20.11.1963
Sameinað þing: 18. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í D-deild Alþingistíðinda. (2847)

38. mál, þjóðhagsáætlun fyrir árin 1964-1968

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er í þessum umr. deilt um það, hvort áætlaður sé í þjóðhagsáætlun ríkisstj. nægur hagvöxtur á næstu árum og sambærilegur við það, sem tíðkist í öðrum löndum, þar sem svipað stendur á. Sumum þykir of litið áætlað. Aðrir telja byggt á raunsæi. Um þetta má auðvitað endalaust deila. En víst er það, að með áætlunargerðinni einni, uppsetningu talna, verður ekki gerð breyting. Til þess þarf samfelldar ráðstafanir í efnahagsmálum, atvinnumálum og ótal greinum öðrum, sem of langt yrði upp að telja. Og við vitum, að það er grundvallarskoðanamunur á milli stjórnmálaflokka, hvers um sig og allra í senn, hverjar leiðir i þessu séu líklegastar, þó að núv. stjórnarfiokkar hafi þar sameinazt um ákveðna efnahagsstefnu.

Hitt er svo ljóst og verður að hafa í huga, þegar talað er um, að hagvöxtur hér hafi verið hægari undanfarin ár heldur en sums staðar annars staðar og heldur en sumar þjóðir aðrar áætli hann á næstunni, samanburður við hvaða þjóðir valinn er. Það verður auðvitað að miða við þær þjóðir, sem hafa líkastar aðstæður og við höfum, en ekki við þær þjóðir, sem nú eru fyrst að gera gerbyltingu, sem hér hefur að ýmsu leyti orðið, við getum sagt á siðasta hálfrar aldar skeiði eða e.t.v. nánar tiltekið á síðustu 60 árum. Þar erum við, þótt mörgu sé ábótavant hjá okkur, komnir yfir það tímabil þar sem skjótastar umbreytingar reynast verða í sumum þjóðfélögum, þó að víða gangi hægt sorglega hægt og mun hægar en hjá okkur.

En fyrst og fremst verðum við að hafa í huga, þegar talað er um öran vöxt framleiðni, lífskjarabætur og annað slíkt, að við höfum valið okkur alveg sérstakt verkefni, sem við hvorki viljum gefast upp við að leysa né viljum heldur láta frá okkur taka. Og það er, að það hlýtur ætíð að kosta hlutfallslega margfalt meira að halda uppi litlu þjóðfélagi en stóru. Það var á það bent í umr. um Efnahagsbandalag Evrópu á sínum tíma, m.a. af mér, að það væri vafalaust hyggilegast, ef við hugsuðum um það eitt að auka á skömmum tíma bætt lífskjör í landinu, hraða þeim bata sem allra mest, þá væri vafalaust vænlegt ráð að taka skilyrðislaust eða skilyrðislítið þátt í þessu Efnahagsbandalagi. En ég minnist þess, að ég tók það skýrt fram og það var tekið fram af mörgum öðrum en mér, að málið væri engan veginn svo einfalt. Hér kæmu miklu fleiri atriði til, sem gerðu það að verkum, að aðild okkar að slíku bandalagi yrði aldrei Íslandi til farsældar, nema full gát væri á höfð og svo margir fyrirvarar af okkar hálfu, að litlar líkur væru til þess, að aðrir gætu á þá fallizt. Nú er komið á daginn, eins og haldið var fram af mér og stjórnarflokkunum í heild fyrir kosningar, að Efnahagsbandalagið er ekki lengur á dagskrá. Það gera allir sér ljóst, að það mál muni biða mörg ár, e.t.v. áratugi. Um það skal ég ekki spá. En umr. á þessu þingi og deilur, sem þó hafa verið allharðar, sýna glögglega, að við reyndumst sannspáir um það, að málið væri ekki á dagskrá og hefði ekki þá þýðingu í bili, sem sumir vildu vera láta fyrir kosningar. En hitt stendur eftir, að íslenzkt þjóðfélag vegna sinnar smæðar og vegna þess stóra og ég vil segja að ýmsu leyti mjög erfiða lands, sem við byggjum, er um margt mjög sérstætt og gerir það m.a. að verkum, að við eigum ákaflega erfitt með að bera okkur um beinan lífskjarabata og beina framleiðsluaukningu saman við flest önnur þjóðríki. Þetta sjá allir menn, þegar þeir hugleiða það. Hér hlýtur að kosta hlutfallslega margfalt meira að hafa hina nauðsynlegu yfirbyggingu í þjóðfélaginu. Það væri auðvitað miklu kostnaðarminna, eins og áður var gert, að láta aðra þjóð fara með okkar utanríkismál. Það væri kostnaðarminna að láta stjórna okkur frá erlendri stjórnarskrifstofu heldur en bera hér uppi ríkisstj., hafa Alþingi, hafa allt það ríkiskerfi, sem uppi er haldið og við allir tölum öðru hverju um að sé of viðamikið, en enginn — ég legg áherzlu á það: enginn hefur enn kunnað að benda á hagkvæm ráð, þegar hann sjálfur hefur haft völd og möguleika til að draga úr, heldur hefur báknið, ef svo má segja, ætíð farið jafnt og þétt vaxandi i samræmi við breytta þjóðarhætti. Það er auðvitað einnig ljóst, að þó að við gerum okkur grein fyrir, að samgöngur um landið séu dýrar, kostnaðarsamar, og það væri að víssu leyti ódýrara að láta alla Íslendinga búa hringinn í kringum Faxaflóa og á Suðurlandsláglendi einu, þá kemur engum manni þetta til hugar. Menn geta haft misjafnan skilning og áhuga á því, sem kallað er jafnvægi í byggð landsins, en það gera sér allir grein fyrir Því, að við viljum án tillits til skoðanaágreinings að öðru leyti reyna að halda uppi hinni fornu byggð i landinu, eftir því sem nokkur föng og geta er til og eftir því sem fólkið sjálft fæst til þess að dveljast þarna. Og það er þegar sýnt, að jafnvel kostnaðarsamar aðgerðir af hálfu ríkisvaldsins nægja ekki einar í þessu skyni. Þar kemur margt annað fleira til álita. En Þessum okkar vilja og ákvörðun fylgir það, að margs konar kostnaður hlýtur að verða þessari óhagganlegu ákvörðun samfara. Það er miklu dýrara að halda uppi samgöngum, halda uppi menningarlífi um allt landið, löggæzlu og öllu því, sem upp má telja og þarf að telja, ef menn vilja reikna þetta, heldur en ef við værum öll samankomin í þeim landshlutum, sem ég gat um áðan, hvað þá í einni borg, sem þó væri ekki talin nein stórborg á erlendan mælikvarða.

Þessari okkar ákvörðun að vilja byggja okkar land, vilja halda byggðinni við, eftir því sem föng eru til, vilja halda uppi sjáifstæðu, frjálsu þjóðfélagi, fylgir svo margvíslegur og mikill kostnaður, að hann hlýtur að verða til þess á ýmsan veg að draga úr þeim efnahagslega hag, sem hægt væri að hafa af allt annarri skipan og ef við gæfumst upp við þetta, sem engum manni dettur í hug að gefast upp við. Eins sjáum við, þegar litið er á einstakar atvinnugreinar, að suðvitað væri hægt að fá ýmislegt ódýrara hér í landi, ef ekki væru háir tollar á ýmsum nauðsynjum og algert aðflutningsbann á öðrum. Það væri vafalaust hægt að fá ýmsa hluti ódýrar. En þessar ákvarðanir um verndartolla, um algert aðflutningsbann á ýmsum nauðsynjum, eru gerðar af ríkri nauðsyn, vegna þess að við viljum, eftir því sem föng eru til og mögulegt nú á tímum, halda við hinni fornu íslenzku menningu, hinni fornu íslenzku þjóð með sinni þjóðarvitund allt frá upphafi, eins lítið breyttri og breyttir tímar frekast leyfa. Ef við tækjum ekki afleiðingum af óhjákvæmilegum breytingum tímanna, mundi okkur daga uppi og við ekki heldur halda lífi með því móti.

En ég legg áherzlu á, að hér getur aldrei orðið um eiginlegt reikningsdæmi að ræða, heldur verðum við að byggja á víssum staðreyndum og gera okkur grein fyrir, að þeim viljum við ekki hagga nema af ýtrustu nauðsyn, og við erum reiðubúnir til þess að taka á okkur þann kostnað, sem þessu er samfara og verður að vera samfara, ef við viljum halda áfram að vera íslenzk þjóð.

Út af þeirri deilu, sem hér hefur orðið milli hv. 6. þm. Sunnl. og hæstv. viðskmrh., sem nokkuð mótast af því, eins og hv. 6. þm. Sunnl. sagði, að þeir eru frá fornu fari gamlir vinir og vináttan nú ekki eins heit og áður var, þá skal ég ekki blanda mér neitt í þeirra deilur, og vil ég þó engan veginn segja, að þar eigist þeir einir við, sem ég hirði ekki um, hvorum betur veiti. En það er bezt, að þeir geri upp sína gömlu reikninga sín á milli án okkar atbeina hinna. En það er alveg óhagganlegt, að án íslenzks landbúnaðar heldur íslenzk þjóð ekki sínu eðli og glatar mörgu því bezta, sem í henni er, og við getum með víssu efazt um, hvort hún haldi áfram að vera til sem sjálfstæð þjóð, ef íslenzkur landbúnaður væri niður lagður. Þetta segi ég því til áréttingar, sem hæstv. viðskmrh. sagði, að vitanlega kemur engum manni til hugar að leggja íslenzkan landbúnað niður. Um það er ekki að ræða. Við verðum að taka afleiðingunum af því, að við viljum halda honum við, alveg eins og við viljum ekki drepa þann blómlega vaxandi íslenzka iðnað, með því að hleypa hér alveg skefjalaust inn útlendri fjöldaframleiðslu, þótt hægt væri og hægt sé að sýna fram á, að ef tollar væru ekki meðtaldir, væri hún þessum atvinnuvegi hættuleg.

Við verðum þvert á móti að gera okkur grein fyrir, að til varanlegrar efnahagslegrar þróunar verðum við að líta á hlutina eins og þeir eru, gera okkur grein fyrir, að aðstæðurnar eru á ýmsan hátt slíkar, þær taka svo mikinn kostnað til sín, að um sumt hljótum við, og í heild er ekki nema eðlilegt, að við verðum frekar hægfara en ýmsir aðrir. En því til viðbótar kemur svo það, sem hv. 3. þm. Reykv. alveg réttilega benti á, að öll gerð þjóðhagsáætlana okkar og samanburður á milli einstakra ára er allt mjög hæpið og vægast sagt villandi, vegna þess að hér erum við svo mjög háðir veiðum og veðri, náttúrulögmálum, sem við enn ráðum ekki við nema að sáralitlu leyti. Þess vegna er tölulegur samanburður við aðstæður í fullþróuðum iðnaðarlöndum gersamlega villandi og algerlega út í hött, og það fer auðvitað ekki nema að sáralitlu leyti eftir því, hverjir eru við völd hverju sinni, hvenær mest stökk eru í framleiðslu milli ára á Íslandi. Þetta er vitanlegt, og það vitum við öll. Við skulum ekki vera að blekkja hver annan með því. Við vitum, að þetta fer langmest eftir því, hvort vel aflast eða ekki. Þetta er of erfiður og óvíss grundvöllur fyrir okkar þjóðfélag. Þess vegna þurfum við að fjölga stoðunum, sem undir öruggri hagþróun hljóta að hvíla, og það er auðvitað eitt af meginverkefnum næstu ára.