20.11.1963
Sameinað þing: 18. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í D-deild Alþingistíðinda. (2846)

38. mál, þjóðhagsáætlun fyrir árin 1964-1968

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Höfuðástæða þess, að ég kvaddi mér hljóðs um þessa till., þegar hún var hér síðast til umr., var það, að bæði í framsöguræðu hv. 1. flm. og í grg. till. var veitzt að framkvæmdaáætlun ríkisstj. með þeim rökum, að henni væri sett lágkúrulegt markmið, þar sem gert var ráð fyrir því, sem kallað var aðeins 4% aukning þjóðarframleiðslu og þjóðartekna á áætlunartímabilinu. Mér þótti og þykir enn þessi ádeila vera ósanngjörn. Hún var auk þess studd algerlega röngum rökum, þegar því var haldið fram, að markmiðið í framtíðinni væri sett mun lægra en reynsla fortíðarinnar hefði verið. Ég benti þegar á það, að hér er um misskilning eða rangtúlkun að ræða, vöxtur þjóðarteknanna hefði að vísu verið nokkuð yfir 4% nokkur undanfarin ár, s.l. 5 ár, en þjóðarframleiðslan hefði hins vegar ekki vaxið nema um 4%. Það, sem gert væri ráð fyrir í framkvæmdaáætluninni, væri að gera ekki ráð fyrir neinum mun þjóðarframleiðslu og þjóðartekna. Ég útskýrði á miðvikudaginn var, í hverju sá hugtakamunur er fólginn, þ.e.a.s., að ekki væri gert ráð fyrir neinni breytingu, hvorki til hins betra né til hins verra, á viðskiptakjörum þjóðarinnar gagnvart útlöndum. Þess vegna væri tala framkvæmdaáætlunarinnar um 4% árlegan vöxt tala, sem raunverulega væri áætlun um 4% vöxt þjóðarframleiðslunnar, og það væri sama tala og þjóðarframleiðslan hefði vaxið um á undanförnum árum. Ef viðskiptakjör skyldu reynast batna á næstu árum, eins og þau hafa gert á undanförnum árum, þá mundi vöxtur þjóðarteknanna verða jafnmiklu meiri á áætlunartímabilinu og hann hefur reynzt á undanförnum 4—5 árum. Það er því beinlínis rangtúlkun, þegar því er haldið fram, að það, sem í framkvæmdaáætluninni sé gert ráð fyrir, sé eitthvert lægra mark að að keppa heldur en reynslan hefur gefið tilefni til þess á undanförnum árum, að vænta megi.

Þá þótti mér þessi ósanngirni einnig vera ómakleg vegna þess, að hún kæmi frá þeim flokki, sem setið hefði í ríkisstj. lengst af s.l. 15 ár, eða allar götur frá því að stríði lauk, þar til núverandi stjórnarfiokkar tóku við völdum, en einmitt á þessu tímabili hefði meðalaukning þjóðarframleiðslunnar ekki náð 4% markinu og verið mun lægri en átt hefur sér stað í flestum grannlöndum Íslands. Og ég lýsti eftir svari við þeirri spurningu, hvers vegna Framsfl., sem telur sig þess umkominn að telja 4% aukningu, 4% árlegan hagvöxt, vera eitthvað óumræðilega lítilmótlegt og lélegan árangur af starfrækslu þjóðarbúsins, — hvers vegna honum tókst þá ekki að stuðla að því a.m.k., að hagvöxtur þjóðarframleiðslunnar hefði verið hærri síðan í stríðslok, eða á þeim árum, sem hann hafði veruleg áhrif á mótun stefnunnar í efnahagsmálum.

Ég fékk engin svör við þessari spurningu í ræðu hv. 1. flm. hér áðan. En sannleikurinn er sá, að höfuðástæða þess, að hagvöxturinn hefur hér á Íslandi á árunum eftir síðari heimsstyrjöldina verið hægari en hann hefur verið í ýmsum öðrum, jafnvel flestum öðrum löndum Vestur-Evrópu, er án efa sú, að Íslendingar hafa ekki mannað sig upp í það fyrr en á árunum 1959—1960, — eða á árinu 1960, með þeirri stefnu, sem þá var tekin upp, að hverfa frá stefnu í efnahagsmálum, sem fyrst og fremst átti rót sína að rekja til styrjaldaráranna, til nauðsynja styrjaldaráranna, sem hins vegar er ekki nauðsyn uppbyggingarára að styrjöld lokinni. Íslendingar drógust í hálfan annan áratug með margs konar leifar styrjaldarstefnu í efnahagsmálum, losuðu sig ekki við þá stefnu — með þeim árangri, að hagvöxturinn hér var lægri en í flestum öðrum löndum Vestur-Evrópu.

Hins vegar var gerð ýtarleg og rækileg og róttæk tilraun til þess að breyta stefnunni í efnahagsmálum 1960, með þeirri stefnu, sem ríkisstj. Emils Jónssonar undirbjó og síðan var framkvæmd og hefur verið framkvæmd af krafti og dugnaði af þeim stjórnarflokkum, sem nú fara með völd. Megintilgangur hinnar nýju stjórnarstefnu var einmitt og er einmitt sá að leggja hér grundvöll að örari hagvexti en hér átti sér stað að meðaltali á árunum 1945–1960.

Hitt verða þó allir raunsæir menn að gera sér ljóst, að það er ekkert lítið átak að gerbreyta grundvaltarstefnu þjóðar í efnahagsmálum svo, að það geti skilað árangri á 3—4 árum. Sannleikurinn er sá, að í nútímaþjóðfélagi, sérstaklega háþróuðu nútíma iðnþjóðfélagi, eins og íslenzka þjóðfélagið er orðið, er um svo flókinn búskap að ræða, að snögg umskipti geta ekki orðið í hagvexti og á lífskjörum manna. Slík snögg umskipti geta orðið með róttækum aðgerðum. Þegar er verið að breyta frumstæðum bændaþjóðfélögum í iðnaðarþjóðfélög, þegar verið er að breyta þjóðfélagi. sem mótazt hefur af sveitabúskap, í borgarþjóðfélag, sem grundvallast á verksmiðjurekstri og notar tækni í mjög verulegum mæli, þá er hægt að gera róttækar breytingar á sviði hagvaxtar og lífskjara á tiltölulega stuttum tímabilum, t.d. áratug, en um skemmri tíma er varla að ræða til öruggs samanburðar í þessum efnum. En þegar þjóðfélag einu sinni hefur náð því þroskastigi, sem íslenzka þjóðfélagið hefur orðið, þá takmarkast möguleikarnir mjög verulega, og við snöggum umskiptum er þar ekki hægt að búast.

Þetta eru meginrökin fyrir því, grundvallarhugsunin í því, að ríkisstj. taldi ekki skynsamlegt — með sérstakri hliðsjón af mikilli þjóðarframleiðslu og háum þjóðartekjum íslendinga — að gera ráð fyrir neinni grundvallarbreytingu á hagvextinum á næstu 4 árum, miðað við það, sem hafði verið á 4 s.l. árum, einkum og sér í lagi þegar þess er að gæta, að þetta mark, 4% árlegur hagvöxtur á næstu árum, er það mark, sem Efnahags- og framfarastofnunin í París, sem háþróuðustu iðnveldi Evrópu og Ameríku eru aðilar að, hefur sett sér sem sameiginlegt mark fyrir alla efnahagsheildina. Þar var fyrir 2 árum, að undangengnum ýtarlegum undirbúningi og ýtarlegum rannsóknum, ákveðið, að stefnt skyldi á síðari helmingi áratugsins 1960—1970 að 4% meðalhagvexti í aðildarríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar. Þetta studdi og þá skoðun, að eðlilegt væri og heilbrigt að keppa að því hjá allháþróuðu iðnaðarríki, eins og Ísland er, að hafa hagvöxtinn um 4% á ári á næstu árum.

Hins vegar má ekki skilja slíkar tölur, sem eru heildarniðurstaða mjög sundurliðaðrar framkvæmda- og þjóðhagsáætlunar, þannig, að svo hljóti endilega að fara, að þetta þýði það, að ríkisstj. undir engum kringumstæðum treysti sér eða vilji vinna að því, að hagvöxturinn verði enn örari. Það kemur í ljós á hverju ári við skoðun á aðstæðum, hvort unnt er að setja markið enn hærra, og ef tekst að halda skynsamlegu jafnvægi í þjóðarbúskapnum, sem er frumskilyrði þess, að jafnvel 4% hagvöxtur náist, ef tekst að halda skynsamlegu jafnvægi í þjóðarbúskapnum og haga heildarstjórn efnahagsmálanna skynsamlega að öðru leyti, ef tekst að forðast alvarlega verðbólgu, getur vel svo farið og samrýmist framkvæmdaáætlunum fullkomlega, að hagvöxturinn verði örari en 4%, t.d. 5, jafnvel 6%. En eins og ég færði nokkur rök að í ræðu minni á miðvikudaginn, er varkárni í þessum efnum skynsamlegri en hitt, að villa um fyrir bæði þjóðinni, atvinnurekendum og launþegum með því að hafa óraunhæfar tölur í áætlunum. Það er betra að hafa raunhæfar tölur í áætlunum og láta síðan reynsluna verða hagstæðarí, ef þjóðin ber gæfu til þess að halda þannig á efnahagsmálum sínum í heild, að sú geti orðið niðurstaðan. En reynslan hefur sýnt undanfarin ár og er ekki hvað sízt að sýna núna, hversu miklum erfiðleikum er bundið að halda jafnvægi í þjóðarbúskap eins og hinum íslenzka, með hliðsjón af þróuninni undanfarna áratugi, en á því er ekki nokkur minnsti vafi, að ekkert er eðlilegum og örum hagvexti jafnskaðlegt og verðbólguþróun, stöðugt kapphlaup á milti verðlags og kaupgjalds.

Með þessum orðum vildi ég aðeins gera grein fyrir því, hvernig á því stóð, að ég blandaði mér inn í þessar umr. á miðvikudaginn var, og hvað það var, sem ég hafði fyrst og fremst talið ástæðu til þess að gera aths. við í málflutningi hv. 1. flm. þá og grg., sem hann hafði birt fyrir sinni till. Hitt er svo annað mál, og því vildi ég bæta við núna í ljósi þeirra umr., sem fóru hér fram s.l. miðvikudag, að það er ekki aðeins, að illa sitji á Framsfl. að deila á framkvæmdaáætlun ríkisstj. og það markmið, sem í henni felst, að illa sitji á honum að deila á það markmið, vegna þess að hann hefur, þegar hann hefur setið í ríkisstj., ekki getað átt aðild að örari hagvexti en þetta, heldur þvert á móti. Það situr einnig sérstaklega illa á hv. Framsfl. að deila á þetta markmið ríkisstj., þegar hans efnahagsmálastefna almennt, og þó alveg sérstaklega þegar hans stefna í málefnum landbúnaðarins er skoðuð, og það langar mig að gera nú nokkru nánar en ég hafði aðstöðu til að gera s.l. miðvikudag. En Framsfl. telur sig alveg sérstakan málsvara landbúnaðarins og bændastéttarinnar og gumar mjög af því að hafa átt meginþáttinn í að móta þá stefnu, sem hér hefur verið fylgt í landbúnaðarmálum undanfarna áratugi, og þá væntanlega er þeirri stefnu sammála og telur hana hafa verið til góðs, ekki aðeins fyrir íslenzka bændur, heldur væntanlega fyrir þjóðarbúið íslenzka í heild. En um landbúnaðinn almennt er það að segja, að af þremur framleiðslugreinum íslenzks þjóðarbúskapar, þ.e.a.s. sjávarútvegi, iðnaði og landbúnaði, er framleiðni í landbúnaði langsamlega minnst og hún er langt undir meðaltali framleiðni í sjávarútvegi og iðnaði, ef þær tölur eru teknar saman. Sannleikurinn er sá, að framleiðsluafköst landbúnaðarins, framleiðni í landbúnaði er svo lítil hér á Íslandi, að það er hagvextinum verulega fjötur um fót.

Þetta er raunar ekki einstakt fyrirbæri fyrir Ísland. Hér er um að ræða fyrirbæri, sem er alþekkt um alla Vestur-Evrópu og raunar talið grundvallaratriði í efnahagsvandamálum VesturEvrópu, og þess vegna atriði, sem þar er þrautrætt og allir ábyrgir og skynsamir menn, hvar í flokki sem þeir standa, hafa gert sér fullkomlega ljóst. En hér á Íslandi virðast stjórnmálaumr., umr. um efnahagsmál, aftur á móti vera á því stigi, að ef á þessa staðreynd er minnzt, að framleiðni i landbúnaði hafi vaxið miklu minna en átt hefur sér stað um aðrar greinar og vaxið svo miklu minna og sé svo langt á eftir framleiðni í t.d. iðnaði — og hér á Íslandi má segja í sjávarútvegi, þá er um þetta hrópað sem níð um bændur, sem ofsókn í garð landbúnaðarins. Slíkt tal heyrist ekki, þar sem umr. um stjórnmál og efnahagsmál eru á sæmilega háu stigi.

Hér var staddur á s.l. sumri þáv. efnahagsmálaráðh. Dana, prófessor Kjeld Philip, þekktur fræðimaður í heimalandi sínu og víðar. Hann hélt hér í Háskóla Íslands fyrirlestur um vandamál landbúnaðar í Vestur-Evrópu. Og hann skyrði þar frá athugunum, sem gerðar hefðu verið og leitt hefðu það í ljós, að framleiðslukostnaður vestur-evrópsks landbúnaðar væri svo miklu hærri en fá mætti hliðstæðar vörur fyrir frá öðrum löndum, öðrum svæðum heimsins, sem betur væru fallin til landbúnaðar en Vestur-Evrópulöndin yfirleitt, að telja mætti, að 40% af tekjum bænda í Vestur-Evrópu væru greiðsla frá samfélaginu, frá öðrum stéttum, frá samfélaginu í heild í beinu eða óbeinu formi, m.ö.o., að vestur-evrópskir bændur í heild fengju u.þ.b. 40% tekna sinna í beinan og óbeinan styrk frá samfélaginu í heild. Ég varð ekki var við, að þetta væri kallaður neinn landbúnaðarfjandskapur eða bændafjandskapur af hálfu þessa ágæta fræðimanns, sem þarna átti hlut að máli, enda vita allir, sem fylgjast með umr, um efnahagsmál og ekki sízt landbúnaðarmál í öðrum löndum, þó að ég vilji ekki bera ábyrgð á þessari tölu og hef raunar ekki getað kynnt mér neitt grundvöllinn að henni, þá eru þetta í stórum dráttum alþekktar og alkunnar og alviðurkenndar staðreyndir.

En hvernig skyldi þessu vera háttað hér á Íslandi? Hvernig skyldi staða íslenzks landbúnaðar vera, ef hún er skoðuð út frá svipuðum forsendum og prófessor Kjeld Philip gerði að umtalsefni í háskólafyrirlestri sinum á s.l. sumri? Ef við viljum meta þjóðhagslegt gildi landbúnaðarins, þ.e.a.s. ef við viljum meta raunverulegan skerf hans til þjóðarbúsins, ef við viljum horfa burt frá öllum innanlandsráðstöfunum, sem við hér gerum til að halda uppi verði á landbúnaðarvörum innanlands, sem við gerum með því að veita landbúnaðinum margs konar styrk og með því að styrkja hans aðstöðu með samgöngubótum og raforkudreifingu og þar fram eftir götunum, — ef við horfum burt frá öllu þessu, þá má segja, að tvær aðferðir komi til greina til að gera sér grein fyrir skerfi landbúnaðarins til þjóðarframleiðslunnar í heild, ef um styrkjalausan rekstur væri að ræða. Hin fyrri má segja að væri sú í stórum dráttum að reikna út, fyrir hvaða verð mætti fá þær vörur, sem framleiddar eru hér í landinu, eða hliðstæðar vörur erlendis frá og hvað þær kostuðu komnar á land hér á Íslandi, í samanburði við framleiðslukostnað þann, sem þjóðfélagið í heild nú greiðir íslenzku bændastéttinni fyrir þessar framleiðsluvörur. Hin aðferðin er sú að gera sér grein fyrir því, hvað verð til bænda reynist hér á Íslandi samkv. þeim skýrslum, sem eru mjög nákvæmar, sem til eru um það efni, og svo hins vegar, hvað bændur í nágrannalöndunum fá fyrir sams konar vöru til sín, og bera saman þessi tvö verð. Það væri mjög flókið reikningsdæmi að gera þetta nákvæmlega upp eftir hvorri aðferðinni sem valin væri. En ýmislegt bendir til, að ekki mundi verða um mjög verulegan mismun á niðurstöðunni að ræða. En ástæðan til þess, að erfitt er að beita hvorri aðferðinni um sig á alla íslenzku landbúnaðarframleiðsluna, er sú, að annars vegar er mjög erfitt að gera sér grein fyrir því, hvað nýmeti, eins og mjólk t.d., mundi kosta hingað komið, ef gera ætti ráðstafanir til að kaupa hana erlendis að. Það yrði þó væntanlega um gervimjólk að ræða, sem komið gæti til samanburðar. Það má mjög deila um gæði, a.m.k. bragð, þótt næringargildi sé að vísu svipað. En þetta er útreikningur, sem yrði svo miklum erfiðleikum háður, að ég mundi ekki mæla með því, teldi varla ómaksins vert að reyna hann. Það, sem gerði aftur á móti torvelt að bera saman annars vegar, hvað bændur á Íslandi fá í verð til sín fyrir alla heildarlandbúnaðarframleiðsluna og hvað bændur annars staðar fá til sín fyrir sams konar landbúnaðarframleiðslu, er það, að ein helzta afurðin hér, dilkakjötið, er ekki framleidd sem aðalafurð annars staðar með sama hætti og hér er gert. Það yrði þá að taka aðrar kjöttegundir, sem eru aðalkjöttegundir annars staðar, til samanburðar, og sá samanburður gæti orðið mjög erfiður eða a.m.k. hann mætti vefengja mjög mikið. En með því að blanda þessum aðferðum saman, nota hvora aðferðina um sig, þar sem hún á við, þá má fá hugmynd, sem í grundvallaratriðum er tvímælalaust rétt til mats á heildarskerf landbúnaðarins til þjóðarframleiðslunnar. Og um þetta hef ég hér. nokkra útreikninga, sem ég vildi gjarnan gera grein fyrir niðurstöðunum af í mjög stuttu máll.

Samkv. verðlagsgrundvellinum eru tekjur af sölu mjólkur og kindakjöts 77% heildarteknanna. Ef ull og gærum er bætt við, þá eru það 89% heildarteknanna, en ull og gærur og fleiri afurðir eru settar inn í verðlagsgrundvöllinn á væntanlegu útflutningsverðmæti að frádregnum áætluðum kostnaði við vinnslu, flutninga o.fl. Gildir því fyrst og fremst um sölumjólk og kindakjöt munurinn á því verði, sem framleiðendur hér fá fyrir þessar afurðir, og því verði, sem starfsbræður þeirra erlendis fá fyrir þær eða hliðstæðar vörur. Og þar sem þær eru meira en 3/4 af heildartekjum íslenzkra bænda, ætti athugun, nánari útreikningur, eins og ég mun skýra hér frá á eftir, á grundvelli þeirra að gefa mjög áreiðanlegar vísbendingar. Árið 1962 er síðasta árið, sem endanlegar framleiðslutölur eru til um. Að frátöldum tekjum af heimamjólk og af aukabúgreinum hafa tekjur af mjólk og kindakjöti numið 74.6% af heildartekjum bóndans. Og nú skulum við gera nokkurn samanburð á því, hvert verðið til íslenzka bóndans er fyrir mjóikurframleiðsluna, heildarmjólkurframleiðsluna, og bera það saman við það, sem bændur í nágrannalöndunum fá fyrir sína mjólkurframleiðslu.

Í árbók landbúnaðarins, 1. hefti, 1963, bls. 51, er tafla um verð til framleiðenda fyrir lítra nýmjólkur í ýmsum löndum á framleiðsluárinu 1961—1962. Ég les ekki þær tölur allar, en óvegið meðalverð í Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Bretlandi og Finnlandi var á þessu ári 3,50 kr. Á framleiðsluárinu 1961—1962 var meðalverð til bænda hins vegar 4.76 kr. Og þess vegna er ég með svona gamlar tölur, því miður næstum 2 ára gamlar, að þetta eru síðustu alveg öruggu, endanlega uppgerðu tölurnar um sannanlegt, raunverulegt greitt meðalverð til bænda, og það ber ég saman við verð til framleiðenda á sama framleiðsluári í þeim 5 nágrannalöndum, sem ég nefndi, Norðurlöndunum og Bretlandi. Munurinn á meðalverðinu til bænda var 1.26 kr., sem íslenzki bóndinn hefur meira fyrir hvern lítra af sinni mjólkurframleiðslu en bændurnir í þessum löndum, sem ég nefndi. Ef við margföldum saman heildarframleiðslu sölumjólkur á árinu 1962, sem var 95039 tonn, að vísu er kíló örlítið meira en lítri, en það skiptir ekki máli, — þá er niðurstaðan 119.7 millj. kr. eða tæpar 120 millj. kr., sem íslenzkir bændur hafa fengið hlutfallslega meira í sinn hlut fyrir sína mjólkurframleiðslu en bændur í hinum 5 nágrannalöndunum fengu.

Nákvæmlega hliðstæðan útreikning þessu er ekki hægt að gera að því er snertir kjötframleiðsluna af þeim ástæðum, sem ég gat um áðan. Það er ekki til verð til bænda á sambærilegu kjöti og dilkakjötinu, og að taka aðrar kjöttegundir er meiningarlaust. Það, sem ég hef gert til þess að gera einhverja grein fyrir stöðu kjötframleiðslunnar, er því að bera saman verðið til bænda hér, sem endanlegar, tölulegar upplýsingar liggja fyrir um fyrir árið 1962, og útflutningsverðið fob. á því íslenzka kjöti, sem flutt er til útlanda. En það er sá munur á kjötframleiðslu bændanna, og mjólkurframleiðslunni, að hluti kjötframleiðslunnar er seldur út og hefur raunverulegt heimsmarkaðsverð. Aftur á móti er svo lítill hluti af mjólkurframleiðslunni seldur út, svo örlitiil hluti af mjólkurafurðum, að algerlega ósanngjarnt væri að dæma mjóikurframleiðsluna í heild á grundvelli útflutningsverðs á t.d. ostum. Og hver verður niðurstaðan,ef kjötsalan er skoðuð þannig? Samkv. grein í Hagtíðindum í maí 1963, sem endurprentuð er úr Árbók landbúnaðarins, í 3. heftinu 1983, á bls. 165–170, var mismunurinn á skráðu heildsöluverði innanlands og útflutningssöluverðmæti fob. á frystu dilkakjöti, saltkjöti og ærkjöti að vegnu meðaltali 9.48 kr. á kg. Mismunurinn á heildsöluverðinu innanlands og söluverðmætinu fob. á því, sem selt er til útlanda, var 9.48 kr., og ef við skoðum þetta verð, útflutningsverðið, sem raunverulegt markaðsverð á kjöti, raunverulegt heimsmarkaðsverð á þeim kjöttegundum, sem framleiddar eru hér, þannig að ef við vildum kaupa alveg sams konar kjöt, þurfum að greiða sama verð fyrir það, — væntanlega seljum við ekki útlendum neytendum það fyrir lægra verð en við gætum fengið Það á, — þá verður mismunurinn 117.9 millj. kr. (Gripið fram í.) Jú, jú, ég á eftir að koma að því. Þá eru það 117.9 millj. kr.

Samtala þessara tveggja talna, þ.e.a.s. þess, sem íslenzki bóndinn fær annars vegar, og þess, sem mjólkurframleiðandi í nágrannalöndunum fær hins vegar, að því er mjólkina snertir, og þess, sem íslenzki bóndinn verður að sætta sig við sem heimsmarkaðsverð á kjötinu fob. Reykjavík, að því er kjötið snertir, er um 237.6 millj. kr.,, þ.e. tæpar 240 millj. kr.

Ég vil undirstrika alveg sérstaklega til þess að fyrirbyggja allan misskilning og alla útúrsnúninga um það, hvað þessar tölur raunverulega þýða. Þær Þýða það, hvað íslenzki neytandinn greiðir íslenzka bóndanum meira fyrir mjólkina, sem hann framleiðir, heldur en það, sem norræni og brezki bóndinn fær fyrir þá mjólk, sem hann framleiðir handa neytendum þar í landi annars vegar, og hins vegar þýðir það, hvað við hér innanlands greiðum íslenzka bóndanum miklu meira fyrir það kjöt, sem hann framleiðir í heild, heldur en íslenzki bóndinn selur þetta sama kjöt úr landi fyrir. Og summan af þessu tvennu, ef menn hafa vit á að skilja, við hvað hér er átt, er um 240 millj. kr.

Ef við hins vegar vildum reyna að gera okkur grein fyrir, hvað við gætum fullnægt þeim þörfum, sem við nú fullnægjum með íslenzkum landbúnaðarvörum, fyrir lítið eða mikið, ef við vildum fullnægja þeim með því að nota útlendar landbúnaðarvörur, þá er þar um svo stórt og flókið dæmi að ræða, að það er þýðingarlaust að ætla sér að reyna að reikna það eða áætla það með nokkurri skynsemi, nema þá með mjög mikilli vinnu. Það er að sjálfsögðu inn í það dæmi, sem flutningskostnaðurinn mundi koma, sem einn fyrsti líður, sem taka þyrfti til athugunar. En það, sem gerir það dæmi flókið, er allra sízt flutningskostnaðurinn, það væri tiltölulega auðreiknað dæmi. Miklu torreiknaðri eru önnur atriði, sem ég skal nú leyfa mér að nefna með örfáum setningum.

Í fyrsta lagi er það, að við framleiðum hér og notum aðallega dilkakjöt, en hægt er að fá aðrar kjöttegundir á heimsmarkaðinum, sem eru tiltölulega miklu ódýrari i framleiðslu og hafa lægra heimsmarkaðsverð en dilkakjötið. Nákvæmlega sama er að segja um ýmsar mjólkurafurðir, sem yrðu tiltölulega miklu ódýrari. Mjólkurafurðir, sem hægt er að flytja, eins og t.d. smjör, osta og jafnvel egg, er hægt að fá á miklu lægra verði en það, sem við greiðum til íslenzkra bænda fyrir nákvæmlega sams konar vöru. En hér vandast aftur á móti málið að því leyti, að smjör og ostar eru afgangsframleiðsla mjólkurframleiðslu, og þar sem að sjálfsögðu eru erfiðleikar á því að kaupa nýmjólk erlendis frá, nema þá sem iðnaðarvöru, er í sjálfu sér ekki sanngjarnt í garð íslenzkrar bændastéttar að bera saman verðið á smjöri og ostum hér og t.d. i löndum, sem hafa mjög lágan framleiðslukostnað, eins og í Danmörku annars vegar, og dæma íslenzka landbúnaðinn eftir því, því að danskir bændur geta ekki sett á markað hér nýmjólk af sömu gæðum og íslenzkir bændur geta. En einmitt vegna allra þessara erfiðleika er í raun og veru mjög erfitt að reikna dæmið í heild með þeim hætti að bera saman, hvað íslenzkir neytendur gætu fengið hliðstæðar vörur og þeir nú fá frá íslenzka landbúnaðinum fyrir lítinn pening, ef þær ættu aliar saman að kaupast erlendis frá. Ég tel það líka hafa tiltölulega litla þýðingu að vera að reikna dæmið upp á þennan máta. Það er óhætt að fullyrða, að út úr því mundu koma miklu, miklu hærri tölur en þær, sem ég nefndi hér áðan og skal skýra nokkru betur á eftir. Út úr dæminu svona reiknuðu, eins og einn hv. þm. virtist vera að panta að það yrði reiknað, mundi koma miklu, miklu óhagstæðari niðurstaða fyrir íslenzkan landbúnað heldur en ég tel þær tölur, sem ég nefndi áðan, gefa nokkurt tilefni til þess að benda á.

Vandamálið í þessu sambandi er auðvitað ekki leyst með því að ætla sér að leggja niður íslenzkan landbúnað og fá aliar landbúnaðarafurðir erlendis frá. Þá till. hef ég ekki heyrt frá nokkrum manni, sem betur fer, því að það væri fjarstæða. Íslenzkur landbúnaður, eins og landbúnaður í Vestur-Evrópu yfirleitt, er íslenzku þjóðfélagi nauðsynlegur af mörgum ástæðum, til þess að þjóðin sé örugg um nokkra matvælaframleiðslu, ef um stríð er að ræða, ef stríð skellur á. Landbúnaðarframleiðsla á Íslandi er nauðsynleg af sögulegum ástæðum. Íslenzkur landbúnaður stendur á meira en þúsund ára gömlum merg, og engum dettur í hug, að unnt sé eða skynsamlegt sé eða réttmætt sé að kippa rótunum undan slíkum atvinnurekstri upp, vegna þess að þróun annars staðar hefur verið svo ör, að hægt væri að kaupa allar vörur eða nær allar vörur, sem hann framleiðir, við lægra verði annars staðar að. Íslenzkur landbúnaður er nauðsynlegur af félagslegum ástæðum, af því að svo róttæk breyting á íslenzkum félagsmálum, sem af því mundi leiða, ef einhverjum dytti i hug að framkvæma svo fáránlega stefnu að leggja íslenzkan landbúnað hreinlega niður á einhverju tilteknu árabili til þess að spara íslenzka þjóðarbúinu, íslenzkum neytendum, eitthvert fé, af því að af slíkum fáránlegum ráðstöfunum mundi leiða svo mikið félagslegt rask í íslenzku þjóðfélagi, að það kæmi af sjálfu sér ekki til greina. Menningarleg rök má einnig færa fyrir því, að íslenzkur landbúnaður eigi rétt á sér þrátt fyrir litla framleiðni og þrátt fyrir það, að hann selur sínar afurðir íslenzkum neytendum við mun hærra verði en hægt væri að fá hliðstæðar vörur framleiddar eða keyptar annars staðar að. En þó að íslenzkur landbúnaður sé Íslendingum og íslenzku þjóðfélagi nauðsynlegur af öryggisástæðum, af félagslegum ástæðum, af sögulegum ástæðum, af menningarlegum ástæðum, þá mega þessar staðreyndir ekki loka augum okkar fyrir því, að íslenzka þjóðin greiðir með honum, landbúnaði sínum, að íslenzka þjóðin styrkir íslenzka bændur mjög verulega fyrir að framleiða það, sem þeir framleiða. Þessar staðreyndir mega ekki loka augum okkar fyrir því, hvað það kostar Íslendinga að halda uppi landbúnaði á Íslandi. Þetta er sú meginstaðreynd, sem menn margir hverjir alls ekki vilja hafa opin augun fyrir. Þetta er öllum viti bornum mönnum, stjórnmálamönnum og mönnum, sem kynnt hafa sér efnahagsmál, t.d. verzlunarmönnum, algerlega ljóst.

Vestur-evrópskur landbúnaður kostar VesturEvrópu í heild mikið fé. Vestur-evrópskir neytendur verða að greiða verulegar upphæðir fyrir að vilja halda uppi landbúnaði, og það á við um Íslendinga í mjög ríkum mæli og ég vil segja í enn ríkara mæli en það á við um þjóðir VesturEvrópu að meðaltali. Það er það, sem ég tel þessa tölu, sem ég nefndi áðan, sýna, og skal nú koma nánar að því.

Ég sagði áðan, að það væru um 240 millj. kr., sem íslenzkir bændur fengju frá íslenzkum neytendum umfram það, sem bændur í nágrannalöndum fá fyrir sína mjólkurframleiðslu, og umfram það, sem íslenzkir bændur fá fyrir það kjöt, sem þeir flytja úr landi. En með þessu er ekki upp talin sú krónutala eða sú fjárupphæð, sem segja má að íslenzkir bændur fái í sinn hlut eða fyrir sína framleiðslu umfram það, sem hliðstætt má teljast, ef um utanríkisviðskipti eða framleiðslu annars staðar væri að ræða. Það verður einnig að taka tillit til þess, að samfélagið, — þetta er það, sem íslenzkir neytendur greiða beint til bændanna umfram það, sem segja má, að eigi sér stað undir hliðstæðum kringumstæðum annars staðar, — en íslenzka samfélagið í heild greiðir og mjög verulegar beinar styrkupphæðir til íslenzkra bænda. Þó að ég taki ekki nema 3 stærstu styrkjaliðina í 16. gr., atvinnumálagrein fjárl., í kaflanum um landbúnaðarmál, sem samtals er upp á 117 millj. kr., — þó að ég taki ekki nema 3 stærstu styrkjaliðina bar, sem eru gjöld samkv. jarðræktarlögum, 28.7 millj. kr., gjöld vegna laga um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum, 1.3 millj. kr., framlag samkv. l, um stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og nýbyggingar í sveitum, 29.2 millj. kr., aðeins þessa 3 liði, jarðræktarlögin, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum og stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum, þá er hér samtals um að ræða 61.3 millj. kr. Þetta eru óumdeilanlega beinir styrkir í þágu .landbúnaðarins. Ég sleppi öllu öðru, sem um kynni að vera meiri deila, hvort geti talizt til beinna styrkja, en þetta eru rúmar 60 millj. kr., sem óumdeilanlega eru beinir styrkir, stærstu styrkjaliðirnir einir. Við það hækkar 240 millj. kr. talan upp i um það bil 300 millj. kr. Auk þessa er svo þess að geta, að tölurnar í útreikningunum, sem ég byggði á áðan, eru. orðnar 2 ára gamlar, vegna þess að yngri tölur um endanlegt verð til bænda eru því miður ekki til. En allir vita, að síðan á verðlagsárinu eða framleiðsluárinu 1961—1962 hefur bæði verð á kjöti og mjólk og tekjur bóndans í verðlagsgrundvellinum hækkað mjög verulega. Nú í haust hækkaði mjólkin frá því i fyrra um 17.7%, verð til bænda. Verð til bænda hækkaði um 17.7%, með mjóikinni og verð á kjöti hækkaði um rúm 29%. Meðalhækkun verðlagsgrundvallarins var hins vegar ekki nema 20.8%.

Ég skal ekki gera þetta mál flóknara með því að gera neinar áætlanir um það, hvað umframgreiðslur íslenzkra neytenda til bænda séu miklar, ef tekið er tillit til þessara nýjustu verðhækkana tveggja s.l. ára, enda ekki fara með neinar tölur, sem mætti vefengja. En geta má þess, að tekjur bóndans í verðlagsgrundvellinum hafa líka hækkað mjög verulega á þessum síðustu tveimur árum. 1961—1962 voru tekjur bóndans í verðlagsgrundvellinum 86142 kr. Þetta er árið, sem framleiðslutölur minar áðan voru miðaðar við. 1962—1963 voru tekjur bóndans 94576 kr., og við verðlagninguna í haust voru bóndanum reiknaðar 119121 kr. tekjur. Það er því alveg auðséð, að síðan þær framleiðslutölur og verðtölur, sem ég nefndi áðan, hafa átt sér stað, hefur orðið mikil hækkun á verði til bænda á mjólk og kjöti og jafnframt mikil hækkun, þótt hún sé ekki tilsvarandi náttúrlega, á þeim tekjum, sem bóndanum eru reiknaðar í verðlagsgrundvellinum. En við skulum sleppa öllum áætlunum um þetta efni og halda okkur við þær tölur, sem ég nefndi áðan, sem eru óumdeilanlegar og byggðar á skýrslum framleiðsluráðs landbúnaðarins sjálfs. Það eru engar áætlanir og verða þær því vonandi ekki vefengdar.

Að síðustu, til skýringar á þessum bollaleggingum, ef ætti að gera tilraun til þess að gera landbúnaðinn upp í heild, svo að ég haldi mér enn við innskotið varðandi flutningskostnaðinn, sem er svo tiltölulega einfaldur hlutur í sambandi við þetta og auðreiknaður, ef menn vildu það viðhafa, þá er þess að geta, að bændur fá ekki aðeins styrk til sinnar framleiðslu úr ríkissjóði, þ.e. á fjárlögum, beina styrki eins og þá, sem ég nefndi hér áðan, heldur eru fjárl. að mörgu leyti, að mjög verulegu leyti beinlínis mótuð af fjárveitingum, sem óbeint eiga rót sína að rekja til þess, að við höldum uppi landbúnaði á Íslandi og viljum halda uppi landbúnaði á Íslandi. T.d. útgjöld ríkisins til rafmagnsmála eiga að mjög verulegu leyti rót sína að rekja til þess, að landbúnaður er á Íslandi stundaður í dreifbýli. Þeir bændur, sem njóta raforku, fá raforkuna langt, langt undir kostnaðarverði, einhverjir borga þetta, sumpart þeir, sem borga verð á raforku yfir kostnaðarverði, og sumpart sjálft ríkisvaldið með beinum fjárveitingum til raforkuframkvæmda og greiðslu á halla raforkunnar. Þá er það og alkunna, að bændur njóta ívilnana í benzín- og olíuverði. Einhver borgar það. Af þeirri olíu, sem fer í þessar stöðvar, er ekki greiddur skattur. Mjög verulegur hluti af kostnaðinum við símakerfið á náttúrlega rót sína að rekja til þess, að landbúnaður er stundaður og hann verður að stunda í dreifbýli. Að einhverju leyti gildir þetta líka um strandferðirnar. Að einhverju leyti gildir þetta líka um gjöldin til vegamála. Ég nefni þetta aðeins hér til athugunar, en hér er að sjálfsögðu um dæmi að ræða, sem er óleysanlegt og óreiknanlegt í nákvæmar og óumdeilanlegar og áreiðanlegar tölur. En ég segi þetta aðeins til þess að undirstrika, að ef menn vilja gera tilraun til þess að reikna þjóðhagslegan skerf landbúnaðarins, þá verður a.m.k. að hafa allar þessar staðreyndir í huga, og þetta hafa menn auðvitað annars staðar gert sér fullkomlega ljóst.

Niðurstaðan af þessu er sú, að það, sem við höfum algerlega öruggar upplýsingar um, þó að þær séu orðnar nokkuð gamlar og allar tölur séu lægri en þær mundu vera miðað við árið í ár, — það, sem við höfum tiltölulega öruggar upplýsingar um, eru þessar 3 stærðir. Það er í fyrsta lagi það, sem íslenzki bóndinn fær fyrir sína mjólkurframleiðslu umfram það, sem bændur í 5 nágrannalöndum fá fyrir sína mjólkurframleiðslu. Þar fær íslenzki bóndinn ca. 120 millj. kr. meira en bændurnir í nágrannalöndunum. Að því er kjötið snertir höfum við alveg öruggar upplýsingar, að vísu 2 ára gamlar, um það, hvað íslenzki bóndinn fékk til sín fyrir framleiðslu ársins 1961—1962 og hvað hann seldi sams konar vöru á til útlanda á því sama ári. Þessi verðmismunur er 117.9 millj, kr. Og við höfum upplýsingar um, hvað ríkið veitir í beina og óumdeilanlega styrki til landbúnaðarins á fjárl., og það tók ég úr nýju fjári., sem fyrir okkur liggja núna, og það eru rúmar 60 millj. kr., þannig að í heild er hér um að ræða tölulegar upplýsingar, sem sýna, að Íslendingar greiða eða greiddu fyrir tveimur árum a.m.k. 300 millj. kr. til landbúnaðarins, fyrir það að landbúnaðurinn byrgir íslenzkan neytendamarkað að þeim vörum, sem hann sendir á hann. M.ö.o.: íslenzka þjóðfélagið í heild beinlínis greiðir með íslenzkum landbúnaði, það styrkir íslenzka landbúnaðinn.

Ég vil undirstrika það, að hér er um lágmarkstölu að ræða, — ef við tækjum nýjar tölur, yrðu þær áreiðanlega mun hærri en þessar, — en þetta er alveg nægilegt til þess að sýna fram á það grundvallaratriði, sem ég vildi sýna fram á og alveg er nauðsynlegt, að ekki aðeins allir þm., heldur þjóðin í heild geri sér ljóst, að íslenzka þjóðfélagið í heild greiðir landbúnaðinum hundruð milljóna uppbætur fyrir sína framleiðslu. (ÁB: Hvað er greitt með öðrum atvinnugreinum?) Af því náttúrlega, að íslenzka þjóðin telur nauðsynlegt að halda uppi landbúnaðarframleiðslu á Íslandi. Þetta þarf ég líklega að endurtaka tvísvar, þrisvar sinnum. (ÁB: Hvað er greitt með öðrum atvinnugreinum?) Það eru hinir, sem greiða þetta til landbúnaðarins. Þess vegna er ekki unnt að segja, að landbúnaðurinn fái það ekki greitt. (Forseti: Ekki samtal.) Og Það er eflaust nauðsynlegt fyrir mig að endurtaka það einum tvisvar, þrisvar sinnum, að ég er í sjálfu sér ekki og tel engin rök liggja til þess að telja þessar greiðslur eftir eða telja þær vera algerlega ónauðsynlegar, eins og málum háttar nú í íslenzka landbúnaðinum. En jafnnauðsynlegt er, að menn geri sér grein fyrir hinu, að svona eru staðreyndirnar, og staðreyndirnar verða ekki umflúnar. Þær eru svona, og þess vegna er vandamálið í íslenzkum landbúnaði auðvitað það að framkvæma þess konar stefnu í landbúnaðarmálum, að þessar greiðslur frá samfélaginu til íslenzka landbúnaðarins geti minnkað.

Ég geri mér algerlega ljóst, og það gera auðvitað allir hugsandi menn, að skyndilega geta þær ekki minnkað, þær geta ekki minnkað á einu ári neitt verulega. — Vill forseti biðja þm. um að stilla sig, stilla sig aðeins. (Forseti: Viljið þið gera svo vel og gefa ráðh. hljóð.) Það er auðvitað algerlega vonlaust verk að láta sér detta í hug, að þessar greiðslur geti minnkað mjög verulega á einu ári, jafnvel ekki 5 árum, og þær geta aldrei horfið, svo langt fram í tímann sem við getum séð. Það er öldungis öruggt. (ÁB: Eftir því, hverjir verða í stjórn) Það er líka öldungis öruggt. En það þarf að gera sér grein fyrir vandamálinu, eins og það er fyrir hendi, og þarf að mynda skynsamlega stefnu til þess að leysa vandamálið, til þess að auka framleiðnina í landbúnaðinum, þannig að þessar heildargreiðslur samfélagsins til hans geti minnkað. En að sjá höfðinu við steininn, að ég nú ekki tali um að bera á móti þessum staðreyndum, að þær eigi sér stað, Það er náttúrlega þeim einum til minnkunar, sem slíkar staðhæfingar leyfa sér að viðhafa, enda væri það skárra, ef Ísland væri eina landið í VesturEvrópu, sem greiddi ekki með sínum landbúnaði. Því kemur mér ekki til hugar að halda fram. En hinu held ég fram og vil undirstrika, og það er nauðsynlegt, að það geri allir sér ljóst, að þetta á sér stað hér eins og annars staðar og því miður í ríkara mæli hér en annars staðar.

Okkar fyrsta mark þyrfti að vera að koma stuðningi samfélagsins við landbúnaðinn ofan í það mark, sem á sér stað í helztu nágrannalöndunum, og helzt að keppa að því, að stuðningurinn geti orðið minni. Og nú kem ég að því, sem er í raun og veru kjarni þess, sem ég vildi segja við hv. 1. flm. till., sem hér er til umr., og það er þetta:

Mér finnst það í sannleika sagt talsvert hart, að talsmaður þess flokks, sem skoðar sig vera talsmann landbúnaðarins á Íslandi og ber höfuðábyrgð á þeirri stefnu í landbúnaðarmálum, sem fylgt hefur verið hér undanfarna áratugi. Skuli með hliðsjón af þessum staðreyndum, sem ég nú hef lýst, telja sig þess umkominn að kalla það mark, sem ríkisstj. setur þjóðarbúskapnum með framkvæmdaáætluninni og um hagvöxt, að telja það mark lágkúrulegt, þegar sá atvinnuvegur, sem þeir guma mest af stuðningi sínum við undanfarna áratugi, er þannig á vegi staddur, að um hundraða millj. kr. stuðning samfélagsins við þennan atvinnuveg er að ræða. Og sannleikurinn er sá, að ekkert er íslenzkum hagvexti meiri fjötur um fót en einmitt sú staðreynd, hve samfélagsstuðningurinn við íslenzka landbúnaðinn er og þarf að vera mikill, eins og stefnan hefur verið undanfarna áratugi í íslenzkum landbúnaðarmálum.

Til viðbótar því, að Framsfl. er þess ekki umkominn að deila á ríkisstj., þegar maður hefur í huga þátttöku hans í ríkisstj. undanfarið með minni hagvexti en nú á sér stað og við ráðgerum í framtiðinni, þegar maður bætir hinu við, að hér er um að ræða þann flokkinn, sem vill helga sér þá stefnu og væntanlega það ástand, sem nú er í íslenzkum landbúnaðarmálum og er helzti dragbíturinn á hagvöxt á Íslandi, þá fer skörin sannarlega að færast upp í bekkinn.

Sannleikurinn er sá, að einfaldasta og fljótvirkasta ráðið til þess að auka mjög hagvöxt hér á Íslandi væri að stuðla í mjög verulegum mæli að flutningi vinnuafls úr landbúnaði í sjávarútveg og í stærri iðnað að mjög verulegu leyti. Það væri öruggasta ráðið til að efla íslenzkan hagvöxt, ef þetta yrði gert. En sannleikurinn er sá, að róttækum aðgerðum í þessa átt vill ríkisstj. ekki vinna að, og það er ekki líður í framkvæmdaáætluninni, eins og hún liggur fyrir, að gera ráð fyrir slíkum breytingum, vegna þess, hve þær mundu kosta mikið félagslegt rót. Það, sem hér verður að gera, er að fara skynsamlegan og hóflegan meðalveg á milli þess, sem er efnahagslega hagkvæmast, en það mundi án efa vera að flytja mjög verulegt vinnuatl úr landbúnaðinum í sjávarútveg og iðnað, og hins, sem er félagslega fært og félagslega réttmætt. Og sannleikurinn er sá, að eitt megineinkenni íslenzkrar heildarstefnu i efnahagsmálum á undanförnum áratugum hefur verið það, að það hefur verið leitað jafnvægis á milli þess, sem væri efnahagslega réttast, og hins, sem talið er félagslega fært. Þetta er kjarninn í því, sem i raun og veru þarf að segja í þeim umr., sem s.l. miðvikudag og nú fara fram á milli okkar 1. flm. þessarar till. og mín um þetta efni. Sá, sem hefur ekki áttað sig á þessu varðandi efnahagsþróunina hér i framtiðinni og varðandi skilyrði til efnahagsþróunarinnar hér á næstu árum, hefur í raun og veru ekki botnað neitt í grundvallarvandamálum íslenzkra efnahagsmála. (ÁB: Þetta sannar ráðh. sjálfur.) Sá, sem áttar sig ekki á því, að það má einkenna efnahagsstefnuna hér með slíkum tilraunum til jafnvægis á milli þess, sem væri efnahagslega hagkvæmast og félagslega rétt eða skynsamlegt, hann hefur ekki skilið rauða þráðinn í efnahagsþróuninni hér undanfarna áratugi, og sá, sem fellir sleggjudóma um framtíðina í þessum efnum án þess að hafa hugmynd um þetta og án þess að gera sér grein fyrir þessu, er að fella sannkallaða sleggjudóma.

Það, sem íslenzka ríkisstj. vill láta vera grundvöll áætlunargerðar sinnar um framtíðina og stefnu sinnar i þessum málum í framtiðinni, er að halda áfram að fara einhvern slíkan gullinn meðalveg á milli þess, sem telja mætti rétt, ef eingöngu efnahagsleg sjónarmið væru höfð til hliðsjónar, og hins, sem nauðsynlegt er út frá félagslegum og sögulegum forsendum. Því mun verða haldið áfram. En það auðvitað hjálpar ekki neinum og ruglar dómgreind alls almennings, ef menn rugla ekki meira dómgreind sjálfs sin, að loka augunum fyrir grundvallarstaðreyndum í málinu öllu, og þær staðreyndir, sem ég hef viljað gera að umræðuefni hérna, eru þessar og eru alveg ómótmælanlegar, að íslenzka Þjóðfélagið greiðir stórkostlegar upphæðir til landbúnaðarins til að njóta hagræðisins og til að njóta þess félagslega jafnvægis, sem af Því hlýzt, að hér sé stundaður landbúnaður núna, enda þarf svo að verða áfram, ég segi: um alla framtíð. En það jafngildir auðvitað ekki því, að það megi og eigi að gerast með hvaða kostnaði sem er.

Af því að ég geri mér auðvitað ljóst, að margir hafa tilhneigingu til að snúa harkalega út úr þeim orðum, sem ég hef nú látið falla, ég er því ekki óvanur, og við, sem skipum stjórnarflokkana, erum það auðvitað ekki, þá verður að taka því, sem koma kann í þeim efnum, og svara því aftur, ef ástæða þykir til, — en til þess aðeins að benda hv. alþm. á, að það er svo fjarri því, að ég einn hafi þessar grundvallarskoðanir á landbúnaðinum, þá dettur mér í hug, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér stuttan kafla úr grein eftir einn kunnan íslenzkan vísindamann af yngri kynslóðinni, sem einmitt hefur kynnt sér landbúnaðarmál mjög rækilega, dr. Björn Sigurbjörnsson, sem skrifaði grein um framtið landbúnaðarins í nýlegt hefti af Árbók landbúnaðarins, sem gefið er út af framleiðsluráðinu og Arnór Sigurjónsson er ritstjóri fyrir, en það er fyrsta hefti yfirstandandi árs, — að lesa stuttan kafla, vegna þess að þar koma, þó að það sé ekki gert með tölum, eins og ég reyndi að undirbyggja mitt mál með, í grundvallaratriðum fram sömu staðreyndirnar og sömu skoðanirnar sem ég var hér að gera grein fyrir, svo að ef menn vilja snúa út úr fyrir mönnum, þá er mönnum þá líka gefinn kostur á að snúa út úr fyrir þessum unga og ágæta vísindamanni, Birni Sigurbjörnssyni. En kaflinn, sem mig langar til þess að lesa upp, er svona, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar við tölum um framtíð landbúnaðar á Íslandi, erum við ekki að tala um það, hvort hann leggst niður eða ekki. Framleiðsla á matvöru er svo mikið undirstöðuatriði í okkar þjóðfélagi sem öðrum og gróðurlendi landsins svo viðáttumikið, að við þurfum varla að óttast það. Það, sem máli skiptir um framtíð landbúnaðarins, er, hvort okkur tekst að haga framleiðslu landbúnaðarafurða þannig, að atvinnuvegurinn verði blómlegur og þeir, sem að honum vinna, beri gott hlutskipti úr býtum, a.m.k. til jafns við þá, sem aðra atvinnu stunda. Vöxtur landbúnaðarframleiðslu er háður því fyrst og fremst, að markaður sé fyrir hendi til að taka við vörunni. An markaða þýðir ekki að auka framleiðsluna, og án þess að framleiðslukostnaður sé lækkaður og gæði fullnægjandi, þýðir ekki að leita nýrra markaða. Það er með raunhæfum rannsóknum, sem unnt er að finna nýjar aðferðir, sem lækka framleiðslukostnað og auka gæðin, og þess vegna eru rannsóknir frumskilyrði fyrir framförum í landbúnaði. Aukning fólksfjölda í landinu er nú eini markaðurinn innanlands, sem getur tekið við auknum afurðum landbúnaðarins. Ef við bindum landbúnaðarframleiðsluna við innlenda markaðinn, má hún ekki aukast umfram það. En til Þess að skapa viðunandi lífskjör til handa bændum verður að beita tæknilegu og skipulagslegu hugviti til að auka framleiðslu hvers býlis. Kotbúskapur á engan rétt á sér, en hlýtur alltaf að leiða af sér fátækt. Þess vegna blasir við staðreynd, sem margir eru feimnir við að horfast í augu við. Hún er sú, að ef við viljum auka tekjur bóndans, en slíkt er óhugsandi, nema hann stækki bú sitt, og byggja landbúnaðarframleiðsluna jafnframt á núverandi innanlandsmarkaði og eðlilegri aukningu hans, höfum við skapað ástand, sem leiðir óhjákvæmilega af sér fækkun innan bændastéttarinnar, fólksflótta úr sveitunum, eins og það er stundum kallað. Það er í raun og sannleika fáránlegt, að mönnum skuli detta í hug, að fólksfækkun í sveitunum sé eingöngu merki um hnignun landbúnaðarins. Meðan ekki fæst nægur markaður fyrir vöruna, er fækkun framleiðendanna áhrif af tæknilegum framförum við framleiðsluna. Bændabýli, sem áður fyrr framleiddu matvæli handa 5 manns, framleiða nú fyrir 30 manns. Það er vert að íhuga vandlega, að án þess að markaður fyrir landbúnaðarvörur aukist umfram innlendan markað, hlýtur þessi þróun að halda áfram. Það er talið, að til þess að kúabú beri sig vel, þurfi að vera um 30 kýr í fjósi. Af um 6000 býlum landsins eru aðeins tæp 40, sem ná þessum gripafjölda. Ef þessi fjöldi kúa ætti hins vegar að vera á hverjum bæ, þyrfti aðeins um 1400 mjólkurframleiðendur. Ef 500 veturfóðraðar ær væru á hverjum bæ, þyrfti aðeins 1600 sauðljárbú til að ná núverandi sauðfjáreign landsmanna, eða samtals um 3000 býli, í þessu sambandi má minna á, að í Gunnarsholti á Rangárvöllum hirðir einn maður um 1100 ær.

Það ætti að vera ljóst af þessu, að ef við eigum að bæta efnahag bænda með því að auka á næstunni afköst núverandi framleiðslugreina hverrar jarðar upp að því marki, sem talið er þurfa til þess, að um góða afkomu sé að ræða, er innlendi markaðurinn hvergi nærri nógu stór til að taka við þeirri framleiðsluaukningu. Þá er um þrennt að velja. Í fyrsta lagi að framleiða núv. landbúnaðarafurðir til útflutnings; í öðru lagi að taka upp framleiðslu á nýjum vörutegundum, sem nú eru fluttar inn; eða horfa fram á annars óhjákvæmilega fækkun bújarða og áframhaldandi flótta úr sveitunum. Þessar staðreyndir verða ekki umflúnar með nýjum félagsheimilum og ekki þótt komið væri sjónvarp heim á hvern bæ. Ef við viljum koma í veg fyrir, að framleiðendum landbúnaðarafurða fækki meira en komið er, verðum við að vinna að hinu tvennu, þ.e.a.s. finna aðferðir og ráð til þess að finna nýjar vörutegundir, auka fjölbreytnina í búskapnum og finna ráð og aðferðir til þess að auka gæði vörunnar og lækka framleiðslukostnaðinn til þess að gera landbúnað okkar sem samkeppnisfærastan á erlendum markaði.“

Svo mörg eru þau orð og í grundvallaratriðum um nákvæmlega sömu hugsunina að ræða og ég lýsti í mínu máli og rökstuddi með tölum. Hér talar landbúnaðarsérfræðingur út frá öðrum sjónarmiðum, en grundvallarhugsunin í máli hans er sú sama.