20.12.1963
Sameinað þing: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

1. mál, fjárlög 1964

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég flyt ásamt hv. 1. þm. Vestf. og hv. 5. þm. Vestf. brtt. á þskj. 185 um 200 þús. kr. fjárveitingu til sjúkraflutninga, þegar slíkur kostnaður verður einstaklingum ofviða. Eins og hv. þm. er kunnugt, hefur sjúkraflug verið stundað um langt skeið með góðum árangri, og það leikur ekki á tveim tungum, að mörgum mannslífum hefur verið bjargað með þessum sjúkraflutningum. En það hefur gerzt með þeim hætti, að unnt hefur reynzt að koma sjúklingum í skyndi til læknisaðgerða með flugvélum, þegar ekki hefur verið þess kostur að nota nein önnur farartæki. En þessir sjúkraflutningar eru að sjálfsögðu mjög dýrir fyrir sjúklingana. Ein einasta ferð kostar oft nokkur þúsund kr. Auðvitað horfir enginn í kostnaðinn við að koma sjúklingi til læknisaðgerðar. En eigi að síður þarf að greiða þennan kostnað, og það getur orðið æði erfitt fyrir einstaklinga, sem eru kannske blásnauðir menn. Þessi flutningskostnaður á sjúklingum bætist svo við annan sjúkrakostnað. Má þá nærri geta, hversu erfitt þetta getur orðið félausum einstaklingum. Þessi litla fjárveiting, sem við förum fram á, er hugsuð til þess að bæta úr brýnustu þörfum slíkra manna, sem lenda í þessum erfiðleikum, en ráða ekki við þennan kostnað, og tel ég mig ekki þurfa að skýra þetta mál frekar.

Þá flytjum við, þessir sömu þm., till. um, að af þeirri heildarfjárveitingu, sem veitt er til flugvallagerða í landinu, verði varið 3½ millj. til flugvalla á Vestfjörðum. Ekki þarf að orðlengja um það, hvernig samgöngur Vestfirðinga eru. Þetta hefur oft borið á góma hér á hv. Alþingi, og það hefur aldrei verið deilt um það, að Vestfirðir eru verst settir allra landshluta í þessum efnum. Vestfirðir eru gersamlega lokaðir fyrir öllum samgöngum á landi að vetri til, að því undanteknu, að ef vel viðrar, er stundum hægt að komast til Hólmavíkur héðan að sunnan. Við þetta bætist, að strandferðirnar hafa verið óviðunandi. Það er því ekkert óeðlilegt, þó að Vestfirðingar hafi áhuga á því að fá bættar flugsamgöngur. Á öllum Vestfjörðum er nú aðeins einn stór flugvöllur, þ.e.a.s. flugvöllur, sem fullnægir hinum stærri flugvélum. Þessi flugvöllur er á Ísafirði, og er hann þó ekki nema ein flugbraut og aðstæður þar, eins og reyndar víðast hvar vestra, mjög erfiðar vegna þrengsla inni á milli hárra fjalla. Hins vegar eru á Vestfjörðum 23 sjúkraflugvellir, og samtals eru flugbrautirnar á þeim 23 völlum 33. Lengsta flugbraut þessara flugvalla er í Hólmavík, 800 m, og það þyrfti því ekki ýkjamikið átak til að lengja flugbrautina þar, svo að flugvöllurinn gæti fullnægt hinum stærri flugvélum. Þá eru á 4 stöðum 600 m langar flugbrautir. Það er á Sandodda við Patreksfjörð, skammt frá Þingeyri við Dýrafjörð, í Holti við Önundarfjörð, nýbyggður völlur, og á Gjögri í Arneshreppi. Ef þessir 5 flugvellir yrðu stækkaðir svo, að þeir fullnægðu t.d. Dakotaflugvélum, yrði um verulegar umbætur að ræða í flugsamgöngum Vestfirðinga. Og þannig mætti stig af stigi stórbæta þessar samgöngur með því að stækka og bæta sjúkraflugvellina, sem eru fyrir. Af þessum ástæðum er það, sem við flytjum þessa till., ekki um auknar fjárveitingar í heild, heldur að lögð sé áherzla á að bæta samgöngur í þessum landshluta, sem er þannig settur, sem ég hef drepið á.

Loks flyt ég eina litla brtt. á þskj. 182. Hún er um 15 þús. kr. fjárveitingu til minningartöflu um Eggert Ólafsson, og er þá hugmyndin, að slík minningartafla yrði sett upp í Skor á Rauðasandi. Að sjálfsögðu mundi þessi minningartafla verða úr málmi og vönduð að allri gerð með tilheyrandi áletrun. En í Skor var það, eins og menn vita, sem Eggert Ólafsson átti sín síðustu spor, þegar hann lagði frá landi 30. maí 1768. En þennan dag drukknaði hann í Breiðafirði ásamt konu sinni og skipverjum, eins og alþjóð er kunnugt. Skor er mjög afskekktur staður og fáfarinn. Þó hefur verið byggður þarna viti fyrir tiltölulega fáum árum. Ég hef rætt um þessa hugmynd við þjóðminjavörð, og hann telur það vel til fallið, að slíkri minningartöflu yrði komið upp um Eggert Ólafsson, og telur eðlilegast, að hún yrði úr kopar og henni yrði komið upp á vitann í Skor. En hvort sem Skor verður fásóttur staður eða ekki, þegar tímar líða fram, sýnist mér, að þeir, sem þangað kunna að leggja leið sína, mættu gjarnan sjá og vita, að þarna kvaddi skáldið og náttúrufræðingurinn Eggert Ólafsson fósturjörð sína. Ég tel ekki þurfa neinar málalengingar um þessa till. Ég geri mér meira að segja von um, að enginn hv. þm. greiði atkv, á móti henni, ekki aðeins vegna þess, hversu lítilfjörleg fjárveiting er hér á ferðinni, heldur vegna hins, hvaða manns á að minnast með þessari litlu fjárveitingu.