn þvingunarlögunum á dögunum, værum orðnir alvarlega tvísaga. Ég þarf víst ekki að fara mörgum orðum um það, hversu öfgakenndur slíkur málflutningur er. Þessi setning, sem hér er tekin upp úr grg. þessarar þáltill., er oft endurtekin staðreynd, sem ekki getur orðið neinn ágreiningur um, a.m.k. ekki fyrr en farið er að draga ályktanir af þessari staðreynd. En út frá þessari staðreynd má að sjáifsögðu álykta með Ýmsu móti. Hæstv. viðskmrh. ályktaði út frá þessari setningu, að ekki mætti hækka kaup hinna lægst launuðu. Ef menn eru ánægðir með tekjuskiptinguna í landinu og þá breytingu, sem orðið hefur á henni að undanförnu, þá er þessi ályktun rökrétt. En flutningsmenn draga aðra ályktun af þessari setningu. Þeir draga þá ályktun, að það verði að leggja megináherzlu á að auka framleiðsluna. Báðar þessar ályktanir eru að sínu leyti, miðað við hinar gefnu forsendur, algerlega rökréttar. Önnur er bara neikvæð, en hin jákvæð. Önnur miðar að því að sætta menn við ófullnægjandi ástand í þessum efnum, hin miðar að því að bæta það.

Hæstv. viðskmrh, byrjaði ræðu sína, ef ég tók rétt eftir, með því að fagna þeim anda, sem fram kæmi í þeirri till., sem hér er til umr., en hann gat ekki mælt með samþykkt hennar vegna þess, að hann taldi óeðlilegt, að þessi mál væru í höndum þingkjörinnar nefndar, og sagðist hvergi annars staðar þekkja þess dæmi. Þó að það væri rétt, að þess þekkist ekki annars staðar dæmi, sem ég hef þó nokkra ástæðu til að efast um, þá eru það í sjálfu sér engin rök. Flm. þessarar till. telja málið bezt komið í höndum þingkjörinnar nefndar, eins og nú er ástatt. Hæstv. viðskmrh. verður sjálfsagt ekki sammála okkur um það, eins og sakir standa nú, og verður við það að sitja.