06.05.1964
Sameinað þing: 73. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í D-deild Alþingistíðinda. (2865)

44. mál, héraðsskólar o.fl.

Frsm. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Eins og fram kom af máli hv. síðasta ræðumanns, frsm. meiri hl. allshn., þá hefur allshn. ekki getað orðið sammála um afgreiðslu bessa máls. Við, sem undirskrifum nál. á þskj. 477, leggjum til, að till. verði samþ., en meiri hl. vill vísa henni til ríkisstj.

Allshn. leitaði álits nokkurra aðila um þetta efni, þ.e. fræðslumálastjóra og fjórðungssambandanna, og svör bárust frá tveim fjórðungssamböndum, þ.e. Fjórðungssambandi Norðlendinga og Fjórðungssambandi Vestfirðinga, og fræðslumálastjóra, en ekki frá hinum tveim fjórðungssamböndunum.

Formenn fjórðungssambandanna, sem undirrita umsagnirnar, mæla báðir með samþykkt till. í umsögn Magnúsar Guðjónssonar bæjarstjóra á Akureyri, formanns Fjórðungssambands Norðlendinga, segir, að hann telji þá könnun og athugun, sem ráðgerð er í þessari þátill., mjög í anda þeirra samþykkta, sem þing fjórðungssambandsins hafi gert á undanförnum árum í skóla- og fræðslumálum, — bætir því síðan við, að persónulega telji hann, að þessi athugun þyrfti að vera viðtækari, þar sem hann tetur að þyrfti að athuga aðstæður unglinga í sveitum og þorpum til iðnnáms, og er það víssulega mjög athyglisvert, þó að þessi till. fjalli ekki sérstaklega um það.

Í svari Fjórðungssambands Vestfirðinga Sturla Jónsson undirritar það — segir, að hér sé mikið nauðsynjamál á ferð. Allir, sem eitthvað fylgist með fræðslumálum, viti að aðsókn að héraðsskólum sé langt umfram það, sem skólarnir taki. þess vegna sé brýnasta þörf á því að fjölga þeim.

Hv. frsm. meiri hl. vísaði til umsagnar fræðslumálastjóra máli sínu til stuðnings, en eins og hann réttilega tók fram, þá er till. aðallega í tveim liðum og fjallar annars vegar um að auka eða bæta aðstöðu til náms í héraðsskólum og hins vegar að rannsaka þörf dreifbýlisins fyrir heimavistarbarnaskóla.

Um fyrra atriðið vísaði hv. frsm. til annars liðar í umsögn fræðslumálastjóra, þar sem hann segir, að áður en hafizt verði handa um byggingu nýrra héraðsskóla, þá telji hann, að gera eigi þá skóla, sem fyrir eru, svo vel úr garði, m.a. með viðbyggingum, að þeir geti tekið þann nemendafjölda, sem hæfilegur getur talizt í slíkum skólum.

Þessi leið, sem fræðslumálastjóri bendir á þarna, er eitt af því, sem umrædd till. fjallar um, því að þar er einmitt sagt: „hver þörf einstakra sýslna eða landshluta er fyrir nýja eða stærri héraðsskóla eða gagnfræðaskóla,“ þannig að þessi liður umsagnar fræðslumálastjóra felur ekki í sér neinn ómöguleika á því að samþykkja till., nema síður sé.

Um hitt atriðið, barnafræðsluna, var vísað til 3. liðar í svari fræðslumálastjóra, þar sem hann segir, að það séu hartnær 30 ár, síðan hann og hans skrifstofa eða það embætti, sem hann veitir forstöðu, hafi farið að vinna að því að sameina skólahéruðin. Eftir 30 ára starf hefur ekki meira áunnizt en hv. frsm. lýsti, og virðist þá sannarlega ekki vanþörf á því, að eitthvað sé hert á þeirri sameiningu, svo mjög sem nauðsyn kallar á hana.

Hér var í fyrri framsöguræðu mjög vitnað til þess, sem Alþingi hefði gert nú a.m.k. í dag í þessum málum. Ég vil leyfa mér að vekja athygli á því, að sú till., sem hér er til umr., er ein af fyrstu þáltill., sem lagðar voru fyrir hv. Alþingi á þessu hausti. Það er alveg rétt, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að nokkuð hefur verið gert einmitt af því, sem þessi till. fjallar um, og sýnir það þá, að hún hefur ekki að ófyrirsynju verið borin fram, en miklu meira er þó ógert, og þess vegna er það, að við í minni hl. allshn. leggjum áherzlu á, að till. verði samþ.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa lengri framsögu fyrir nál. okkar, en ég ítreka það aðeins að lokum, að það mun vera staðreynd, sem ekki er á móti mælt og hefur ekki verið á móti mælt hér við afgreiðslu till.., að þörf fyrir nýja og aukna héraðsskóla og gagnfræðaskóla utan Reykjavíkur og næsta nágrennis a.m.k. er mjög mikil og að það er knýjandi nauðsyn að ráða bót á henni, til þess að aðstaða unglinga verði sem jöfnust til framhaldsskólanáms, hvar á landinu sem þeir eru búsettir.